Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig ljósmyndun leit dagsins ljós

Hvernig ljósmyndun leit dagsins ljós

Hvernig ljósmyndun leit dagsins ljós

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í SVÍÞJÓÐ

SAGAN SEGIR AÐ GESTIR ÍTALSKA EÐLISFRÆÐINGSINS GIAMBATTISTA DELLA PORTA (1535?-1615) HAFI VERIÐ FELMTRI SLEGNIR. Á VEGGNUM FYRIR FRAMAN ÞÁ BLÖSTU VIÐ MYNDIR AF SMÁGERÐU FÓLKI SEM STÓÐ Á HAUS OG VAR Á HREYFINGU. ÁHORFENDUR HLUPU ÚT Í OFBOÐI OG DELLA PORTA VAR LEIDDUR FYRIR RÉTT, SAKAÐUR UM GALDRA!

EKKI fór nú betur en þetta þegar Della Porta reyndi að skemmta gestum með „camera obscura“ sem svo er kallað, en heitið er latneskt og merkir „dimmt herbergi“. Lögmálið, sem þessi „myndavél“ byggist á, er sáraeinfalt en árangurinn oft tilkomumikill. Hvernig virkar þessi „myndavél“?

Þegar ljós skín inn um lítið op á ljósþéttum klefa birtist mynd á hvolfi af því sem fyrir utan er á gagnstæðri hlið klefans. Það sem gestir Della Porta sáu voru einfaldlega myndir af leikurum sem voru fyrir utan dimma herbergið. Myrkraklefinn er fyrirrennari ljósmyndavélarinnar eins og við þekkjum hana. Þú tilheyrir ef til vill þeim milljónum manna sem eiga myndavél eða hafa að minnsta kosti notað ódýru, einnota myndavélina sem fæst á nálega hverju götuhorni.

Myrkraklefinn var svo sem ekki nýr af nálinni á dögum Della Porta. Aristóteles (384-322 f.Kr.) minntist á lögmálið sem hann byggist á. Arabíski fræðimaðurinn Alhazen lýsti því á 10. öld og listmálarinn Leonardo da Vinci skrifaði um það í minnisbókum sínum á 15. öld. Með tilkomu linsunnar á 16. öld varð myndavélin mun nákvæmari og margir listamenn notuðu hana til að ná fjarvídd og hlutföllum sem best. En þrátt fyrir margar tilraunir var það ekki fyrr en á 19. öld sem mönnum tókst að nota myndavélina til að festa myndirnar á varanlegan miðil.

Fyrsti ljósmyndari heims

Hugsanlegt er talið að franski læknirinn Joseph-Nicéphore Niepce hafi byrjað að þreifa fyrir sér með að taka varanlegar ljósmyndir árið 1816. Honum varð þó lítið ágengt uns hann fór að gera tilraunir með steinprent og uppgötvaði ljósnæmt afbrigði af jarðbiki. Einhvern tíma í kringum 1825 prófaði hann að þekja blikkplötu með jarðbiki og kom henni fyrir í myrkrakassa sem hann stillti upp við glugga á sveitasetri sínu. Hann lýsti plötuna í átta klukkustundir. Á myndinni sést hús, tré og hlaða. Svo óskýr er hún að óreyndasti áhugljósmyndari okkar tíma yrði varla stoltur af. En Niepce hafði ástæðu til að vera ánægður með árangurinn því að myndin er sennilega fyrsta varanlega ljósmynd sögunnar.

Árið 1829 hóf Niepce samvinnu við ötulan athafnamann sem hét Louis Daguerre til að þróa aðferð sína. Niepce féll frá árið 1833 en Daguerre hélt áfram tilraunum sínum og varð nokkuð ágengt. Hann fann upp á því að húða koparplötu með silfurjoðíði sem reyndist töluvert ljósnæmara en jarðbikið. Fyrir tilviljun uppgötvaði hann að hægt var að framkalla skýra mynd á plötunni með því að láta kvikasilfursgufu leika um hana. Með þessari aðferð var hægt að stytta lýsingartímann svo um munaði. Síðar uppgötvaði Daguerre að hægt var að koma í veg fyrir að myndin dökknaði með tímanum með því að baða hana í saltlausn. Nú var ekkert því til fyrirstöðu að ljósmyndun slægi í gegn.

