Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver er framtíð þessa heims?

Hver er framtíð þessa heims?

Hver er framtíð þessa heims?

HVAÐ munu næstu 10, 20 eða 30 árin bera í skauti sér? Það getur verið ógnvekjandi að hugleiða framtíðina á þessari hryðjuverkaöld. Tækninni fleygir fram. Alþjóðavæðing hefur gert margar þjóðir háðar hver annarri. Munu leiðtogar heims sameinast og skapa bjartari framtíð? Sumir segja að svo verði og vonast til að leiðtogar geti árið 2015 dregið stórlega úr fátækt og hungri, stöðvað útbreiðslu alnæmis og fækkað um helming þeim sem hafa ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni og eru án hreinlætisaðstöðu. — Sjá rammann „Bjartsýni eða veruleiki.“

Hugmyndir manna um framtíðina hafa samt oft reynst villandi. Fyrir nokkrum áratugum sagði sérfræðingur einn að árið 1984 myndu bændur plægja hafsbotninn með neðansjávardráttarvélum. Annar sagði að árið 1995 yrðu bifreiðar útbúnar tölvum sem kæmu í veg fyrir árekstra. Enn annar spáði því að árið 2000 ættu um 50.000 manns heima úti í geimnum og stunduðu vinnu þar. Núna óskuðu sennilega þeir sem spáðu þessu að þeir hefðu látið þetta ósagt. Blaðamaður sagði: „Rás tímans leiðir best í ljós hvernig gáfaðasta fólk heims getur gert sig að algerum fíflum.“

„Kort“ sem vísar okkur veginn

Fólk veltir framtíðinni endalaust fyrir sér en stundum er sýn manna frekar byggð á hugsjónum en raunveruleika. Hvert getum við snúið okkur til að fá áreiðanlega yfirsýn yfir það sem fram undan er?

Lýsum þessu með dæmi. Ímyndaðu þér að þú sért á ferðalagi í hópferðabíl í framandi landi. Þar sem þú þekkir ekki svæðið ferðu að ókyrrast og spurningar vakna: „Hvar er ég eiginlega? Erum við virkilega á réttri leið? Hvað er langt til áfangastaðarins?“ Þú getur fundið svörin með því að skoða nákvæmt kort og athuga vegaskiltin sem eru fyrir utan gluggann.

Margir eru í svipaðri stöðu núna. Þeir verða áhyggjufullir þegar þeir hugsa um framtíðina og velta fyrir sér: „Á hvaða leið erum við? Stefnum við virkilega í átt til alheimsfriðar? Ef svo er hvenær náum við því takmarki?“ Biblían er eins og kort sem getur hjálpað okkur að fá svör við þessum spurningum. Þegar við lesum Biblíuna með athygli og fylgjumst nákvæmlega með því sem gerist fyrir utan „gluggann“ á sviði heimsmálanna getum við að miklu leyti áttað okkur á því hvar við erum stödd og hvert stefnir. En fyrst verðum við að skoða hvernig vandamálin hófust.

Hörmuleg byrjun

Í Biblíunni segir frá því að fyrsti maðurinn og konan hafi verið fullkomin þegar Guð skapaði þau og að hann hafi sett þau í paradísarumhverfi. Adam og Evu var ætlað að lifa að eilífu — ekki aðeins í 70 eða 80 ár. Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina.“ Fyrirætlun Guðs var að Adam, Eva og afkomendur þeirra stækkuðu paradís uns hún næði yfir alla jörðina. — 1. Mósebók 1:28; 2:8, 15, 22.

Adam og Eva gerðu uppreisn gegn Guði. Þess vegna misstu þau paradísarheimili sitt. Auk þess fór þeim hægt en stöðugt hnignandi, bæði líkamlega og andlega. Með hverjum degi voru Adam og Eva einu skrefi nær dauðanum. Hvers vegna? Vegna þess að þau syndguðu með því að snúast gegn skapara sínum og „laun syndarinnar er dauði“. — Rómverjabréfið 6:23.

Um síðir dóu Adam og Eva en ekki fyrr en þau höfðu eignast nokkra syni og nokkrar dætur. Gætu þessi börn lokið við það sem Guð ætlaði mannkyninu í upphafi? Nei, því að þau erfðu ófullkomleika foreldra sinna. Sannleikurinn er sá að kynslóð fram af kynslóð hafa allir afkomendur Adams erft synd og dauða og það á einnig við um okkur. Í Biblíunni segir: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ — Rómverjabréfið 3:23; 5:12.

Hvar erum við stödd?

