Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver er verðmætasti vökvi veraldar?

Hver er verðmætasti vökvi veraldar?

Hver er verðmætasti vökvi veraldar?

„Blóð er jafn mikilvægt fyrir heilbrigðisþjónustuna og olía er fyrir samgöngukerfið.“ — Arthur Caplan, forstöðumaður lífsiðfræðistofnunar Pennsylvaníu-háskóla.

ER OLÍA verðmætasti vökvi veraldar? Margir myndu eflaust ætla það í ljósi þess hve olíuverð hefur hækkað gríðarlega undanfarið. Sannleikurinn er hins vegar sá að við berum öll með okkur nokkra lítra af vökva sem er margfalt verðmætari en olía. Á ári hverju eru dregnir milljarðar tunna af olíu úr jörðu til að svala orkuþyrstu mannkyni en á sama tíma eru dregnar um 90 milljónir eininga af blóði úr mönnum til að hjálpa sjúkum. * Það samsvarar blóði hvorki meira né minna en 8.000.000 manna.

En blóð virðist vera af skornum skammti, rétt eins og olían. Heilbrigðisstéttir um heim allan vara við hættunni á blóðskorti. (Sjá rammagreinina „Gripið til örþrifaráða“.) Hvað gerir blóð svona verðmætt?

Einstakt líffæri

Blóði er oft líkt við líffæri sökum þess hve óhemjuflókið það er. „Blóð er eitt af mörgum líffærum líkamans — undursamlegt og einstakt,“ sagði Bruce Lenes læknir í viðtali við Vaknið! Já, einstakt er það. Kennslubók talar um að blóð sé „eina líffæri líkamans sem er fljótandi“ og kallar það „lifandi flutningatæki“. Hvað er átt við með því?

„Blóðrásarkerfið er eins og síki Feneyja,“ segir sameindalíffræðingurinn N. Leigh Anderson. „Það sér um að flytja alls konar gagnleg efni og sömuleiðis fullt af rusli.“ Á ferð sinni um 100.000 kílómetra æðakerfi kemst það í snertingu við nánast alla vefi líkamans, þar á meðal hjartað, nýrun, lifrina og lungun en allt eru þetta mikilvæg líffæri sem meðal annars hreinsa blóðið og eru háð því.

Blóðið flytur frumum líkamans alls konar „gagnleg efni“, svo sem súrefni, næringarefni og varnir gegn sjúkdómum, en það fjarlægir líka frá þeim „rusl“ og eiturefni svo sem koldíoxíð, leifar skaddaðra og deyjandi frumna og annan úrgang. Það er hið síðarnefnda hlutverk blóðsins sem skýrir að vissu marki hvers vegna það getur verið hættulegt að komast í snertingu við blóð annarra. Og enginn getur tryggt að tekist hafi að finna allt „ruslið“ í blóðinu og fjarlægja það áður en það er gefið annarri manneskju í æð.

Það er engum vafa undirorpið að líf okkar er háð starfsemi blóðsins. Það er einmitt þess vegna sem það tíðkast að gefa sjúklingum blóð ef þeir hafa misst blóð. Margir læknar myndu eflaust segja að það væri notkun blóðs í lækningaskyni sem gerði það svona verðmætt. En margt hefur breyst á sviði læknisfræðinnar. Í vissum skilningi má segja að þögul bylting hafi átt sér stað. Margir læknar eru ekki jafn fljótir að gefa sjúklingum blóð og þeir voru hér áður fyrr. Hver er ástæðan?

[Neðanmáls]

^ Hver eining blóðs er 450 millilítrar.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 4]

Gripið til örþrifaráða

Sérfræðingar í heilbrigðismálum áætla að á ári hverju vanti 200 milljónir eininga af blóði umfram það sem nú er gefið í heiminum. Um 82 prósent jarðarbúa eiga heima í þróunarlöndunum en innan við 40 prósent af öllu gjafablóði er þaðan komið. Í þessum löndum verða margir spítalar að komast af án blóðgjafa. Dagblaðið The Nation í Keníu segir frá því að ‚daglega sé annaðhvort hætt við næstum helming aðgerða þar sem blóðgjafa er þörf eða þeim frestað vegna skorts á blóði‘.

Blóðskortur er einnig algengur í hinum efnameiri löndum. Skurðaðgerðum hefur fjölgað eftir því sem fólk hefur orðið langlífara og lækningaraðferðum hefur fleygt fram. Sömuleiðis fá færri að gefa blóð en áður sökum þess að þeir setja sig í áhættuflokk með líferni sínu eða hafa ferðast til staða þar sem hætta er talin á að þeir hafi smitast af sjúkdómum eða sníkjudýrum.

Örvænting virðist hafa gripið um sig meðal þeirra sem sjá um söfnun og vinnslu blóðs. Sums staðar er leitað til unglinga sem lifa ekki eins áhættusömu lífi og sumir hinna eldri og þeir beðnir að gefa blóð. Sem dæmi má nefna að skólabörn gefa nú um 70 prósent þess blóðs sem notað er í Simbabve. Blóðbankar eru opnir lengur fram eftir degi en áður var og í sumum löndum mega þeir greiða fyrir blóð með fé eða fríðindum til að fá til sín blóðgjafa og halda í þá. Í Tékklandi var gert átak fyrir nokkru þar sem borgurum landsins var boðið að slökkva þorstann með bjór í lítratali í skiptum fyrir blóð! Í einu héraði Indlands gengu embættismenn ekki alls fyrir löngu í hús til að leita að fólki sem væri tilbúið til að endurnýja dvínandi blóðbirgðir á svæðinu.