Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Litlu lestirnar“ sem lýsa í myrkri

„Litlu lestirnar“ sem lýsa í myrkri

„Litlu lestirnar“ sem lýsa í myrkri

◼ Það er kyrrlátt kvöld í skóglendi Brasilíu. Allt í einu birtist örsmá „lest“ innan um fölnuð laufblöð á skógarbotninum. Tvö rauð „framljós“ lýsa upp leiðina og ellefu samstæð gulgræn ljósker lýsa upp hliðarnar. Reyndar er þetta engin venjuleg lest heldur 70 millimetra löng lifra af bjölluættinni Phengodidae. Heimkynni hennar eru í Norður- og Suður-Ameríku. Þar sem kvendýrin halda lirfulaginu minna þau oft á járnbrautarvagna sem eru upplýstir að innan. Þess vegna eru þau oft kölluð járnbrautarormar. Í sveitum Brasilíu eru lirfurnar kallaðar litlu lestirnar.

Á daginn er erfitt að koma auga á þessa fölbrúnu lirfu. En á kvöldin auglýsir hún nærveru sína með ótrúlegri ljósadýrð. Ljósin fá orku frá lúsíferíni, lífrænu litarefni sem gefur frá sér kalt ljós fyrir áhrif ensíms sem nefnist lúsíferasi. Ljósin geta verið rauð, appelsínugul, gul eða græn á litinn.

Rauðu framljósin loga næstum viðstöðulaust en ekki gulgrænu hliðarljósin. Rannsóknir benda til þess að framljósin hjálpi lirfunni að finna uppáhaldsbráð sína, þúsundfætlur, en hliðarljósin virðast hins vegar bægja frá rándýrum, svo sem maurum, froskum og köngulóm. Það er eins og bjarminn segi: „Ég bragðast illa. Farðu!“ Hliðarljósin lýsa þess vegna þegar lirfan skynjar hugsanlega árás rándýrs. Þau lýsa líka þegar hún ræðst á þúsundfætlur og þegar kvendýrið hjúfrar sig utan um egg sín. Við eðlilegar aðstæður magnast hliðarljósin þar til þau ná hámarksbirtu en síðan dofnar bjarminn. Þetta gerist á örfáum sekúndum og síðan er hringrásin endurtekin eins oft og nauðsyn krefur.

Já, það má meira að segja finna töfrandi fegurð innan um fölnuð laufblöð á skógarbotni sem kallar upp í hugann lofsöng sálmaritarans: „Jörðin er full af því, er þú hefir skapað.“ — Sálmur 104:24.

[Mynd credit line á blaðsíðu 23]

Robert F. Sisson / National Geographic Image Collection