Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna hrörnum við?

Hvers vegna hrörnum við?

Hvers vegna hrörnum við?

„Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi.“ — JOBSBÓK 14:1.

EF TIL vill hefurðu alltaf talið að lífverur hljóti óhjákvæmilega að slitna með tímanum. Þegar tæki eins og bílar og ryksugur eru notuð reglulega hætta þau að lokum að virka. Það er auðvelt að draga þá ályktun að dýrin hrörni og deyi á svipaðan hátt. En Steven Austad, prófessor í dýrafræði, segir: „Lífverur eru mjög ólíkar vélum. Það sem greinir lífverur einna helst frá öðru er hæfni þeirra til að gera við sig sjálfar.“

Þótt það sé stórkostlegt að fylgjast með því hvernig líkaminn gerir við sjálfan sig eftir meiðsli er hið reglulega viðhald, sem líkaminn sér um, að vissu leyti enn þá tilkomumeira. Tökum beinin sem dæmi. „Þótt beinin virðist líflaus þegar þau eru skoðuð að utan eru þau lifandi vefur sem eyðist stöðugt og endurbyggist öll fullorðinsárin,“ segir í tímaritinu Scientific American. „Af þessum sökum endurnýjast í rauninni öll beinagrindin á 10 ára fresti.“ Aðrir líkamshlutar endurnýjast með styttra millibili. Sumar frumur í húðinni, lifrinni og görnunum endurnýjast næstum daglega. Á hverri sekúndu framleiðir líkaminn um 25 milljónir nýrra frumna sem er skipt úr fyrir aðrar. Ef þetta gerðist ekki og það væri ekki stöðugt verið að gera við eða endurnýja alla líkamshluta yrðum við gömul á barnsaldri.

Þegar líffræðingar fóru að skoða sameindir í lifandi frumum kom í ljós að það er í raun mjög sérstakt að við skulum ekki slitna með tímanum. Þegar frumur endurnýjast verður hver ný fruma að fá afrit af erfðaefninu DNA, en það er sú sameind sem inniheldur flestar þær upplýsingar sem þarf til að endurskapa allan líkamann. Ímyndaðu þér hversu oft DNA hefur verið afritað, ekki aðeins á æviskeiði þínu og í þínum líkama heldur frá því að saga mannsins hófst. Tökum dæmi til að lýsa því hversu einstakt þetta er: Hvað myndi gerast ef þú ljósritaðir skjal og notaðir síðan afritið til að gera næsta ljósrit? Ef þú gerðir þetta aftur og aftur yrðu gæði afritanna sífellt minni og að lokum yrðu þau ólæsileg. Sem betur fer breytist gæði DNA ekki þegar frumurnar skipta sér í sífellu. Af hverju ekki? Af því að frumurnar nota ýmsar aðferðir til að laga villur sem verða þegar DNA er afritað. Ef sú væri ekki raunin hefði mannkynið fyrir löngu orðið að engu.

Þar sem stöðugt er verið að endurnýja alla hluta líkamans — frá stærstu einingum til minnstu sameinda — er ekki hægt að segja að öldrun stafi einungis af því að líkaminn slitni með tímanum. Allir líkamshlutar endurnýja sig í áratugi og gera við sjálfa sig á mismunandi hátt og á mismunandi hraða. Af hverju stöðvast þá þessi endurnýjun alls staðar í líkamanum á næstum sama tíma?

Er öldrun forrituð í okkur?

Af hverju lifir heimilisköttur í um 20 ár en pokarotta af svipaðri stærð í aðeins 3 ár? * Af hverju getur leðurblaka lifað í 20 til 30 ár en mús aðeins í 3 ár? Af hverju getur risaskjaldbaka lifað í 150 ár en fíll einungis í 70 ár? Þættir eins og mataræði, líkamsþyngd, stærð heilans og hraði efnaskipta útskýra ekki þennan mismun. Alfræðiorðabókin Encyclopædia Britannica segir: „Fyrirmæli um það hve lengi lífverur geta lifað eru tryggileg geymd í erfðalyklinum.“ Hámarkslífstími er því skráður í genin. En hvað verður til þess að líkamsstarfsemin hægir á sér þegar sígur á seinni hluta ævinnar?

