Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Til lesenda

Til lesenda

Til lesenda

MEÐ þessu tölublaði eru gerðar ýmsar breytingar á útgáfu tímaritsins Vaknið! Margt verður þó með sama sniði og verið hefur.

Vaknið! er enn sem fyrr helgað því markmiði sem það hefur haft um áratuga skeið. Eins og fram kemur á bls. 4 er Vaknið! „fræðandi tímarit fyrir alla fjölskylduna“. Blaðið mun halda áfram að varpa ljósi á heimsmálin, segja frá menningu fólks víða um lönd, lýsa undrum sköpunarverksins, ræða um heilbrigðismál og fjalla um vísindi á aðgengilegan hátt fyrir fólk sem er ekki sérmenntað í vísindum. Blaðinu er ætlað að upplýsa og fræða lesendur um umheiminn eins og verið hefur fram til þessa.

„Tryggð við sannleikann verður æðsta markmið þessa tímarits,“ sagði í Vaknið! 22. ágúst 1946. Blaðið hefur alla tíð kappkostað að veita lesendum sínum áreiðanlegar upplýsingar. Að baki hverri grein liggur vönduð heimildaleit og rannsóknarvinna. En tímaritið hefur sýnt „tryggð við sannleikann“ í enn mikilvægari skilningi.

Vaknið! hefur alla tíð leitast við að beina athygli lesenda að Biblíunni, en frá og með þessu tölublaði verður enn meira af biblíutengdu efni í blaðinu. (Jóhannes 17:17) Áfram verða birtar greinar sem benda á hvernig hin gagnlegu ráð Biblíunnar geta hjálpað okkur að vera gæfusöm og farsæl í lífinu. Greinaflokkunum „Ungt fólk spyr . . .“ og „Sjónarmið Biblíunnar“ verður fram haldið svo dæmi sé tekið, og þar verður áfram að finna ýmiss konar biblíulegar ráðleggingar. Vaknið! mun sem fyrr benda lesendum á loforð Biblíunnar um nýjan, friðsælan heim sem tekur við innan tíðar þegar sá illi heimur, sem nú er, líður undir lok. — Opinberunarbókin 21:3, 4.

Blaðið er gefið út á 82 tungumálum um þessar mundir. Sú breyting verður nú á útgáfunni að héðan í frá kemur blaðið út einu sinni í mánuði í stað tvisvar á flestum þeirra. Engin breyting verður þó á útgáfutíðni íslenska blaðsins. Það kemur út á þriggja mánaða fresti eins og verið hefur. Greinaflokkurinn „Horft á heiminn“ hefur verið í blaðinu síðan 1946 og verður áfram á sínum stað en nýr þáttur hefur göngu sína á bls. 31 í flestum erlendum útgáfum. Hann nefnist „How Would You Answer?“ eða ‚Hvert er svarið?‘

Að hluta til er þessum nýja þætti ætlað að höfða til ungra lesenda, og að hluta til á hann að höfða til fólks sem er vel lesið í Biblíunni. Þar er dálkur með sögulegum spurningum þar sem hugmyndin er sú að raða persónum og atburðum biblíusögunnar í tímaröð. Svörin við flestum spurningunum er að finna á tilgreindri blaðsíðu í sama tölublaði. Í öðrum dálki eru spurningar um efni víðsvegar úr blaðinu. Það gæti verið góð hugmynd að grúska dálítið áður en maður flettir upp á svörunum og segja síðan öðrum frá því sem maður hefur lært. Og fjölskyldur og vinahópar geta eflaust nýtt sér þetta efni til að stuðla að umræðum um biblíutengt efni.

Fyrir hér um bil 60 árum stóð í Vaknið!: „Blaðið mun leitast við að fjalla um mál frá alþjóðlegum sjónarhóli frekar en staðbundnum. Það ætti að vekja áhuga allra einlægra manna hvar sem er í heimi. . . . Efni og efnisval blaðsins . . . verður fræðandi og áhugavert jafnt fyrir unga sem aldna.“ Lesendur Vaknið! um heim allan eru sammála um að blaðið hafi efnt þetta loforð. Við heitum því að halda áfram á sömu braut.

Útgefendur

[Myndir á blaðsíðu 3]

Árið 1919 nefndist blaðið „The Golden Age“, nafninu var breytt í „Consolation“ árið 1937 og í „Awake!“ árið 1946.

[Myndir á blaðsíðu 4]

„Vaknið!“ hefur alla tíð beint athygli lesenda að Biblíunni.

[Credit lines]

Byssur: U.S. National Archives photo; sveltandi barn: WHO. Ljósmynd: W. Cutting