Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ég var týndur sonur

Ég var týndur sonur

Ég var týndur sonur

MEROS WILLIAM SUNDAY SEGIR FRÁ

Mér var kennt allt frá barnæsku að elska Guð en þegar ég var 18 ára gerðist ég uppreisnargjarn og fór að heiman. Í 13 ár lifði ég eins og týndi sonurinn í dæmisögu Jesú. (Lúkas 15:11-24) Ég gerðist fíkniefnasali og eyðilagði næstum líf mitt. Ég ætla að segja ykkur frá því hvað varð til þess að ég breytti lífi mínu og tók sinnaskiptum.

ÉG FÆDDIST árið 1956, annar í röð níu systkina og foreldrar mínir voru vottar Jehóva. Við bjuggum í borginni Ilesha í suðvestur Nígeríu. Faðir minn hafði verið alinn upp í kaþólskri trú. Árið 1945 gaf frændi hans honum bókina Harpa Guðs. * Þegar pabbi hafði lesið hana leitaði hann uppi votta Jehóva. Hann lét skírast árið 1946 og mamma sömuleiðis stuttu síðar.

Ég man enn þá hvað Jehóva var mér raunverulegur þegar ég var barn og hvað ég var duglegur að taka þátt í boðunarstarfinu með foreldrum mínum. Faðir minn fræddi mig um Biblíuna. Stundum sá Alice Obarah líka um það en eiginmaður hennar var farandumsjónarmaður á svæðinu. Foreldrar mínir vildu að ég helgaði mig alveg boðunarstarfinu. Mamma lagði samt til að ég færi fyrst í framhaldsskóla.

Um leið og ég byrjaði þar, sextán ára að aldri, var ég svo óskynsamur að velja mér vini meðal skólafélaganna sem virtu ekki meginreglur Biblíunnar. Þar urðu mér á heimskuleg mistök! Áður en langt um leið fór ég að reykja og leiddist út í siðleysi. Ég gerði mér ljóst að þessi nýi lífsmáti var ekki í samræmi við þær leiðbeiningar sem ég hafði fengið á safnaðarsamkomum svo að ég hætti að mæta á samkomur og taka þátt í boðunarstarfinu hús úr húsi. Foreldrar mínir voru harmi slegnir en mér var orðið alveg sama hvernig öðrum leið.

Fer að heiman

Eftir aðeins tvö ár í framhaldsskóla flutti ég að heiman og fór að búa með vinum í hverfinu. Stundum laumaðist ég heim, lét greipar sópa um allt matarkyns og hljóp síðan í burt. Pabbi var miður sín og hætti að borga skólagjöldin í von um að mér snerist hugur.

En um sama leyti var mér veittur námsstyrkur. Styrktaraðilinn sendi skólagjöld frá Skotlandi og auk þess sendi hann mér stundum gjafir, meðal annars peninga. Á þessum tíma yfirgáfu einnig tveir bræður mínir söfnuðinn en það olli foreldrum mínum svo miklum harmi að ekki verður með orðum lýst. Mamma grátbað mig nokkrum sinnum um að koma til baka. Þótt mér hafi liðið illa út af því breytti ég ekki um stefnu.

Í stórborgunum

Að lokinni skólagöngu 1977 fór ég til Lagos og fékk vinnu þar. Stuttu síðar komst ég yfir peninga á ólöglegan hátt og keypti leigubíl. Þar sem ég hafði nú meira handa á milli fór ég að neyta fíkniefna og varði löngum tíma á næturklúbbum og í vændishúsum. Ég varð fljótlega leiður á lífinu í Lagos og 1981 flutti ég til Lundúna. Þaðan fór ég til Belgíu þar sem ég fór á frönskunámskeið og vann í hlutastarfi á veitingahúsi. Mikið af tíma mínum fór samt í að sjá um flutninga á bílum og rafeindatækjum til Nígeríu.

Faðir minn skrifaði til deildarskrifstofu Votta Jehóva í Belgíu og bað um að haft yrði samband við mig og reynt að fá mig til að þiggja biblíunámskeið. En í hvert sinn sem vottarnir komu til mín vísaði ég þeim á bug. Ég fór að sækja kirkju þar sem hægt var að fá mat og drykk og fara í ýmiss konar íþróttaleiki að lokinni messu.

