Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Misnotkun áfengis og heilsufar

Misnotkun áfengis og heilsufar

Misnotkun áfengis og heilsufar

„Santé!“ „Salute!“ „Za vashe zdorovje“! „Chuc suc khoe!“ Hvort sem er í Frakklandi, á Ítalíu, í Rússlandi eða Víetnam tíðkast að vinir árni hver öðrum heilla áður en þeir dreypa á glasi. Það virðist því hálfgerð þverstæða að milljónir manna í heiminum skuli vera að drekka sig í hel.

MISNOTKUN áfengis er margþætt vandamál sem skipta má í áhættusama notkun, skaðlega neyslu og fíkn. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er áhættusöm notkun „regluleg notkun sem getur haft skaðlegar afleiðingar“, ýmist líkamlegar, hugarfarslegar eða félagslegar. Hér er meðal annars átt við það að neyta meira áfengis en heilbrigðisyfirvöld telja ráðlegt, eða heimilt er við tilteknar aðstæður samkvæmt lögum. Það er talin skaðleg neysla eða misnotkun ef áfengisneyslan er farin að hafa skaðleg áhrif á líkama eða huga án þess þó að um sé að ræða ávana eða fíkn. Þegar svo er komið að neytandinn „getur ekki neitað sér um áfengi“ er talað um fíkn. Sá sem er kominn á þetta stig er sólginn í áfengi og heldur áfram að drekka þrátt fyrir ýmis vandamál sem drykkjan leiðir af sér. Hann fær fráhvarfseinkenni ef hann fær ekki áfengi.

Áhættusöm notkun áfengis er varasöm fyrir hvern sem er, óháð aldri, kynferði og þjóðerni. Hvaða áhrif hefur áfengi á líkamann? Hvaða skaðleg áhrif getur ofnotkun áfengis haft á heilsuna? Og hvað er yfirleitt talið óhætt að neyta mikils áfengis?

Hættulegt fyrir hugann

Etanól, vínandinn sem er í áfengum drykkjum, er taugaeitur sem getur valdið skemmdum á taugakerfinu. Það má því segja að drukkinn maður sé undir eitrunaráhrifum. Mikið magn af etanóli veldur dái og dauða. Svo dæmi sé tekið verða nokkur dauðsföll meðal stúdenta í Japan á hverju ári eftir svokallað ikkinomi en það er fólgið í því að þamba mikið áfengi á stuttum tíma. Líkaminn getur breytt etanóli í skaðlaus efni en það gerist ekki á augabragði. Ef áfengis er neytt hraðar en líkaminn getur brotið það niður safnast etanól fyrir í líkamanum og fer þá að hafa greinileg áhrif á heilastarfsemina. Hvaða áhrif?

Tal, sjón, hreyfingar, hugsun og hegðun byggist á óhemjuflókinni röð efnahvarfa í aðalfrumum heilans, taugungunum. Etanól hefur áhrif á þessi efnahvörf og dregur úr eða örvar virkni ákveðinna taugaboðefna sem eru notuð til að senda boð milli taugunga. Við þetta breytist upplýsingaflæðið í heilanum þannig að hann starfar ekki eðlilega. Það er þess vegna sem fólk verður þvoglumælt þegar það drekkur of mikið, sjón verður óskýr, hreyfingar silalegar og það losnar um hömlur, en þetta eru hin almennu ölvunareinkenni.

Við langvarandi notkun áfengis aðlagast heilinn eituráhrifum etanóls og reynir að vega upp á móti þeim til að viðhalda eðlilegri taugastarfsemi. Þannig myndast þol gegn áfengi sem lýsir sér þannig að sama magn áfengis hefur minni áhrif en áður. Talað er um fíkn þegar heilinn hefur lagað sig svo að etanóli að hann virkar ekki almennilega án þess. Líkaminn heimtar þá áfengi til að viðhalda efnajafnvægi. Fái hann ekki áfengið fer efnastarfsemi heilans algerlega úr skorðum og við taka fráhvarfseinkenni svo sem kvíði, skjálfti eða jafnvel krampi.

