Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dagsferð til Tsjernobyl

Dagsferð til Tsjernobyl

Dagsferð til Tsjernobyl

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í ÚKRAÍNU

Slysið, sem varð í kjarnorkuverinu í Tsjernobyl fyrir 20 árum, átti sér enga hliðastæðu. Hinn 26. apríl 1986 brann einn af fjórum kjarnaofnum þess með hörmulegum afleiðingum. Eftir flest stórslys, hvort sem þau eru af völdum mannanna eða náttúrunnar, er hægt að hreinsa til og byggja upp aftur. En þetta slys skildi eftir sig langvarandi mengun.

UNDANFARIN ár hafa þeir sem bjuggu í nágrenni kjarnorkuversins farið í pílagrímsferðir til fyrrverandi heimila sinna sem nú eru yfirgefin. Þetta er árlegur viðburður 9. maí og stundum eru vinir og ættingjar með í för. Fyrrverandi íbúar fara líka á öðrum tímum til að vera við jarðarfarir. Vísindamenn koma einnig þangað til að rannsaka áhrif geislunar. Nýlega hafa úkraínskar ferðaskrifstofur þar að auki boðið upp á dagsferðir með leiðsögn um svæðið.

Í forsíðufrétt dagblaðsins The New York Times í júní 2005 var greint frá stuttum „leiðsöguferðum“ til Prípet sem væru „hættulausar heilsu fólks“. * Prípet var byggð á áttunda áratug síðustu aldar og íbúar voru um 45.000. Hún var í þriggja kílómetra fjarlægð frá kjarnorkuverinu. Eftir kjarnorkuslysið yfirgaf fólk hana, eins og margar aðrar borgir og bæi. Þessir staðir urðu bannsvæði vegna geislamengunar. Anna og Viktor Rudnik höfðu búið í Prípet í um það bil ár þegar slysið varð. *

Bærinn Tsjernobyl (ber sama nafn og kjarnorkuverið) er mun minni en Prípet og í 15 kílómetra fjarlægð frá kjarnaofnunum. Um árabil hefur fyrrverandi íbúum bæjarins verið leyft að fara þangað einu sinni á ári. Rudnik-fjölskyldan hefur farið til Tsjernobyl á þeim tíma því að sá bær er í raun heimabær þeirra. Mig langar að segja ykkur frá ferð sem við hjónin fórum með þeim á þessar slóðir fyrir nokkrum árum.

Dapurlegt ferðalag

Við lögðum af stað frá Kíev, höfuðborg Úkraínu, og héldum eftir tvíbreiðum vegi norður á bóginn. Við ókum gegnum nokkur þorp þar sem húsin stóðu í röð meðfram veginum, túlípanar prýddu garðana fyrir framan húsin og fólk átti sér grænmetisgarða. Milli þorpanna teygðu korn-, hveiti- og sólblómaakrar sig svo langt sem augað eygði.

Einhvers staðar á leiðinni fórum við yfir ósýnileg landamæri. Engar merkingar gáfu þau til kynna en við fundum fyrir breytingunni. Óhugnanleg þögn ríkti í bæjunum sem við ókum í gegnum. Gluggar voru brotnir og hengilásar voru á dyrum hrörlegra húsanna. Lóðirnar fyrir framan húsin voru þaktar illgresi og bakgarðarnir voru úr sér vaxnir.

Við vorum komin inn á bannsvæðið sem er í um 30 kílómetra fjarlægð frá kjarnaofnunum. Anna sagði okkur: „Það er mikil geislavirkni í bæjunum hérna. Yfir 150.000 manns voru fluttir frá mörgum bæjum og þorpum á þessu svæði til nýrrar búsetu út um öll fyrrverandi Sovétríkin.“

Er við héldum för okkar áfram komum við fljótlega að öðrum svæðismörkum sem voru afgirt frá umheiminum með hárri gaddavírsgirðingu. Þar voru verðir sem fylgdust með allri umferð um svæðið. Þeir voru í timburhúsum, svipuðum eftirlitsskýlum tollvarða. Vörður skoðaði vegabréfin okkar, skráði farartækið og opnaði svo hliðið.

Við vorum komin inn á lokaða svæðið. Nýútsprungið lauf trjánna tjaldaði yfir veginn með grænum laufhimni. Þéttur lágskógur þakti skógarbotninn. Þetta var afar ólíkt þeirri mynd sem ég hafði gert mér af brunnum trjám og skrælnuðu kjarri. Fram undan var hvítt múrsteinsskilti með bláum stöfum. Það gaf til kynna að við værum komin til Tsjernobyl.

Við bæjarmörkin stóð apótek. Mamma Viktors vann þar einu sinni. Upplitað skilti, sem sagði til um hvenær búðin væri opin, hékk enn þá í rykugum og óhreinum glugganum. Nálægt miðbæjartorginu stóð menningar- og listahús bæjarins. Anna rifjaði upp hvernig hún og aðrir íbúar voru vanir að slaka þar á eftir vinnu og horfa á hina ýmsu listamenn. Kvikmyndahúsið Úkraína var í grenndinni. Þar voru krakkarnir vanir að skýla sér á kæfandi heitum dögum í notalegum svalanum og horfa á nýjustu myndirnar. En hláturinn úr dimmum áhorfendasalnum er löngu þagnaður. Anna og Viktor sýndu okkur húsið sitt sem var spölkorn frá miðbænum. Tré í órækt hindruðu aðgang að framdyrunum svo að við tróðumst í einfaldri röð gegnum þétt illgresið að bakdyrunum. Þær voru reyndar ekki lengur annað en ólögulegt gat á veggnum.

