Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblíusögur úr köldum klaka

Biblíusögur úr köldum klaka

Biblíusögur úr köldum klaka

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í ÞÝSKALANDI

„ALVEG stórkostlegt!“ Þannig lýsti Anja því sem fyrir augu bar. „Það er ótrúlegt hvað er hægt að gera úr þessum efniviði“, bætti Georg við. Þessi ummæli vöktu forvitni okkar og við vorum nokkur sem ákváðum að fara saman til Lübeck í Norður-Þýskalandi til að sjá ísskúlptúrsýninguna Ice World. Stef hennar var „Biblían — frásögur úr Gamla og Nýja testamentinu“.

Við komuna til Lübeck var gamla Holsteinhliðið hulið regnskýjum. Spölkorn þar frá stóð frekar venjulegt sýningartjald. En þegar inn í það var komið tók á móti okkur litríkur, glitrandi heimur úr ís og snjó og hálfgegnsæjar ísstyttur leiftruðu í alls konar litum.

Okkur var strax orðið kalt og við minntumst þess að okkur hafði verið sagt að klæða okkur vel. Þótt tíu stiga frost sé ef til vill ekki mikill kuldi fyrir þá sem búa á norðurslóðum voru sum okkar miður sín yfir því að hafa gleymt bæði treflum og vettlingum. En að sjá litríkar og töfrandi klakastytturnar bætti upp fyrir óþægindin.

Biblíusögur úr klaka

Við sáum engil sem blés í lúður, hann var í skikkju með fíngerðum fellingum. Styttan virtist svífa í lausu lofti yfir snjónum á jörðinni. Nokkrar ísstyttur sýndu mismunandi stig sköpunarinnar, þar með talið sköpun Adams. Þegar áfram var gengið komum við að örkinni hans Nóa. Við brostum þegar við komum auga á flóðhest sem reyndi að ýta félaga sínum inn um dyrnar á örkinni á meðan lítið nagdýr virtist ætla að laumast inn í örkina með því að skríða undir magann á flóðhestinum sem gat sig hvergi hreyft. Skammt þar frá stóð Nói við hliðina á timburstafla úr ís.

Því næst komum við að sviðsetningu úr Edengarðinum af synd Adams og Evu. Við námum síðan staðar við stóra styttu sem við vildum skoða betur. Það var Móse með töflurnar tvær sem boðorðin voru skrifuð á. Hvers vegna vakti hún athygli okkar?

Á ístöflunum stóðu að vísu ekki boðorðin tíu heldur fjórstafanafnið — eiginnafn Guðs, Jehóva. Það gladdi okkur að sjá að nafn Guðs í sinni upprunalegu mynd á hebresku var svona áberandi. Það var jafnvel mynd framan á sýningarbæklingnum af þessari styttu af Móse og fjórstafanafnið var mjög áberandi á miðri myndinni. Við tókum fullt af myndum af þessu. Rétt hjá var stytta af kálfi sem virtist gulllitaður undir ljóskastara. Það minnti okkur á hjáguðadýrkunina sem Ísraelsmenn tóku þátt í skömmu eftir að þeim var bjargað úr Egyptalandi.

Því miður var erfitt að bera kennsl á veggmynd úr snjó af Jakob og Esau og aðra af Jósef og Faraó. Sumar veggmyndirnar höfðu greinilega skemmst eitthvað sem var ekki undarlegt þar sem um 100.000 manns höfðu komið á sýninguna á fyrstu þremur vikunum. Stór veggmynd af Samson var þó heil en þar var hann að ýta um koll súlunum í musteri Filistanna. Á öðrum stað var hægt að sjá hvernig Dalíla lét skera hárlokkana af honum.

Biblíupersónan Davíð var líka með. Annars vegar var stytta af því þegar hann sigraði risann Golíat og hins vegar þegar hann stóðst ekki mátið og laumaðist til að horfa á Batsebu lauga sig. Í öðru horni var dregin upp mynd af fæðingu Jesú og beint á móti var veggmynd af síðustu kvöldmáltíðinni.

Eftir að hafa skoðað allar stytturnar var okkur orðið ískalt. Við fórum því á kaffihús í Holsteinhúsinu við hliðina. Á nokkrum skjám var sýnd heimildarmynd um það hvernig stytturnar voru búnar til.

Hvernig voru stytturnar gerðar?

Fyrst voru 350 tonn af kristaltærum ísblokkum keyrð á staðinn frá Belgíu. Blokkirnar voru um 2 sinnum 1 sinnum 0,6 metrar á stærð og staflað saman eftir því hvernig hver skúlptúr átti að vera. Snjógerðarvélar höfðu framleitt um 200 tonn af snjó og blásið honum í risastóra kassa. Myndhöggvararnir breyttu síðan klaka og snjó í biblíumyndir með keðjusögum, meitlum, tannburstum og drykkjarrörum.

Jana Kürbis, verkefnisstjóri, segir að það hafi verið erfiðast að koma á og viðhalda réttu raka- og hitastigi. En öll vinnan var erfiðisins virði. „Ótrúlegt,“ sagði kona ein í undrunartón. Að mati manns nokkurs var sýningin „alveg frábær“ en eiginkonu hans þótti leitt hvað hún hafði litla biblíuþekkingu.

Margir, þar á meðal börn, gengu um sýningarsvæðið og lásu lýsingar á sögusviði atburðanna sem sviðsettir voru. Við héldum heim á leið og höfðum með okkur ófáar áteknar ljósmyndafilmur en líka góðar minningar um biblíusögur úr klaka og snjó.

[Myndir á blaðsíðu 16]

Eiginnafn Guðs, Jehóva skrifað á hebresku, var áberandi framan á sýningarbæklingnum.

[Mynd á blaðsíðu 16, 17]

Sköpun Adams.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Samson ýtir um koll súlunum í musteri Filista.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Davíð og Golíat.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Örkin hans Nóa.

[Mynd credit linel á blaðsíðu 16]

Móse: Ljósmynd: Nils Bergmann; Snjókristall: snowcrystals.net; Sköpun Adams: Ljósmynd: Nils Bergmann