Auk þess að breyta efnastarfsemi heilans getur ofnotkun áfengis leitt til rýrnunar og skemmda á heilanum sjálfum þannig að uppbygging hans breytist. Fólk getur náð sér að vissu marki með bindindi en sumar skemmdirnar virðast varanlegar. Það virðast ekki myndast nýir taugungar í stað þeirra sem deyja og það hefur áhrif á minnið og aðra vitsmunastarfsemi. Misnotkun áfengis virðist ekki þurfa að vera langvarandi til að valda skemmdum á heilanum því að rannsóknir benda til þess að stuttir drykkjutúrar geti verið skaðlegir.

Lifrarsjúkdómar og krabbamein

Lifrin gegnir veigamiklu hlutverki í að brjóta niður fæðuefni, verja líkamann gegn sýkingum, stjórna blóðrás og eyða eiturefnum svo sem vínanda. Langvarandi ofneysla áfengis veldur skemmdum á lifrinni sem skipta má í þrjú stig. Á fyrsta stiginu hægir á meltingu fituefna því að lifrin þarf að brjóta niður etanól en það hefur þau áhrif að fita safnast fyrir í lifrinni. Þetta er kallað fitulifur. Með tímanum tekur við langvinn lifrarbólga. Áfengi getur valdið lifrarbólgu eitt sér en það virðist líka draga úr mótstöðuafli líkamans gegn veirum sem valda lifrarbólgu B og C. * Ef ekkert er að gert hefur bólgan þau áhrif að frumur springa og deyja. Það gerir svo illt verra að áfengi virðist hrinda af stað svokölluðum stýrðum frumudauða eða sjálfdrepi.

Síðasta stigið er skorpulifur. Vítahringur stöðugrar bólgu og frumudauða veldur því að það myndast örvefur í lifrinni. Með tímanum verður hún kekkjótt í stað þess að vera mjúk og svampkennd. Að síðustu fer örvefurinn að hindra eðlilegt blóðstreymi í lifrinni sem leiðir til lifrarbilunar og dauða.

Áfengi hefur enn fremur þau lúmsku áhrif á lifrina að draga úr hæfni hennar til að verja líkamann gegn krabbameinsvaldandi efnum. Áfengi eykur bæði hættuna á krabbameini í lifur og eykur stórlega líkurnar á krabbameini í munni, koki, barkakýli og vélinda. Þar við bætist að áfengi auðveldar krabbameinsvaldandi efnum í tóbaki að smjúga gengum slímhúð munnsins og það eykur hættuna á krabbameini hjá reykingamönnum. Konur, sem drekka daglega, eru í meiri hættu að fá brjóstakrabbamein. Samkvæmt einni rannsókn var hættan 69 prósent meiri hjá þeim sem drukku þrjá eða fleiri áfenga drykki á dag en hjá þeim sem drukku ekki.

Fósturskemmdir

Misnotkun áfengis hefur sérstaklega dapurlegar afleiðingar þegar hún bitnar á hinum ófæddu. „Áfengi hefur miklu skaðlegri áhrif á fóstur en nokkurt annað efni sem er misnotað,“ að sögn dagblaðsins International Herald Tribune. Þegar ófrísk kona drekkur neyðir hún ófætt barn sitt til að drekka líka og eituráhrif áfengisins eru sérstaklega skaðleg fyrir fóstrið á mótunarskeiði þess. Áfengi veldur óbætanlegum skaða á miðtaugakerfi fóstursins. Taugungar myndast ekki eðlilega og frumur deyja eða lenda á skökkum stað.

Fósturskemmdir vegna áfengis eru algengasta orsök vitsmunavanþroska hjá nýburum. Hjá börnum, sem hafa orðið fyrir slíkum skemmdum, má búast við greindarskerðingu, málerfiðleikum, seinþroska, hegðunarvandamálum, hægum vexti, ofvirkni og heyrnar- og sjónkvillum. Einkennandi afmyndun í andliti er algeng hjá börnum sem verða fyrir skemmdum á fósturstigi af völdum áfengis.

