Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Grafir varpa ljósi á fornar trúarhugmyndir

Grafir varpa ljósi á fornar trúarhugmyndir

Grafir varpa ljósi á fornar trúarhugmyndir

ÍMYNDAÐU þér að þú sért kominn þúsundir ára aftur í tímann. Þú ert staddur í Súmer í Babýloníu í blómlegri konungsborg sem heitir Úr. Heil hersing Súmera er komin að grafreit fyrir utan borgina og er á leiðinni niður skábraut að grafhýsi nýlátins konungs. Gólf og veggir grafhýsisins eru klædd mottum og salurinn er skreyttur fögrum súmerskum listaverkum. Tónlistarmenn fylgja hópi af hermönnum, þjónum og konum inn í grafhýsið. Allir eru klæddir í sitt fínasta og liðsforingjar bera stoltir tignarmerki sín. Uxar og asnar draga mannaða stríðsvagna en sveinar teyma. Allir fara á sinn stað og svo fer fram trúarathöfn við undirleik tónlistarmanna.

Að athöfninni lokinni tekur hver og einn fram bikar úr leir, steini eða málmi sem hann hefur meðferðis. Allir, tónlistarmenn jafnt sem þjónar, dýfa bikarnum í pott úr eiri og drekka sinn skammt af sérstöku seyði. Síðan leggjast þeir niður á skipulegan hátt, koma sér vel fyrir og sofna svefninum langa. Dýrunum er slátrað í flýti, verkamenn fylla upp í göngin að grafhýsinu og loka vel. Súmerar trúa því að hinn guðlegi konungur þeirra ferðist nú í allri sinni dýrð inn í næsta heim á stríðsvagninum, sem er grafinn með honum, ásamt þjónaliði og varðmönnum.

Fornleifafræðingurinn sir Leonard Wolley gróf upp 16 konungleg grafhýsi, eins og hér er lýst, á grafreit hinnar fornu borgar Úr í Suður-Írak. Þetta var ekki beint geðslegur fundur en engu að síður merkilegur. „Þessi verðmæti fundur á sér engan sinn líka í fornleifafræði Mesópótamíu og þaðan eru meðal annars komnar sumar af þekktustu fornminjum Súmera sem nú prýða sali British Museum og University of Pennsylvania Museum.“ Þetta segir Paul Bahn í bókinni Tombs, Graves and Mummies.

Grafhýsin í hinni fornu Úr voru hins vegar langt frá því að vera einsdæmi. Óhugnalegar manna- og dýrafórnir voru einnig stundaðar annars staðar. Í mörgum þjóðfélögum fortíðar tíðkaðist það að fólk af konungs- eða aðalsættum eyddi gífurlegum fjármunum í að undirbúa greftrun sína og framhaldslíf, og stundum sýndi það af sér fádæma grimmd. Grafhýsin voru skreytt alls konar fagurri list og þau voru full af fjársjóðum. Þau voru því stundum enn glæsilegri en hallir lifandi manna. En núna veita þessi grafhýsi og margar aðrar venjulegar grafir innsýn í fortíðina og gera okkur kleift að skyggnast inn í trúarhugmyndir, menningu, listir og tækniþekkingu fornra þjóða og horfinna menningarsamfélaga.

Að rotna með glæsibrag og fríðu föruneyti

Árið 1974 voru smábændur að grafa brunn í grennd við borgina Xian í Kína. En í stað þess að finna vatn grófu þeir upp brot af leirstyttum, örvarodda og hluti úr bronsi sem höfðu tilheyrt lásbogum. Þeir höfðu óafvitandi rekist á terrakottaher Qins sem er 2100 ára gamall en í honum eru yfir 7000 leirstyttur af hestum og hermönnum í fullri líkamsstærð. Leirstyttunum var raðað upp í bardagafylkingar. Terrakottaherinn, sem fannst í þessari stærstu keisaragröf í Kína, er nefndur eftir Qin Shi Huangdi, keisaranum sem sameinaði Kína í eitt ríki árið 221 f.Kr.

