Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Örkin hans Nóa séð með augum skipaverkfræðings

Örkin hans Nóa séð með augum skipaverkfræðings

Örkin hans Nóa séð með augum skipaverkfræðings

ÉG HEF starfað sem skipaverkfræðingur í meira en 40 ár og fengist við að hanna skip af ýmsum stærðum og gerðum auk vélabúnaðar og fleira sem þarf til að knýja skip. Árið 1963 hitti ég vott Jehóva þar sem ég bjó í Bresku-Kólumbíu í Kanada og hann sýndi mér að Biblían lýsi örkinni hans Nóa eins og ílöngum kassa eða kistu. Lýsingin á örkinni vakti áhuga minn og ég ákvað að rannsaka málið betur.

Frásögn 1. Mósebókar í Biblíunni greinir frá því að Guð hafi ákveðið að hreinsa illskuna af jörðinni með heimsflóði. Hann sagði Nóa að smíða örk til að bjarga sér og fjölskyldu sinni ásamt dýrum af hverri tegund. Guð sagði Nóa að gera örkina 300 álna langa, 50 álna breiða og 30 álna háa. (1. Mósebók 6:15) Varlega áætlað mun hún hafa verið um 134 metra löng, 22 metra breið og 13 metra há. * Gróflega reiknað var rúmtak arkarinnar því um 14.000 brúttórúmlestir (40.000 rúmmetrar) sem er sambærilegt við risafarþegaskipið Titanic.

Hönnun arkarinnar

Í örkinni voru þrjú þilför sem gerðu hana sterkari og með þeim var heildargólfflöturinn um 8900 fermetrar. Hún var smíðuð úr viði sem innihélt mikla trjákvoðu, hugsanlega kýprusviði. Það gerði hana vatnsþolna auk þess sem hún var bikuð að utan og innan. (1. Mósebók 6:14-16) Þess er ekki getið hvernig Nói fór að því að festa viðinn saman. En í Biblíunni er minnst á að fyrir flóð hafi menn smíðað alls konar tól úr kopar og járni. (1. Mósebók 4:22) Hvað sem því líður eru enn í dag stundum notaðir trénaglar við smíði tréskipa.

Örkin var hólfuð niður, dyr voru á hlið hennar og gluggar voru á henni sem voru alin á hæð. Örkin kann að hafa verið með gaflþaki og opum eða gluggum undir því, bæði til loftræstingar og til að hleypa inn birtu. Frásögnin í 1. Mósebók minnist hins vegar hvergi á að örkin hafi verið með kjöl eða stefni, segl, árar eða stýrisblað. Reyndar er sama hebreska orðið fyrir „örk“ notað til að lýsa bikuðu körfunni sem móðir Móse lagði hann í og sem hélt honum á floti á Níl þegar hann var kornabarn. — 2. Mósebók 2:3, 10.

Sjóhæfni

Lengd arkarinnar var sexföld breidd hennar og tíföld hæðin. Mörg nútímaskip eru í svipuðum hlutföllum, þó svo að lengdar- og breiddarhlutföll þeirra séu ákveðin með það í huga hve mikið afl þarf til að knýja þau áfram á sjó. Örkin þurfti hins vegar bara að fljóta. En hversu vel skyldi hún hafa flotið?

Sjóhæfni miðast við það hvernig skip bregðast við vindi og öldugangi. Þar koma stærðarhlutföllin líka við sögu. Biblían lýsir gífurlegu steypiregni í flóðinu og segir einnig að Guð hafi síðar látið vind blása. (1. Mósebók 7:11, 12, 17-20; 8:1) Hún greinir ekki frá því hve háar öldurnar voru og hve hvass vindurinn var, en að öllum líkindum var hvort tveggja breytilegt rétt eins og nú á tímum. Því hvassari sem vindurinn er og því lengur sem hann blæs, þeim mun hærri verða öldurnar og lengra á milli þeirra. Jarðhræringar gátu einnig valdið miklum öldugangi í flóðinu.