Því er við að bæta að hófleg neysla áfengis á meðgöngutímanum getur komið niður á barninu og birst til dæmis í hegðunarvandamálum og námserfiðleikum. „Maður þarf ekki að vera alkóhólisti til að vinna barninu tjón heldur þarf ekki annað en að neyta áfengis á meðgöngutímanum.“ Þetta segir Ann Streissguth prófessor en hún starfar við deild hjá Washington-háskóla sem fæst við áhrif áfengis á fóstur. Í skýrslu frá franskri heilbrigðis- og rannsóknarstofnun segir: „Áfengi er skaðlegt hvenær sem er á meðgöngutímanum og ekki hefur verið sýnt fram á að eitthvert lágmarksmagn sé hættulaust.“ (Alcool — Effets sur la santé) Það er því að öllum líkindum skynsamlegast fyrir konur, sem eru barnshafandi eða ætla sér að verða það, að neyta alls ekki áfengis. *

Skaðlaus notkun

Listinn yfir hætturnar, sem hafa verið tíundaðar hér, er engan veginn tæmandi. Árið 2004 var bent á það í grein í tímaritinu Nature að „áfengi, jafnvel í litlu magni, auki hættuna á meiðslum og líkurnar á því að fá eina 60 sjúkdóma“. Í hvaða mæli er þá óhætt að neyta áfengis? Milljónir manna um allan heim njóta áfengis af og til og stafar engin hætta af. Aðalatriðið er að gæta hófs. En hvað er hófleg notkun áfengis? Flestir sem neyta áfengis telja sig trúlega gera það í hófi og hugsa kannski sem svo að þeim sé óhætt svo framarlega sem þeir verða ekki ölvaðir eða háðir áfengi. Sannleikurinn er hins vegar sá að 1 af hverjum 4 karlmönnum í Evrópu neytir svo mikils áfengis að það er talið áhættusamt.

Í ýmsum heimildum er miðað við að hófleg notkun áfengis sé ekki meira en 20 grömm af hreinum vínanda (tveir drykkir af staðlaðri stærð) á dag hjá karlmönnum en 10 grömm (einn drykkur) hjá konum. Bresk og frönsk heilbrigðisyfirvöld tala um að „skynsamleg mörk“ séu þrír drykkir á dag hjá körlum og tveir hjá konum. Bandaríska áfengis- og vímuvarnarstofnunin ráðleggur fólki „65 ára og eldra að takmarka neysluna við einn drykk á dag“. * En viðbrögð fólks við áfengi eru breytileg. Í sumum tilfellum geta lægri mörkin meira að segja verið of há. Svo dæmi sé tekið „getur hóflegt magn áfengis verið skaðlegt fólki með lyndistruflanir og kvíðaraskanir“, að því er fram kemur í skýrslu sem lögð var fyrir Bandaríkjaþing. (10th Special Report to the U.S. Congress on Alcohol and Health) Aldur, heilsufarssaga og líkamsþungi skiptir einnig máli. — Sjá rammagreinina „Dragðu úr áhættunni“.

Hvað er til ráða hjá þeim sem nota áfengi í óhófi? Um það er fjallað í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Samkvæmt rannsókn, sem gerð var í Frakklandi á sjúklingum með lifrarbólgu C er tvöfalt meiri hætta á skorpulifur hjá þeim sem drekka í óhófi en hjá þeim sem drekka í hófi. Mælt er með að fólk, sem greinist með lifrarbólgu C drekki mjög lítið eða alls ekki neitt.

^ gr. 17 Konur, sem eru með barn á brjósti, ættu að hafa hugfast að vínandi safnast fyrir í brjóstamjólkinni eftir að þær neyta áfengis. Reyndar er hlutfall áfengis í brjóstamjólkinni oft hærra en í blóðinu vegna þess að það er meira vatn í henni sem getur tekið við vínandanum.

