Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ég fann tilgang lífsins með hjálp vísindanna og Biblíunnar

Ég fann tilgang lífsins með hjálp vísindanna og Biblíunnar

Ég fann tilgang lífsins með hjálp vísindanna og Biblíunnar

BERND OELSCHLÄGEL SEGIR FRÁ

Leit mín að tilgangi lífsins tók 20 ár. Tvennt hjálpaði mér við leitina, vísindin og Biblían. Vísindanámið fullvissaði mig um að lífið hlýtur að hafa tilgang. En Biblían opnaði augu mín fyrir því hver þessi tilgangur er og hjálpaði mér að skilja hann.

ÞÚ HEFUR ef til vill heyrt því haldið fram að vísindin og Biblían stangist á. Ég hef kynnt mér hvorutveggja og er ekki sammála þessari staðhæfingu. Þig langar kannski að vita hvers vegna.

Ég fæddist árið 1962 í borginni Stuttgart í suðurhluta Þýskalands. Faðir minn starfaði sem vélahönnuður og tók virkan þátt í kirkjustarfi ásamt móður minni. Karin, systir mín, var fjögurra ára þegar ég fæddist. Spennandi tímamót urðu í æsku minni þegar faðir minn gaf mér tilraunasett. Mér fannst mjög gaman að gera tilraunir í efnafræði og eðlisfræði. Já, það var gaman að læra.

Seinna hætti ég að fást við tilraunasettið og fór yfir í tölvuna. Jafnvel á táningsaldri gat ég séð að heilinn er besta tölvan. En ég velti fyrir mér spurningum eins og: „Hvaðan kemur heilinn? Hver gaf okkur heilann? Og hver er tilgangur lífsins?“

Í leit að æðri menntun

Ég hætti í skóla 16 ára gamall og fór að vinna sem lærlingur við að framkalla ljósmyndir. En af því að mér þótti skemmtilegast að læra þá setti ég mér það markmið að fara í háskólanám í eðlisfræði. Ég átti hins vegar langt í land með að hefja háskólanám. Það tók mig fimm ár að uppfylla inntökuskilyrðin. Ég hóf háskólanám í Stuttgart árið 1983 og hélt síðan áfram námi í München. Að lokum lauk ég doktorsnámi í eðlisfræði við háskólann í Augsburg árið 1993.

Fyrstu námsárin í háskólanum voru ekki auðveld. Oft voru um 250 stúdentar í fyrirlestrasölunum, en margir þeirra hættu að sækja tímana innan örfárra mánaða. Ég var staðráðinn í að gefast ekki upp heldur ljúka því sem ég hafði byrjað á. Ég bjó á stúdentagarði og umgekkst því marga sem virtust aðallega hafa áhuga á að skemmta sér. Það leiddi ekki alltaf gott af sér að umgangast slíkt fólk. Afleiðingarnar urðu þær að ég fór að stunda skemmtanalífið og neyta eiturlyfja.

Leitin berst til Indlands

Eðlisfræðinámið veitti mér dýpri skilning á náttúrulögmálum alheimsins. Ég hafði gert mér vonir um að vísindin myndu að lokum opna augu mín fyrir tilgangi lífsins. En ég leitaði víðar en til eðlisfræðinnar. Árið 1991 fór ég í ferð til Indlands ásamt öðrum til að læra austurlenska íhugun. Það var einstaklega gaman að sjá land og þjóð með eigin augum. En munurinn á lífi ríkra og fátækra gekk fram af mér.

Við heimsóttum til dæmis lærimeistara nokkurn nálægt borginni Pune, sem hélt því fram að rétt íhugunaraðferð gæti hjálpað manni að verða ríkur. Við stunduðum hugleiðslu saman á hverjum morgni. Lærimeistarinn seldi einnig lyf dýrum dómi. Lífsstíll hans gaf til kynna að hann hefði vel upp úr sér. Við sáum einnig munka sem virtust búa við fátækt, ólíkt lærimeistaranum. Ég velti fyrir mér hvers vegna íhugun hefði ekki veitt þeim ríkidæmi. Ferðin til Indlands virtist vekja jafnmargar spurningar og hún svaraði.

