Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna við trúum á skapara

Hvers vegna við trúum á skapara

Hvers vegna við trúum á skapara

Margir sérfræðingar í ýmsum vísindagreinum telja sig sjá merki um hugvitssama hönnun í ríki náttúrunnar. Þeim finnst órökrétt að margbreytileiki lífsins á jörðinni hafi orðið til af tilviljun. Margir rannsóknarmenn og vísindamenn trúa þess vegna að til sé skapari.

Sumir þeirra hafa gerst vottar Jehóva. Þeir eru sannfærðir um að Guð Biblíunnar sé hönnuður og skapari hins efnislega alheims. Hvers vegna hafa þeir komist að þeirri niðurstöðu? Vaknið! átti viðtal við nokkra þeirra. Þér þykir trúlega athyglisvert að lesa svörin. *

„Lifandi verur eru óendanlega flóknar“

WOLF-EKKEHARD LÖNNIG:

Síðastliðin 28 ár hef ég unnið við vísindarannsóknir á stökkbreytingum jurta. Þar af hef ég starfað í 21 ár við Max Planck jurtarannsóknastofnunina í Köln í Þýskalandi. Ég hef líka verið öldungur í söfnuði Votta Jehóva í næstum þrjátíu ár.

Við rannsóknir mínar í erfðafræði, líffræði, lífeðlisfræði og formfræði blasir við mér hve lifandi verur eru óendanlega flóknar. Þessar rannsóknir hafa styrkt þá sannfæringu mína að það hljóti að standa vitiborinn hönnuður á bak við öll lífsform, jafnvel þau einföldustu.

Vísindasamfélagið veit fullvel hve margbrotnar lifandi verur eru. En þessar heillandi staðreyndir eru yfirleitt settar fram með sterkri vísun í þróunarkenninguna. Mér finnst þau rök, sem eiga að mæla gegn sköpunarsögu Biblíunnar, missa vægi sitt þegar þau eru skoðuð af vísindalegri nákvæmni. Ég hef kynnt mér slík rök undanfarna áratugi. Eftir að hafa rannsakað lifandi verur mjög vandlega og hugleitt hve fínstillt þau lögmál virðast vera, sem stjórna alheiminum, get ég ekki annað en trúað á skapara.

„Allt sem ég skoða á sér orsök“

BYRON LEON MEADOWS:

Ég starfa hjá Geimvísindastofnun Bandaríkjanna og fæst við eðlisfræði leysiljóss. Eins og er vinn ég að því að þróa tækni til að geta fylgst betur með loftslagi jarðar, veðri og öðrum fyrirbærum. Ég er öldungur í einum söfnuði Votta Jehóva nálægt Kilmarnock í Virginíu.

Lögmál eðlisfræðinnar koma oft við sögu í rannsóknum mínum. Ég reyni að glöggva mig á því hvernig og hvers vegna ákveðnir hlutir gerast. Ég sé sterk rök fyrir því í rannsóknum mínum að allt eigi sér orsök. Ég tel að það sé skynsamlegt frá vísindalegum sjónarhóli að viðurkenna að Guð sé frumorsök alls í náttúrunni. Náttúrulögmálin eru svo stöðug að ég get ekki trúað öðru en að þau séu skipulögð og eigi sér skapara.

Af hverju trúa margir vísindamenn á þróun fyrst þessi ályktun er svona augljós? Ætli ástæðan geti verið sú að þróunarsinnar séu búnir að gefa sér niðurstöðuna áður en þeir líta á gögnin? Það er ekki óþekkt meðal vísindamanna. Þó að maður sjái eitthvert fyrirbæri og það virðist sannfærandi er ekki þar með sagt að maður dragi rétta ályktun. Sá sem rannsakar eðlisfræði leysiljóss gæti til dæmis haldið því fram að ljós sé bylgjuhreyfing, svipuð hljóðbylgju, af því að ljós hegðar sér oft eins og bylgjuhreyfing. En það gæfi ekki skýra heildarmynd vegna þess að rannsóknir sýna að ljós hegðar sér einnig eins og eindir, svonefndar ljóseindir. Þeir sem halda því fram að þróun sé staðreynd byggja ályktanir sínar aðeins á hluta gagnanna, og þeir leyfa niðurstöðunni, sem þeir eru búnir að gefa sér, að hafa áhrif á það hvernig þeir túlka gögnin.

