Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafðu ánægju af því að hugleiða andleg mál

Hafðu ánægju af því að hugleiða andleg mál

Hafðu ánægju af því að hugleiða andleg mál

SUMUM vex í augum að þurfa að hugleiða. Þeim finnst kannski að hugleiðing eða íhugun sé mjög krefjandi og kalli á mikla einbeitingu. Þeir gætu líka verið með samviskubit yfir því að gefa sér ekki tíma fyrir hugleiðingu, sérstaklega þegar þeir lesa um hve mikilvægt það sé. (Filippíbréfið 4:8) En það getur verið og ætti að vera ánægjulegt að nota tíma til að leiða hugann að því sem við höfum lært um Jehóva, hugsa um dásamlega eiginleika hans, kröfur hans, það sem hann hefur komið til leiðar og yndislega fyrirætlun hans. Hvers vegna?

Jehóva Guð er æðsti stjórnandi alheims og vinnur stöðugt að því að láta fyrirætlun sína ná fram að ganga. (Jóhannes 5:17) En samt sem áður gefur hann gaum að hugrenningum tilbiðjenda sinna. Sálmaritarinn Davíð vissi þetta og skrifaði undir innblæstri: „Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig. Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.“ — Sálmur 139:1, 2.

Í fyrstu gætu þessi orð sálmaritarans dregið kjarkinn úr sumum. Þeir gætu hugsað sem svo: „Þó að Guð sé ‚álengdar‘ tekur hann eftir hverri slæmri hugsun sem kemur upp í huga mér.“ Það getur að sjálfsögðu verið gagnlegt að vera sér meðvita um þetta því það getur hjálpað manni að berjast gegn röngum hugsunum. Og þegar rangar hugsanir skjóta upp kollinum getum við viðurkennt þær fyrir Guði í bæn og verið viss um að hann fyrirgefur okkur þar sem við trúum á lausnarfórn Jesú. (1. Jóhannesarbréf 1:8, 9; 2:1, 2) En við ættum samt að muna að Jehóva rannsakar tilbiðjendur sína með jákvæðu hugarfari. Hann veitir því athygli þegar við hugsum til hans með þakklæti.

En tekur Jehóva raunverulega eftir öllum góðum hugsunum tilbiðjenda sinna? Já, það gerir hann svo sannarlega þótt þeir skipti milljónum. Jesús lagði áherslu á að Jehóva hefur áhuga á okkur þegar hann sagði að Jehóva tæki jafnvel eftir litlum spörvum og bætti svo við: „Þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Lúkas 12:6, 7) Spörvar geta ekki hugsað um Jehóva. Fyrst Jehóva þykir vænt um þá, hversu miklu vænna hlýtur honum þá ekki að þykja um okkur. Það hlýtur að gleðja hann þegar við, hvert og eitt okkar, hugleiðum andleg mál. Já, við getum beðið líkt og Davíð: „Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!“ — Sálmur 19:15.

Við höfum enn frekari sannanir þess að Jehóva sé umhugað um að trúfastir þjónar hans gefi sér tíma til að hugleiða. Malakí spámanni var blásið í brjóst að spá fyrir um okkar daga: „Þeir þar á móti, sem óttast drottin, segja svo hver við annan: ‚Drottinn gefur gætur að, og heyrir; frammi fyrir hans augliti liggur skrifuð minnisbók um þá, sem óttast drottin og hugsa um hans nafn.‘“ (Malakí 3:16, Biblían 1859) Við getum haft enn meiri ánægju af því að hugleiða andleg mál ef við minnum okkur á að Jehóva „gefur gætur að“ þegar við hugsum um hann. Við ættum þess vegna að taka undir orð sálmaritarans: „Ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.“ — Sálmur 77:13.