Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frá vonleysi til velsældar

Frá vonleysi til velsældar

Frá vonleysi til velsældar

VICENTE GONZÁLEZ SEGIR FRÁ

Þegar nágrannarnir fréttu að ég hefði skotið sjálfan mig fjórum sinnum en samt haldið lífi fóru þeir að kalla mig „Súperman“. En ég var sannarlega ekkert ofurmenni. Ég skal segja ykkur hvers vegna ég reyndi að svipta mig lífi.

ÉG FÆDDIST árið 1951 í Guayaquil í Ekvador og var einn af níu systkinum. Foreldrar mínir bjuggu okkur heimili við sjóinn á stað sem var kallaður Las Invasiones eða Innrásirnar. Fátækar fjölskyldur höfðu gert svokallaða „innrás“ á svæðið því þær settust þar að ólöglega og byggðu hús með bambusveggjum og bárujárnsþökum. Húsin stóðu á tréstultum því að þau voru reist á leirum og fenjasvæði. Við höfðum ekkert rafmagn í húsinu, við elduðum á kolaeldavél og gengum einn kílómetra hvora leið til að sækja drykkjarvatn.

Systkini mín fóru ung að árum að vinna úti til að aðstoða við að draga björg í bú. Þegar ég var 16 ára hætti ég í skóla án þess að útskrifast og fékk vinnu sem sendill í verksmiðju. Ég og vinir mínir byrjuðum að drekka og lifa siðlausu lífi. Þegar samviskan nagaði mig skriftaði ég hjá prestinum. Hann var vanur að segja: „Sonur sæll, þetta var góð syndajátning hjá þér,“ og síðan sendi hann mig burt án þess að gefa mér neina andlega leiðsögn. Ég hélt því bara áfram á sömu braut. Að lokum varð þessi hringrás syndar og skrifta tilgangslaus og ég hætti að sækja kirkju. Á sama tíma gerði ég mér betur grein fyrir óréttlætinu sem ríkti í þjóðfélaginu í kringum mig. Fátækur meirihlutinn dró fram lífið á litlu sem engu á meðan ríkur minnihlutinn bjó í vellystingum. Lífið virtist alveg tilgangslaust. Mér fannst ég hvorki eiga neina framtíð né hafa neinn tilgang í lífinu.

Dag einn uppgötvaði ég að fjórar af systrum mínum voru farnar að lesa rit frá Vottum Jehóva. Ég byrjaði líka að lesa þau. Það var sér í lagi ein bók sem greip athygli mína, Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. Í bókinni var varpað ljósi á mörg biblíusannindi á rökréttan hátt. Ég man að ég sagði við sjálfan mig: „Þetta er sannleikurinn.“ En eins og ég átti eftir að komast að á næstu 15 árum, reyndist erfiðara að lifa í samræmi við sannleikann.

Ég fór að vinna í banka þegar ég var 22 ára. Dag einn sýndi vinnufélagi mér hvernig hann laumaðist til að fá „lánaða“ peninga úr bankanum sem hann síðan endurgreiddi seinna. Ég byrjaði líka að fá „lánaða“ peninga þangað til upphæðin var orðin svo há að ég gat ekki lengur falið glæp minn. Ég fylltist örvæntingu þar sem ég vissi að ég gæti aldrei endurgreitt peningana. Ég ákvað þess vegna að játa verknaðinn og grípa síðan til þess örþrifaráðs að svipta mig lífi.

Ég skrifaði bréf til bankans, keypti mér síðan litla skammbyssu, fór á afskekktan stað á ströndinni og skaut mig tvisvar í höfuðið og tvisvar í brjóstið. Þótt ég hefði særst illa varð þetta mér ekki að bana. Hjólreiðamaður fann mig og kom mér strax á sjúkrahús. Þegar ég hafði náð mér var ég kærður fyrir þjófnaðinn og settur í fangelsi. Ég skammaðist mín og varð þunglyndur eftir að mér var sleppt úr haldi því nú var ég kominn á sakaskrá. En vegna þess að ég lifði af fjögur skotsár fóru nágrannarnir að kalla mig „Súperman“.