Einn minjagripanna, sem ég hafði meðferðis frá Indlandi, var íhugunarbjalla. Mér var sagt að bjallan gæfi frá sér tón sem myndi hjálpa manni að íhuga á réttan hátt, ef slegið væri alveg rétt á hana. Heima í Þýskalandi keypti ég stjörnuspákort en sá sem bjó það til sagðist geta séð framtíð mína fyrir. En íhugunin opinberaði mér ekkert um lífið. Mér til sárra vonbrigða áttaði ég mig á því að stjörnuspákort eru ekkert annað en gagnslausir blaðsneplar. Enn þá var spurningum mínum um tilgang lífsins ósvarað.

Ég fann svörin í Biblíunni

Líf mitt breyttist óvænt árið 1993. Ég hafði lokið námi og rannsóknarstörfum og var að skrifa doktorsritgerð um skammtaeðlisfræði. Ég vann svo að segja daga og nætur til að ljúka verkinu í tæka tíð og vanrækti allt annað. Dag einn var allt í einu barið að dyrum. Ég fór til dyra og þar stóðu tvær konur.

Þær spurðu: „Vissir þú að árið 1914 var einstakt ár samkvæmt Biblíunni?“ Spurningin gerði mig orðlausan. Ég hafði aldrei heyrt minnst á neitt slíkt og hafði því síður tíma til að rannsaka það. En spurningin vakti samt forvitni mína. Hvernig gátu þær haldið því fram að Biblían hefði fyrir langa löngu bent á árið 1914 sem sérstakt merkisár?

Þær héldu áfram: „Langar þig til að vita meira?“ Ég hugsaði með mér: „Ég get áreiðanlega fundið mótsögn í rökum þeirra ef ég hlusta á það sem þær ætla að segja.“ Í stað þess að finna mótsagnir kom ég auga á sannfærandi rök fyrir áreiðanleika Biblíunnar. Ég lærði að spádómar Biblíunnar benda greinilega á að Messíasarríki Guðs — himnesk stjórn sem ríkja mun yfir allri jörðinni — var stofnsett árið 1914. *

Konurnar voru vottar Jehóva og gáfu mér eintak af bókinni Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð. * Ég las hana á fáeinum dögum og mér fannst allt rökrétt og skynsamlegt í henni. Vottarnir sýndu mér í Biblíunni að vilji Jehóva er að mannkynið lifi að eilífu í paradís á jörð. Samkvæmt spádómum Biblíunnar rætist þetta fyrirheit innan skamms. Hvílíkar framtíðarhorfur! Þessi von hafði djúp áhrif á mig og mér vöknaði um augu. Gæti þetta verið það sem ég hafði leitað að síðustu 20 árin?

Fljótlega rann upp fyrir mér hvað mér bæri að gera í lífinu; að kynnast Jehóva Guði og þjóna honum af heilum hug. Ég hélt áfram biblíunáminu með aðstoð Votta Jehóva og gerði mér ljóst að það sem ég lærði var sannleikurinn. Andlegum þorsta mínum var vart hægt að svala. Auk þess að ljúka við doktorsritgerðina las ég hálfa Biblíuna innan þriggja mánaða.

Ég fann annað og meira en svör

Í maí 1993 sótti ég í fyrsta skipti safnaðarsamkomu í ríkissal Votta Jehóva í Augsburg. Mér fannst kennslan, sem ég heyrði, vera sannfærandi. Auk þess leið mér vel með vottunum. Þeir heilsuðu mér hlýlega og mér fannst ég vera velkominn þótt ég væri ókunnugur. Roskin kona, sem sat nálægt mér, hafði fyrir því að útvega mér söngbók. Næstu vikurnar fékk ég far í ríkissalinn með manni, sem var vottur, og ungum syni hans. Þessir nýju vinir fóru fljótlega að bjóða mér heim til sín. Með tímanum langaði mig til að segja öðrum frá tilgangi lífsins sem ég var að læra um.

Ég tók alvarlega það sem ég hafði lært í Biblíunni og þess vegna fór ég að gera breytingar á lífi mínu. Til dæmis vildi ég ekki lengur eiga hluti sem tengdust dulspeki. Þess vegna losaði ég mig bæði við stjörnuspákortin og hugleiðslubjölluna auk annarra trúarlegra minjagripa frá Indlandi. Þekking mín á Biblíunni jókst og ég vígðist Jehóva Guði og lét skírast sem vottur Jehóva í München í júní 1994. Þannig tók ég raunverulegum tilgangi lífsins opnum örmum.