Segja má að grafhýsi Qins sé neðanjarðarhöll. En hvers vegna var þessi leirstyttuher grafinn með honum? Zhang Wenli segir í bókinni The Qin Terracotta Army að grafhýsi Qins „sé til tákns um keisaradæmi hans og hafi átt að veita hinum látna Qin Shi Huangdi allan þann mátt og þá dýrð sem hann hafði í lifanda lífi“. Grafhýsið er nú hluti af gríðarstóru safni sem hefur að geyma um 400 nærliggjandi grafir og grafhýsi.

Til að reisa grafhýsið „voru kallaðir til meira en 700.000 menn frá öllum hlutum heimsveldisins“, segir Zhang. Verkinu var haldið áfram eftir dauða Qins árið 210 f.Kr. og það tók allt í allt 38 ár að fullgera það. En það var fleira grafið með Qin en leirstytturnar. Arftaki hans fyrirskipaði að barnlausar hjákonur Qins skyldu grafnar með honum. Sagnfræðingar segja að þetta hafi kostað „mjög mörg“ mannslíf. Þetta var hins vegar ekkert einsdæmi.

Norðaustur af Mexíkóborg liggja rústir hinnar fornu borgar Teotihuacán. Í borginni var stræti sem var kallað stræti hinna dánu. „Við þetta stræti eru nokkrar merkustu minjar í heimi um byggingarlist fortíðar,“ skrifar Paul Bahn. Þeirra á meðal eru sólarpíramídinn og tunglpíramídinn sem voru báðir reistir á fyrstu öld e.Kr., svo og rústir hofs sem var helgað guðinum Quetzalcóatl.

Sólarpíramídinn virðist hafa verið notaður sem grafhýsi fyrir háttsetta einstaklinga og hugsanlega presta. Líkamsleifar, sem fundist hafa í fjöldagröfum þar í grennd, benda til þess að hermönnum hafi hugsanlega verið fórnað til að vernda þá sem voru inni í píramídanum. Grafirnar mynda ákveðið mynstur og fornleifafræðingar telja að um 200 manns hafi verið grafnir þar, þeirra á meðal börn sem kann að hafa verið fórnað þegar mannvirkin voru vígð.

Á skipi eða hesti inn í næsta heim

Víkingarnir, sem siglu um höfin fyrir þúsund árum og skelfdu Evrópubúa, vonuðust einnig til þess að njóta, eftir dauðann, þess besta sem jarðlífið hefur upp á að bjóða. Þeir trúðu því að hinir dánu riðu hestum sínum eða sigldu langskipum inn í næsta heim. Í gröfum víkinga má því finna bæði beinagrindur hesta og fúið timbur úr langskipum. Gwyn Jones segir í bókinni A History of the Vikings: „Hinum látna var fengið allt sem gæti gert framhaldslífið eins þægilegt og virðingarvert og hann var vanur í jarðlífinu . . . Skipið [sem grafið var] í Ladby í Danmörku . . . var með akkerið um borð svo að skipherrann gæti látið það síga þegar ferðin væri á enda.“

Víkingarnir voru miklir bardagamenn og trúðu því að ef þeir dæju í orustu myndu þeir fara til Ásgarðs sem var bústaður goðanna. „Þar gátu þeir barist allan daginn og borðað alla nóttina,“ segir alfræðiorðabókin World Book Encyclopedia. Mannafórnir tíðkuðust einnig þegar víkingar voru grafnir. „Þegar höfðingi deyr eru þrælar og þjónar spurðir hverjir vilji deyja með honum,“ segir bókin The Vikings.

Hinir fornu Keltar í Norður-Evrópu trúðu því jafnvel að hægt væri að flytja skuldir inn í næsta heim, en það var hugsanlega sniðug afsökun fyrir að því fresta greiðslu. Í Mesópótamíu voru leikföng barnanna grafin með þeim. Á vissum svæðum í Bretlandi til forna var matur, eins og til dæmis lambalæri, lagður í gröf með hermönnum svo að þeir þyrftu ekki að hefja nýtt líf svangir. Höfðingjar Mayaindíána í Mið-Ameríku voru grafnir með munum úr jaði, en það er grænn gimsteinn sem táknaði þéttan raka og andadrátt. Kannski var það gert til að tryggja að lífið héldi áfram eftir dauðann.

