Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eru stefnumót á Netinu nokkuð hættuleg?

Eru stefnumót á Netinu nokkuð hættuleg?

Ungt fólk spyr . . .

Eru stefnumót á Netinu nokkuð hættuleg?

„Á Netinu er ekki einu sinni víst að maður viti hvern maður er að tala við.“ — Dan, 17 ára. *

„Margir ljúga á Netinu. Það er auðvelt að þykjast vera einhver annar en maður er.“ — George, 26 ára.

STEFNUMÓT á Netinu eru að verða sífellt vinsælli um allan heim. Eins og fram kom í síðustu grein í þessari greinaröð geta sambönd á Netinu myndast mjög hratt en renna oft út í sandinn þegar raunveruleikinn tekur við. * En það eru ekki bara hugsanleg vonbrigði sem maður þarf að hafa áhyggjur af, því að þetta getur líka verið mjög hættulegt — líkamlega, tilfinningalega og andlega.

Hvernig getur heimilistölvan, sem er svo ósköp sakleysisleg að sjá, stofnað manni í hættu? Hættan tengist að hluta til mikilvægri meginreglu í Biblíunni. Páll postuli skrifaði: „[Við] viljum í öllum greinum breyta vel [„heiðarlega,“ NW].“ (Hebreabréfið 13:18) Þetta þýðir ekki að það sé óheiðarlegt að nota Netið eða að maður verði sjálfur óheiðarlegur við að nota það. Við verðum samt að gera okkur grein fyrir því að aðrir eru ekki alltaf heiðarlegir. Tilvitnanirnar í byrjun greinarinnar gefa líka til kynna að það virðist auðvelt að vera óheiðarlegur á Netinu og erfitt að sjá í gegnum það. Og þegar maður hefur áhuga á að kynnast einhverjum náið getur óheiðarleiki verið mjög hættulegur.

Taktu til dæmis eftir því hvers konar óheiðarleika er lýst í þessu versi: „Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.“ (Sálmur 26:4) Hvað eru ‚fláráðir menn‘? Sumar biblíuþýðingar nota orðið „hræsnarar“. Eins og fram kemur í uppsláttarriti gæti þetta átt við „þá sem fela markmið sín og fyrirætlanir eða dylja raunverulegt eðli sitt og ásetning.“ Hvernig er slíkur óheiðarleiki stundaður á Netinu? Og hvaða hættu býr það þeim sem eru að leita að ástinni?

Úlfar í sauðargæru

Faðir nokkur, sem heitir Michael, varð mjög áhyggjufullur þegar hann heyrði á ráðstefnu að stór hluti barna fer á hættulegar netsíður þrátt fyrir að foreldrarnir banni það. Hann segir: „Það sem olli mér enn meiri áhyggjum var sú sláandi staðreynd að barnaníðingar geta notað Netið til að lokka krakka og fá þá til að taka þátt í niðurlægjandi kynferðisathöfnum.“ Þegar unglingar nota Netið til að kynnast nýju fólki geta þeir verið í mun meiri hættu en þeir gera sér grein fyrir.

Í fréttum hefur verið sagt frá fullorðnum kynferðisafbrotamönnum sem þykjast vera unglingar og vafra á Netinu í leit að ungum fórnarlömbum. Samkvæmt könnun nokkurri hefur „verið reynt að tæla einn af hverjum fimm krökkum, sem notar Netið, til kynlífsathafna“. Í dagblaði kom einnig fram að 1 af hverjum 33 krökkum á aldrinum 10 til 17 hafa orðið fyrir „harðri áreitni“ á Netinu.

Sumir krakkar hafa komist að því, sér til mikillar undrunar, að „unglingurinn“ sem þeir voru orðnir hrifnir af var í rauninni fullorðin manneskja sem sat í fangelsi. Aðrir hafa óafvitandi átt í samskiptum við kynferðisafbrotamenn. Þessir siðspilltu menn undirbúa væntanleg fórnarlömb sín og ávinna sér traust þeirra með því að spjalla við þau á Netinu. En með tímanum leitast þeir við að hitta unglinginn til að fá afbrigðilegum löngunum sínum fullnægt. Því miður hefur það orðið til þess að unglingar hafa verið barðir, þeim nauðgað og þeir jafnvel myrtir.

Illir menn „dylja raunverulegt eðli sitt“ til að finna fórnarlömb á Netinu. Slíkir menn minna þig kannski á líkingu Jesú um falsspámenn sem koma „í sauðaklæðum“ en eru í rauninni eins og „gráðugir vargar“. (Matteus 7:15) Það getur verið næstum ómögulegt að sjá í gegnum slíka blekkingu þegar maður á nafnlaus samskipti við ókunnuga á Netinu. George, sem vitnað var í hér á undan, segir: „Þegar maður talar við einhvern augliti til auglitis getur maður lært margt af svipbrigðum hans og raddblæ. Á Netinu fer maður hins vegar á mis við allt slíkt. Þá er auðvelt að láta blekkjast.“

Ráð Biblíunnar eru sannarlega skynsamleg: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.“ (Orðskviðirnir 22:3) Að vísu eru ekki allir sem þú hittir á Netinu hættulegir kynferðisafbrotamenn. En fólk getur ‚dulið raunverulegt eðli sitt‘ á fleiri vegu.