Gerist fíkniefnasali

Árið 1982 sá ég um flutning á mjög dýrum lúxusbíl til Nígeríu og fór sjálfur niður á höfn til að koma honum í gegnum tollskoðun. Nígerísku tollverðirnir uppgötvuðu að tollskýrslan var fölsuð og því var ég settur í um það bil 40 daga varðhald. Faðir minn fékk mig lausan gegn tryggingu. Þar sem mig vantaði peninga til að ljúka málinu sneri ég aftur til Belgíu með dálítið af söluvarningi, meðal annars nokkur kíló af maríjúana. Ég fór að versla með fíkniefni á eigin vegum eftir að ég var sýknaður af að hafa falsað tollskýrsluna.

Í einni ferðinni var ég handtekinn í Hollandi. Starfsmenn í útlendingaeftirlitinu vísuðu mér úr landi og komu mér í flugvél til Nígeríu. Á leiðinni hitti ég aðra fíkniefnasala og við stofnuðum með okkur félagskap í því skyni að selja fíkniefni. Í janúar 1984 flutti ég til annars lands í Afríku. Þar sem ég talaði frönsku, sem var tungumálið í því landi, var ég fljótur að komast í kynni við lögregluþjóna, hermenn og starfsmenn í útlendingaeftirlitinu. Okkur tókst þannig að flytja mikið magn af maríjúana inn í landið.

Handtekinn og fangelsaður

Ég lenti aftur í vandræðum. Ég hafði fengið yfirmann í hernum til að hjálpa mér að koma fíkniefnum í gegnum flughöfnina í landinu. Hann kom of seint og ég var handtekinn. Herlögreglan lét höggin dynja á mér og misþyrmdi mér svo hrottalega að ég missti meðvitund. Þeir fóru með mig á sjúkrahús, skildu mig þar eftir og bjuggust við að ég væri dauðans matur. En ég lifði af og var seinna ákærður, dæmdur sekur og fangelsaður.

Um það leyti sem ég losnaði úr fangelsinu hafði kunningi minn, sem ég hafði beðið um að hafa umsjón með húsinu mínu, selt allar eigur mínar og látið sig hverfa. Ég fór strax að selja maríjúana mér til lífsviðurværis. En eftir tíu daga var ég aftur handtekinn og settur í þriggja mánaða fangelsi. Þegar mér var sleppt þaðan var ég svo illa á mig kominn að ég var nær dauða en lífi. Einhvern veginn tókst mér þó að komast aftur á heimaslóðir.

Í „sölumennsku“ á ný

Í Lagos hitti ég nokkra viðskiptafélaga mína. Við héldum til Indlands þar sem við keyptum heróín að verðgildi um 42 milljóna íslenskra króna. Frá Bombay (núverandi Mumbai) héldum við áfram til Sviss, síðan til Portúgal og að lokum til Spánar. Við höfðum hver um sig töluvert upp úr þessu og snerum aftur til Lagos eftir mismunandi leiðum. Síðla árs 1984 seldi ég aðra sendingu af fíkniefnum. Draumurinn var að græða milljón dollara og setjast svo að í Bandaríkjunum.

Árið 1986 safnaði ég öllu því fé sem ég átti og keypti óblandað heróín í Lagos. Ég fór með það til annars lands en þar lenti það í höndum gráðugs dreifingaraðila sem greiddi mér aldrei fyrir það. Ég óttaðist um líf mitt og sneri aftur til Lagos án þess að segja nokkrum frá því sem hafði gerst. Ég var að þrotum kominn bæði fjárhagslega og tilfinningalega. Í fyrsta sinn settist ég niður og fór að velta fyrir mér tilgangi lífsins: „Af hverju er líf mitt svona sveiflukennt?“

Sný aftur til Guðs

Nótt eina stuttu síðar bað ég Jehóva um hjálp. Næsta morgun var bankað á dyrnar. Þar voru komin eldri hjón. Þau voru vottar Jehóva. Ég hlustaði rólegur á þau og þáði rit. „Foreldrar mínir eru vottar Jehóva,“ sagði ég til skýringar. „Alice Obarah sá um að fræða mig um Biblíuna.“