Einhvern tíma eftir 1000 f.Kr. bjuggu Þrakíumenn á svæði sem nú er hluti af Búlgaríu, Norður-Grikklandi og Tyrklandi. Öðrum þjóðum stóð uggur af Þrakíumönnum en þeir voru líka þekktir fyrir fagra gullsmíði. Sjá má af gröfum í Þrakíu að höfðingjarnir voru grafnir í allri sinni dýrð með stríðsvögnum, hestum, góðum vopnum og jafnvel konum sínum. Þrakverskar konur litu meira að segja á það sem heiður að vera fórnað og grafnar með mönnum sínum.

Skýtar voru uppi örlítið síðar í mannkynssögunni en þeir bjuggu rétt fyrir norðan Svartahaf. Þessi blóðþyrsti þjóðflokkur drakk úr skálum sem gerðar voru úr hauskúpum fórnarlamba þeirra, og þeir gengu í fötum úr höfuðleðri þeirra. Í gröf nokkurri fannst beinagrind af konu með forða af kannabisefni sér við hlið. Í hauskúpuna höfðu verið boruð þrjú lítil göt, hugsanlega til að draga úr bólgu og sársauka. Kannabisefnið var líklega sett við hliðina á henni til að lina höfuðverkinn í næsta heimi.

Framhaldslíf hjá Egyptum

Einhver þekktustu grafhýsi í heimi eru píramídarnir í grennd við Kaíró í Egyptalandi og grafhýsin í Konungadal nálægt Lúxor. Hjá Forn-Egyptum var sama orðið, per, notað fyrir „grafhýsi“ og „hús“. „Menn áttu sér því bæði hús í lifanda lífi og eftir dauðann,“ segir Christine El Mahdy í bókinni Mummies, Myth and Magic in Ancient Egypt. Hún segir einnig að Egyptar „hafi trúað því að líkaminn þyrfti að varðveitast heill til þess að aðrir hlutar mannverunnar, kallaðir ka, ba og akh, gætu lifað af“.

Ka var andleg hliðstæða líkamans og hafði sömu væntingar, langanir og þarfir. Við dauðann yfirgaf ka líkamann og fór í gröfina. Þar sem ka þarfnaðist alls hins sama og einstaklingurinn þarfnaðist í lifanda lífi „voru hlutirnir, sem lagðir voru í grafhýsið, fyrst og fremst hugsaðir til að fullnægja þörfum þess“, skrifar El Mahdy. Ba var eins konar ígildi persónuleika eða manngerðar einstaklingsins og var táknað með fugli með mannshöfuð. Ba fór inn í líkamann við fæðingu og yfirgaf hann við dauðann. Akh „spratt fram“ úr múmíunni þegar farið var með töfraþulur yfir henni. * Akh bjó í heimi guðanna.

Með þrískiptingu mannsins gengu Egyptar skrefinu lengra en heimspekingar Forn-Grikkja sem sögðu að maðurinn væri tvískiptur, líkami og sál. Þó að þessi kenning sé enn þá mjög útbreidd kemur ekkert fram í Biblíunni sem styður hana. Hún segir aftur á móti: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt.“ — Prédikarinn 9:5.

Hvers vegna hafa menn svona mikinn áhuga á dauðanum?

E. O. James segir í bókinni Prehistoric Religion: „Af öllu því . . . sem maðurinn hefur þurft að glíma við hefur ekkert valdið honum meiri heilabrotum og gagntekið hann eins og dauðinn . . . Það kemur því ekki á óvart að dauðinn skuli hafa heltekið manninn og gegnt stóru hlutverki í samfélagi manna frá öndverðu.“

Biblían, elsta bók sannrar visku, kallar dauðann óvin mannsins. (1. Korintubréf 15:26) Þetta eru orð að sönnu. Allir ættbálkar og öll menningarsamfélög hafa spornað af miklu afli gegn þeirri hugmynd að dauðinn sé alger endir tilverunnar. En Biblían lýsir nákvæmlega þeim veruleika sem allar grafir vitna um: „Mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) En Biblían talar líka um upprisu úr gröfinni. Guð geymir í minni sér marga af þeim sem hvíla í gröfinni, jafnvel þá sem eru orðnir algerlega að moldu. Þeir bíða þess að hann reisi þá upp og gefi þeim tækifæri til að lifa að eilífu í paradís á jörð. — Lúkas 23:43; Jóhannes 5:28, 29.