Ég undrast það að nokkur maður skuli viðurkenna þróun sem staðreynd í ljósi þess að „sérfræðingar“ í þróunarfræðum deila um hvernig hún eigi að hafa átt sér stað. Myndum við til dæmis taka talnareikning góðan og gildan ef sumir sérfræðingar segðu að 2 plús 2 væru 4 en aðrir sérfræðingar héldu því fram að 2 plús 2 væru 3 eða jafnvel 6? Ef það er hlutverk vísindanna að viðurkenna aðeins það sem hægt er að sanna, prófa og endurtaka, þá er sú kenning að allt líf hafi þróast af sameiginlegum forföður ekki vísindaleg staðreynd.

„Ekkert verður til af sjálfu sér“

KENNETH LLOYD TANAKA:

Ég er jarðfræðingur að mennt og starfa sem stendur hjá Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna í Flagstaff í Arizona. Í tæplega þrjátíu ár hef ég tekið þátt í vísindarannsóknum á ýmsum sviðum jarðfræðinnar, þar á meðal jarðfræði reikistjarna. Ég hef skrifað tugi greina um þessar rannsóknir og gert jarðfræðikort af Mars sem hefur hvort tveggja verið birt í virtum vísindatímaritum. Ég er vottur Jehóva og nota um 70 klukkustundir í hverjum mánuði til að stuðla að biblíulestri.

Mér var kennt að trúa á þróun en ég gat ekki fallist á að öll sú gríðarlega orka, sem hefur þurft til að mynda alheiminn, hafi getað komið fram án þess að eiga sér voldugan skapara. Ekkert verður til af sjálfu sér. Ég finn líka sterk rök fyrir því í Biblíunni að til sé skapari. Þar er að finna fjölda vísindalegra staðreynda sem koma inn á sérfræðisvið mitt, svo sem að jörðin sé hnöttótt og svífi „í tómum geimnum“. (Jobsbók 26:7; Jesaja 40:22) Þessar staðreyndir stóðu í Biblíunni löngu áður en mennirnir sýndu fram á þær með rannsóknum sínum.

Lítum aðeins á hvernig við erum úr garði gerð. Við höfum skilningarvit, sjálfsvitund, rökhugsun og tilfinningar, og erum fær um að tjá okkur. Og það sem meira er, við getum elskað og sýnt kærleika og finnst gott að vera elskuð. Þróun getur ekki skýrt hvernig þessir frábæru eiginleikar mannsins urðu til.

Hversu áreiðanlegar og trúverðugar eru þær heimildir sem eru notaðar til að rökstyðja þróunarkenninguna? Jarðsagan er gloppótt, flókin og ruglingsleg. Þróunarfræðingar hafa ekki getað sýnt fram á með vísindalegum aðferðum á tilraunastofu að þær breytingar, sem kenningin gerir ráð fyrir, hafi átt sér stað. Og þó að vísindamenn beiti yfirleitt góðum rannsóknaraðferðum þegar þeir safna gögnum láta þeir oft stjórnast af eigingjörnum hvötum þegar þeir túlka þau. Þess eru dæmi að vísindamenn hafi haldið fram sínum eigin skoðunum þegar gögnin eru ófullnægjandi eða mótsagnakennd. Starfsframi og sjálfsálit vegur oft þungt hjá þeim.

Sem vísindamaður og biblíunemandi legg ég mig fram um að leita að öllum sannleikanum sem samræmist öllum þekktum staðreyndum og athugunum til að fá sem nákvæmastan skilning. Mér finnst rökréttast að trúa á skapara.

„Fruman er augljóslega hönnuð“

PAULA KINCHELOE:

Ég hef starfað um árabil við rannsóknir á frumunni og rannsóknir í sameindalíffræði og örverufræði. Sem stendur er ég ráðin við Emoryháskóla í Atlanta í Georgíu í Bandaríkjunum. Ég vinn sömuleiðis sjálfboðastarf sem biblíukennari meðal rússneskumælandi fólks.