Stærðarhlutföll arkarinnar gerðu hana stöðuga og komu í veg fyrir að henni hvolfdi. Hún var þar að auki hönnuð til að taka ekki of miklar dýfur í miklum sjógangi. Það hefði verið afar óþægilegt fyrir alla um borð, bæði menn og skepnur, ef örkin hefði höggvið harkalega milli hárra öldutoppa. Slíkt reynir líka mjög á farkostinn. Smíðin þarf að vera nægilega sterk til að svigna ekki þegar háar öldur lyfta stefni og skut samtímis eða þegar stór alda lyftir undir miðjuna og stefni og skutur eru í lausu lofti. Guð sagði Nóa að hafa hlutföllin einn á móti tíu milli hæðar og lengdar. Síðar meir lærðu skipasmiðir í hörðum skóla reynslunnar að þessi hlutföll geta jafnað álagið á skipsskrokkinn.

Örugg og þægileg

Vegna þess að örkin var kassalaga hefur flotkraftur hennar verið jafn á alla kanta. Þyngdin hefur líka dreifst jafnt. Nói sá eflaust til þess að farminum — þar á meðal dýrum og meira en árs birgðum af matvælum og fóðri — væri dreift jafnt um örkina. Jöfn þyngdardreifing heldur því álagi, sem fylgir farminum, í lágmarki. Það eru því tvö meginatriði sem gerðu örkinni og farþegum hennar kleift að komast heil á húfi gegnum flóðið — það hvernig Jehóva hannaði örkina og hvernig hann verndaði hana. Guð sá án efa til þess að örkin tæki land á öruggum og hentugum stað.

Eftir nákvæma rannsókn komst ég að þeirri niðurstöðu að það sem Biblían segir um örkina hans Nóa er raunsætt og í fullu samræmi við skipaverkfræði nútímans. Að sjálfsögðu er ekki minnst á öll smáatriði varðandi örkina og flóðið í frásögu 1. Mósebókar. Ég vona að ég muni einhvern tíma, eftir að upprisan hefur átt sér stað, hitta Nóa hér á jörðinni, innan um alla þá menn og dýr sem eiga tilveru sína að þakka örkinni sem hann vann að svo vel og lengi. (Postulasagan 24:15; Hebreabréfið 11:7) Ég ætla að byrja á því að þakka honum og fjölskyldu hans. Síðan ætla ég að spyrja hann spjörunum úr. — Aðsent.

[Neðanmáls]

^ Alin er gömul mælieining sem samsvarar nokkurn veginn lengdinni frá olnboga fram á fingurgóma. Á tímum Ísraels til forna virðist alin almennt hafa verið stöðluð lengdareining, um 44,5 sentímetrar.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 18]

LÍKAN AF ÖRKINNI

Þú getur búið til líkan af örkinni og prófað það með því að fylgja teikningunni hér að neðan. (Hægt er að gera líkanið stærra með því að stækka teikninguna í réttum hlutföllum.) Það er hægt að gera venjulegan pappír vatnsheldan með því að þekja hann með vaxi eða vaxlit. Brjóttu síðan pappírinn saman og styrktu hornin með lími eða límbandi. Búðu til kjölfestu í botninn, til dæmis með því að líma niður nokkra smápeninga jafnt yfir gólfflötinn, eins marga og þarf til að líkanið sé frá þriðjungi til hálfs á kafi.

Til að kanna hver sjóhæfni arkarinnar var seturðu líkanið endilangt á flot í miðju baðkari. Reyndu svo að framkalla hóflegan en reglulegan öldugang með því að halda mjólkurfernu eða einhverju ámóta þversum í öðrum enda baðkarsins og ýta henni taktfast upp og niður í vatninu.

[Skýringarmynd]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

BRJÓTIÐ INN BRJÓTIÐ INN

 

BRJÓTIÐ INN BRJÓTIÐ INN

[Mynd]

Hlutföll arkarinnar voru svipuð og hlutföll úthafsskipa.

[Skýringarmynd/myndir á blaðsíðu 16, 17]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Endi

Hlið

Þak

Stefni

Hlið

Þilfar

[Mynd]

Rúmtak arkarinnar var næstum það sama og skipsins Titanic.

[Credit lines]

Teikning af Titanic: Með góðfúslegu leyfi Dr. Roberts Hahn/www.titanic-plan.com; ljósmynd: Með góðfúslegu leyfi The Mariners’ Museum, Newport News, VA