Tækifæri til að breyta mér

Um þetta leyti fékk ég heimsókn frá Paul Sánchez sem var trúboði Votta Jehóva. Það fyrsta sem ég tók eftir í fari hans var breiða brosið. Paul var svo jákvæður og glaðlyndur að ég féllst á að þiggja biblíunámskeið hjá honum. Ég hugsaði með mér: „Kannski getur hann hjálpað mér að finna hamingjuna og tilgang í lífinu.“

Ég lærði með hjálp Pauls að Guð hefur ákveðna fyrirætlun með mennina og að þeir sem elska hann og hlýða honum muni í framtíðinni búa í paradís hér á jörð. (Sálmur 37:29) Ég lærði líka að óréttlæti og fátækt eru ekki Guði að kenna heldur stafa af uppreisn manna gegn Guði. (5. Mósebók 32:4, 5) Þessi sannleikur var eins og ljós í lífi mínu. En það reyndist mér mun erfiðara að breyta persónuleika mínum en að lesa Biblíuna.

Ég fékk skrifstofuvinnu þar sem ég hafði aðgang að sjóðum fyrirtækisins. Enn á ný lét ég undan freistingunni og byrjaði að stela. Þegar ég gat ekki lengur falið stuldinn flúði ég til annarrar borgar í Ekvador þar sem ég dvaldist í um það bil eitt ár. Ég reyndi að flýja land en án árangurs svo að ég sneri aftur heim.

Paul fann mig aftur og við héldum áfram að lesa saman í Biblíunni. Í þetta sinn einsetti ég mér að fylgja meginreglum Biblíunnar og þjóna Jehóva. Þess vegna játaði ég óheiðarleika minn fyrir Paul sem dró ekkert undan þegar hann veitti mér ráð. Hann benti mér á biblíuvers eins og Efesusbréfið 4:28 þar sem segir: „Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér.“ Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég yrði að játa stuldinn og taka afleiðingunum.

Meðan ég var að hugsa minn gang byrjaði ég að starfa sjálfstætt sem listamaður. Dag einn kom maður til mín á vinnustofuna og lét í ljós áhuga á einu málverki. En hann var í raun rannsóknarlögreglumaður og var með heimild til að handtaka mig. Enn á ný var ég kallaður fyrir rétt og síðan dæmdur í fangelsi. Paul heimsótti mig og ég lofaði honum: „Þú munt ekki sjá eftir því að hafa reynt að hjálpa mér að skilja Biblíuna.“ Við héldum biblíunámskeiðinu áfram í fangelsinu.

Ég sannaði einlægni mína

Þegar ég losnaði úr fangelsi var ég staðráðinn í að þjóna Jehóva af öllu hjarta og ég sannaði einlægni mína á næstu tveim árum. Ég lét skírast árið 1988 sem einn af vottum Jehóva. Ég var óðfús að bæta fyrir tímann sem ég hafði sóað þannig að ég hóf þjónustu í fullu starfi sem brautryðjandi og lagði sérstaka áherslu á að ná til ungs fólks sem tilheyrði götugengjum.

Eitt gengið gerði oft veggjakrot á ríkissalinn okkar. Ég þekkti þá sem voru í þessu gengi og vissi hvar þeir áttu heima. Ég fór því heim til þeirra og útskýrði hvað færi fram í ríkissalnum og bað þá vinsamlega um að virða húseignina. Við urðum alveg laus við veggjakrotið eftir það.

Seinna vorum við að gera upp ríkissalinn og skrapa af gamla málningu. Ungur vottur að nafni Fernando sá þá glitta í gamalt veggjakrot þar sem stóð „Froskurinn“ (La Rana á spænsku). „Þetta var ég!“ hrópaði hann. Þegar Fernando tilheyrði götugengi hafði hann málað viðurnefnið sitt á húsið. En núna var hann að taka það í burtu.

Í fyrsta skiptið sem ég sá Fernando var hann uppdópaður. Móðir hans hafði sent hann á tvær meðferðarstofnanir en án árangurs. Hún gafst upp á honum, flutti burt og skildi hann einan eftir í húsinu. Fernando seldi allt sem hægt var að koma í verð til að fjármagna fíkniefnaneysluna — jafnvel hurðirnar, gluggana og þakið á húsinu. Dag einn kom ég að máli við hann úti á götu, gaf honum gosdrykk og bauð honum biblíunámskeið. Hann þáði það og mér til mikillar ánægju sýndi hann áhuga á sannleikanum. Hann sagði skilið við gengið sem hann var í, hætti fíkniefnaneyslunni, byrjaði að sækja safnaðarsamkomur og lét skírast áður en langt um leið.

