Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég lært að fara vel með peninga?

Hvernig get ég lært að fara vel með peninga?

Ungt fólk spyr . . .

Hvernig get ég lært að fara vel með peninga?

„Ég átta mig oft á því að ég er farin að hugsa um að kaupa eitthvað sem ég þarf ekkert á að halda og hef líklega ekki efni á, bara af því að það er á útsölu.“ — Anna, * Brasilíu

„Stundum vilja vinir mínir að ég geri eitthvað með þeim sem er dýrt. Mig langar til að vera með vinum mínum og skemmta mér. Enginn vill segja: Því miður, ég hef ekki efni á því.“ — Joan, Ástralíu.

FINNST þér þú aldrei eiga næga peninga? Ef þú fengir bara aðeins meiri vasapeninga gætirðu keypt leikinn sem þig langar í. Ef launin þín væru aðeins hærri gætirðu keypt skóna sem þú þarft „nauðsynlega“ á að halda. En hvers vegna að ergja sig yfir peningum sem þú átt ekki? Væri ekki betra að læra að fara vel með það sem þú hefur milli handanna?

Ef þú býrð hjá foreldrum þínum gætirðu auðvitað látið það bíða þangað til þú flytur að heiman. En væri það ekki eins og að stökkva út úr flugvél án þess að læra fyrst að nota fallhlíf? Að vísu er kannski hægt að finna út hvað á að gera á meðan maður þeysist til jarðar. Væri samt ekki betra að læra aðeins á búnaðinn áður en maður stekkur?

Að sama skapi er best fyrir þig að læra að fara með peninga á meðan þú býrð heima, áður en þú neyðist til að læra það í hörðum skóla reynslunnar. „Silfrið veitir forsælu,“ skrifaði Salómon konungur. (Prédikarinn 7:12) En peningar veita bara forsælu eða vernd ef þú kannt að fara vel með fjármuni þína. Þá færðu aukið sjálfstraust og foreldrarnir bera meira traust til þín.

Lærðu grundvallaratriðin

Hefurðu nokkurn tíma spurt foreldra þína hvað felist í því að reka heimili? Veistu til dæmis hvað hiti og rafmagn kosta í hverjum mánuði og hvað það kostar að reka bíl? Veistu hvað það fer mikið í matarinnkaup, húsaleigu eða afborganir af lánum? Kannski leiðast þér þannig umræður. Mundu samt að þú átt þátt í að stofna til þessara útgjalda. Þar fyrir utan kemur að því að þú þarft að standa undir svona útgjöldum þegar þú flytur að heiman og það er því ágætt að þú vitir af þeim. Spyrðu foreldra þína hvort þú megir sjá nokkra reikninga og taktu vel eftir þegar þeir útskýra hvernig þeir hafa gert ráðstafanir til að greiða þá.

„Hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni nemur hollar lífsreglur,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 1:5) Anna, sem nefnd var í byrjun, segir: „Pabbi kenndi mér að gera fjárhagsáætlun og hann benti mér á að það er nauðsynlegt að hafa gott skipulag á fjármálum fjölskyldunnar.“ Mamma Önnu kenndi henni líka ýmislegt sem kom henni að gagni. „Hún sýndi mér hvað það er mikilvægt að bera saman verð áður en maður kaupir hluti,“ segir Anna. „Það var ótrúlegt hvað hún gat gert mikið fyrir lítið.“ Hefur þetta komið Önnu að gagni? Hún segir: „Núna get ég séð um mín eigin fjármál. Ég fylgist vandlega með því í hvað peningarnir fara og það veitir mér hugarró að skulda ekki að óþörfu.“

Komdu auga á gildrurnar

Það getur að vísu verið hægara sagt en gert að hafa hemil á eyðslunni, sérstaklega ef þú býrð heima og færð vasapeninga eða ert í launaðri vinnu. Hvers vegna? Vegna þess að foreldrar þínir borga líklega flesta reikningana. Þú mátt því sennilega eyða stærstum hluta peninganna að eigin geðþótta. Og það getur verið skemmtilegt að eyða peningum. „Mér finnst auðvelt að eyða peningum og ég hef gaman af því,“ viðurkennir Paresh, ungur maður á Indlandi. Sarah í Ástralíu er sama sinnis. „Mér finnst spennandi að kaupa hluti,“ segir hún.

