Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stutt ágrip af sögu purpurans

Stutt ágrip af sögu purpurans

Stutt ágrip af sögu purpurans

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í MEXÍKÓ

„Þú mannsson, hef upp harmljóð um Týrus. . . . Glitofið lín frá Egyptalandi var það, sem þú breiddir út, til þess að hafa það að veifu. Tjöld þín voru úr bláum og rauðum purpura frá Elísaströndum. . . . Þeir versluðu við þig með skartklæði.“ — Esekíel 27:2, 7, 24.

TÝRUS var aðalhafnarborgin í Fönikíu til forna á landsvæði því sem nú nefnist Líbanon. Verslun með purpuralituð efni stóð í blóma hjá Týrverjum. Í Rómaveldi var þessi skæri litur reyndar kenndur við borgina og nefndur týrusarpurpuri.

Farið var að tengja purpuralitinn við kóngafólk, virðingu og ríkidæmi vegna þess hve dýr hann var. * Samkvæmt keisaralegri tilskipan í Rómaborg til forna var „venjulegur“ maður álitinn föðurlandssvikari ef hann vogaði sér að klæðast skikkju úr fínasta purpura.

Allt fram á okkar daga hefur þetta sérstaka litarefni verið unnið í litlum mæli úr sjávarsniglum — einn dropi úr hverjum snigli. Týrverjar notuðu purpurasnigla, sérstaklega tegundirnar brandaris og trunculus, en þeir finnast á ýmsum stöðum við strendur Miðjarðarhafsins. Hægt var að fá mismunandi litbrigði eftir því hvar sniglunum var safnað.

Söguslóðin rakin í Mexíkó

Þegar spænskum sigurvegurum í Suður-Ameríku voru fyrst sýnd purpuralituð efni dáðust þeir að því hve liturinn hélt sér vel. Þeir tóku eftir því að gæði litarins virtust aukast þegar efnin voru þvegin. Fornleifauppgröftur gefur til kynna að innfæddir hafi klæðst ýmiss konar purpuralituðum fatnaði.

Frumbyggjar Mexíkó, sérstaklega Mixtekar, lituðu vefnað sinn með litarefni úr sniglategundinni Purpura patula pansa en hún er skyld snigli sem Týrverjar notuðu í sama tilgangi. Báðar tegundirnar gefa frá sér fölleitt efni sem verður purpurarautt þegar það kemst í snertingu við andrúmsloft og dagsljós. Litarefnið gefur trefjunum lit án þess að þörf sé á hjálparefni til að festa litinn en það er einstakur eiginleiki meðal litarefna.

Mixtekarnir sóttu purpurasniglana í Kyrrahafið. Týrverjar og Rómverjar drápu sniglana og haugur af tómum skeljum hefur reyndar fundist frá þessum tímum. En Mixtekarnir „mjólkuðu“ eingöngu sniglana. Þegar blásið var á snigilinn gaf hann frá sér dýrmætan vökva sem var látinn drjúpa beint á trefjarnar. Síðan var sniglinum skilað aftur til sjávar. Innfæddir „mjólkuðu“ ekki sniglana meðan á æxlunartímanum stóð. Með þessari aðferð hefur sniglastofninn verið varðveittur fram á þennan dag.

Allt fram á 9. áratug 20. aldar ferðuðust litunarmenn Mixteka 200 kílómetra leið til Huatulcoflóanna á tímabilinu október til mars til þess að ná í purpura, eins og fram kemur í upplýsingum frá nefnd um þekkingu og nýtingu á lífríkinu. Vistfræðilegt jafnvægi hélst með því að nota þessa aðferð þótt röskun hafi átt sér stað á árunum 1981 til 1985 þegar erlent fyrirtæki fór að notfæra sér þessa auðlind. Afleiðingarnar urðu þær að stofn purpurasnigilsins minnkaði verulega. Það varð til þess að gert var opinbert samkomulag um að banna dráp þessara snigla og leyfa aðeins innfæddum að nýta þá á þann hátt sem þeir höfðu gert.

Purpurasniglinum stendur engu að síður ógn af vaxandi ferðaþjónustu í flóunum þar sem hann lifir. Samt vona margir að þetta heillandi skeldýr verði varðveitt og haldi áfram að sjá okkur fyrir þessum fagra lit.

[Neðanmáls]

^ Purpuraliturinn, sem er í raun sambland af bláu og rauðu, spannar nokkur blæbrigði frá fjólubláum lit út í dökkrauðan. Til forna var hugtakið purpuri einnig notað um djúprauðan lit.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Purpurasnigillinn.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Snigillinn er „mjólkaður“ og honum síðan skilað aftur í sjóinn.

[Credit line]

© FULVIO ECCARDI

[Mynd á blaðsíðu 16, 17]

Purpuralitað garn tilbúið í vefnað.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Verið að vefa „posahuanco“ (pils).