Maðurinn, að nafni P. K. Ogbanefe, sagði: „Við þekkjum Obarah-hjónin vel. Þau starfa núna á deildarskrifstofunni okkar hér í Lagos í Nígeríu.“ Hjónin hvöttu mig eindregið til þess að heimsækja þau. Það var mjög uppörvandi fyrir mig að hitta Obarah-hjónin. Eftir þetta leiðbeindi bróðir Ogbanefe mér við biblíunám og fljótlega fór ég að breyta siðlausu líferni mínu. Það var ekki auðvelt þar sem erfitt var að venja sig af langvarandi fíkniefnaneyslu. Samt var ég ákveðinn í að taka upp siðferðilega hreint líferni.

En það urðu margar freistingar á vegi mínum og mikill þrýstingur. Svokallaðir vinir vöndu komur sínar til mín og komu með lokkandi tilboð. Ég hrasaði meira að segja um tíma og fór að reykja og lifa siðlausu lífi. Ég úthellti hjarta mínu í bæn til Guðs. Ég komst fljótlega að því að fyrst veraldlegir vinir höfðu leitt mig afvega gætu þeir ekki hjálpað mér núna. Ég áttaði mig á því að til þess að taka andlegum framförum yrði ég að fara frá Lagos. En ég skammaðist mín svo að ég átti erfitt með að fara heim til Ilesha. Á endanum skrifaði ég samt föður mínum og eldri bróður og spurði hvort ég mætti koma heim.

Faðir minn fullvissaði mig um að mér væri velkomið að koma til baka og bróðir minn sagðist myndu aðstoða mig fjárhagslega. Þannig liðu tíu ár frá því að ég yfirgaf foreldra mína þar til ég sneri aftur heim. Það var tekið vel á móti mér. Móðir mín hrópaði upp yfir sig: „Þakka þér fyrir, Jehóva!“ Þegar faðir minn kom heim um kvöldið sagði hann: „Jehóva mun hjálpa þér.“ Þegar öll fjölskyldan var samankomin bað hann Jehóva í bæn um að hjálpa mér núna þar sem ég ætlaði aftur að lifa samkvæmt vilja hans.

Bæti upp glötuð ár

Ég hélt áfram að kynna mér Biblíuna, tók örum framförum og lét skírast 24. apríl 1988. Ég varð strax mjög áhugasamur í boðunarstarfinu. Fyrsta nóvember 1989 fór ég að starfa sem brautryðjandi, það er að segja boðberi í fullu starfi. Árið 1995 var mér boðið að fara í tíunda bekk Þjónustuþjálfunarskólans í Nígeríu. Í júlí 1998 var ég útnefndur farandumsjónarmaður og tók að heimsækja söfnuði Votta Jehóva. Ári síðar kynntist ég Ruth sem varð eiginkona mín og samstarfsmanneskja.

Aðrir í fjölskyldunni hafa einnig tekið andlegum framförum. Einn bræðra minna, sem hafði einnig hætt að þjóna Jehóva, fór aftur að stunda sanna tilbeiðslu og lét skírast. Ég gleðst yfir því að pabbi lifði það að sjá okkur koma aftur í söfnuðinn. Hann naut þess að þjóna sem safnaðarþjónn til dauðadags árið 1993, 75 ára að aldri. Mamma heldur áfram að þjóna Jehóva ötullega í Ilesha.

Ég ferðaðist samtals til 16 landa í Evrópu, Asíu og Afríku í leit að auði. Það olli mér mörgum harmkvælum. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Þegar ég lít um öxl tekur það mig sárt að hafa sóað svo miklum tíma í lífi mínu í fíkniefnaneyslu og siðleysi. Ég harma sársaukann sem ég olli bæði Jehóva Guði og fjölskyldu minni. Ég er þakklátur fyrir að hafa lifað nógu lengi til að átta mig og láta skynsemina ráða. Ég er ákveðinn í að vera Jehóva trúfastur og þjóna honum að eilífu.

[Neðanmáls]

^ Gefin út af Vottum Jehóva en er nú ófáanleg.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Uppreisnargjarn unglingur.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Þegar ég lét skírast.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Með Ruth eiginkonu minni.