Þar að auki geta kunningjarnir þrýst á mann að eyða meira en góðu hófi gegnir. Ellena, sem er 21 árs, segir: „Að fara í búðir er ein helsta afþreyingin meðal kunningja minna. Þegar ég er með þeim virðist það vera óskrifuð regla að maður verði að eyða peningum ef maður ætlar að skemmta sér.“

Það er eðlilegt að vilja passa inn í hópinn. En spyrðu sjálfan þig: Eyði ég peningum með kunningjunum að því að ég hef efni á því eða vegna þess að mér finnst ég verði að gera það? Margir eyða peningum til að reyna að ávinna sér hylli vina og kunningja. Þessi tilhneiging gæti komið þér í alvarleg fjárhagsvandræði, sérstaklega ef þú átt kreditkort eða hefur yfirdráttarheimild. Suze Orman, sem er fjármálaráðgjafi, gefur eftirfarandi viðvörun: „Ef þér finnst þú þurfa að vekja hrifningu annarra með því sem þú átt frekar en því sem þú ert er hætta á að þú farir að misnota kreditkort.“

Hvers vegna ekki að nota tillögu Ellenar frekar en að misnota greiðslukortið eða sóa öllum laununum þínum á einu bretti? Hún segir: „Þegar ég fer út með vinum mínum reikna ég út fyrir fram hvað ég get eytt miklu. Launin mín eru lögð beint inn á bankareikning og ég tek bara út þá upphæð sem ég þarf í hvert skipti. Ég sé líka skynsemi í því að fara í búðir með vinum sem kunna að fara með peninga og hvetja mig frekar til að skoða mig um í stað þess að kaupa það fyrsta sem ég sé.“ — Orðskviðirnir 13:20.

Lærðu af því þegar svarið er nei

Þótt þú fáir hvorki vasapeninga né sért í launaðri vinnu geturðu samt lært margt nytsamlegt um fjármál á meðan þú býrð heima. Þegar þú biður foreldra þína um peninga eða biður þá um að kaupa eitthvað getur til dæmis verið að þeir segi nei. Það gæti verið vegna þess að óskir þínar kosta meira en fjárhagur fjölskyldunnar leyfir. Með því að segja nei, jafnvel þótt þeir vildu segja já, eru foreldrar þínir að setja þér gott fordæmi um sjálfstjórn, en hún skiptir miklu máli þegar fara á vel með peninga.

Segjum sem svo að foreldrar þínir hafi efni á að leyfa þér að fá það sem þú biður um. Það getur samt verið að þeir neiti þér um það. Þér finnst kannski bara að þeir séu nískir. En hugsaðu málið: Getur verið að þeir séu að kenna þér að hamingjan sé ekki fólgin í því að fá allt sem mann langar í? Í Biblíunni segir: „Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum, og sá sem elskar auðinn, hefir ekki gagn af honum.“ — Prédikarinn 5:9.

Reynsla unglinga, sem eignast allt sem þeir biðja foreldrana um, staðfestir sannleiksgildi þessara orða. Unglingarnir uppgötva fljótt að þeir eru aldrei ánægðir. Það skiptir engu máli hvað þeir eignast mikið, þeim finnst alltaf eins og þeir þurfi að fá eitthvað eitt í viðbót. Með tímanum geta unglingar, sem eru vanir að fá allt sem þeir biðja um, orðið vanþakklátir. Salómon varaði við þessu með orðunum: „Dekri maður við þræl sinn [eða barn] frá barnæsku verður hann vanþakklátur að lokum.“ — Orðskviðirnir 29:21, Biblíurit, ný þýðing 1998.

