Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Baun á ferð um heiminn

Baun á ferð um heiminn

Baun á ferð um heiminn

Frásagan af tryggð ungs manns í garð lítillar kaffiplöntu er „hrífandi kafli í sögunni um útbreiðslu kaffitrésins“ segir í bókinni „All about Coffee“. Þessi litla planta gegndi stóru hlutverki í upphafi kaffiiðnaðarins en hann veltir nú meira en sem svarar 4000 milljörðum króna árlega. Samkvæmt tímaritinu „Scientific American“ er það bara olíuiðnaðurinn sem slær kaffinu við í veltu bandaríkjadollara á heimsvísu.

ÞESSI heillandi frásögn byrjar á hálendi Eþíópíu en þangað á villta kaffiplantan rætur sínar að rekja. Tegundin heitir Coffea arabica og framleiðsla hennar nemur um tveim þriðju af kaffiframleiðslu í heiminum. Það er ekki vitað með vissu hvenær menn áttuðu sig á eiginleikum brenndu baunarinnar. Það er þó vitað að kaffitré voru ræktuð á Arabíuskaganum á 15. öld. Þrátt fyrir að lagt hefði verið blátt bann við því að flytja kaffifræ þaðan komust Hollendingar yfir annaðhvort tré eða fræ árið 1616. Þeir komu fljótlega á fót kaffiekrum á Ceylon, nú Sri Lanka, og Jövu sem er nú hluti af Indónesíu.

Árið 1706 fluttu Hollendingar unga kaffiplöntu frá ekrum sínum á Jövu í grasagarðinn í Amsterdam. Plantan dafnaði vel og afkvæmi hennar voru send til hollenskra nýlendna í Súrínam og á Karíbaeyjum. Árið 1714 gaf borgarstjóri Amsterdam Loðvíki 14. Frakklandskonungi eina plöntu. Konungur lét gróðursetja hana í gróðurhúsi í Jardin des Plantes eða konunglega grasagarðinum í París.

Frakkar vildu ólmir hasla sér völl á kaffimarkaðinum. Þeir keyptu fræ og tré og sendu þau til eyjarinnar Réunion. Ekkert fræjanna spíraði og samkvæmt sumum heimildum dóu með tímanum öll trén nema eitt. Engu að síður var 15.000 fræjum af þessu eina tré sáð árið 1720 og þar með var kaffiræktun Frakka hafin. Trén þóttu svo verðmæt að dauðarefsing lá við ef einhver var fundinn sekur um að eyðileggja svo mikið sem eitt þeirra. Frakkar vonuðust líka til að geta hafið kaffirækt á Karíbaeyjum en fyrstu tvær tilraunirnar runnu út í sandinn.

Gabriel Mathieu de Clieu var franskur sjóliðsforingi. Þegar hann var í leyfi í París einsetti hann sér að taka með sér kaffiplöntu heim á landareign sína á eyjunni Martiník. Í maí 1723 sigldi hann af stað með afkvæmi Parísartrésins.

Í bókinni All About Coffee segir að de Clieu hafi geymt plöntuna í kassa sem var að hluta til úr gleri til að hún gæti drukkið í sig sólargeislana og haldið hita ef veður var þungbúið. Samferðamaður de Clieu, sem var trúlega öfundsjúkur út í hann og vildi ekki að hann nyti frægðar og frama, reyndi að ná plöntunni af honum með valdi en án árangurs. Tréð lifði það af og það lifði líka af bardaga við sjóræningja frá Túnis og mikið óveður. En það hættulegasta af öllu var vatnsskortur þegar skipið sigldi inn í lognbelti og komst ekki áfram. De Clieu skrifar sjálfur: „Vatnsskorturinn var svo mikill að í meira en mánuð neyddist ég til að deila fátæklegum vatnsskammti mínum með plöntunni sem ég batt svo miklar vonir við og sem veitti mér svo mikla ánægju.“

De Clieu uppskar laun erfiðis síns. Hann kom plöntunni heilli til Martiník þar sem hún þreifst og fjölgaði sér í hitabeltisloftslaginu. Gordon Wrigley skrifar í bókinni Coffee: „Öll lönd í Ameríku, nema Brasilía, Franska Gvæjana og Súrínam, fengu beint eða óbeint fræ frá þessari einu plöntu á Martiník.“

Í Brasilíu og Frönsku Gvæjana vildu menn líka rækta kaffitré. Hollendingar áttu afkvæmi Amsterdamtrésins í Súrínam en þeir gættu þeirra vel. Árið 1722 komust yfirvöld í Frönsku Gvæjana hins vegar yfir kaffifræ frá glæpamanni sem hafði strokið til Súrínam og stolið þeim. Yfirvöld í Frönsku Gvæjana féllust á að náða hann í skiptum fyrir fræin og var hann fyrir vikið látinn laus og sendur aftur til síns heima.