Þegar ég stundaði nám í sameindalíffræði varði ég fjórum árum í að rannsaka frumuna og gerð hennar. Því meira sem ég lærði um DNA, RNA, prótín og efnaskiptaferli, þeim mun meira undraðist ég hve flókin fruman er og nákvæmlega skipulögð. Og þó að ég gæti ekki annað en dáðst að því hve mikið við mennirnir vitum um frumuna undraðist ég enn meir hve mikið við eigum ólært. Ein ástæðan fyrir því að ég trúi á Guð er sú að fruman er augljóslega hönnuð.

Af biblíunámi mínu hef ég uppgötvað hver skaparinn er — það er að segja Jehóva Guð. Ég er sannfærð um að hann er ekki aðeins snjall hönnuður heldur einnig ástríkur faðir sem lætur sér annt um mig. Biblían skýrir tilgang lífsins og vekur von um hamingjuríka framtíð.

Skólabörn eru oft í óvissu um hverju þau eigi að trúa þegar verið er að kenna þróun. Oft eru þau ráðvillt meðan á því stendur. Ef þau trúa á Guð getur þetta reynt á trú þeirra. En þau geta tekist á við það með því að kynna sér hin mörgu undur náttúrunnar umhverfis okkur og með því að halda áfram að byggja upp þekkingu á skaparanum og eiginleikum hans. Ég hef gert þetta sjálf og komist að þeirri niðurstöðu að sköpunarsaga Biblíunnar er nákvæm og stangast ekki á við sönn vísindi.

„Fáguð og einföld lögmál“

ENRIQUE HERNÁNDEZ-LEMUS:

Ég er vottur Jehóva og nota verulegan hluta af tíma mínum til að boða trúna. Ég er menntaður í fræðilegri eðlisfræði og starfa við Þjóðarháskólann í Mexíkó. Um þessar mundir vinn ég að því að finna varmafræðilega skýringu á fyrirbæri sem kallast varmaháð þyngdarhrun (gravothermal catastrophe) en það tengist vexti stjarna. Ég hef einnig unnið við basaraðir DNA.

Lífið er hreinlega flóknara en svo að það hafi getað kviknað af tilviljun. Tökum sem dæmi þær gríðarmiklu upplýsingar sem eru geymdar í DNA-sameindinni. Stærðfræðilegar líkur á að einn litningur hafi myndast af tilviljun er innan við 1 á móti 9 milljón milljónum sem er svo ósennilegt að það er talið óhugsandi. Mér finnst fásinna að trúa því að öfl án vitsmuna hafi getað skapað ekki aðeins einn litning heldur allar lifandi verur sem eru svo ótrúlega flóknar að gerð.

Þegar ég rannsaka hina afar flóknu hegðun efnis, hvort heldur er á öreindastigi eða í risastórum geimþokum, er ég snortinn af því hve fáguð og einföld lögmál það eru sem stjórna hreyfingum þeirra. Í huga mér eru þessi lögmál ekki aðeins merki um mikinn stærðfræðing heldur eru þau eins og undirskrift mikils listamanns.

Fólk er oft hissa þegar ég segist vera vottur Jehóva. Sumir spyrja hvernig ég geti trúað á Guð. Þetta eru skiljanleg viðbrögð af því að það er sjaldgæft að trúfélög hvetji áhangendur sína til að fara fram á sannanir fyrir því sem þeim er kennt eða rannsaka trúarskoðanir sínar. En Biblían hvetur okkur til að nota „skynsemina“. (Orðskviðirnir 2:3) Öll merkin um hugvit og hönnun, sem ég sé í náttúrunni, ásamt þeim vísbendingum, sem er að finna í Biblíunni, sannfæra mig um að Guð sé til og hafi áhuga á að heyra bænir okkar.

[Neðanmáls]

^ Sjónarmið sérfræðinganna, sem lýsa afstöðu sinni hér, endurspegla ekki endilega sjónarmið vinnuveitenda þeirra.

[Mynd credit line á blaðsíðu 22]

Mars (bakgrunnur): Með góðfúslegu leyfi USGS Astrogeology Research Program, http://astrogeology.usgs.gov.