Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eru konur misrétti beittar í Biblíunni?

Eru konur misrétti beittar í Biblíunni?

Sjónarmið Biblíunnar

Eru konur misrétti beittar í Biblíunni?

TERTÚLLÍANUS, guðfræðingur á þriðju öld, lýsti konum eitt sinn sem „aðkomuleið djöfulsins“. Aðrir hafa notað Biblíuna til að draga upp þá mynd af konum að þær séu lægra settar en karlar. Margir halda þar af leiðandi að Biblían mismuni körlum og konum.

Elizabeth Cady Stanton, brautryðjandi í réttindabaráttu kvenna í Bandaríkjunum á 19. öld, hélt því fram að „Biblían og kirkjan hafi verið stærsta hindrunin í vegi kvenréttindabaráttunnar“. Hún sagði um Mósebækurnar fimm: „Ég þekki engar aðrar bækur sem kenna kúgun og niðurlægingu kvenna jafn rækilega.“

Þótt fáir aðhyllist svona öfgakenndar skoðanir nú á dögum finnst mörgum að Biblían ýti undir að konur séu misrétti beittar. Er það á rökum reist?

Afstaða til kvenna í Hebresku ritningunum

„[Þú] skalt . . . hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.“ (1. Mósebók 3:16) Gagnrýnendur segja að hér dæmi Guð Evu og leyfi að karlmenn undiroki konur. En þetta er ekki yfirlýsing um fyrirætlun Guðs heldur nákvæm lýsing á sorglegum afleiðingum syndarinnar og því að alheimsvaldi Guðs var hafnað. Ill meðferð á konum er því ekki vilji Guðs heldur bein afleiðing af ófullkomleika mannsins. Og eiginmenn í mörgum menningarsamfélögum hafa vissulega drottnað yfir konum sínum, oft með harðri hendi. En það var ekki ætlun Guðs.

Adam og Eva voru bæði sköpuð í Guðs mynd og þau fengu sömu fyrirmælin. Þau áttu að vera frjósöm og uppfylla jörðina, gera sér hana undirgefna og vinna að því í sameiningu. (1. Mósebók 1:27, 28) Á þeim tíma drottnaði hvorugt yfir hinu. Í 1. Mósebók 1:31 segir: „Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“

Biblían greinir ekki alltaf frá afstöðu Guðs í frásögn sinni. Stundum eru þetta aðeins sögulegar frásagnir. Þegar sagt er frá hvernig Lot bauð íbúum Sódómu dætur sínar er ekki tekin siðferðileg afstaða til þess né sagt hvort Guð hafi fordæmt gerðir Lots. * — 1. Mósebók 19:6-8.

Staðreyndin er sú að Guð hatar misnotkun og misþyrmingu í hvaða mynd sem er. (2. Mósebók 22:22; 5. Mósebók 27:19; Jesaja 10:1, 2) Móselögin fordæmdu nauðgun og vændi. (3. Mósebók 19:29; 5. Mósebók 22:23-29) Hjúskaparbrot var bannað og við því lá dauðarefsing bæði fyrir menn og konur. (3. Mósebók 20:10) Lögmálið stuðlaði sannarlega ekki að misrétti kvenna heldur hóf þær upp til vegs og virðingar og verndaði þær gegn þeirri misnotkun sem var algeng hjá þjóðunum allt í kring. Dugmikil eiginkona hjá Gyðingum var virt og í hávegum höfð. (Orðskviðirnir 31:10, 28-30) Þegar Ísraelsmenn fylgdu ekki lögum Guðs og sýndu konum vanvirðingu var það þeirra sök en ekki vilji Guðs. (5. Mósebók 32:5) Að lokum dæmdi Guð þjóðina og refsaði henni sem heild fyrir svívirðilega hegðun.

Felur undirgefni í sér misrétti?

Í öllum samfélögum verður að halda uppi ákveðinni reglu til að þau geti starfað vel. Það kallar á að einhver fari með yfirráð. Að öðrum kosti ríkir óstjórn. „Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins.“ — 1. Korintubréf 14:33.

Páll postuli lýsir forystuhlutverkinu í fjölskyldunni þannig: „Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Korintubréf 11:3) Allir lúta æðra yfirvaldi nema Guð. Er Jesús beittur misrétti fyrst hann þarf að lúta yfirráðum Guðs? Að sjálfsögðu ekki. Þótt karlmönnum hafi samkvæmt Biblíunni verið falið forystuhlutverkið í söfnuðinum og fjölskyldunni þýðir það ekki að konur séu undirokaðar. Ef fjölskyldan eða söfnuðurinn eiga að geta dafnað verða bæði menn og konur að sinna hlutverkum sínum með kærleika og virðingu. — Efesusbréfið 5:21-25, 28, 29, 33.

Jesús kom alltaf fram við konur af virðingu. Hann neitaði að fara eftir óréttlátum erfðavenjum og reglum fariseanna. Hann talaði við konur sem voru ekki Gyðingar. (Matteus 15:22-28; Jóhannes 4:7-9) Hann kenndi konum. (Lúkas 10:38-42) Hann benti á frumreglur sem komu í veg fyrir að menn yfirgæfu eiginkonur sínar. (Markús 10:11, 12) Og það var trúlega byltingarkennt á dögum Jesú að konur væru meðal nánustu vina hans. (Lúkas 8:1-3) Jesús endurspeglaði fullkomlega eiginleika Guðs og hann sýndi að bæði kynin væru jöfn í augum Guðs. Á dögum frumkristninnar fylltust bæði menn og konur heilögum anda sem var gjöf frá Guði. (Postulasagan 2:1-4, 17, 18) Þegar þau rísa upp til himna verður enginn kynjamunur. Guð hefur smurt bæði karla og konur með anda sínum og þau eiga von um að þjóna sem konungar og prestar með Kristi. (Galatabréfið 3:28) Jehóva, höfundur Biblíunnar, beitir konur ekki misrétti.

[Neðanmáls]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Jesús kom fram við konur af virðingu, ólíkt mörgum samtíðarmönnum sínum.