Blekkingar og laumuspil

Það kemur ekki á óvart að þeir sem leita að ástinni á Netinu ýki oft kosti sína eða segist hafa góða eiginleika og dragi úr eða jafnvel feli alvarlega galla. The Washington Post vitnaði í rithöfund sem sagði: „Stefnumót á Netinu geta verið vafasöm vegna þess að fólk lætur blekkjast.“ Hann bætir við: „Sumir ljúga til um kynferði sitt. . . . Oft er tekjum, . . . kynþætti, afbrotaferli, geðheilsu og hjúskaparstöðu leynt í langan tíma.“ Margir hafa sagt frá slæmri reynslu sinni af stefnumótum á Netinu til að vara aðra við.

En lýgur fólk til um mikilvæg mál eins og trú sína? Já, því miður. Sumir segjast vera sannkristnir en eru það ekki. Af hverju gera þeir það? Ein ástæðan er sú að það er auðvelt að ljúga á Netinu, eins og fram hefur komið. Ungur maður á Írlandi, sem heitir Sean, viðurkennir: „Það er mjög auðvelt að þykjast vera einhver annar en maður er þegar maður situr við tölvuskjáinn og slær inn texta.“

Mörgum þykja þessar blekkingar ekki svo alvarlegar og segja að það sé nú bara eðlilegt að segja aðeins ósatt þegar fólk er að draga sig saman. En mundu að Guð hatar lygar. (Orðskviðirnir 6:16-19) Hann hefur líka góða ástæðu til þess. Mikið af þjáningunum og eymdinni í heiminum stafa af lygum. (Jóhannes 8:44) Óheiðarleiki er versti grunnur til að byggja samband á, sérstaklega samband sem á að vara alla ævi. Og það sem verra er, óheiðarleiki skaðar trú fólks með því að spilla sambandi þess við Jehóva Guð.

Því miður hafa sum ungmenni gerst sek um annars konar óheiðarleika. Þau hafa notað Netið til að kynnast einhverjum náið og falið það fyrir foreldrum sínum. Foreldrum nokkrum brá heldur betur í brún þegar ung stúlka, sem var ekki sömu trúar og fjölskyldan, kom óvænt að heimsækja son þeirra eftir 1500 kílómetra ferðalag. Hann hafði átt í netsambandi við hana í hálft ár án þess að þau hefðu hugmynd um það.

„Hvernig gat þetta gerst?“ spurðu foreldrarnir. Þau hugsuðu með sér: „Sonur okkar getur ekki hafa fallið fyrir stúlku sem hann hefur aldrei hitt í eigin persónu.“ En sannleikurinn var sá að sonur þeirra hafði blekkt þau. Hann hafði dulið raunverulegt eðli sitt. Ertu ekki sammála því að slíkar blekkingar eru slæmur grunnur að sambandi fólks í tilhugalífinu?

Bein samskipti æskilegri en tölvusamskipti

Stefnumót á Netinu geta líka sett mann í annars konar hættu. Stundum getur netvinur orðið raunverulegri en fólkið sem maður umgengst dagsdaglega. Fjölskyldan, vinir og önnur mikilvæg mál lenda í öðru sæti. Ung kona í Austurríki, sem heitir Monika, segir: „Ég fór að vanrækja mikilvæg sambönd vegna þess að ég eyddi svo miklum tíma í að tala við fólk á Netinu.“ Þegar hún gerði sér grein fyrir þessu olli það henni miklum áhyggjum og hún ákvað að hætta að nota Netið á þennan hátt.

Auðvitað tekst mörgum að nota Netið í réttu hófi. Það getur verið mjög gagnlegt að nota tölvupóst til að halda sambandi við vini og ættingja. En þú ert örugglega sammála því að besta leiðin til að eiga samskipti við fólk er augliti til auglitis. Ef þú ert kominn yfir ‚æskublómann‘ — tímann þegar kynhvötin er sterkust — og hefur áhuga á að gifta þig stendurðu frammi fyrir einni stærstu ákvörðun sem þú munt nokkurn tíma taka í lífinu. (1. Korintubréf 7:36, NW) Þú skalt því fyrir alla muni taka ábyrga ákvörðun.

Biblían ráðleggur: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ (Orðskviðirnir 14:15) Þú ættir því að athuga fótmál þín vandlega í stað þess að trúa manneskju, sem þú hefur aldrei hitt, í einu og öllu. Það er mun viturlegra að kynnast öðrum og eignast vini í eigin persónu. Athugið hvort þið eigið raunverulega saman, sérstaklega hvað varðar andleg markmið og gildi. Þegar fólk kynnist á þennan hátt leggur það grunn að farsælu hjónabandi.

[Neðanmáls]

^ Sumum nöfnum hefur verið breytt.

[Myndir á blaðsíðu 20]

Veistu raunverulega hvern þú ert að tala við á Netinu?

[Mynd á blaðsíðu 22]

Besta leiðin til að kynnast er augliti til auglitis.