Í september 1995 gerðist ég reglulegur brautryðjandi, það er að segja boðberi Jehóva í fullu starfi. Það þýddi að ég notaði mikinn tíma til að ræða við fólk um fyrirætlanir Guðs og til þess treysti ég á styrkinn sem Jehóva veitir. Oft kem ég heim á kvöldin eftir nokkurra klukkustunda boðunarstarf og finn fyrir gleði og ánægju sem ég hafði aldrei kynnst áður en ég lærði um Jehóva. Í janúar 1997 var mér boðið að þjóna Guði áfram í fullu starfi á Betel, deildarskrifstofu Votta Jehóva í Selters í Þýskalandi þar sem ég bý nú. Foreldrar mínir hafa heimsótt mig nokkrum sinnum. Þótt við höfum ekki sömu trúarskoðanir virða þau Betel og eru ánægð með að ég skuli vera hér.

Vísindin og Biblían

Sumir kunna að furða sig á því að maður, sem hefur árum saman stundað vísindanám, skuli trúa því sem segir í Biblíunni. En ég sé ekki að vísindin og Biblían stangist á. Sem eðlisfræðingur hef ég rannsakað þau lögmál sem stjórna lífríkinu og þessi lögmál bera með sér að ofurmannleg vitsmunavera hefur hannað þau.

Sem dæmi má nefna margar kenningar á sviði eðlisfræði, efnafræði og líffræði. Enda þótt kenningarnar séu í grundvallaratriðum einfaldar getur stærðfræðin, sem tengist þeim, verið mjög flókin. Afburðavísindamenn setja fram kenningar og hljóta nóbelsverðlaun fyrir verk sín. Er sú vitsmunavera ekki mun snjallari sem hannaði og bjó til alheiminn sem vísindamenn leggja sig fram við að reyna að skilja?

Það er ekki rökrétt að segja að lífið hafi þróast fyrir tilviljun, eins og margir þróunarsinnar telja. Lýsum þessu með dæmi. Settu tíu fótbolta í beina röð á fótboltavöll með eins metra millibili. Sparkaðu í fyrsta boltann og reyndu að láta alla boltana tíu hitta þann næsta í röðinni. Reyndu enn fremur að segja fyrir hvar hver bolti muni að lokum stöðvast. Líkurnar á að þetta takist eru svo hverfandi litlar að flestir myndu álíta þetta ómögulegt.

Hvernig er þá hægt að halda því fram að frumur mannslíkamans hafi myndast af hreinni tilviljun? Það ferli er miklu flóknara en að sparka bolta. Skynsamlegasta skýringin er sú að ofurmannleg vitsmunavera hafi skapað mennina og allt annað lífsform á jörðinni. Myndi þessi vera, sem er skaparinn, gera það án tilgangs? Auðvitað ekki. Skaparinn hlýtur að hafa gert það í vissum tilgangi. Þessi tilgangur er opinberaður og útskýrður í Biblíunni.

Af þessu má sjá að bæði vísindin og Biblían hafa hjálpað mér að finna svör við spurningum mínum um lífið sem lengi hafa brunnið á mér. Geturðu ímyndað þér hve mikill léttir og ánægja fylgir því að finna eitthvað sem maður hefur leitað að í rúm 20 ár? Það er einlæg ósk mín að geta hjálpað öðrum að finna það sem ég fann að lokum; ekki bara svörin við spurningum mínum heldur það sem meira er um vert, að vita hvernig á að tilbiðja Jehóva, hinn eina sanna Guð, á réttan hátt.

[Neðanmáls]

^ Nákvæma umfjöllun um þetta efni er að finna í 10. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs en hann heitir „Guðsríki er við völd“. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

^ Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

[Innskot á blaðsíðu 28]

Þar sem ég er eðlisfræðingur hef ég lært um lögmálin sem stjórna lífinu og þessi lögmál bera þess glöggt vitni að vera hönnuð af ofurmannlegri vitsmunaveru.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Tólf ára gamall.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Í leitinni að tilgangi lífsins sneri ég mér að austurlenskri íhugun.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Það veitir mér sanna gleði og hamingju að vitna fyrir öðrum.

[Credit line]

Bókakápa: J Hester og P. Scowen (AZ State Univ.), NASA