Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna skaða ég sjálfa mig?

Hvers vegna skaða ég sjálfa mig?

Ungt fólk spyr . . .

Hvers vegna skaða ég sjálfa mig?

„Ég skar mig svo illa á úlnliðunum að það þurfti að sauma mig. Ég sagði lækninum að ég hefði skorið mig á ljósaperu, sem var alveg satt, en ég sagði honum bara ekki að ég hefði gert það viljandi.“ — Sasha, 23 ára.

„Foreldrar mínir hafa tekið eftir skurðunum en bara þeim sem eru ekki svo djúpir og líta út eins og rispur. . . . Stundum sjá þau skurð sem þau kannast ekki við svo að þá verð ég að finna einhverja afsökun. . . . Ég vil ekki að þau viti sannleikann.“ — Ariel, 13 ára.

„Ég stundaði sjálfsmeiðingar frá 11 ára aldri. Ég vissi hversu mikils Guð metur mannslíkamann en það var samt ekki nóg til að stoppa mig.“ — Jennifer, 20 ára.

ÞÚ ÞEKKIR ef til vill einhvern eins og Söshu, Ariel eða Jennifer. * Kannski er það einhver í skólanum. Kannski er það systkin. Kannski ert það þú. Í Bandaríkjunum einum er talið að milljónir manna — þar á meðal margir unglingar — skaði sjálfa sig viljandi á ýmsan hátt til dæmis með því að skera sig, brenna, merja eða klóra. *

Meiðir fólk sig viljandi? Hér áður fyrr hefðu margir tengt slíka hegðun við einhverja furðulega tísku eða trúarreglu. En á undanförnum árum hefur þekking aukist mikið á sjálfsmeiðingum — sem eru líka stundum kallaðar sjálfsmisþyrming eða sjálfsskaði. Sömuleiðis hefur þeim fjölgað sem hafa viðurkennt að þeir eigi við þetta vandamál að stríða. „Allir sérfræðingar tala um að þetta sé að aukast,“ segir Michael Hollander, yfirmaður meðferðarstofnunar í Bandaríkjunum.

Sjálfsmeiðingar leiða sjaldan til dauða en eru samt hættulegar. Taktu eftir hvað Beth segir: „Þegar ég skaða sjálfa mig nota ég rakvélarblað. Það hefur tvisvar þurft að leggja mig inn á spítala. Einu sinni þurfti ég að fara á bráðamóttökuna út af djúpum skurði.“ Líkt og margir með þetta vandamál hefur Beth haldið þessu áfram þó að hún sé orðin fullorðin. „Ég hef stundað þetta síðan ég var 15 ára og núna er ég þrítug,“ segir hún.

Ert þú eða einhver sem þú þekkir fastur í vítahring sjálfsmeiðinga? Örvæntu ekki. Það er hægt að fá hjálp. Í næsta tölublaði af Vaknið! munum við ræða hvernig hægt er að hjálpa þeim sem stunda sjálfsmeiðingar. * En fyrst gæti verið gagnlegt að athuga nánar hvers konar fólk er haldið þessari áráttu og hvers vegna það gerir þetta.

Fjölbreyttur hópur

Það er erfitt að setja alla þá sem stunda sjálfsmeiðingar undir einn hatt. Sumir koma úr fjölskyldum með mörg vandamál, aðrir af fyrirmyndarheimilum. Sumum gengur illa í skóla en aðrir eru afburðarnemendur. Þeir sem skaða sjálfa sig bera það sjaldan með sér að þeir búi við þetta vandamál því það sést ekki alltaf utan á fólki þó að því líði illa. Biblían segir: „Jafnvel þótt hlegið sé, kennir hjartað til.“ — Orðskviðirnir 14:13.

Svo er líka mjög misjafnt hversu alvarlegar sjálfsmeiðingarnar eru. Ein rannsókn sýndi til dæmis að sumir skera sig einu sinni á ári en aðrir að meðaltali tvisvar á dag. Það er athyglisvert að fleiri karlmenn veita sjálfum sér áverka en áður var talið. Þetta vandamál er samt algengast hjá unglingsstúlkum.

Þrátt fyrir mismunandi bakgrunn eiga þeir sem skera sig margt sameiginlegt. Ein alfræðibók um unglinga segir: „Unglingar sem skaða sjálfa sig eru oft fullir vanmáttarkenndar og eiga erfitt með að treysta öðrum fyrir tilfinningum sínum. Þeim finnst þeir einangraðir eða skildir út undan, eru óttaslegnir og hafa lítið sjálfsmat.“

Auðvitað má segja að þessi lýsing geti átt við nánast hvaða ungling sem finnur fyrir óttanum og óörygginu sem fylgir því að fullorðnast. En hjá þeim sem stunda sjálfsmeiðingar er þessi barátta sérstaklega erfið. Þegar maður getur ekki tjáð vanlíðan sína í orðum og trúað vini sínum fyrir því getur álagið í skólanum, kröfur í vinnunni eða árekstrar innan fjölskyldunnar orðið yfirþyrmandi. Maður finnur enga lausn og hefur engan til að tala við. Spennan verður óbærileg. En svo uppgötvar maður að með því að meiða sjálfan sig dregur maður úr tilfinningakvölinni og getur haldið áfram með lífið — að minnsta kosti um stund.

