Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mygla — til gagns og ógagns

Mygla — til gagns og ógagns

Mygla — til gagns og ógagns

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í SVÍÞJÓÐ

Sumir myglusveppir bjarga mannslífum, aðrir eru lífshættulegir. Sumir bragðbæta osta og vín, aðrir eitra matvæli. Sumir vaxa á trjábolum, aðrir herja á bækur og baðherbergi. Mygla er hreinlega alls staðar. Kannski ertu meira að segja að anda að þér myglugrói með loftinu um leið og þú lest þessar línur.

EF ÞÚ ert í einhverjum vafa um að það sé mygla allt í kringum þig skaltu bara láta brauðsneið liggja einhvers staðar um tíma, jafnvel í ísskápnum. Áður en langt um líður er hún komin með loðna kápu — já, hún er farin að mygla!

Hvað er mygla?

Mygla tilheyrir svepparíkinu sem státar af meira en 100.000 tegundum. Má þar nefna plöntumyglu, ætisveppi, ryðsveppi og gersveppi. Það eru ekki nema um 100 tegundir sveppa sem vitað er til að valdi sjúkdómum í mönnum og dýrum. Margir aðrir gegna mikilvægu hlutverki í fæðukeðjunni. Þeir nærast á dauðum jurta- og dýraleifum og endurvinna ýmis efni í það form sem jurtir geta notað. Sumir sveppir lifa samlífi við jurtir og auðvelda þeim að vinna næringarefni úr jarðveginum. Og sumir lifa sníkjulífi.

Sveppir hefja tilveru sína sem smásæ gró. Þau berast með vindi og lendi þau einhvers staðar þar sem þau finna meðal annars næringarefni og heppilegt hita- og rakastig spírar gróið og skýtur út sveppaþráðum. Þræðirnir mynda síðan samofið net eða flækju en það er myglan sem við sjáum. Myglan líkist stundum óhreinindum og myndar bletti, til dæmis í fúgum milli flísa í baðherberginu.

Myglusveppir kunna sannarlega að fjölga sér. Venjuleg mygluskán á brauði (Rhizopus stolonifer) er þakin örsmáum svörtum deplum. Þetta eru gróhirslurnar. Í einum depli eru meira en 50.000 gró og hvert gró getur myndað hundruð milljóna af nýjum gróum á fáeinum dögum. Við rétt skilyrði þrífst myglan jafn vel á bók, í stígvéli, á veggfóðri og á trjábol úti í skógi.

Hvernig nærast myglusveppir? Menn og dýr byrja á því að innbyrða fæðuna og melta hana síðan til að vinna næringarefnin úr henni, en myglusveppirnir snúa ferlinu oft við. Þegar lífræn sameind er of stór eða flókin til að myglusveppurinn geti innbyrt hana gefur hann frá sér meltingarensím sem kljúfa sameindina niður í smærri einingar sem sveppurinn getur nærst á. Og þar sem myglusveppir geta ekki flutt sig stað úr stað í fæðuleit þurfa þeir að lifa á fæðunni eða í henni.

Myglusveppir geta myndað eiturefni sem geta verið skaðleg bæði mönnum og dýrum ef þau berast í öndunarveg, ef þeirra er neytt eða þau komast í snertingu við húð. En myglusveppir eru ekki alslæmir því að þeir þjóna einnig ýmsum gagnlegum tilgangi.

Myglusveppir gera gagn

Vísindamaðurinn Alexander Fleming uppgötvaði fyrir tilviljun árið 1928 að grænmygla hafði sýklaeyðandi áhrif. Um var að ræða penisillínsveppinn (Penicillium notatum) sem reyndist drepa bakteríur en var skaðlaus mönnum og dýrum. Uppgötvun Flemings leiddi til þess að mönnum tókst að framleiða sýklalyfið penisillín en það er sagt hafa „bjargað fleiri mannslífum en nokkurt annað læknislyf okkar daga“. Fleming og samstarfsmönnum hans, þeim Howard Florey og Ernst Chain, voru veitt nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1945 fyrir starf sitt. Síðan þetta gerðist hafa verið unnin mörg önnur læknislyf úr sveppum, þeirra á meðal lyf sem leysa upp blóðkökk og lyf við mígreni og Parkinsonsveiki.

Myglusveppir geta líka glatt bragðlaukana. Tökum osta sem dæmi. Vissirðu að Brie, Camembert, Gorgonzola, gráðaostur, Roquefort og Stilton eiga bragð sitt að þakka ákveðnum afbrigðum af penisillínsveppnum? Og það er sveppum að þakka að til eru spægipylsa, sojasósa og bjór.

Hið sama er að segja um vín. Þegar vínþrúgur af vissri tegund eru tíndar á réttum tíma og með réttu magni gersveppa á hverjum klasa geta sveppirnir myndað afbragðsgóð borðvín. Þrúgumygla (Botrytis cinerea), stundum kölluð „eðalmygla“, verkar á sykrur í þrúgunum og bætir bragð vínsins. Sveppurinn Cladosporium cellare fullkomnar svo verkið í vínkjallaranum meðan vínið er að þroskast. „Eðalmygla myndar eðalvín,“ svo vitnað sé í málshátt sem ungverskir vínbændur eiga sér.

Myglusveppir gera líka ógagn

Um aldaraðir hafa menn vitað að vissir myglusveppir geta verið skaðlegir. Assýringar notuðu korndrjóla (Claviceps purpurea) á sjöttu öld f.Kr. til að eitra vatnsból óvina sinna. Þetta var nokkurs konar sýklahernaður. Þessi sami sveppur leggst stundum á rúg og á miðöldum olli hann flogaveikiköstum, brunatilfinningu, drepi í holdi og ofskynjunum hjá fólki. Nú á tímum er sjúkdómurinn kallaður korndrjólaeitrun en á öldum áður var hann stundum nefndur Antoníusareldur. Nafnið kom til af því að margir vonuðust eftir kraftaverkalækningu ef þeir færu í pílagrímsför til helgidóms heilags Antoníusar í Frakklandi.

