Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Ég vildi að ég hefði gert þetta fyrr‘

‚Ég vildi að ég hefði gert þetta fyrr‘

‚Ég vildi að ég hefði gert þetta fyrr‘

Þetta hefur verið kallað fíkn og ekki að ástæðulausu. Í könnun, sem gerð var í Bandaríkjunum, kom í ljós að drengir í áttunda bekk (um 13 ára gamlir) eyddu að meðaltali um 23 klukkustundum á viku í að spila tölvuleiki. Margt fullorðið fólk er líka ánetjað tölvuleikjum. Tökum sem dæmi kristinn mann sem við skulum kalla Karl. * „Tölvuleikirnir voru flóttaleið fyrir mig,“ segir hann, „leið til að slappa af og flýja veruleikann. En ég var háður leikjunum rétt eins og fólk er háð fíkniefnum eða áfengi.“

Karl segist hafa farið að spila „mjög mikið“ þegar hann var 11 ára. „Ég spilaði ekki ofbeldisleiki eða leiki með spíritísku ívafi,“ segir hann, „en ég spilaði allt of mikið. Stundum hugsaði ég um lítið annað heilu vikurnar en hvernig ég ætti að leysa ákveðna leikþraut, og gilti þá einu hvort ég var í skólanum, á samkomum eða í boðunarstarfinu.“

Greinasyrpan „Electronic Games — Is There a Dark Side?“ í Vaknið! 22. desember 2002 hafði töluverð áhrif á Karl. „Ég reyndi að spila minna eftir að ég las hana,“ segir hann. „Með tímanum sótti hins vegar í sama farið hjá mér.“

Karli tókst að sitja minna við tölvuleikina meðan hann var að kynnast tilvonandi eiginkonu sinni og einnig fyrst eftir að þau giftu sig. „En svo kom nýr leikur á markað sem ég var búinn að hlakka til lengi að fá að spila,“ segir hann. „Ég tók lán til að kaupa tölvu sem réð við leikinn. Þetta var tímafrekasti tölvuleikur sem ég hafði spilað. Hann tók upp tíma sem ég átti að nota fyrir Jehóva. Ég vanrækti líka eiginkonuna.“ Það rann fljótlega upp fyrir honum að hann þyrfti að gera eitthvað róttækt. „Ég ákvað að henda öllum tölvuleikjunum,“ segir hann. „Ég eyddi þeim úr tölvunni og henti hverjum einasta á sorphaugana.“

Sér Karl eftir tölvuleikjunum? Nei. „Ég get ekki með orðum lýst hvílíkur léttir þetta var,“ segir hann. „Mér finnst gríðarlegu fargi vera af mér létt. Mér finnst ég nátengdari Jehóva en nokkru sinni fyrr og ég tala reglulega við hann í bæn. Ég sinni eiginkonunni líka betur. Ég er mjög þakklátur fyrir að mér skyldi takast að sigrast á fíkninni. Það eina sem ég sé eftir er að ég skyldi ekki hafa gert þetta fyrr.“

[Caption on page 13]

^ Nafninu er breytt.