Ljósmyndun kemst í tísku

Þegar daguerrótýpan, eins og uppfinning Daguerres var kölluð, var kynnt opinberlega árið 1839 létu viðbrögðin ekki á sér standa. Fræðimaðurinn Helmut Gernsheim segir í bók sinni, The History of Photography: „Sennilega hefur engin uppfinning heillað almenning jafn mikið og daguerrótýpan og sigrað heiminn á jafn skömmum tíma.“ Sjónarvottur að því þegar daguerrótýpan var kynnt opinberlega skrifaði: „Klukkustund síðar voru allar sjóntækjaverslanir umsetnar og gátu hvergi nærri skrapað saman nógu mörgum tækjum til að fullnægja eftirspurn tilvonandi ljósmyndara. Fáeinum dögum síðar mátti sjá þrífætta, svarta kassa fyrir framan kirkjur og hallir á öllum torgum Parísar. Allir eðlisfræðingar, efnafræðingar og lærdómsmenn borgarinnar voru önnum kafnir við að fægja silfurhúðaðar plötur, og efnaðir kaupmenn gátu ekki heldur neitað sér um þann munað að fórna einhverjum fjármunum á altari framfaranna og láta þá gufa upp í joði og kvikasilfurseimi.“ Parísarblöðin voru ekki lengi að gefa nýja æðinu nafn — daguerréotypomanie.

Svo góðar þóttu daguerrótýpurnar að breska vísindamanninum John Herschel varð að orði: „Það er varla of djúpt í árinni tekið að kalla þær kraftaverk.“ Sumir héldu því reyndar fram að gerð myndanna væri ekki laus við galdra.

Nýju uppfinningunni var þó ekki alls staðar tekið með fögnuði. Konungurinn í Napólí bannaði ljósmyndun árið 1856, hugsanlega vegna þess að hún var talin eiga eitthvað skylt við „hið illa auga“. Þegar franski listmálarinn Paul Delaroche sá daguerrótýpu hrópaði hann upp yfir sig: „Nú er málaralistin búin að vera!“ Listmálarar höfðu miklar áhyggjur af þessari uppfinningu og töldu hana ógna lífsviðurværi sínu. Bókarhöfundur einn lýsti áhyggjum sumra svo: „Menn óttuðust að hið harða raunsæi ljósmyndarinnar myndi spilla fegurðarskyni manna.“ Og sumir fundu ljósmyndum það til foráttu að hið vægðarlausa raunsæi þeirra eyðilegði hjartfólgnar tálsýnir manna um æsku og fegurð.

Daguerre eða Talbot?

Enska eðlisfræðingnum William Henry Fox Talbot var illa brugðið þegar fréttir bárust af uppfinningu Daguerres, enda taldi hann sig hafa fundið upp ljósmyndatæknina. Aðferð Talbots var fólgin í því að húða pappírsörk með silfurklóríði og koma henni fyrir í myrkrakassa. Við það varð til neikvæð mynd sem hann vaxbar til að gera hana gagnsæja. Hann lagði svo neikvæðu myndina ofan á aðra pappírsörk með ljósnæmri húð, lýsti hana í sólarljósi og fékk fram jákvæða mynd.

Í byrjun var aðferð Talbots ekki nándar nærri jafn vinsæl og aðferð Daguerres og myndin lakari, en hún bjó yfir meiri möguleikum. Hægt var að gera margar eftirmyndir af einni neikvæðri mynd, og pappírseintökin voru ódýrari og auðveldari í meðförum en daguerrótýpurnar sem voru ósköp viðkvæmar. Ljósmyndun eins og við þekkjum hana núna er byggð á aðferð Talbots en daguerrótýpuna rak í strand þrátt fyrir miklar vinsældir í byrjun.

