Sólblómið — fallegt og nytsamlegt
Sólblómið — fallegt og nytsamlegt
Eftir fréttaritara Vaknið! í Sviss
VIÐ komumst gjarnan í gott skap á björtum og sólríkum dögum. Það er því ekki að undra að fólk víða um heim komist í gott skap þegar það sér blómið sem nefnt er eftir sólinni — sólblómið. Eitt stakt sólblóm, sem brosir við manni í garðinum, getur hresst mann við. En hvað þá um stóran akur fullan af skærgulum sólblómum?
Veistu hvernig þetta vinalega blóm varð svona vinsælt? Snýr það sér í raun og veru að sólinni? Og er það góð nytjajurt?
Á ferð um heiminn
Upprunaleg heimkynni sólblómsins ná allt frá Mið-Ameríku til Suður-Kanada sem nú heitir svo. Indjánar á þessu svæði ræktuðu sólblóm. Eftir að spænskir landkönnuðir fluttu blómið austur um haf árið 1510 dreifðist það fljótt um alla Vestur-Evrópu. Í fyrstu var það aðeins notað sem skrautblóm við heimahús og í skrúðgörðum en um miða 18. öld var farið á líta á sólblómafræ sem hið mesta lostæti. Á þeim tíma notaði fólk einnig laufblöðin í seyði gegn sótthita.
Árið 1716 fékk breskur maður leyfi til að vinna olíu úr sólblómum til vefnaðar og sútunar. En Evrópubúar almennt kynntust sólblómaolíu ekki fyrr en á 19. öld. Að vísu flutti Pétur mikli Rússlandskeisari sólblómafræ
heim með sér frá Hollandi árið 1689. Það var samt ekki fyrr en á 4. áratug 19. aldar að byrjað var að rækta sólblóm í atvinnuskyni í Rússlandi. Nokkrum árum síðar voru framleiddar þúsundir tonna af sólblómaolíu í Voronezh-héraði. Eftir það breiddist sólblómaræktun fljótlega til nágrannalandanna Búlgaríu, fyrrverandi Júgóslavíu, Rúmeníu, Ungverjalands og Úkraínu.Það er skemmtilegt frá því að segja að rússneskir innflytjendur fluttu sólblómið aftur til Norður-Ameríku undir lok 19. aldar. Þar höfðu fyrstu landnemarnir ekki haldið áfram að rækta sólblóm eins og indjánarnir. Sólblómaakrar eru núna á víð og dreif um alla jörðina.
Eltir það sólina?
Er það rétt að sólblómið snúi sér að sólinni? Já, bæði laufblöðin og blómkrónan eru ljósleitin, það er að segja þau leita í sólarljósið. Í blóminu er áxín sem er vaxtarhormón í plöntum. Meira magn áxíns er í þeirri hlið sem snýr frá sólinni og það gerir að verkum að stöngullinn vex í átt að ljósinu. Þegar plantan hefur náð fullum blóma er hún hins vegar ekki lengur ljósleitin og snýr almennt áfram í austur.
Latneskt heiti sólblómsins er Helianthus annuus og er dregið af grískum orðum sem þýða „sól“ og „blóm“ og latnesku orði sem þýðir „árlegur“. Blómið verður yfirleitt um það bil 2 metrar á hæð en getur orðið meira en tvisvar sinnum hærra. Laufblöðin eru græn og grófgerð og efst á sterkbyggðum stönglinum er stór og kringlótt blómkarfa með skærgulum krónublöðum. Miðjan er dökk og gerð úr minni pípublómum. Þegar skordýr fræva pípublómin verða þau að ætum sólblómafræjum. Miðja blómkörfunnar getur orðið allt frá 5 upp í 50 sentímetrar í þvermál og getur gefið af sér 100 til 8000 fræ.
Til eru fjölmargar tegundir af sólblómum og sífellt er verið að framleiða ný afbrigði. Yfirleitt eru samt aðeins tvær tegundir ræktaðar til nytja. Önnur er Helianthus annuus og er aðallega ræktuð til að framleiða sólblómaolíu. Hin heitir Helianthus tuberosus, betur þekkt sem jerúsalem-ætiþistill, og er ræktuð vegna rótarhnýðisins sem minnir á kartöflur. Rótarhnýðið er notað til gripafóðurs og við framleiðslu sykurs og áfengis.
Efnahagslegt gildi
Núna eru flest sólblóm ræktuð vegna fræjanna sem gefa af sér prýðisgóða olíu. Sólblómaolía er notuð til matreiðslu og í salatsósur og smjörlíki. Fræin eru mjög næringarrík og innihalda um 18 til 22 prósent prótín og önnur næringarefni.
Mörgum finnst léttristuð og söltuð sólblómafræ bragðast vel. Mjöl úr sólblómafræjum er einnig notað í bakstur. Auk þess er sólblómaolía notuð í sjampó, varasalva, handáburð, húðkrem og barnavörur. Hún er meira að segja notuð við framleiðslu smurolíu. Sólblómafræ eru einnig notuð sem fóður fyrir fugla og önnur smádýr.
Sólblómaakrar eru paradís hunangsflugunnar og eins hektara sólblómaakur getur gefið af sér allt frá 25 upp í 50 kílógrömm af hunangi. Stönglarnir, sem eftir standa að uppskeru lokinni, innihalda um 43 til 48 prósent tréni sem nýtist við framleiðslu pappírs og annarra vörutegunda. Það sem eftir er af sólblómunum má síðan nota sem vothey fyrir búfénað eða sem áburð.
Það er augljóst að sólblómið er verðmæt gjöf til okkar mannanna. Fegurð þess hefur verið kveikjan að listaverkum á borð við málverkið „Sólblóm“ eftir Vincent van Gogh. Blómið virðist varpa sólarljósi hvar sem það dafnar bæði inni á heimilum og í görðum. Fegurð sólblómsins og nytsemi kemur okkar ef til vill í hug þegar við lesum orð sálmaritarans: „Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, . . . þau [eru] fleiri en tölu verði á komið.“ — Sálmur 40:6.