Þegar við Fernando förum saman í boðunarstarfið kannast fólk oft við okkur og kallar upp yfir sig „Froskurinn!“ eða „Súperman!“ og spyr hvað við séum að gera. Það er undrandi á því að sjá fyrrverandi meðlim úr götugengi og fyrrverandi þjóf heimsækja sig með Biblíuna í hendi.

Einu sinni var ég að vitna fyrir manni á meðan Fernando var að tala við nágranna hans. Maðurinn benti á Fernando og sagði við mig: „Sérðu manninn þarna? Hann miðaði einu sinni byssu að hausnum á mér.“ Ég fullvissaði manninn um að Fernando hefði sagt skilið við sinn gamla lífsstíl og lifði nú í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Þegar Fernando hafði lokið samtalinu við nágrannann kallaði ég á hann og kynnti hann fyrir manninum. „Ungi maður,“ sagði húsráðandinn, „mig langar til að hrósa þér fyrir þær breytingar sem þú hefur gert á lífi þínu.“

Þau eru ófá skiptin sem fólk hefur látið svipuð orð falla um okkur Fernando. Það hefur gefið okkur tækifæri til að gefa góðan vitnisburð og leitt til margra biblíunámskeiða. Já, bæði mér og Fernando finnst það mikill heiður að vera auðkenndir sem vottar Jehóva.

Tímamót í lífi mínu

Árið 2001, þegar ég varð fimmtugur, var mér boðið að sækja Þjónustuþjálfunarskólann í Perú. Þetta kom mér skemmtilega á óvart. Skólinn er átta vikna námskeið sem veitir hæfum vottum ítarlega andlega fræðslu og hjálpar þeim að sinna þjónustu sinni.

Skólinn var ánægjulegur að öllu leyti nema einu — ræðumennskunni. Hún óx mér mjög í augum. Margir yngri nemendurnir fluttu frábærar ræður og virtust fullir sjálfstrausts. En þegar ég átti að flytja mína fyrstu ræðu helltist minnimáttarkenndin yfir mig sem hafði hrjáð mig alveg frá barnæsku. Hnén kiknuðu, sveittar hendurnar skulfu og röddin titraði. Jehóva studdi mig samt með hjálp heilags anda síns og kærleiksríkra bræðra. Einn af leiðbeinendunum sýndi mér meira að segja sérstaka athygli og hjálpaði mér eftir kennslu að undirbúa ræðurnar mínar. Hann kenndi mér umfram allt að treysta á Jehóva. Þegar námskeiðið var á enda hafði ég í fyrsta skipti á ævinni ánægju af því að tala fyrir framan áhorfendur.

Það reyndi síðan mikið á sjálfstraust mitt á umdæmismóti Votta Jehóva í Guayaquil þegar ég stóð frammi fyrir 25.000 manns og sagði frá því hvernig ég varð vottur. Það þyrmdi svo yfir mig við tilhugsunina um að geta uppörvað svona marga að röddin fór að bresta. Seinna kom einn mótsgestanna til mín og sagði við mig: „Bróðir González, þegar þú sagðir sögu þína voru allir með tárin í augunum.“ Ég vildi meira en nokkuð annað að frásaga mín gæti hvatt og uppörvað þá sem hafa átt erfitt með að snúa við blaðinu og breyta um lífsstíl.

Ég þjóna nú sem öldungur og brautryðjandi og það hefur veitt mér mikla gleði að geta hjálpað 16 einstaklingum að öðlast nákvæma þekkingu á sannleika Biblíunnar. Ég er mjög glaður yfir því að foreldrar mínir og fjórar systur mínar hafa einnig vígt líf sitt Jehóva. Móðir mín dó trúföst árið 2001. Ég get ekki þakkað Jehóva nógu mikið fyrir að hafa leyft mér að kynnast sér og ég veit ekki um neina betri leið til að sýna þakklæti mitt en að bjóða öðrum að nálægja sig honum líka. — Jakobsbréfið 4:8.

[Mynd á blasíðu 20]

Fernando var áður í götugengi og hafði viðurnefnið Froskurinn.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Paul Sánchez, trúboðinn sem las Biblíuna með mér.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Vicente González