Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Notaði Guð þróun við sköpunina?

Notaði Guð þróun við sköpunina?

Notaði Guð þróun við sköpunina?

„Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ — OPINBERUNARBÓKIN 4:11.

STUTTU eftir að þróunarkenning Charles Darwins varð vinsæl fóru margar kirkjudeildir kristna heimsins að reyna að samrýma trúna á Guð og þróunarkenninguna.

Núna virðast flestar af stærstu kirkjudeildunum fúsar til að viðurkenna að Guð hljóti að hafa notað þróun með einhverjum hætti við sköpun lifandi vera. Sumir kenna að Guð hafi gert alheiminn þannig úr garði að lifandi verur myndu óhjákvæmilega þróast úr lífvana efni og með tímanum mynda mannkynið. Þeir sem aðhyllast þessa kenningu telja að Guð hafi ekki komið nálægt þróunarferlinu eftir að það fór af stað. Aðrir líta svo á að Guð hafi leyft þróuninni að mynda flestar ættir plantna og dýra en gripið inn í við og við til að stýra ferlinu.

Geta kenningarnar farið saman?

En er hægt að samrýma þróunarkenninguna og kenningar Biblíunnar? Ef þróunarkenningin er sönn væri frásagan af sköpun fyrsta mannsins, Adams, saga sem ætti í besta falli að flytja okkur siðrænan boðskap en ekki taka bókstaflega. (1. Mósebók 1:26, 27; 2:18-24) En hvernig leit Jesús á þessa frásögu Biblíunnar? „Hafið þér eigi lesið,“ sagði hann, „að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: ‚Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.‘ Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ — Matteus 19:4-6.

Hér vitnar Jesús í sköpunarsöguna í 2. kafla 1. Mósebókar. Hefði hann notað fyrsta hjónabandið til að leggja áherslu á heilagleika hjónabandsins ef hann hefði haldið að frásagan væri ekki sönn? Nei, Jesús vísaði í frásöguna í 1. Mósebók af því að hann vissi að hún var sannsöguleg. — Jóhannes 17:17.

Lærisveinar Jesú trúðu líka sköpunarsögu Biblíunnar. Sem dæmi má nefna að í Lúkasarguðspjalli er ætt Jesú rakin alla leið aftur til Adams. (Lúkas 3:23-38) Ef Adam var skálduð persóna hvenær breyttist þá ættarskráin úr staðreynd í skáldskap? Ef rót ættartrésins er goðsagnapersóna hversu sannfærandi er þá fullyrðing Jesú um að hann hafi verið Messías, fæddur í ættlegg Davíðs? (Matteus 1:1) Guðspjallaritarinn Lúkas sagðist hafa „athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi“. Hann trúði greinilega sköpunarsögunni. — Lúkas 1:3.

Trú Páls postula á Jesú byggðist á því að hann treysti frásögunni í 1. Mósebók. Hann skrifaði: „Þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann. Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.“ (1. Korintubréf 15:21, 22) Ef Adam var ekki bókstaflegur forfaðir allra manna og sá sem „syndin kom inn í heiminn fyrir . . . og dauðinn fyrir syndina“ af hverju þurfti Jesús þá að gera að engu áhrif erfðasyndarinnar? — Rómverjabréfið 5:12; 6:23.

Ef við gröfum undan trúnni á frásöguna í 1. Mósebók veikjum við undirstöður kristinnar trúar. Þróunarkenningin og kenningar Krists geta ekki farið saman. Allar tilraunir til að flétta þær saman eru ávísun á veika trú sem berst „fram og aftur af hverjum kenningarvindi“. — Efesusbréfið 4:14.

Trú byggð á traustum grunni

Biblían hefur verið gagnrýnd og orðið fyrir árásum í aldaraðir. En æ ofan í æ hefur sannast að hún fer með rétt mál. Allt sem Biblían segir um mannkynssögu, heilsufarsmál og vísindi hefur reynst áreiðanlegt. Og það er hægt að treysta sígildum leiðbeiningum hennar um mannleg samskipti. Kenningar og heimspeki manna eru að mörgu leyti eins og grænt gras sem sprettur og visnar svo með tímanum. En orð Guðs „stendur stöðugt eilíflega“. — Jesaja 40:8.

Þróunarkenningin er ekki aðeins vísindakenning. Hún er heimspekikenning sem skaut upp kollinum og hefur blómstrað í aldaraðir. En á undanförnum árum hefur hin hefðbundna þróunarkenning Darwins þróast, og í raun stökkbreyst, þegar reynt hefur verið að útskýra auknar vísbendingar um hönnun í ríki náttúrunnar. Við hvetjum þig til að kynna þér málið nánar. Þú getur gert það með því að lesa greinarnar hér á eftir. Auk þess gætirðu lesið ritin sem sýnd eru á þessari síðu og blaðsíðu 32.

Eftir að hafa rannsakað málið betur mun trú þín á það sem Biblían segir um fortíð mannsins að öllum líkindum styrkjast. Og það sem meira er, þú munt efla traust þitt á loforð Biblíunnar um framtíðina. (Hebreabréfið 11:1) Þú gætir líka fundið hjá þér löngun til að lofa Jehóva „sem skapað hefir himin og jörð“. — Sálmur 146:6.

ÍTAREFNI

Bók fyrir alla menn Í þessum bæklingi eru gefin dæmi um áreiðanleika Biblíunnar.

Er til skapari sem er annt um okkur? Þú getur skoðað fleiri vísindaleg rök og fengið að vita hvers vegna umhyggjusamur Guð leyfir svona miklar þjáningar.

Hvað kennir biblían? Spurningunni „Hvað ætlast Guð fyrir með jörðina?“ er svarað í 3. kafla þessarar bókar.

[Innskot á blaðsíðu 10]

Jesús trúði sköpunarsögu Biblíunnar. Hafði hann rangt fyrir sér?

[Rammi á blaðsíðu 9]

HVAÐ ER ÞRÓUN?

„Þróun“ er meðal annars skilgreind sem „framför, ferli frá lægra stigi til æðra“ og með orðinu „þróast“ er átt við að „breytast stig af stigi með tímanum (oftast um framfarir eða þroska)“. Orðið „þróun“ er meðal annars notað til að lýsa stórsæjum breytingum á lífvana efni, það er að segja breytingum á alheiminum. Það er enn fremur notað til að lýsa smávægilegum breytingum á lifandi verum — aðlögun jurta og dýra að umhverfi sínu. Oftast er það þó notað um þá kenningu að lífið hafi kviknað af lífvana efnasamböndum, myndast hafi frumur sem gátu fjölgað sér og þær hafi smám saman myndað æ flóknari lífverur uns hinn vitiborni maður kom fram á sjónarsviðið. Það er í þeim skilningi sem orðið „þróun“ er notað í þessari grein.

[Mynd credit line á blaðsíðu 10]

Mynd af geimþoku: J. Hester og P. Scowen (AZ State Univ.), NASA