Með uppreisn Adams og Evu hófst langt og gleðisnautt ferðalag mannkynsins sem stendur yfir enn þann dag í dag. Mannkynið var undirorpið „fallvaltleikanum“ eins og einn af biblíuriturunum komst að orði. (Rómverjabréfið 8:20) Þetta lýsir vel erfiðleikunum sem mannkynið á við að stríða. Á meðal afkomenda Adams hafa verið afburðasnjallir vísindamenn af báðum kynjum, snillingar á sviði lækninga og frumkvöðlar á sviði tækni. Samt hefur ekki einn einasti þeirra verið fær um að koma á heimsfriði og tryggja fullkomna heilsu eins og Guð ætlaði mönnum að lifa við.

Uppreisn Adams og Evu snertir hvert okkar persónulega. Hver hefur ekki mátt þola óréttlæti, óttast glæpi, kynnst afleiðingum langvinnra sjúkdóma eða þeirri sorg, sem gagntekur mann þegar ástvinur deyr? Svo virðist sem ný holskefla dynji á um leið og ró færist yfir. Jafnvel þegar allt leikur í lyndi er tilveru okkar best lýst með orðum ættföðurins Jobs en hann sagði: „Maðurinn . . . lifir stutta stund og mettast órósemi.“ — Jobsbók 14:1.

Þegar tekið er tillit til uppruna okkar og þeirra ömurlegu aðstæðna sem við búum við núna virðist framtíðin ef til vill vera heldur dapurleg. En í Biblíunni erum við fullvissuð um að Guð mun ekki leyfa að slíkt ástand haldi áfram endalaust. Upphafleg fyrirætlun hans með mannkynið mun ná fram að ganga. (Jesaja 55:10, 11) Hvernig getum við verið viss um að það gerist bráðlega?

Samkvæmt því sem stendur í Biblíunni lifum við núna á erfiðum tímum, „á síðustu dögum“ eins og það er kallað. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Orðasambandið gefur ekki til kynna að jörðin farist og allt líf á henni. Það merkir öllu heldur endalok þessa heimskerfis og þess vegna endi á því sem veldur okkur ógæfu. (Matteus 24:3) Í Biblíunni er lýst þeim atburðum og einkennum sem yrðu áberandi í fari fólks á síðustu dögum. Taktu eftir nokkrum af þessum einkennum í listanum neðst á blaðsíðu 8 og horfðu síðan út um „gluggann“ og sjáðu hvað er að gerast í heiminum. Með hjálp Biblíunnar, sem er vegvísir okkar, sjáum við að við erum stödd mjög nærri endalokum núverandi heimskerfis. En hvað tekur við?

Vegurinn fram undan

Jafnskjótt og Adam og Eva gerðu uppreisn fór Guð að opinbera þá fyrirætlun sína að koma á ríki ‚sem aldrei skyldi á grunn ganga‘. (Daníel 2:44) Þetta ríki, sem mörgum hefur verið kennt að biðja um í faðirvorinu, mun færa mannkyninu ólýsanlega blessun. — Matteus 6:9, 10.

Ríki Guðs er ekki einhver óljós tilfinning sem býr í hjartanu. Það er raunveruleg himnesk stjórn sem mun hafa feiknamikil áhrif á jörðina. Við skulum athuga hverju Guð hefur lofað að koma til leiðar fyrir atbeina ríkis síns. Biblían segir að hann ætli fyrst að „eyða þeim, sem jörðina eyða“. (Opinberunarbókin 11:18) Hvað ætlar hann að gera fyrir þá sem hlýða honum? Í rituðu orði hans stendur að hann muni „þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ (Opinberunarbókin 21:4) Gæti nokkur maður komið slíku til leiðar? Guð einn getur breytt ástandinu í það horf sem hann ætlaði mannkyninu upphaflega að búa við.

Hvernig getur þú fengið að njóta þeirrar blessunar sem Guðsríki mun veita? Í Jóhannesi 17:3 stendur: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ Vottar Jehóva veita fræðslu út um allan heim og aðstoða fólk við að afla sér þessarar þekkingar. Boðunarstarf þeirra fer fram í um 230 löndum og rit þeirra eru gefin út á meira en 400 tungumálum. Ef þig langar til að læra meira skaltu hafa samband við Votta Jehóva eða skrifa og nota viðeigandi heimilisfang á blaðsíðu 5.

[Innskot á blaðsíðu 6]

„Heyrið, þér sem segið: ‚Í dag eða á morgun skulum vér fara til þeirrar eða þeirrar borgar, dveljast þar eitt ár og versla þar og græða!‘ — Þér vitið ekki hvernig líf yðar mun verða á morgun.“ — Jakobsbréfið 4:13, 14.

[Innskot á blaðsíðu 6]

Í Biblíunni er saga okkar rakin frá fyrsta manninum og konunni. Þannig er okkur sagt hvaðan við erum komin. Þar er einnig bent á hvert við stefnum. En til að skilja hvað Biblían segir okkur verðum við að rýna í hana eins rækilega og landakort.

