Horft á heiminn
Horft á heiminn
◼ Á 15 mánaða tímabili fundust 82 nýfædd börn yfirgefin á strætum Mexíkóborgar. Tuttugu og sjö þeirra voru látin. — EL UNIVERSAL, MEXIKÓ.
◼ Við rannsókn á hellum í tveim þjóðgörðum í Kaliforníu í Bandaríkjunum fundust 27 nýjar dýrategundir. „Þetta staðfestir aðeins hve lítið við vitum um umheiminn,“ segir Joel Despain sem hefur sérþekkingu á hellum og vinnur fyrir National Park Service í Bandaríkjunum. — SMITHSONIAN, BANDARÍKJUNUM.
◼ Tuttugu prósent af íbúum jarðar skortir nægilegt drykkjarvatn og 40 prósent hafa ekki aðgang að hreinlætisaðstöðu. — MILENIO, MEXIKÓ.
◼ Í Serengeti-þjóðgarðinum einum drepa veiðiþjófar milli 20.000 og 30.000 dýr á hverju ári. — THE DAILY NEWS, TANSANÍU.
◼ Kannanir, sem gerðar voru meðal 16 ára námsmanna í Barcelona á Spáni, leiddu í ljós að 1 af hverjum 3 reykir kannabis reglulega. — LA VANGUARDIA, SPÁNI.
Lagaleg viðurkenning í Þýskalandi
Hinn 10. febrúar 2006 kvað stjórnsýsludómstóllinn í Leipzig í Þýskalandi upp úrskurð þess efnis að sambandsríkið Berlín skuli viðurkenna trúfélagið Votta Jehóva sem lögskráð félag. Þar með var bundinn endi á 15 ára lagabaráttu þar sem málið hefur farið fyrir nokkra dómstóla í Þýskalandi, þar á meðal stjórnlagadómstólinn. Sem lögskráð félag er trúfélagið Vottar Jehóva undanþegið skatti og nýtur annarra fríðinda sem helstu trúarsöfnuðir í landinu njóta.
Tólf ár í fangelsi — fyrir hvað?
Síðastliðin 12 ár hafa þrír vottar Jehóva setið í fangelsi í Sawa í Erítreu í Austur-Afríku. Engin ákæra hefur verið lögð fram á hendur þeim og ekki hefur verið réttað í máli þeirra. Þeim er ekki heimilt að fá neina gesti — ekki einu sinni ættingja. Hver er ástæðan? Þeir neituðu að gegna herþjónustu samviskunnar vegna en lögin í Erítreu taka ekki tillit til slíks. Þegar ungir menn eru handteknir er þeim haldið í herbúðum þar sem þeir eru oft barðir grimmilega og pyntaðir með ýmsum hætti.
Kínversk börn háð tölvuleikjum á Netinu
„Sífellt fleiri börn í Kína verða háð tölvuleikjum á Netinu,“ segir í blaðinu South China Morning Post í Hong Kong. Þetta vandamál er einnig algengt meðal barna í öðrum Asíulöndum eins og til dæmis Hong Kong, Japan og Suður Kóreu. Í blaðinu segir: „Sífellt fleiri finna hjá sér löngun til að aftengjast raunveruleikanum og tengjast Netinu í staðinn. Þetta endurspeglar uppreisn gegn því tangarhaldi sem samfélagið hefur haft á börnum. Foreldrar gera gríðarmiklar kröfur til barnanna og geysihörð samkeppni ríkir um inngöngu í háskóla.“ Talið er að um 6 milljónir kínverskra barna þurfi hjálp til að yfirstíga þennan vanda.