Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Velkominn í söfnuð Jehóva“

„Velkominn í söfnuð Jehóva“

„Velkominn í söfnuð Jehóva“

Fjölskylda nokkur í Finnlandi, sem hafði sótt samkomur Votta Jehóva um tíma, varð fyrir andstöðu úr ýmsum áttum. „Þeir hafa af ykkur peningana,“ sagði fólk í viðvörunarskyni. Aðrir sögðu: „Þið missið heimili ykkar.“ Nótt eina kviknaði í miðstöðvarskúrnum við hús fjölskyldunnar og eldurinn olli stórskemmdum. Þetta var tilfinnanlegt tjón í köldu loftslagi norðurslóða.

Tryggingarféð dugði tæplega fyrir viðgerðarefni. Eldsvoðinn virtist renna stoðum undir óheillaspárnar. Fjölskyldufaðirinn minnist þessa andvarpandi og sagði: „Við vorum mjög niðurdregin.“ Hjónin hættu samt sem áður ekki við áform sín um að láta skírast einungis þrem vikum seinna.

Söfnuðurinn á staðnum sá að hér var kjörið tækifæri til að fylgja ráðum Biblíunnar: „Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.“ (1. Jóhannesarbréf 3:18) Trúsystkini fjölskyldunnar ýttu úr vör áætlun um að endurreisa miðstöðvarskúrinn. Deildarskrifstofa Votta Jehóva í Finnlandi sá um að gera verkáætlun. Byggingarteikningar voru gerðar, byggingarleyfi útveguð, listar gerðir yfir efnivið til framkvæmdanna og beiðni um sjálfboðaliða send út.

Um það bil mánuði eftir brunann var unnið af fullum krafti við verkið. Á miðvikudeginum rifu vottarnir í heimasöfnuðinum það sem eftir stóð af skúrnum. Á föstudeginum fór burðargrind nýja skúrsins að líta dagsins ljós með aðstoð votta frá öðrum söfnuðum. Þegar fjölskyldufaðirinn var í bæjarferð hitti hann embættismann sem vildi vita hvort hann hefði varið rústirnar fyrir regni með því að setja yfirbreiðslu á þakið. „Nei, það er ekki yfirbreiðsla á þakinu,“ svaraði faðirinn stoltur, „heldur 30 manns!“

Á laugardeginum unnu tæplega 50 vottar af kappi að byggingunni, glaðir yfir því að geta veitt aðstoð. Nágranni, sem hafði einnig lagt hönd á plóginn, sagði: „Mér varð hugsað til þess í gærkvöldi hvað þið eruð sérstakt fólk. Ykkur er innilega annt hvert um annað og þið hjálpist að.“

Verkinu lauk um kvöldið. Nýi miðstöðvarskúrinn var skýrt andsvar við þeim fordómafullu viðvörunum sem fjölskyldan hafði fengið. Safnaðaröldungur minnist þeirrar stundar þegar hann og fjölskyldufaðirinn stóðu álengdar og virtu fyrir sér árangurinn. Hann segir: „Það var einstök tilfinning að geta tekið utan um herðarnar á nýskírðum bróður okkar og sagt: ‚Velkominn í söfnuð Jehóva.‘“

[Mynd á blaðsíðu 31]

Skemmdirnar

[Mynd á blaðsíðu 31]

Endurbyggingin