Peningar eru tími

Oft er sagt að tíminn sé peningar. Þetta minnir fólk á að það tekur tíma að þéna peninga og að sóa tíma er það sama og að sóa peningum. En það má líka segja að peningar séu tími. Þegar þú sóar peningum ertu í raun að sóa tímanum sem það tók að vinna fyrir þeim. Ef þú lærir að hafa stjórn á útgjöldunum lærirðu um leið að hafa stjórn á tíma þínum. Hvernig má það vera?

Ellena segir: „Þegar ég hef stjórn á því hvað ég eyði miklu er ég í raun að stjórna því hve mikið ég þarf að þéna. Með því að gera raunhæfa fjárhagsáætlun og halda mér við hana þarf ég ekki að vinna löngum stundum til að borga miklar skuldir. Ég stjórna betur tíma mínum og lífi mínu.“ Myndir þú ekki vilja hafa sömu stjórn á þínu lífi?

[Neðanmáls]

^ Sumum nöfnum hefur verið breytt.

TIL UMHUGSUNAR

◼ Finnst þér erfitt að hafa stjórn á því í hvað peningarnir fara? Hvers vegna?

◼ Af hverju ættirðu að forðast fégirnd? — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 28]

ERU MEIRI PENINGAR LAUSNIN?

Myndi það leysa vandann að fá bara meiri peninga? „Allir halda að hærri laun leysi fjárhagsvandamálin en það er sjaldnast raunin,“ segir Suze Orman, fjármálaráðgjafi.

Segjum sem svo að þú ækir bíl en hefðir ekki stjórn á honum eða gerðir það að vana að keyra með lokuð augu. Myndi það auka öryggi þitt að setja meira bensín á bílinn? Værirðu líklegri til að komast heilu og höldnu á leiðarenda? Að sama skapi leysir það ekki málin að fá meiri peninga ef þú lærir ekki að ná stjórn á peningaeyðslunni.

[Rammi/kort á blaðsíðu 29]

TAKTU VÖLDIN

Hve miklu eyddirðu í síðasta mánuði? Í hvað fóru peningarnir? Veistu það ekki? Þú getur náð valdi á útgjöldunum áður en útgjöldin taka völdin af þér.

Haltu bókhald. Skráðu hjá þér, í að minnsta kosti einn mánuð, allar þær tekjur sem þú hefur og hvenær þú færð þær. Skrifaðu niður allt sem þú kaupir og hvað það kostaði. Við lok mánaðarins leggurðu saman allar tekjur og öll útgjöld.

Gerðu fjárhagsáætlun. Settu upp þrjá dálka á autt blað. Skráðu í fyrsta dálkinn allar tekjur sem þú gerir ráð fyrir að hafa í mánuðinum. Skráðu í hvað þú hefur hugsað þér að nota peningana í miðdálkinn. Notaðu bókhaldið frá síðasta mánuði til viðmiðunar. Skráðu jafnt og þétt í þriðja dálkinn hve miklu þú eyðir í raun og veru og berðu það saman við það sem var áætlað. Skráðu líka öll óvænt útgjöld.

Lagfærðu áætlunina. Ef þú hefur eytt meiru en þú ætlaðir þér og ert kominn í skuld skaltu laga áætlunina. Greiddu skuldina. Taktu völdin.

[Tafla]

Klipptu út og notaðu

Fjárhagsáætlun mánaðarins

Tekjur Áætluð útgjöld Raunútgjöld

vasapeningar matur

hlutastarf föt

annað sími

afþreying

framlög

sparnaður

annað

 

 

Alls kr. Alls kr. Alls kr.

 

[Mynd]

Mundu að ef þú sóar peningum ertu líka að sóa tímanum sem það tók að vinna fyrir þeim.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Biddu foreldra þína að hjálpa þér að gera fjárhagsáætlun.