Horft á heiminn
Horft á heiminn
Hlátur er hollur
„Vísindamenn hafa komist að raun um að innilegur hlátur í aðeins hálfa mínútu jafnist á við 45 mínútna hvíld.“ Þetta kemur fram í pólska vikuritinu Przyjaciółka. „Skellihlátur er sambærilegur við þriggja mínútna þolfimi og tíu hlýleg bros eru á við tíu mínútna kröftugan róður.“ Hlátur gerir einnig gott vegna þess að maður dregur þá þrefalt meira loft ofan í lungun og bætir blóðrásina, meltinguna, efnaskipti líkamans og heilastarfsemina. Auk þess losar maður sig við skaðleg efni úr líkamanum. Blaðið leggur til að maður byrji daginn á því að koma sér í gott skap með því að brosa við sjálfum sér og til maka síns og barna. „Lærðu að sjá spaugilegu hliðarnar á sjálfum þér,“ bætir blaðið við. „Reyndu að horfa á björtu hliðarnar, jafnvel undir erfiðum kringumstæðum.“
Trúleysingi fer að trúa á Guð
Breskur prófessor í heimspeki, sem hefur verið kallaður „áhrifamesti trúleysingi heims“, segir að núna trúi hann á Guð. Í viðtali, sem birtist í tímaritinu Philosophia Christi, segir Antony Flew prófessor, sem er 81 árs, að hann „hafi þurft að viðurkenna sönnunargögnin“. Að hans sögn eru þessi sönnunargögn meðal annars nýlegar vísindauppgötvanir á sviði heimsmyndarfræði og eðlisfræði. Þar að auki bendir hann á að „rannsóknir á DNA í meira en 50 ár hafi veitt okkur sönnunargögn sem styðja enn frekar að heimurinn hafi verið hannaður“. Hann fullyrðir jafnvel að „sköpunarsaga Biblíunnar [í fyrsta kafla 1. Mósebókar] gæti verið vísindalega nákvæm“. Ætlar hann þá að gerast kristinn? „Það er mjög ólíklegt,“ segir hann. „En ef mig langaði til að eiga von um líf í framtíðinni ætti ég gerast vottur Jehóva.“
„Kengúrumeðferð“ fyrir ungabörn
„Ungabörn, sem fá kengúrumeðferð, sofa lengur, þyngjast hraðar og öndunin batnar,“ segir í japanska dagblaðinu Daily Yomiuri. En hvað er „kengúrumeðferð“? Hún felst í því að mamman eða pabbinn hallar sér aftur og leggur ungabarnið á bert brjóst sér í einn til tvo tíma á dag. Toyoko Watanabe, yfirmaður vökudeildar Tokyo Metropolitan Bokuto spítalans, segir: „Kengúrumeðferðin kemur frá Kólombíu þar sem hún var notuð sem neyðarúrræði þegar hitakassar voru af skornum skammti. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna tók eftir að dánartíðni hjá fyrirburum lækkaði og spítalavistin styttist.“ Í blaðinu segir: „Þessi meðferð verður æ vinsælli í iðnríkjunum og er bæði notuð fyrir börn sem fæðast fyrir tímann og eftir fulla meðgöngu.“ Líkamssnertingin gerir mikið gagn og hjálpar meðal annars foreldrunum að tengjast ungabarninu betur. Auk þess kostar þetta ekki neitt og útheimtir ekki neinn sérstakan tækjabúnað.
Tómstundalestur hækkar einkunnir
Í mexíkóska dagblaðinu Milenio er skýrt frá því að tómstundalestur stuðli frekar að hærri einkunnum nemenda en „menntun foreldra þeirra, tími sem notaður er til náms, minnispunktar í kennslustundum eða tölvunotkun“. Í könnun, sem gerð var á yfir fimm hundruð þúsund inntökuprófum í framhaldsskóla, kom í ljós að þeim nemendum, sem verja tíma bæði til skóla- og tómstundalesturs, eigi frekar eftir að ganga vel í skóla. Bækurnar, sem þeir lesa, þurfa ekki bara að vera námsbækur. Þeir geta líka lesið sér til skemmtunar, eins og ævisögur, ljóðabækur eða bækur um vísindi. Könnunin leiddi einnig í ljós að nemendur, sem sitja tímunum saman fyrir framan sjónvarpið í staðinn fyrir að lesa, fá oft lægri einkunnir.