^ gr. 20 Þar sem drykkjarstærðir eru breytilegar eftir löndum þarf að taka tillit til þess hve mikill vínandi er í drykknum sem fram er borinn.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 5]

EFTIR EINN EI AKI NEINN

Bílar voru ekki búnir að vera lengi á götunum þegar settar voru skorður við því að menn ækju undir áhrifum áfengis. Danmörk var fyrsta landið í heimi sem setti lög þar að lútandi. Það var árið 1903.

Ef áfengis er neytt á tóman maga nær áfengismagnið í blóðinu hæsta stigi um hálftíma síðar. Gagnstætt því sem margir halda getur maður ekki látið renna af sér með því að drekka kaffi, anda að sér fersku lofti eða hreyfa sig hraustlega. Tíminn er það eina sem getur minnkað áfengismagnið í líkamanum. Og gleymdu ekki að léttvínsglas, bjórglas eða einn skammtur af sterku víni inniheldur svipað magn af vínanda. *

Það þarf ekki nema lítið magn af áfengi til að draga úr hæfni manns til að stjórna ökutæki. Áfengi hefur áhrif á sjónina. Umferðarskilti virðast smærri en þau eru. Jaðarsjónin skerðist, hæfni manns til að meta fjarlægðir versnar og maður á erfiðara með að sjá fjarlæga hluti skýrt. Það hægir á viðbrögðum og úrvinnslu upplýsinga í heilanum og ökumaðurinn á erfiðara með að samhæfa hreyfingar.

Ef ölvaður maður verður fyrir slysi er hætta á að meiðslin verði alvarlegri en þau hefðu orðið ef hann hefði verið allsgáður. Og líkurnar á að hann lifi af bráðaaðgerð á spítala minnka vegna áhrifa áfengis á hjarta og blóðrás. „Ólíkt því sem flestir halda eru það aðallega ölvaðir ökumenn sem deyja í bílslysum,“ að því er segir í skýrslu frá franskri heilbrigðis- og rannsóknarstofnun. Sökum þessarar hættu er fólki ráðlagt eftirfarandi í skýrslunni:

◼ Akið ekki bifreið undir áhrifum áfengis.

◼ Setjist ekki upp í bifreið hjá ökumanni sem hefur neytt áfengis.

◼ Leyfið ekki vinum eða foreldrum að aka undir áhrifum áfengis.

[Neðanmáls]

^ gr. 29 Almennt má segja að líkaminn vinni úr hér um bil sjö grömmum af vínanda á hverri klukkustund. Hefðbundnir drykkjarskammtar eru breytilegir frá einu landi til annars. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin miðar við að drykkur af staðlaðri stærð innihaldi 10 grömm af hreinum vínanda. Það samsvarar hér um bil 250 millilítrum af bjór, 100 millilítrum af léttvíni eða 30 millilítrum af sterku víni.

[Myndir]

Hvert um sig inniheldur álíka magn af vínanda

Bjórflaska (330 ml með 5% styrkleika)

Einn skammtur af sterku víni (viskí, gini, vodka) (40 ml með 40% styrkleika)

Glas af léttu víni (140 ml með 12% styrkleika)

Lítið glas af líkjör (70 ml með 25% styrkleika)

[Rammi á blaðsíðu 6]

ER ÁFENGISFÍKN ARFGENG?

Vísindamenn hafa reynt að kanna hvort erfðir eigi þátt í tilurð og þróun alkóhólisma, í þeirri von að finna ný meðferðarúrræði. Nokkrir erfðavísar hafa fundist sem virðast hafa áhrif á viðbrögð fólks við áfengi. En erfðir eru ekki eina orsök alkóhólisma. Enginn er dæmdur til að verða alkóhólisti þó að hann hafi hugsanlega arfgenga tilhneigingu til þess. Umhverfið hefur líka sín áhrif. Ýmsir áhættuþættir hafa verið nefndir svo sem slæmt uppeldi, ofneysla áfengis á heimilinu eða meðal kunningja, misklíð, ágreiningur, tilfinningalegir erfiðleikar, þunglyndi, árásargirni, spennufíkn, mikið þol gegn áhrifum áfengis eða fíkn í önnur efni. Þetta og sitthvað fleira getur leitt til alkóhólisma.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 6]

BANDARÍKIN:

„Um 14 milljónir Bandaríkjamanna eða 7,4 prósent landsmanna ofnota áfengi eða eru alkóhólistar samkvæmt greiningarviðmiðum.“ — 10th Special Report to the U.S. Congress on Alcohol and Health.