En hvers vegna að grípa til líkamlegs sársauka til að minnka tilfinningalegan sársauka? Tökum dæmi. Hvað gerirðu þegar þú þarft að fá sprautu hjá lækninum? Hefurðu einhvern tíma gripið til þess ráðs að klípa í þig eða þrýsta nöglunum inn í húðina og draga þannig athyglina frá sviðanum undan nálinni? Þetta svipar til þess sem gerist hjá þeim sem stunda sjálfsmeiðingar þó að það sé á mun alvarlegra stigi. Sársaukinn frá skurðunum veitir ákveðinn létti og dregur athyglina frá sálarkvölinni sem er svo mikil að þeim finnst líkamlegur sársauki betri. Það er kannski þess vegna sem ein stúlka sagði að það að skera sig væri eins og „lyf gegn óttanum“.

„Aðferð til að glíma við álag“

Þeir sem þekkja ekki þessa áráttu líta kannski á þessa hegðun sem tilraun til sjálfsvígs. En það er yfirleitt ekki svo. „Almennt séð er þetta fólk einungis að reyna að lina sársaukann, ekki enda líf sitt,“ skrifar Sabrina Solin Weill, ritstjóri unglingatímarits. Þess vegna segir í einni heimild að sjálfsmeiðingar séu „leið til að halda lífi frekar en til að binda enda á það“. Þar er líka talað um þetta sem „aðferð til að glíma við álag“. Hvers konar álag?

Það hefur komið í ljós að margir sem skaða sjálfa sig hafa orðið fyrir einhvers konar sálrænu áfalli, til dæmis fengið illa meðferð í æsku eða verið vanræktir. Hjá öðrum eru það átök innan fjölskyldunnar eða áfengisvandamál hjá foreldri. Hjá sumum getur verið um geðræn vandamál að ræða.

Önnur vandamál gætu líka komið við sögu. Til dæmis var Sara haldin því sem hún kallaði skaðlega fullkomnunaráráttu. Þótt hún hefði fengið hjálp frá safnaðaröldungum eftir að hafa gert alvarleg mistök var hún stöðugt með samviskubit yfir mannlegum ófullkomleika sínum. „Mér fannst ég þurfa að beita mig hörku,“ segir Sara. „Sjálfsmeiðingar voru aðeins sjálfsagi í mínum huga. Þessi sjálfsagi fól í sér að reyta af mér hárið, skera í úlnliðina og handleggina og lemja sjálfa mig svo ég marðist. Ég refsaði mér líka með því að halda höndunum undir brennandi heitri vatnsbunu, sat úlpulaus úti í nístingskulda eða neitaði mér um mat í heilan dag.“

Hjá Söru endurspegluðu sjálfsmeiðingarnar mikla sjálfsfyrirlitningu. „Stundum vissi ég að Jehóva hefði fyrirgefið mér mistök mín,“ segir hún, „en ég vildi ekki að hann gerði það. Ég vildi þjást vegna þess að ég hataði sjálfa mig svo mikið. Þó að ég vissi að Jehóva gæti aldrei búið til kvalarstað eins og helvíti vildi ég að hann byggi til slíkan stað bara fyrir mig.“

Erfiðir tímar

Sumir velta því kannski fyrir sér hvers vegna slík hegðun hafi aðeins litið dagsins ljós á undanförnum áratugum. Þeir sem hafa rannsakað Biblíuna vita hins vegar að við lifum á ‚örðugum tíðum‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þess vegna kemur það þeim ekki á óvart að fólk — líka ungt fólk — taki upp hegðun sem erfitt er að skilja.

Biblían segir: „Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja.“ (Prédikarinn 7:7) Unglingsárunum fylgja ýmis vandamál og stundum bætist ofan á það erfið lífreynsla. Þetta getur leitt til skaðlegrar hegðunar eins og sjálfsmeiðinga. Þegar unglingum finnst þeir vera einangraðir eða hafa engan til að tala við gætu þeir gripið til sjálfsmeiðinga. En það er mjög skammvinn lausn. Fyrr eða síðar blasa vandamálin aftur við og sömuleiðis sjálfsmeiðingarnar.

Yfirleitt vilja þeir sem stunda sjálfsmeiðingar hætta því en finnst það mjög erfitt. Hvernig hefur sumum tekist að losa sig við þessa áráttu? Um það verður rætt í greininni „Ungt fólk spyr . . . hvernig get ég hætt að skaða sjálfa mig“ sem birtist í Vaknið! í apríl-júní 2006.

[Neðanmáls]

^ Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ Hér er ekki verið að tala um það þegar fólk lætur gera göt í eyrun eða annars staðar eða fær sér húðflúr. Almennt tengist slíkt meira tísku en áráttu. Sjá Vaknið! á ensku, 8. ágúst 2000, bls. 18-19.

^ Þriðja Mósebók 19:28 segir: „Þér skuluð eigi skera skurði í hold yðar fyrir sakir dauðs manns.“ Þessi heiðni siður átti að friða guðina sem taldir voru ráða yfir hinum dauðu. Þetta er ekki það sama og þær sjálfsmeiðingar sem hér eru til umfjöllunar.

TIL UMHUGSUNAR

◼ Hvers vegna grípur sumt ungt fólk til sjálfsmeiðinga?

◼ Hafa þér dottið í hug betri leiðir til að takast á við erfiðar tilfinningar eftir að hafa lesið þessa grein?

[Innskot á blaðsíðu 11]

„Jafnvel þótt hlegið sé, kennir hjartað til.“ — Orðskviðirnir 14:13.

[Innskot á blaðsíðu 11]

„Almennt séð er þetta fólk einungis að reyna að lina sársaukann, ekki enda líf sitt.“

[Innskot á blaðsíðu 12]

Við lifum á erfiðum tímum. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.