Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

„Hafdjúpið er langstærsta búsvæði jarðarinnar. Og jafnframt það erfiðasta . . . Samt finnum við líf alls staðar, stundum í óvenjumiklum mæli.“ — NEW SCIENTIST, BRETLAND.

Nýlega féll dómur í prófmáli fyrir alríkisdómstóli í Harrisburg í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Dómarinn í málinu kvað upp þann úrskurð að það væri „ekki í samræmi við stjórnarskrána að kenna [vitsmunalega hönnun] sem valkost í staðinn fyrir þróunarkenninguna í vísindafögum í almenningsskólum“. — NEW YORK TIMES, BANDARÍKIN.

Samkvæmt skoðunarkönnun á vegum dagblaðs árið 2005 „höfnuðu 51 prósent Bandaríkjamanna þróunarkenningunni“. — NEW YORK TIMES, BANDARÍKIN.

Í júní 2006 dó Harriet sem var risaskjaldbaka frá Galapagoseyjum. Hún vó 150 kíló og bjó í dýragarði í Brisbane í Ástralíu. Hún var 175 ára og „elsta dýrið í heiminum sem vitað er um“. — AUSTRALIAN BROADCASTING CORPORATION

Svissneskir rannsóknarmenn hafa komist að því hvernig sumar maístegundir verja sig gegn vestrænum rótarormi. Maísinn hleypir lykt ofan í jörðina. Lyktin laðar að sér agnarsmáa þráðorma sem drepa lirfu rótarormsins. — DIE WELT, ÞÝSKALAND.

Risasmokkfiskur festur á filmu

Vísindamönnum hefur nú í fyrsta skipti tekist að ná myndum af lifandi risasmokkfiski í náttúrulegu umhverfi sínu nálægt Bonin-eyjum fyrir sunnan Japan. Þeir festu beitu úr litlum smokkfiskum og rækjum á króka og settu myndavélar fyrir ofan. Risasmokkfiskurinn, sem birtist á um 900 metra dýpi, er talinn hafa verið um 8 metrar að lengd.

„Risaeðlur átu gras“

„Það kemur vísindamönnum mjög á óvart að risaeðlur átu gras,“ segir í frétt frá Associated Press. Það uppgötvaðist þegar steingert graseðlutað, sem fannst á Indlandi, var rannsakað. Hvers vegna kom þetta á óvart? Áður var talið að „gras hefði ekki verið til fyrr en löngu eftir að risaeðlurnar dóu út“, segir í fréttinni. Auk þess var talið að graseðlur „hefðu ekki þess konar tennur sem þarf til að tyggja hrjúf grasstrá“. Jurtasteingervingafræðingurinn Caroline Stromberg, sem fór fyrir þessari rannsókn, segir: „Fæstir hefðu getað ímyndað sér að þær hefðu étið gras.“

Hvernig fljúga býflugur?

Það hefur verið sagt í gamni að verkfræðingar hafi sannað að býflugur geti ekki flogið. Svona „þungt“ skordýr ætti ekki að geta flogið miðað við hvað vængjatök þess eru stutt. Til að komast að leyndarmáli býflugunnar tóku verkfræðingar „kvikmynd af fljúgandi býflugum og notuðu til þess kvikmyndavél sem tekur 6000 myndaramma á sekúndu“, segir í tímaritinu New Scientist. Tæknin, sem býflugan beitir, er „óvenjuleg“. „Vængirnir sveiflast aftur á við í 90 gráðu boga og snúast síðan við á leiðinni til baka — og það 230 sinnum á sekúndu. . . . Þetta er eins og skrúfa þar sem spaðarnir snúast líka,“ segir einn úr rannsóknarhópnum. Uppgötvun verkfræðinganna mun ef til vill hjálpa þeim að endurhanna skrúfur og smíða liprari flugvélar.

Syngjandi mýs

„Mýs geta sungið og . . . söngvar þeirra til tilvonandi maka eru nánast jafnflóknir og hjá fuglum,“ segir í tímaritinu New Scientist. Mýsnar syngja á hátíðni, það er að segja í tónhæð sem er of há til að mannseyrað greini hana, en það er líklega ástæða þess að ekki var vitað um þetta fyrr. Rannsóknarmenn í St. Louis í Missouri í Bandaríkjunum komust að því að hljóðin, sem karldýrin gáfu frá sér, „skiptust í laglínur og stef og geta því kallast ‚söngur‘“. Þetta setur mýsnar í sérflokk. Fyrir utan mýs eru hvalir og sumar leðurblökur einu spendýrin sem vitað er til að syngi, að ógleymdum okkur mönnunum.