FRAKKLAND:

Rannsóknir benda til þess að um það bil fimm milljónir manna neyti of mikils áfengis og þar af séu á bilinu tvær til þrjár milljónir háðar áfengi.

NÍGERÍA:

Dagblaðið Daily Champion segir að „meira en 15 milljónir Nígeríumanna séu alkóhólistar“ eða næstum 12 af hundraði landsmanna.

PORTÚGAL:

Fáar þjóðir neyta jafnmikils af hreinum vínanda miðað við höfðatölu. Tíu af hundraði Portúgala eru í „alvarlegum vanda af völdum áfengis“ að sögn dagblaðsins Público í Lissabon.

[Rammi á blaðsíðu 8]

DRAGÐU ÚR ÁHÆTTUNNI

Eftirfarandi viðmið eru sett af þeirri deild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem fæst við geðheilbrigði og fíknivarnir. Talið er að lítil áhætta fylgi því að neyta áfengis innan þessara marka. Tekið skal fram að lítil áhætta er ekki það sama og engin áhætta. Viðbrögð fólks við áfengi eru einstaklingsbundin.

◼ Ekki meira en tveir drykkir af staðlaðri stærð á dag. *

◼ Bragðaðu ekki áfengi að minnsta kosti tvo daga í viku.

Einn eða tveir drykkir eru of mikið:

◼ Þegar þú vinnur við vélar eða ekur vélknúnu ökutæki.

◼ Ef þú ert barnshafandi eða með barn á brjósti.

◼ Ef þú tekur ákveðin lyf.

◼ Ef þú ert með vissa sjúkdóma.

◼ Ef þú hefur ekki hemil á drykkjunni.

[Neðanmáls]

^ gr. 58 Drykkur af staðlaðri stærð jafngildir 10 grömmum af vínanda.

[Credit line]

Heimild: Brief Intervention for Hazardous and Harmful Drinking.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 9]

ER ÁFENGI GOTT FYRIR HJARTAÐ?

Vísindamenn telja að ákveðin efni í rauðvíni (fjölfenól) dragi úr verkun efnasambands sem þrengir æðarnar.

Enn fremur er áfengi almennt talið auka svokallað gott kólesteról í líkamanum. Það dregur einnig úr styrkleika efna sem geta valdið blóðtappa.

Gagnleg áhrif áfengis virðast í öllum tilfellum byggjast á því að drukkið sé lítið magn dreift yfir vikuna en ekki samanlagður skammtur vikunnar á einu kvöldi. Ef drykkirnir verða fleiri en tveir á dag er það talið hækka blóðþrýsting, og óhófleg drykkja eykur hættuna á heilablæðingu og getur valdið bólgum í hjarta og óreglulegum hjartslætti. Ef áfengis er neytt í óhófi verða skaðlegu áhrifin mun þyngri á metunum en þau jákvæðu áhrif sem áfengi getur haft á hjarta og æðakerfi. Málið er ósköp einfalt — of mikið af því góða er hreinlega of mikið.

[Skýringarmynd/mynd á blaðsíðu 7]

ÁFENGI GETUR SKAÐAÐ ÞIG

Heili

Frumudauði, minnistap, þunglyndi, árásargirni

Truflar sjón, tal og hreyfingar

Krabbamein í hálsi, munni, brjóstum og lifur

Hjarta

Veikir vöðva, hætta á hjartabilun

Lifur

Fitusöfnun, stækkun, örvefur (skorpulifur)

Aðrar hættur

Veiklar ónæmiskerfi, magasár, brisbólga

Barnshafandi konur

Hætta á vansköpun eða seinþroska barns

[Mynd á blaðsíðu 8]

„Áfengi hefur miklu skaðlegri áhrif á fóstur en nokkurt annað efni sem er misnotað.“