Innandyra var allt í rúst. Mygluð dýna hékk í ryðgaðri rúmgrind. Veggfóðrið hékk í strimlum eins og skítug grýlukerti. Anna beygði sig niður og tók upp gamla ljósmynd úr ruslinu sem lá á víð og dreif um herbergið. „Mig langaði alltaf að koma aftur að öllu alveg eins og það var,“ sagði hún dapurri röddu. „Það er sárt að sjá að eigum okkar hefur verið stolið smátt og smátt og húsið okkar er orðið að ruslahaug.“

Við yfirgáfum heimili Rudnikfjölskyldunnar og gengum niður götuna. Á einu götuhorni var hópur fólks í líflegum samræðum. Við gengum áfram 500 metra en þar endaði vegurinn og við tók almenningsgarður sem lá fram á hamar með útsýni yfir breiða og lygna á. Hvít blóm kastaníutrjánna blöktu í golunni. Og þarna við stigann, sem hlykkjast niður að bryggjunni, biðu eitt sinn hundruð manna eftir að vera fluttir burt með bátum árið 1986.

Í fyrra heimsótti Rudnikfjölskyldan fyrrverandi heimili sitt í Prípet í fyrsta sinn. Þau höfðu flúið borgina í kjölfar kjarnorkuslyssins 19 árum áður.

Tími íhugunar

Nú í apríl, þegar 20 ár eru liðin frá kjarnorkuslysinu, verða margs konar minningarathafnir. Í hugum margra eru þær alvarleg áminning um vangetu mannsins til að ráða farsællega við málefni jarðar án leiðsagnar Guðs þrátt fyrir einlæga viðleitni þeirra. — Jeremía 10:23.

Í september síðastliðnum voru birtar niðurstöður rannsóknar sem lagði nýtt mat á harmleikinn. Í skýrslunni, sem var gerð í umboði Sameinuðu þjóðanna, sagði að til að byrja með hafi 56 manns farist í kjarnorkuslysinu og hún spáði því að aðeins verði hægt að rekja 4.000 dauðsföll beint til veikinda af völdum geislavirkni. Fyrri spár höfðu almennt gert ráð fyrir 15 til 30 þúsund dauðsföllum. Ritstjórnargrein dagblaðsins The New York Times hinn 8. september 2005 greindi frá því að „nokkrir hópar umhverfisverndarsinna“ hafi ráðist á skýrsluna og kallað hana „hlutdræga tilraun til að breiða yfir hugsanlega hættu af kjarnorku“.

Viktor byrjaði að læra um skapara sinn, Jehóva Guð, eftir slysið. Hann sagði: „Við erum ekki lengur niðurdregin því að við vitum að þegar Guðsríki kemur verða svona hörmuleg slys úr sögunni. Við hlökkum til þess tíma þegar sveitin umhverfis ástkært heimili okkar í grennd við Tsjernobyl nær sér á ný og verður hluti af stórfenglegri paradís.“

Frá því að hörmungarnar í Tsjernobyl dundu yfir hafa milljónir manna fest traust sitt á loforð Biblíunnar um að upphaflega paradísin verði endurreist og stækkuð þar til hún nær um alla jörð. (1. Mósebók 2:8, 9; Opinberunarbókin 21:3, 4) Síðastliðin 20 ár hafa yfir 100.000 einstaklingar tekið þessari von opnum örmum í Úkraínu einni. Við óskum þess að þú finnir einnig hjá þér hvöt til að hugleiða þá björtu framtíð sem þeim er lofað sem leitast við að fræðast um fyrirætlanir Guðs.

[Neðanmáls]

^ Þó svo að ýmsir ráðandi aðilar hafi lýst yfir að stuttar ferðir af þessu tagi séu hættulausar mælir Vaknið! ekki með neinum ákveðnum ferðum þangað.

^ Sjá Vaknið! apríl-júní 1997, bls. 12-15.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 15]

Minnisvarði um björgunarmennina

Þessi mikilfenglegi minnisvarði var reistur til heiðurs þeim sem unnu við hreinsunarstarfið eftir Tsjernobylslysið. Þeir slökktu eldinn, steyptu utan um glóandi kjarnaofninn og fjarlægðu mengunarefni. Í heildina skiptu þeir hundruðum þúsunda sem unnu að þessu björgunarstarfi. Áætlað er að hægt verði að rekja um það bil 4.000 dauðsföll beint til kjarnorkuslyssins og flest þeirra verða meðal þessara björgunarmanna.

[Myndir á blaðsíðu 14]

Bæjarskilti Tsjernobyl og kvikmyndahús bæjarins.

[Myndir á blaðsíðu 14]

Rudnikfjölskyldan og húsið þeirra í Tsjernobyl.

[Myndir á blaðsíðu 15]

Kjarnorkuverið þar sem slysið varð, um þrjá kílómetra frá íbúð Rudnikfjölskyldunnar í Prípet (innfellda myndin).