Menn reyndu einnig ýmsar lævísar aðferðir til að koma kaffifræjum til Brasilíu en án árangurs. En þegar landamæradeilur komu upp milli Súrínam og Frönsku Gvæjana voru Brasilíumenn fengnir til að miðla málum. Þeir sendu yfirmann úr hernum að nafni Fransisco de Melo Palheta til Frönsku Gvæjana með fyrirmæli um að koma á sáttum og hafa með sér kaffiplöntur heim.

Sáttaumleitanirnar gengu eins og í sögu og landsstjórinn hélt kveðjuhóf til heiðurs Palheta. Til að sýna þessum heiðursgesti sérstakan þakklætisvott færði eiginkona landsstjórans Palheta fallegan blómvönd að gjöf. En í blómvendinum voru falin kaffifræ og græðlingar. Það má því með sanni segja að kaffiiðnaður Brasilíumanna, sem hófst árið 1727 og veltir nú milljörðum, hafi átt upphaf sitt í blómvendi.

Tréð unga, sem var flutt frá Jövu til Amsterdam árið 1706 og afkvæmi þess í París, eru því grunnurinn að allri kaffirækt í Mið- og Suður-Ameríku. Gordon Wrigley segir: „Þar af leiðandi er erfðamengi arabica-kaffitrésins mjög þröngt.“

Meira en 25 milljónir fjölskyldna starfrækja kaffiekrur í um 80 löndum. Áætlað er að um 15 milljarðar kaffitrjáa gefi af sér kaffið sem þarf í þá 2,25 milljarða kaffibolla sem menn drekka samanlagt á hverjum degi.

Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að offramleiðsla á kaffi er orðið vandamál. Stjórnmál, efnahagsmál og valdamiklir einokunarhringir flækja málið enn frekar og víða eru því kaffibændur orðnir fátækir eða blásnauðir. Já, staðan er ótrúleg ef haft er í huga að de Clieu þurfti að deila dýrmætum vatnsskammti sínum með litilli kaffiplöntu fyrir um 300 árum.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 12]

TVÆR ALGENGUSTU KAFFITEGUNDIRNAR

Tímaritið Scientific American segir: „Óunnar kaffibaunir eru í raun fræ plöntu sem tilheyrir ættinni Rubiaceae en í henni eru að minnsta kosti 66 afbrigði af tegundinni Coffea. Yfirleitt eru tvö afbrigði notuð en þau eru Coffea arabica, sem nemur um tveim þriðju af heimsframleiðslunni, og C[offea] canephora eða robusta-kaffi, sem er um þriðjungur framleiðslunnar.“

Robusta-kaffið er frekar sterkt með hrjúfan ilm og er yfirleitt notað í skyndikaffi. Tréð gefur af sér mikla uppskeru og er sjúkdómsþolið. Það getur orðið um 12 metrar á hæð sem er helmingi hærra en ósnyrt arabica-tréð sem er viðkvæmara og gefur minna af sér. Robusta-baunin hefur 2,8 prósent koffein miðað við þyngd en arabica-baunin fer aldrei yfir 1,5 prósent. Þótt arabica hafi 44 litninga en robusta og aðrar villtar kaffiplöntur 22 litninga hafa sumar plöntur verið víxlfrjóvgaðar og ný afbrigði mynduð.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 12]

SOPINN SKÍRÐUR

Þegar kaffið kom fyrst til Evrópu á 17. öld töldu sumir prestar það samsuðu frá Satan. Þeir litu á það sem mögulegan staðgengil fyrir vín sem Kristur hafði blessað, eins og þeir skildu það. Bókin Coffee segir að samkvæmt sögunni hafi Klementíus páfi 8. fengið sér sopa og skipt samstundis um skoðun. Hann leysti úr trúarvandanum með því að skíra sopann táknrænt og gefa þannig kaþólikkum leyfi til að drekka hann.

[Skýringarmynd/kort á blaðsíðu 10, 11]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

HVERNIG KAFFIÐ DREIFÐIST

1. 15. öld Arabica kaffi er ræktað á Arabíuskaganum.

2. 1616 Hollendingar verða sér úti um kaffitré eða fræ.

3. 1699 Hollendingar flytja tré til Jövu og annarra eyja í Austur-Indíum.

4. 18. öld Kaffi er ræktað í Mið-Ameríku og á Karíbaeyjum.

5. 1718 Frakkar flytja kaffi til Réunion.

6. 1723 G. M. de Clieu flytur kaffitré frá Frakklandi til Martiník.

7. 19. öld Kaffi er ræktað á Hawaii.

[Credit line]

Heimild: Úr bókinni „Uncommon Grounds“.

[Mynd á blaðsíðu 10, 11]

De Clieu deilir vatnsskammti sínum með kaffiplöntu á leiðinni til Martiník árið 1723.

[Mynd credit line á blaðsíðu 11]

Kort: © 1996 Visual Language; De Clieu: Tea & Coffee Trade Journal.