[Innskot á blaðsíðu 7]

„Synd“ getur vísað til rangrar breytni eða þess að hneigjast til illskuverka. Við fæðumst syndug og það hefur áhrif á verk okkar. „Enginn réttlátur maður er til á jörðinni, er gjört hafi gott eitt og aldrei syndgað.“ — Prédikarinn 7:20.

[Innskot á blaðsíðu 8]

Ætlir þú að ljósrita blaðsíðu sem á er dökkleitur blettur mun hann koma fram á öllum afritunum. Þar sem við erum afkomendur Adams, eins konar afrit, höfum við blett syndarinnar á okkur. Það er sami bletturinn sem kom í ljós á Adam, „frumritinu“.

[Innskot á blaðsíðu 8]

Í Biblíunni stendur að það sé „ekki á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum“. (Jeremía 10:23) Þetta skýrir hvers vegna tilraunir mannsins til að koma á heimsfriði hafa mistekist. Hann var ekki skapaður til að „stýra skrefum sínum“ óháð Guði.

[Innskot á blaðsíðu 9]

Sálmaritarinn sagði við Guð: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ (Sálmur 119:105) Biblían hjálpar okkur að stíga viturlega til jarðar þegar við þurfum að taka ákvarðanir, rétt eins og lampi eða lukt vísar okkur veginn í myrkri. Hún lýsir upp veginn fram undan, er eins og „ljós á vegum“ okkar svo að við getum séð hvað bíður mannkynsins í framtíðinni.

[Rammi á blaðsíðu 7]

BJARTSÝNI EÐA VERULEIKI

Í september árið 2000 voru aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sammála um að setja sér fjölda markmiða sem eiga að hafa náðst árið 2015. Þau fela meðal annars í sér eftirfarandi:

Lækka um helming hlutfall þeirra sem lifa á innan við einum Bandaríkjadal á dag og þeirra sem þjást af hungri.

Tryggja að öll börn ljúki grunnmenntun.

Útrýma misrétti kynja á öllum menntunarstigum.

Lækka um tvo þriðju dánartíðni barna undir fimm ára aldri.

Draga úr dánartíðni mæðra um 75 prósent.

Stöðva og draga úr útbreiðslu HIV/alnæmis sem og tíðni annarra helstu sjúkdóma, eins og malaríu.

Lækka um helming hlutfall þeirra sem hafa ekki aðgang að drykkjarhæfu vatni.

Er hægt að ná þessum markmiðum? Umræðuhópur á heilbrigðissviði hvaðanæva úr heiminum komst að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa endurskoðað málið árið 2004, að draga yrði úr bjartsýninni þar sem veruleikinn væri ekki í samræmi við væntingarnar. Í formála bókarinnar State of the World 2005 segir: „Fátækt heldur áfram að grafa undan framförum á mörgum sviðum. Sjúkdómar eins og HIV/alnæmi verða tíðari og eru eins og tifandi tímasprengjur sem ógna heilsu almennings í mörgum löndum. Á undanförnum fimm árum hafa um 20 milljónir barna dáið úr sjúkdómum sem berast með menguðu drykkjarvatni og hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Hundruð milljóna manna búa enn við eymd og óhreinlæti vegna ófullnægjandi hreinlætisaðstöðu og skorts á hreinu drykkjarvatni.“

[Rammi/myndir á blaðsíðu 8, 9]

NOKKUR EINKENNI HINNA SÍÐUSTU DAGA

Hernaður sem á sér ekkert fordæmi. — Matteus 24:7; Opinberunarbókin 6:4.

Hungursneyð. — Matteus 24:7; Opinberunarbókin 6:5, 6, 8.

Drepsóttir. — Lúkas 21:11; Opinberunarbókin 6:8.

Vaxandi lögleysi. — Matteus 24:12.

Eyðing jarðar. — Opinberunarbókin 11:18.

Miklir jarðskjálftar. — Lúkas 21:11.

Örðugir tímar. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

Gegndarlaus fégirni. — 2. Tímóteusarbréf 3:2.

Óhlýðni við foreldra. — 2. Tímóteusarbréf 3:2.

Kærleiksleysi. — 2. Tímóteusarbréf 3:3.

Menn elska munaðarlífið meira en Guð. — 2. Tímóteusarbréf 3:4.

Taumleysi. — 2. Tímóteusarbréf 3:3.

Menn elska ekki það sem gott er. — 2. Tímóteusarbréf 3:3.

Menn gefa ekki gaum að yfirvofandi hættu. — Matteus 24:39.

Spottarar hafna sönnunum um hina síðustu daga. — 2. Pétursbréf 3:3, 4.

Guðsríki prédikað um alla jörðina. — Matteus 24:14.

[Credit lines]

© G.M.B. Akash/Panos Pictures

© Paul Lowe/Panos Pictures

[Mynd á blaðsíðu 9]

Vottar Jehóva eru þekktir fyrir að boða fagnaðarerindið um Guðsríki.