Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég varið trú mína á sköpun?

Hvernig get ég varið trú mína á sköpun?

Ungt fólk spyr . . .

Hvernig get ég varið trú mína á sköpun?

„Þegar fjallað var um þróunarkenninguna í bekknum stangaðist það á við allt sem mér hafði verið kennt. Hún var sett fram sem staðreynd og það dró úr mér kjark.“ — Ryan, 18 ára.

„Kennarinn, sem ég var með þegar ég var 12 ára, var harður þróunarsinni. Hann var meira að segja með Darwin-límmiða á bílnum sínum. Þess vegna fannst mér erfitt að segja frá því að ég tryði á sköpun.“ — Tyler, 19 ára.

„Ég varð dauðhrædd þegar félagsfræðikennarinn sagði að í næsta tíma myndum við ræða um þróunarkenninguna. Ég vissi að ég þyrfti að útskýra fyrir bekknum hver afstaða mín væri til þessa umdeilda málefnis.“ — Raquel, 14 ára.

KANNSKI líður þér eins og Ryan, Tyler og Raquel og finnst óþægilegt þegar þróunarkenningin er til umræðu í bekknum. Þú trúir því að Guð hafi „skapað alla hluti“. (Opinberunarbókin 4:11) Þú sérð merki um hugvit og hönnun allt í kringum þig. En í skólabókunum er því haldið fram að við höfum þróast og kennarinn segir það líka. Átt þú að fara að mótmæla „sérfræðingunum“? Og hvernig ætli bekkjarfélagarnir bregðist við ef þú ferð að tala um . . . Guð?

En vertu óhræddur þó að spurningar sem þessar sæki á þig. Þú ert ekki sá eini sem trúir á sköpun. Staðreyndin er sú að fjöldi vísindamanna viðurkennir ekki þróunarkenninguna. Hið sama er að segja um marga kennara. Og í Bandaríkjunum trúa 4 af hverjum 5 námsmönnum á skapara hvað sem skólabækurnar segja.

En þú veltir kannski fyrir þér hvað þú eigir að segja ef þú þarft að verja trú þína á sköpun. Þótt þú sért feiminn máttu treysta því að þú ert fær um að standa fyrir máli þínu. En það krefst undirbúnings.

Sannaðu fyrir sjálfum þér að til sé skapari

Ef þú ert alinn upp af kristnum foreldrum trúirðu kannski á sköpun einfaldlega vegna þess að það er það sem þér hefur verið kennt. En núna þegar þú ert orðinn eldri viltu beita rökhyggjunni svo að trú þín og tilbeiðsla byggist á traustum grunni. (Rómverjabréfið 12:1, NW) Páll hvatti kristna menn á fyrstu öld til að ‚prófa allt‘, það er að segja sannreyna það. (1. Þessaloníkubréf 5:21) En hvernig geturðu sannað fyrir sjálfum þér að til sé skapari?

Í fyrsta lagi skaltu minnast þess sem Páll skrifaði um Guð: „Hið ósýnilega eðli hans . . . er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ (Rómverjabréfið 1:20) Með þessi orð í huga geturðu skoðað mannslíkamann, jörðina, alheiminn eða hafdjúpin. Þú getur kannað heim skordýranna, jurtanna eða dýranna — hvaðeina sem vekur áhuga þinn. Beittu síðan rökhyggjunni og spyrðu þig: Hvað sannfærir mig um að til sé skapari?

Sam, sem er 14 ára, las sér til um mannslíkamann til að svara þessari spurningu. „Hann er svo margslunginn og flókinn,“ segir hann, „og allir líkamshlutarnir vinna svo vel saman. Það er óhugsandi að mannslíkaminn hafi þróast.“ Holly, sem er 16 ára, tekur í sama streng: „Ég hef lært margt um starfsemi líkamans eftir að ég greindist með sykursýki,“ segir hún. „Það er til dæmis stórkostlegt að hugsa til þess hvað briskirtillinn, sem er lítið líffæri á bak við magann, gegnir stóru hlutverki í starfsemi blóðsins og annarra líffæra.“

Sumir unglingar líta á málin frá öðrum sjónarhóli. Jared, sem er 19 ára, segir: „Mér finnst sterkasta sönnunin vera fólgin í því að við höfum trúarþörf, fegurðarskyn og erum fróðleiksfús. Þessir eiginleikar eru ekki lífsnauðsynlegir en samkvæmt þróunarkenningunni er allt sem við búum yfir sprottið af ákveðinni þörf. Mér finnst eina rökrétta skýringin vera sú að við séum handaverk einhvers sem vildi að við nytum lífsins.“ Tyler, sem áður var vitnað í, hefur komist að svipaðri niðurstöðu. „Þegar ég leiði hugann að hlutverki jurtanna í að viðhalda lífinu og hversu ótrúlega flóknar þær eru sannfærist ég um að til sé skapari.“

Það er auðveldara að taka málstað sköpunarinnar ef maður hefur hugsað málið vandlega og látið sannfærast. Gefðu þér því tíma til að hugleiða handaverk Guðs eins og Sam, Holly, Jared og Tyler hafa gert. „Hlustaðu“ síðan á það sem sköpunarverkið „segir“ þér. Þú kemst örugglega að sömu niðurstöðu og Páll postuli sem sagði að bæði tilvist Guðs og eiginleikar væru augljósir „af verkum hans“. *

Þú þarft að vita hvað Biblían kennir

Auk þess að skoða vandlega handaverk Guðs þarftu líka að vita hvað Biblían kennir í raun og veru til að geta varið trú þína á sköpun. Það er óþarfi að gera eitthvað að deiluefni sem Biblían segir lítið eða ekkert um. Tökum nokkur dæmi.

