Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar þurfa að fá tíma og athygli

Unglingar þurfa að fá tíma og athygli

Unglingar þurfa að fá tíma og athygli

ALLIR umhyggjusamir foreldrar vita að smábörn þrífast á ástúðlegri athygli og að þau skríða upp í kjöltu foreldra sinna þegar þau vilja láta halda utan um sig. Þegar þau eru orðin unglingar eru þau hins vegar líklegri til að ýta foreldrunum frá sér, segir læknirinn Barbara Staggers sem er yfirmaður unglingadeildar á barnaspítala og rannsóknarmiðstöð í Oakland í Kaliforníu í Bandaríkjunum. En unglingsárin eru samt sá tími þegar þau þurfa mest á athygli foreldra sinna að halda. Hvers vegna?

Á unglingsárunum eru börn ekki eins oft undir umsjón annarra og hafa meiri tíma fyrir sig sjálf og það getur boðið hættunni heim, segir Staggers. Hún segir í frétt í dagblaðinu Toronto Star að „unglingsárin séu sá tími þegar unglingar eru að læra hver þau eru og hvernig þau passa inn í samfélagið í kringum sig. Þar að auki hafa þau tilhneigingu til að taka áhættu og verða fyrir öflugum hópþrýstingi þannig að hættan getur verið mjög mikil.“ „Unglingsárunum má skipta í nokkur tímabil og þau tengjast ekki aldri heldur því hvernig unglingar hegða sér, vinna úr upplýsingum og prófa sig áfram,“ segir Staggers. Snemma á unglingsárunum eru börn hvatvís og upptekin af sjálfum sér og breytingum á líkama sínum. Seinna verða þau uppteknari af því að prófa sig áfram og því næst verða þau sjálfstæðari í hugsun.

Já, unglingsárin geta verið spennandi en þau geta líka verið ruglingsleg, bæði fyrir foreldra og unglinga. Staggers hefur annast unglinga í meira en 20 ár og hún segir að þeir þurfi flestir „meiri tíma með fullorðnum sem þykja vænt um þá svo að þeir tengist þeim betur“. Hvernig er hægt að ná þessu markmiði?

Haldið samskiptaleiðinni opinni. Foreldrar, fullvissið börnin um að ykkur þyki vænt um þau með því að hlusta vandlega á þau. Sýnið væntumþykju ykkar með því að spyrja spurninga til að hjálpa unglingunum að rökhugsa og koma auga á afleiðingar slæmra ákvarðana sem þeir kunna að taka. Hrósið þeim þegar þeir taka viturlegar ákvarðanir sem leiða til góðs. Leiðið þeim fyrir sjónir hvers konar hegðun er viðeigandi.

Ef foreldrar tileinka sér það ríkjandi viðhorf að börn verði sjálf að læra að ráða fram úr vandamálum verða þau berskjalda gagnvart skaðlegum áhrifum siðlausra og samviskulausra manna. (Orðskviðirnir 13:20) En foreldrar, sem fylgja leiðbeiningum Biblíunnar, veita börnunum bestu möguleikana á því að komast klakklaust í gegnum unglingsárin og verða ábyrgir einstaklingar. Foreldrar verða því að læra að fræða „sveininn um veginn, sem hann á að halda“. — Orðskviðirnir 22:6.

Finna má gagnlegar leiðbeiningar um góð samskipti og uppeldi unglinga í bókinni The Secret of Family Happiness. * Þar er einnig að finna góðar leiðbeiningar úr Biblíunni fyrir alla í fjölskyldunni.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Gefin út af Vottum Jehóva.