Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Notkun amfetamíns í megrunarskyni sexfaldaðist í Brasilíu á árabilinu 1997 til 2004 en amfetamín dregur úr matarlyst. — FOLHA ONLINE, BRASILÍU.

Flugmönnum er þrefalt hættara en öðrum við að fá ský á auga. Ástæðan er hugsanlega sú að þeir verða fyrir meiri geimgeislun. — THE WALL STREET JOURNAL, BANDARÍKJUNUM.

◼ Á næstu tíu árum verður ekki hægt að fullnægja grunnþörfum nálega helmings barna í Asíu, en með gunnþörfum er átt við hreint vatn, mat, heilsugæslu, menntun og húsaskjól. Alls eru börn þar í álfu 1,27 milljarðar. — PLAN ASIA REGIONAL OFFICE, TAÍLANDI.

◼ Óbeinar reykingar eru „hættulegri en nokkurn óraði fyrir“. Á fyrstu 18 mánuðunum eftir að reykingabann tók gildi á skrifstofum, veitingahúsum og annars staðar innan dyra í Pueblo í Colorado í Bandaríkjunum fækkaði hjartaáföllum um 27 af hundraði meðal íbúa. — TIME, BANDARÍKJUNUM.

Offita í Kína

„Á næstu tíu árum verða 200 milljónir [Kínverja] orðnar hættulega þungar,“ að sögn Lundúnablaðsins The Guardian. Í mörgum borgum eru skyndibitastaðir „á hverju götuhorni. Miðstéttarfólki fer fjölgandi og það reynir minna á sig, ferðast meira með bílum og situr í vaxandi mæli hreyfingarlaust við sjónvarp, tölvur og tölvuleiki“. Börnum, sem teljast eiga við offitu að stríða, fjölgar um 8 prósent á ári og í Shanghai eiga meira en 15 prósent grunnskólabarna við offitu að stríða.

Borgarbúum fer fjölgandi

Fréttastofan CBC News segir að „eftir tvö ár muni helmingur jarðarbúa búa í borgum“. Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna búa hlutfallslega flestir í borgum í Bandaríkjunum eða nálega 9 af hverjum 10. Fyrir aðeins 55 árum voru New York og Tokyo einu borgirnar með tíu milljónir íbúa eða meira. Núna eru 20 borgir með yfir 10 milljónir íbúa en þar á meðal má nefna Jakarta, Mexíkóborg, Bombay og São Paulo. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir: „Þessi hraða fjölgun mun kalla á umfangsmiklar breytingar á efnahags- og þjóðfélagskerfi flestra landa.“

Ergileg framkoma á vinnustað

„Ekkert fer meira í taugarnar á vinnufélögum okkar en hávær símtöl, notkun hátalarasíma og sífelldar kvartanir yfir vinnuálagi,“ að sögn dagblaðsins Washington Post. Af öðru, sem ergir vinnufélagana, má nefna „klíkur á vinnustað, að mæta seint til vinnu, tala við sjálfan sig, tala við vinnufélaga yfir skilrúm, sinna ekki líkamlegu hreinlæti og smjatta á matnum“. Ósiðir af þessu tagi draga einnig úr afköstum. Flestir, sem tóku þátt í könnuninni, viðurkenndu hins vegar að þeir hefðu aldrei rætt málin við þá sem fara í taugarnar á þeim. „Og það er ástæða fyrir því,“ að sögn blaðsins. „Margir þeirra eru nefnilega jafn sekir sjálfir.“

Finnski vinnumarkaðurinn í vanda

Iðnaðar- og þjónustugeirinn í Finnlandi þarf sárlega á faglærðum og reyndum iðnaðarmönnum að halda eins og smiðum, pípulagningamönnum, málmsuðumönnum, múrurum, vélvirkjum og rennismiðum. Hvers vegna? Dagblaðið Helsingin Sanomat segir að mikil áhersla hafi verið lögð á æðri menntun. „Það er fáránlegt að útskrifa heila kynslóð með doktors- og meistaragráðu í hugvísindum og raunvísindum,“ fullyrti Heikki Ropponen hjá Samtökum finnskra verslunarmanna. „Það ætti að meta verknám miklu meira en gert er.“