Misnotkun áfengis — alvarlegt þjóðfélagsvandamál
Misnotkun áfengis — alvarlegt þjóðfélagsvandamál
NOTKUN áfengis á sér tvær hliðar. Önnur er ánægjuleg en hin dapurleg. Að sögn Biblíunnar getur hófleg neysla áfengis glatt hjarta mannsins. (Sálmur 104:15) Hins vegar er varað við því í Biblíunni að ofneysla geti valdið skaða eða jafnvel kostað mannslíf, rétt eins og höggormsbit. (Orðskviðirnir 23:31, 32) Lítum nánar á það gríðarlega tjón sem hlýst af misnotkun áfengis.
„Ölvaður ökumaður ók á móður og tveggja ára son hennar síðastliðinn laugardag. . . . Unga konan lést á sunnudag en hún var 25 ára gömul og var komin sex mánuði á leið. Drengurinn slasaðist á höfði og er í lífshættu.“ Þetta kom fram í franska dagblaðinu Le Monde. Fréttir af þessu tagi eru því miður allt of algengar. Ef til vill þekkir þú einhvern sem hefur orðið fyrir slysi sem rekja má til misnotkunar áfengis. Þúsundir manna deyja eða slasast í umferðinni á ári hverju vegna þess að ökumenn hafa haft áfengi um hönd.
Manntjón
Það er auðvitað engin leið að verðleggja það heilsu- og manntjón sem rekja má til misnotkunar áfengis í heiminum. Í Frakklandi er misnotkun áfengis þriðja algengasta dánarorsökin á eftir krabbameini og kransæðasjúkdómum. Þar í landi má rekja 50.000 dauðsföll á ári beint eða óbeint til áfengis en það „samsvarar því að tvær eða þrjár júmbóþotur farist í hverri viku“. Þetta kemur fram í skýrslu nefndar á vegum franska heilbrigðisráðuneytisins.
Dánartíðnin af völdum áfengis er sérstaklega há meðal ungs fólks. Samkvæmt skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, sem kom út árið 2001, er áfengi helsta dánarorsök evrópskra karla á aldrinum 15 til 29 ára. Því er spáð að innan nokkurra ára verði svo komið að áfengi verði einum af hverjum þrem ungum karlmönnum í Austur-Evrópu að aldurtila.
Ofbeldi og kynferðisafbrot
Áfengi ýtir undir ofbeldi. Það losar um hömlur hjá neytandanum og hann getur átt það til að túlka atferli annarra öðruvísi en hann myndi gera allsgáður. Þetta eykur líkurnar á ofbeldiskenndum viðbrögðum.
Áfengi á stóran þátt í heimilisofbeldi og kynferðisafbrotum. Í rannsókn, sem gerð var meðal fanga í Frakklandi, kom fram að áfengi hefði hugsanlega komið við sögu í tveim þriðju allra nauðgana og velsæmisbrota. Kannanir í Póllandi benda til þess að þrjár af hverjum fjórum eiginkonum alkóhólista hafi verið beittar ofbeldi, að sögn tímaritsins Polityka. Samkvæmt einni könnun er talið að „neysla áfengis um það bil tvöfaldi hættuna á manndrápi meðal allra aldurshópa, og að aukin hætta sé á að þeir sem neyta áfengis verði [jafnvel] allsgáðum heimilismönnum að bana“. — Vísindaráð Bandaríska læknafélagsins.
Hið samfélagslega tjón
Kostnaður heilbrigðis- og tryggingakerfisins vegna ofneyslu áfengis, og kostnaðurinn sem fylgir minni framleiðni af völdum slysa, veikinda og dauðsfalla, er hrikalegur. Útgjöld írsku þjóðarinnar vegna þessa eru talin jafngilda um 65 milljörðum íslenskra króna á ári en Írar eru um fjórar milljónir talsins. Fyrir þessa fjármuni mætti „byggja nýjan spítala og íþróttaleikvang á hverju ári og kaupa þotu fyrir hvern einasta ráðherra,“ að sögn dagblaðsins The Irish Times. Japanska dagblaðið Mainichi Daily News sagði frá því árið 1998 að efnahagsleg áhrif ofdrykkju þar í landi væru „meiri en 6 þúsund milljarðar jena [3600 milljarðar íslenskra króna] á ári“. Í skýrslu, sem lögð var fyrir Bandaríkjaþing, sagði: „Áætlaður kostnaður af misnotkun áfengis var 184,6 milljarðar dollara [um 12.000 milljarðar íslenskra króna] árið 1998 eða um það bil 638 dollarar [rúmlega 41.000 íslenskar krónur] á hvert mannsbarn í Bandaríkjunum það ár.“ Og ekki má gleyma hinu tilfinningalega tjóni sem fylgir ástvinamissi eða upplausn heimila og þeim skaða þegar menntun eða starfsferill fer í vaskinn vegna áfengisneyslu.
Það er ekki vandséð hvílík áhrif misnotkun áfengis hefur á samfélagið. Setur þú sjálfan þig eða aðra í hættu með áfengisneyslu þinni? Lítum nánar á málið í greininni á eftir.