Í kennslubókinni minni segir að jörðin og sólkerfið hafi verið til um milljarða ára. Biblían segir ekkert um aldur jarðarinnar og sólkerfisins. Það sem hún segir samræmist hugmyndinni um að alheimurinn, þar á meðal jörðin, hafi verið til um milljarða ára áður en fyrsti „dagur“ sköpunarinnar hófst. — 1. Mósebók 1:1, 2.

Kennarinn minn segir að það hefði ekki verið hægt að skapa jörðina á aðeins sex dögum. Biblían segir ekki að hver sköpunardagur hafi verið bókstaflega einn sólarhringur. Nánari upplýsingar er að finna á bls. 18-20 í þessu blaði.

Í bekknum mínum var rætt um mörg dæmi um það hvernig menn og dýr hafa breyst með tímanum. Í Biblíunni segir að Guð hafi skapað lifandi verur „eftir þeirra tegund“. (1. Mósebók 1:20, 21) Hún styður ekki þá hugmynd að lífið hafi kviknað af lífvana efni eða að Guð hafi komið þróunarferlinu af stað með einni frumu. Hver „tegund“ býður samt upp á mikla fjölbreytni. Samkvæmt Biblíunni er því svigrúm fyrir vissar breytingar innan hverrar ‚tegundar‘.

Vertu öruggur með trú þína

Það er engin ástæða til að fara hjá sér eða skammast sín þótt maður trúi á sköpun. Að vel athuguðu máli sjáum við að það er mjög rökrétt, meira að segja vísindalegt, að trúa því að við séum hönnuð af vitibornum skapara. Það er því í rauninni þróunarkenningin — ekki sköpunin — sem krefst mikillar trúar. Til að lífið hafi þróast þurfa að hafa átt sér stað ótal kraftaverk án þess að nokkur kæmi þar nærri. Þegar þú hefur lesið hinar greinarnar í þessu blaði muntu eflaust sannfærast um að öll rök styðji það að lífið sé skapað. Og þegar þú hefur hugleitt málið vandlega treystirðu þér örugglega betur til þess að verja trú þína í skólanum.

Raquel, sem nefnd var hér á undan, komst að þessari niðurstöðu. „Það tók mig nokkra daga að átta mig á því að ég ætti ekki að þegja yfir trú minni,“ segir hún. „Ég gaf kennaranum bókina Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? og var búin að merkja við nokkur atriði sem ég vildi vekja athygli hennar á. Seinna sagði hún mér að bókin hefði gefið sér nýja sýn á þróunarkenninguna og að í framtíðinni myndi hún taka mið af þessum upplýsingum þegar hún kenndi þetta efni.“

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr . . .“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype.

[Neðanmáls]

^ Margir unglingar hafa notið góðs af bókum eins og Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? og Er til skapari sem er annt um okkur? Báðar bækurnar eru gefnar út af Vottum Jehóva.

TIL UMHUGSUNAR

◼ Hvaða leiðir sérðu til að segja frá því í skólanum að þú trúir á sköpun?

◼ Hvernig geturðu sýnt að þú sér þakklátur skapara allra hluta? — Postulasagan 17:26, 27.

[Rammi á blaðsíðu 27]

„SANNANIRNAR ERU NÆGAR“

„Hvað myndirðu segja við ungling sem er alinn upp í þeirri trú að til sé skapari en er að læra um þróunarkenninguna í skólanum?“ Þessi spurning var lögð fyrir örverufræðing sem er vottur Jehóva. Hverju svaraði hún? „Þú ættir að líta á það sem tækifæri til að sanna fyrir sjálfum þér að Guð sé til — ekki aðeins af því að foreldrarnir kenndu þér það heldur af því að þú hefur athugað málið og komist að þessari niðurstöðu. Stundum eru kennarar beðnir um að ‚sanna‘ þróunarkenninguna en uppgötva að þeir geta það ekki. Þeir gera sér þá grein fyrir því að þeir taka hana góða og gilda einfaldlega vegna þess að þetta var það sem þeim var kennt. Þeir sem trúa á skapara gætu fallið í sömu gildru. Þess vegna er það þess virði að sanna fyrir sjálfum sér að Guð sé til í raun og veru. Sannanirnar eru nægar og það er ekki erfitt að finna þær.“

[Rammi/mynd á blaðsíðu 28]

HVAÐ SANNFÆRIR ÞIG?

Skrifaðu niður þrennt sem sannfærir þig um að til sé skapari:

1. ․․․․․

2. ․․․․․

3. ․․․․․