En Niepce, Daguerre og Talbot voru ekki þeir einu sem töldu sig hafa fundið upp ljósmyndatæknina. Eftir að Daguerre kynnti uppfinningu sína árið 1839 komu fram á sjónarsviðið að minnsta kosti 24 aðrir, allt frá Noregi til Brasilíu, sem töldu sig hafa fundið upp hina nýju tækni.

Ljósmyndun stuðlar að þjóðfélagsbreytingum

Umbótamaðurinn Jacob August Riis áttaði sig snemma á því að ljósmyndun var kjörin leið til að vekja athygli almennings á fátækt og þjáningum í mannlegu samfélagi. Árið 1880 byrjaði hann að taka ljósmyndir í fátækrahverfum New York-borgar eftir að dimmt var orðið og notaði logandi magnesíumduft á steikarpönnu sem leifturljós. Aðferðin var ekki alls kostar hættulaus og tvívegis kveikti hann í húsinu þar sem hann vann og einu sinni í fötunum sínum. Myndir hans eru sagðar hafa átt sinn þátt í því að Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseti gerði ýmsar umbætur í félagsmálum eftir að hann tók við völdum í Hvíta húsinu. Og landslagsmyndir Williams Henrys Jacksons urðu þess valdandi að bandaríska þingið gerði Yellowstone að fyrsta þjóðgarði heims árið 1872.

Ljósmyndun fyrir alla

Framan af var ljósmyndun svo dýr og flókin að hún var ekki á hvers manns færi. En árið 1888 setti George Eastman á markað myndavél sem nefndist Kodak. Þetta var handbær kassamyndavél með spólufilmu og hún var auðveld í notkun þannig að með tilkomu hennar var ljósmyndun á færi hvaða áhugamanns sem var.

Eftir að búið var að lýsa alla filmuna sendi viðskiptavinurinn myndavélina til verksmiðjunnar. Þar var filman framkölluð, ný filma sett í vélina og vélin send til baka ásamt framkölluðum myndum. Og verðinu var stillt í hóf. Það voru engar ýkjur þegar fyrirtækið auglýsti: „Þú ýtir á hnappinn, við sjáum um framhaldið.“

Ljósmyndun var nú orðin á færi almennings og hefur notið stöðugra vinsælda æ síðan. Það sést best á því að teknir eru milljarðar ljósmynda í heiminum á hverju ári. Og nú eru komnar til sögunnar stafrænar myndavélar og myndgæðin eru skilgreind í milljónum díla. Í stafrænu vélunum er lítið minniskort sem getur geymt hundruð mynda. Hægt er að prenta vandaðar myndir með heimilistölvu og litaprentara. Já, ljósmyndatækninni hefur fleygt fram.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Daguerrótýpa frá París um 1845.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Fyrsta ljósmyndin að talið er, tekin um 1826.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Teikning af myrkrakassa (camera obscura) eins og margir listamenn notuðu.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Niepce

[Mynd á blaðsíðu 25]

Daguerrótýpa af uppfinningamanninum Louis Daguerre og myndavél hans frá 1844.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Vinnustofa Williams Talbots um 1845 og myndavélar hans.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Ljósmynd frá 1890 af George Eastman þar sem hann heldur á Kodak-myndavél nr. 2. Myndavél hans nr. 1 ásamt filmuspólu.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Stafrænar myndavélar geyma myndir í milljónum díla.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Landslagsmynd sem W. H. Jackson tók árið 1871. Staðurinn tilheyrir nú Yellowstone- þjóðgarðinum.

[Mynd credit line á blaðsíðu 22]

Mynd frá París: Ljósmynd: Bernard Hoffman/Time Life Pictures/Getty Images; mynd Niepces: Ljósmynd: Joseph Niepce/Getty Images; camera obscura: Culver Pictures.

[Credit line á blaðsíðu 24]

Bls. 25: Vinnustofa Talbots: Ljósmynd: William Henry Fox Talbot & Nicholaas Henneman/Getty Images; Myndavél Talbots: Ljósmynd: Spencer Arnold/Getty Images; Kodak-mynd, Kodak-myndavél og myndavél Daguerres: Með góðfúslegu leyfi George Eastman House; Yellowstone: Library of Congress, Prints & Photographs Division, LC-USZ62-52482.