Þangað til eru hinir dánu meðvitundarlausir. Jesús líkti dauðanum við svefn. (Jóhannes 11:11-14) Þeir sem eru í slíku ástandi hafa hvorki þörf fyrir þjóna né nokkra hluti. Og oftar en ekki eru það einna helst hinir lifandi sem njóta góðs af gröfnum fjársjóðum, það er að segja grafarræningjar. „Ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan,“ segir Biblían og það er í góðu samræmi við allt annað sem hún segir um dauðann. (1. Tímóteusarbréf 6:7) Kristnir menn geta verið mjög þakklátir fyrir að þekkja þennan sannleika sem frelsar þá undan hugmyndum sem birst hafa í grimmdarlegum og villimannslegum siðvenjum dýrkenda dauðans, bæði forðum daga og stundum einnig á okkar dögum. — Jóhannes 8:32.

Þessi mikilfenglegu grafhýsi hafa þó ekki verið algerlega til einskis. Ef við hefðum ekki undir höndum hina fornu gripi og líkamsleifar í gröfunum væri þekking okkar á fortíðinni og sumum fornum þjóðfélögum ósköp fátækleg.

[Neðanmáls]

^ Orðið „múmía“ er dregið af arabíska orðinu mumija sem þýðir „bik“ eða „jarðbik“. Það var upphaflega notað um lík sem sortnaði þegar það var lagt í trjákvoðu. Nú er orðið notað um lík manns eða hræ dýrs sem er varið rotnun og búið til greftrunar.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 24]

Hversu hraust var fólk til forna?

Vísindamenn hafa uppgötvað margt um heilsufar fornmanna með því að rannsaka fornleifar, og þá sérstaklega smyrðlinga í grafhýsum og líkamsleifar sem varðveist hafa í mýrlendi, sandauðnum og á jökulsvæðum. Framfarir í erfðafræði hafa gert vísindamönnum kleift að ákvarða allt frá blóðflokkum Inkakvenna til fjölskyldutengsla faraóa og drottninga þeirra. Þessar rannsóknir sýna að fornmenn þurftu að glíma við marga kvilla sem við þekkjum enn þann dag í dag, þar á meðal liðagigt og vörtur.

Egyptar til forna virðast hafa fengið sinn skerf af sjúkdómum og gott betur. Einkum virðast þeir hafa fengið ýmiss konar sníkjudýr, eins og blóðögður, bandorma og fótsmugu, úr Nílarfljóti og áveituskurðum. Þetta minnir á það sem Guð sagði við Ísraelsmenn skömmu eftir að hann frelsaði þjóðina úr Egyptalandi árið 1513 f.Kr.: „Enga af hinum vondu egypsku sóttum, sem þú þekkir, mun hann [Guð] á þig leggja.“ — 5. Mósebók 7:15.

[Credit line]

© R Sheridan/ANCIENT ART & ARCHITECTURE COLLECTION LTD

[Mynd á blaðsíðu 20]

Súmerskt höfuðfat og skartgripir þjónustustúlku sem grafin var í konunglegu grafhýsi í Úr.

[Credit line]

© The British Museum

[Myndir á blaðsíðu 21]

Terrakottaher Qins — engir tveir hermenn höfðu eins andlitsdrætti.

[Credit line]

Innfelld mynd: Erich Lessing/Art Resource, NY; © Joe Carini / Index Stock Imagery

[Mynd á blaðsíðu 23]

Sólarpíramídinn og stræti hinna dánu í Teotihuacán í Mexíkó.

[Credit line]

Efst: © Philip Baird www.anthroarcheart.org; málverk: Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.

[Myndir á blaðsíðu 23]

Til vinstri: Greftrunargríma Tótankamons Egyptalandskonungs úr hreinu gulli; fyrir neðan: Málverk úr grafhýsi sem sýnir ba í líki fugls með mannshöfuð.