Sterkasti krabbameinsvaldur, sem vitað er um, er aflatoxín en það er eiturefni sem myndast af völdum sveppa. Talið er að á ári hverju verði aflatoxín 20.000 manns að bana í einu af löndum Asíu. Þetta banvæna efni hefur verið notað í sýklavopn á okkar dögum.

Dags daglega er þó sjaldgæft að mygla ógni heilsu manna þótt hún sé stöku sinnum til ama. „Mygla er sjaldan skaðleg, jafnvel þó að maður finni myglulykt,“ segir í UC Berkeley Wellness Letter. Það er helst fólk með lungnasjúkdóma eins og asma sem þolir ekki myglu, svo og fólk sem er með ofnæmi, er viðkvæmt fyrir ýmsum efnasamböndum eða er með veiklað ónæmiskerfi. Hið sama er að segja um bændur og landbúnaðarverkamenn sem verða fyrir mikilli sveppamengun. Ungbörn og gamalmenni geta sömuleiðis verið viðkvæm fyrir sveppamengun.

Að sögn heilbrigðisráðuneytis Kaliforníuríkis geta sveppir og mygla valdið ýmiss konar kvillum í öndunarfærum. Nefna má öndunarerfiðleika og sogandi andardrátt. Menn geta orðið andstuttir, fengið stíflur í nef og ennisholur, ertingu í augu (sviða, rauð augu og rennsli úr augum), þurran og harðan hósta, særindi í nef og háls, útbrot og ertingu í húð.

Mygla í húsum

Það er nokkuð algengt í sumum löndum að loka þurfi skólum eða að fólk þurfi að yfirgefa heimili eða vinnustaði til að hægt sé að ráða bót á myglu og fúkka. Snemma árs 2002 þurfti að loka Nútímalistasafninu í Stokkhólmi vegna mygluskemmda og var húsið þó splunkunýtt. Endurbæturnar kostuðu hátt í 400 milljónir króna. Af hverju er þetta vandamál orðið algengara í seinni tíð?

Ástæðurnar eru aðallega tvær — byggingarefni og hönnun húsa. Á síðustu áratugum hafa menn í vaxandi mæli farið að nota byggingarefni sem eru viðkvæm fyrir myglu. Nefna má gifsplötur sem eru oft gerðar úr nokkrum pappírslögum sem eru límd utan á þéttan massa úr gifsi. Gifsið heldur í sér raka og ef rakinn er í efninu um tíma geta myglugró spírað og myglusveppurinn nærist þá á pappírnum utan á plötunum.

Hönnun húsa hefur einnig tekið breytingum. Fram undir áttunda áratug síðustu aldar var algengt að hús í Bandaríkjunum og víðar væru ekki einangruð jafn vel og nú er gert. Þegar þetta breyttist og menn fóru að leitast við að spara orku var farið að einangra húsin betur og gera þau þéttari til að draga úr varmaskiptum í heitu eða köldu veðri. Komist raki í slíkt hús er hann lengi að þorna og það ýtir undir myglu. Hvað er til ráða?

Besta leiðin til að koma í veg fyrir myglu, eða að minnsta kosti að halda henni í lágmarki, er að halda öllu hreinu og þurru innanhúss og vera með lágt rakastig. Ef raki safnast fyrir einhvers staðar þarf að þurrka hann upp sem fyrst og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hann myndist ekki á ný. Það er til dæmis góð regla að halda þakinu vel við og hreinsa þakrennur eftir þörfum. Og gott er að það sé réttur vatnshalli við húsið og gerðar ráðstafanir til að leiða vatn frá grunninum. Í húsum með loftkælingu þarf að gæta þess að halda uppgufunarbakka og afrennslispípum hreinum.

Til að forðast myglu er mikilvægt að forðast raka. Með einföldum aðgerðum er að öllum líkindum hægt að forða sjálfum sér og fjölskyldunni frá því að kynnast óæskilegum hliðum myglusveppa. Mygla er að sumu leyti eins og eldur. Hún getur valdið tjóni en hún getur líka gert gríðarlegt gagn ef við notum hana rétt og höfum stjórn á henni. Við eigum auðvitað margt ólært um myglu og sveppi. En þekking á sköpunarverkum Guðs er okkur alltaf til góðs.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 14, 15]

ER MINNST Á MYGLU Í BIBLÍUNNI?

Í Biblíunni er talað um „líkþrárskellu“ á húsi. (3. Mósebók 14:34-48) Menn hafa getið sér þess til að þetta fyrirbæri, sem er einnig nefnt „skæð líkþrá“, hafi verið mygla af einhverju tagi þó að ekki sé hægt að slá því föstu. Hvað sem þarna var á ferðinni áttu húseigendur að fjarlægja sýkta steina, skafa allt húsið að innan og fara með efnið á „óhreinan stað“ utan borgar. Ef skellan braust út á nýjan leik átti að lýsa húsið óhreint, rífa það og farga efninu. Ítarleg fyrirmæli Jehóva eru til vitnis um ríka umhyggju hans fyrir fólki sínu og velferð þess.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Lyf unnin úr myglu hafa bjargað ótal mannslífum.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Gifsplötur og vínylhúðað veggfóður geta lokað inni raka en það er ávísun á myglu.