Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Viðtal við lífefnafræðing

Viðtal við lífefnafræðing

Viðtal við lífefnafræðing

MICHAEL J. BEHE er prófessor í lífefnafræði við Lehigh-háskólann í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Árið 1996 gaf hann út bókina Darwin’s Black Box — The Biochemical Challenge to Evolution. Nokkuð var vitnað í þessa bók í Vaknið! október – desember 1997 undir titlinum: „Hvernig urðum við til? Við sköpun eða af tilviljun?“ Á þeim áratug, sem er liðinn síðan bókin kom út, hafa þróunarfræðingar reynt sitt ýtrasta til að hrekja þau rök sem sett eru fram í bókinni. Gagnrýnismenn hafa sakað Behe, sem er rómversk-kaþólskrar trúar, um að láta trúna rugla dómgreind sína sem vísindamanns. Sumir segja að rök hans séu ekki vísindaleg. Vaknið! ræddi við prófessor Behe til að kanna ástæðuna fyrir því að skoðanir hans hafa valdið slíkum deilum.

VAKNIÐ!: AF HVERJU TELURÐU AÐ LÍFIÐ BERI VITNI UM AÐ ÞAÐ SÉ HANNAÐ AF HUGVITI?

PRÓFESSOR BEHE: Þegar við sjáum flókna, starfhæfa heild af einhverju tagi ályktum við að hún sé hönnuð. Lítum til dæmis á vélar sem við notum dags daglega, svo sem garðsláttuvél, bíl eða jafnvel einfaldari hluti. Ég nota gjarnan músagildru sem dæmi. Við ályktum að hún sé hönnuð vegna þess að hún er gerð úr ólíkum pörtum sem er þannig fyrir komið að þeir þjóna því hlutverki að veiða mýs.

Vísindin hafa nú náð að svipta hulunni af því hvernig lífið virkar á grunnstiginu. Og okkur til mikillar undrunar höfum við uppgötvað starfhæfar, flóknar sameindavélar. Inni í lifandi frumu eru til dæmis litlir „vörubílar“ eða sameindir sem flytja birgðir frá einum enda frumunnar til annars. Þar eru agnarsmá „umferðarmerki“ sem segja „vörubílunum“ að beygja til hægri eða vinstri. Sumar frumur eru með „utanborðsmótor“ sem knýr þær áfram í vökva. Þegar fólk rekst á svona flókna, starfhæfa smíði á öðrum sviðum ályktar það að hún sé hönnuð. Við höfum enga aðra skýringu á þessari flóknu gerð frumunnar, hvað svo sem þróunarkenning Darwins segir. Það er reynsla okkar á öllum öðrum sviðum að fyrirkomulag af þessu tagi sé hannað af einhverjum svo að það er réttlætanlegt að hugsa sem svo að þessi sameindakerfi séu líka hönnuð af hugviti.

VAKNIÐ!: HVER HELDURÐU AÐ SÉ ÁSTÆÐAN FYRIR ÞVÍ AÐ FLESTIR STARFSBRÆÐUR ÞÍNIR ERU ÓSAMMÁLA ÁLYKTUNUM ÞÍNUM UM HUGVIT OG HÖNNUN?

PRÓFESSOR BEHE: Margir vísindamenn eru mér ósammála vegna þess að þeir gera sér grein fyrir að hugmyndin um hugvit og hönnun hefur áhrif sem nær út fyrir svið vísindanna — það er að segja að hún virðist vísa sterkt til einhvers utan hins efnislega heims. Þessi ályktun gerir marga taugaóstyrka. En mér var alltaf kennt að vísindin eigi að fylgja sönnunargögnunum, hvert sem þau leiða mann. Að mínu mati ber það vott um ákveðið kjarkleysi að veigra sér við að horfast í augu við það sem öll gögn benda til, af þeirri ástæðu einni að maður heldur að niðurstaðan hafi óæskilegar heimspekilegar afleiðingar.