Sameindalíffræðingurinn dr. John Medina skrifar: „Á vissum tímum virðast fullþroska frumur fá dularfull skilaboð um að hætta að sinna starfi sínu.“ Hann bætir við: „Til eru gen sem geta sagt frumum og reyndar heilum líffærum að hrörna og deyja.“

Það mætti líkja líkamanum við fyrirtæki sem hefur stundað viðskipti með góðum árangri í áratugi. En skyndilega hætta yfirmennirnir að ráða og þjálfa nýtt starfsfólk, þeir hætta að gera við og endurnýja vélarnar og hætta að halda við fasteignunum. Fljótlega fer reksturinn að ganga illa. En af hverju breyttu allir yfirmennirnir stefnu sinni? Líffræðingar, sem rannsaka öldrun, standa frammi fyrir svipaðri spurningu. Í bókinni The Clock of Ages segir: „Þegar verið er að rannsaka öldrun er mesta ráðgátan fólgin í því að skilja hvers vegna frumur hætta að fjölga sér og fara að deyja.“

Er hægt að koma í veg fyrir öldrun?

Sumir hafa kallað öldrun „flóknasta vandamálið á sviði líffræðinnar“. Eftir áratuga rannsóknir hafa vísindamenn ekki komist að raun um hvað veldur öldrun og þaðan af síður fundið leiðir til að koma í veg fyrir hana. Árið 2004 gaf 51 vísindamaður, sem rannsakar öldrun, út viðvörun í tímaritinu Scientific American. Þar stóð: „Það er ekkert á markaðinum núna — ekki neitt — sem hægt er að sanna að hægi á, stöðvi eða vinni gegn áhrifum öldrunar.“ Þó að heilbrigt mataræði og hreyfing geti bætt heilsuna og dregið úr líkum á því að fólk deyi um aldur fram vegna sjúkdóma er ekki búið að finna neitt sem getur hægt á öldrunarferlinu. Þessar niðurstöður minna okkur á orð Jesú í Biblíunni: „Hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?“ — Matteus 6:27.

Medina dregur saman þann árangur sem orðið hefur í baráttunni við ellina og segir: „Við vitum yfir höfuð ekki af hverju við eldumst. . . . Þótt við lýstum krabbameini stríð á hendur fyrir mörgum áratugum höfum við ekki enn fundið lækningu. Og öldrunarferlið er mun flóknara en það ferli sem orsakar krabbamein.“

Rannsóknir leiða til mikilvægrar niðurstöðu

Rannsóknir á starfsemi lífvera og hvers vegna þær hrörna hafa ekki gert út um allar vonir um lengra líf. Sumir hafa komist að óhjákvæmilegri niðurstöðu sem er nauðsynleg til að skilja öldrunarferlið. Sameindalífefnafræðingurinn, Michael Behe, skrifar: „Síðastliðna fjóra áratugi hefur lífefnafræðin afhjúpað leyndardóma frumunnar. . . . Niðurstaðan af öllum þessum rannsóknum á frumunni — á lífinu á sameindarstigi — er skýr og ótvíræð: Fruman er hönnuð.“ Einhver skapaði lifandi verur af mikilli visku. Michael Behe er auðvitað ekki fyrsti maðurinn sem kemst að þessari niðurstöðu. Eftir að sálmaritari til forna hafði velt fyrir sér uppbyggingu mannslíkamans skrifaði hann: „Ég er undursamlega skapaður.“ — Sálmur 139:14.

En ef allar lifandi verur eru hannaðar vaknar áhugaverð spurning: Skapaði Guð, hinn mikli hönnuður, mennina þannig að ævi þeirra væri um það bil jafn löng og ævi margra dýra eða vill hann að við lifum lengur en dýrin?

[Neðanmáls]

^ Pokarottan er pokadýr sem lifir í Norður-Ameríku.

[Innskot á blaðsíðu 6]

‚Við erum undursamlega sköpuð.‘

[Mynd á blaðsíðu 4, 5]

Stafar öldrun af því að við slitnum með tímanum?

[Mynd credit line á blaðsíðu 6]

DNA: Mynd: www.comstock.com