Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er rangt að neyta áfengis?

Er rangt að neyta áfengis?

Sjónarmið Biblíunnar

Er rangt að neyta áfengis?

„VÍNIÐ er spottari, sterkur drykkur glaumsamur, og hver sá, er drukkinn reikar, er óvitur.“ Þessi orð er að finna í Biblíunni í Orðskviðunum 20:1. Gefa þau til kynna að það sé rangt að drekka áfengi? Sumir eru þeirrar skoðunar. Til frekari sönnunar fyrir því benda þeir á frásögur í Biblíunni af fólki sem framdi slæm verk í kjölfar óhóflegrar áfengisneyslu. — 1. Mósebók 9:20-25.

Ofdrykkja getur haft mjög skaðlegar afleiðingar. Hún getur til dæmis orsakað sjúkdóma á borð við skorpulifur, stuðlað að hörmulegum slysum, sett fólk í fjárkröggur, ýtt undir heimilisofbeldi og haft skaðleg áhrif á ófædd börn. Sennilega er það vegna þessara hrikalegu afleiðinga sem „margir trúarsöfnuðir hafa kennt að áfengisneysla sé röng“ segir í The World Book Encyclopedia. En er rangt að drekka áfengi? Bannar Biblían neyslu allra áfengra drykkja í hvaða mæli sem er?

Hvað segir Biblían?

Vissulega varar Biblían við slæmum afleiðingum ofneyslu áfengis. Í Efesusbréfinu 5:18 er að finna þessa áminningu: „Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar.“ Orðskviðirnir 23:20, 21 segja einnig: „Ver þú ekki með drykkjurútum, með þeim, sem hvoma í sig kjöt, því að drykkjurútar og mathákar verða snauðir.“ Og í Jesaja 5:11 er að finna orðin: „Vei þeim, sem rísa árla morguns til þess að sækjast eftir áfengum drykk, sem sitja fram á nótt eldrauðir af víni.“

En Biblían talar líka um ánægjuna og gagnið sem hlýst af því að drekka áfengi í hófi. Í Sálmi 104:15 segir til dæmis að ein af gjöfum Guðs sé „vín, sem gleður hjarta mannsins“. Og Prédikarinn 9:7 segir að umbunin sem hlýst af því að gera gott sé að ‚eta brauð sitt með ánægju og drekka vín sitt með glöðu hjarta‘. Páll vissi líka að vín getur haft góð áhrif á heilsuna og sagði því við Tímóteus: „Ver þú ekki lengur að drekka vatn, heldur skalt þú neyta lítils eins af víni vegna magans og veikinda þinna, sem eru svo tíð.“ (1. Tímóteusarbréf 5:23) Og Biblían nefnir líka að áfengi geti hjálpað fólki að þola álag. — Orðskviðirnir 31:6, 7.

Af þessu má greinilega sjá að Biblían bannar ekki neyslu áfengra drykkja. En hún fordæmir hins vegar óhóflega drykkju og drykkjuskap. Þess vegna hvatti Páll kristna umsjónarmenn, safnaðarþjóna, og aldraðar konur að vera ekki sólgin í vín og sagði Tímóteusi aðeins að neyta „lítils eins af víni“. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 3, 8; Títusarbréfið 2:2, 3) Allir kristnir menn eru minntir á að „drykkjumenn“ muni ekki „Guðs ríki erfa“. — 1. Korintubréf 6:9, 10.

Það er eftirtektarvert að í Biblíunni er ofdrykkja og ofát oft talið upp í sömu andránni og sagt að forðast eigi hvort tveggja. (Rómverjabréfið 13:13) Ef okkur var ekki ætlað að drekka neitt áfengi þýðir það þá ekki líka að það sé rangt að borða mat? Nei, hér er Biblían öllu heldur að fordæma óhóf — ofát og ofdrykkju — en ekki hóflega neyslu áfengis og matar.

Hvað gerði Jesús?

„[Kristur] lét yður eftir fyrirmynd,“ sagði Pétur postuli. „Hann drýgði ekki synd.“ (1. Pétursbréf 2:21, 22) En hvernig leit Jesús þá á áfengi? Fyrsta kraftaverk hans var að breyta vatni í vín. Í hvers konar vín breytti Jesús vatninu? Veislustjórinn hrósaði víninu þegar hann talaði við brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“ — Jóhannes 2:9, 10.

Það tilheyrði páskahátíðinni að drekka vín og Jesús notaði vín þegar hann stofnsetti kvöldmáltíð Drottins. Hann rétti lærisveinunum vínbikar og sagði: „Drekkið allir hér af.“ Hann vissi að hann yrði bráðlega tekinn af lífi og bætti við: „Héðan í frá mun ég eigi drekka af þessum vínviðar ávexti til þess dags, er ég drekk hann nýjan með yður í ríki föður míns.“ (Matteus 26:27, 29) Já, fólk vissi að Jesús drakk vín. — Lúkas 7:34.

Hvað ættum við að gera?

Þótt Biblían banni okkur ekki að drekka áfenga drykki þýðir það ekki að við verðum að gera það. Það geta verið margar ástæður til að drekka ekki. Óvirkur alkóhólisti er til dæmis meðvitaður um hættuna sem fylgir því að fá sér aðeins einn drykk. Barnshafandi kona gæti kosið að drekka ekki áfengi af ótta við að skaða fóstrið. Og þar sem vitað er að áfengi skerðir dómgreindina og sljóvgar viðbrögð forðast ökumaður að gera hvaðeina sem stofnar lífi hans eða annarra í hættu.

Kristinn maður vill ekki hneyksla þann sem neytir ekki áfengis samviskunnar vegna. (Rómverjabréfið 14:21) Hann neytir ekki áfengis þegar hann tekur þátt í boðunarstarfinu meðal almennings. Það er athyglisvert að samkvæmt lögmálinu máttu prestar í Ísrael til forna ekki „drekka vín eða áfengan drykk“ þegar þeir sinntu þjónustu sinni. (3. Mósebók 10:9) Og í löndum þar sem áfengisneysla er ekki leyfileg eða takmörkuð ættu kristnir menn að fylgja þeim lögum. — Rómverjabréfið 13:1.

Þótt það sé persónuleg ákvörðun hvers og eins hvort hann neyti áfengis eða ekki og í hve miklum mæli leggur Biblían áherslu á að gæta hófs. Hún segir: „Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ — 1. Korintubréf 10:31.

HEFURÐU HUGLEITT?

◼ Hvaða varnaðarorð er að finna í Biblíunni um notkun áfengis? — 1. Korintubréf 6:9, 10.

◼ Neytti Jesús Kristur áfengis? — Lúkas 7:34.

◼ Hvaða meginreglu fylgja sannkristnir menn í sambandi við neyslu matar og drykkjar? — 1. Korintubréf 10:31.