VAKNIÐ!: HVERNIG SVARAR ÞÚ GAGNRÝNI ÞEIRRA SEM SEGJA AÐ ÞAÐ ÝTI UNDIR FÁFRÆÐI AÐ VIÐURKENNA HUGMYNDINA UM HUGVIT OG HÖNNUN?

PRÓFESSOR BEHE: Það er ekki fáfræði sem fær okkur til að álykta að náttúran sé hönnuð af hugviti. Þessi niðurstaða er ekki til komin af því sem við vitum ekki heldur því sem við vitum. Lífið virtist ósköp einfalt þegar Darwin gaf út bókina Uppruni tegundanna fyrir hálfri annarri öld. Vísindamenn töldu að fruman væri svo einföld að hún gæti sprottið af sjálfu sér upp úr sjávarleðjunni. Síðan þá hafa vísindin uppgötvað að fruman er óhemjuflókin, margfalt flóknari en vélar 21. aldar. Þessi flókna, starfhæfa heild ber vitni um hönnun sem hefur ákveðinn tilgang.

VAKNIÐ!: HAFA VÍSINDIN GETAÐ BENT Á EITTHVAÐ SEM SANNAR AÐ HINAR FLÓKNU SAMEINDAVÉLAR, SEM ÞÚ TALAR UM, HAFI GETAÐ ORÐIÐ TIL AF VÖLDUM ÞRÓUNAR OG NÁTTÚRUVALS?

PRÓFESSOR BEHE: Ef við leitum í vísindaritum komumst við að raun um að enginn hefur gert alvarlega tilraun til að skýra hvernig slíkar sameindavélar hafi getað þróast, og þá á ég við að prófa það með tilraunum eða með því að búa til nákvæmt vísindalegt líkan. Á þeim tíu árum, sem eru liðin síðan bókin kom út, hafa þó mörg samtök vísindamanna hvatt félaga sína eindregið til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hrekja þá hugmynd að lífið beri þess merki að vera hannað af hugviti. Má þar nefna Bandarísku vísindaakademíuna (National Academy of Sciences) og Bandaríska vísindafélagið (American Association for the Advancement of Science).

VAKNIÐ!: HVERNIG SVARARÐU ÞEIM SEM BENDA Á VISS EINKENNI JURTA EÐA DÝRA SEM ÞEIR SEGJA VERA ILLA HÖNNUÐ?

PRÓFESSOR BEHE: Þó að við vitum ekki af hverju lífvera hefur eitthvert ákveðið einkenni er ekki þar með sagt að það gegni ekki mikilvægu hlutverki. Einu sinni voru svokölluð úrelt líffæri talin sýna að mannslíkaminn og aðrar lífverur væru illa úr garði gerðar. Menn héldu til dæmis áður fyrr að botnlanginn og hálskirtlarnir væru úrelt líffæri og fjarlægðu þau eins og ekkert væri sjálfsagðara. En svo kom í ljós að þessi líffæri gegna þýðingarmiklu hlutverki í ónæmiskerfinu og þau eru ekki lengur talin úrelt.

Annað sem vert er að hafa í huga er að sumt í lífríkinu gerist fyrir tilviljun. En þó að ég fái beyglu á bílinn eða það springi á honum þýðir það ekki að bíllinn eða hjólbarðinn hafi ekki verið hannaður. Þó að sumt gerist fyrir tilviljun í lífríkinu merkir það ekki að háþróaðar og flóknar sameindavélar lífsins hafi orðið til af tilviljun. Það er hreinlega ekki rökrétt.

[Innskot á blaðsíðu 12]

„Að mínu mati ber það vott um ákveðið kjarkleysi að veigra sér við að horfast í augu við það sem öll gögn benda til, af þeirri ástæðu einni að maður heldur að niðurstaðan hafi óæskilegar heimspekilegar afleiðingar.“