Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Raunverulegt gildi blóðs

Raunverulegt gildi blóðs

Raunverulegt gildi blóðs

„Alþjóðasamfélagið á sér einn sameiginlegan lífgjafa: blóð. Það er lífskraftur allra manna óháð litarhætti, kynþætti eða trú.“ — Forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

ÞAÐ er óhætt að segja að það sé nokkur sannleikur í orðunum hér til hliðar. Blóð er nauðsynlegt öllum mönnum. Það er verðmæt auðlind. En ertu sannfærður um að það sé skynsamlegt og óhætt að nota þennan merkilega vökva til lækninga?

Eins og fram hefur komið eru öryggisreglur æði breytilegar frá einu landi til annars og blóðgjafir eru áhættusamari en margir ímynda sér. Auk þess ræður menntun, færni og viðhorf býsna miklu um það hve læknar beita blóðgjöfum mikið. Margir þeirra gerast þó æ varkárari á því sviði og þeim læknum fjölgar sem kjósa helst að veita læknismeðferð án blóðgjafar.

Við erum því aftur komin að spurningunni sem varpað var fram í fyrstu greininni í blaðinu. Hvað er það eiginlega sem gerir blóð svona verðmætt? Er verðmæti þess fólgið í einhverju öðru en notkun þess við læknismeðferð sem þykir nú æ vafasamari?

Viðhorf skaparans til blóðs

Skapari mannsins setti athyglisverð lög á dögum Nóa, forföður allra manna. Hann gaf mönnum þá leyfi til að neyta kjöts en bannaði þeim að neyta blóðsins. (1. Mósebók 9:4) Hann tiltók jafnframt ástæðuna og lagði þá blóðið að jöfnu við sál eða líf skepnunnar. Síðar sagði hann: „Líf líkamans er í blóðinu.“ Blóð er heilagt í augum skaparans. Það táknar lífið sem sérhver lifandi sál hefur fengið að gjöf frá Guði. Þessi meginregla Guðs er margendurtekin í Biblíunni. — 3. Mósebók 3:17; 17:10, 11, 14; 5. Mósebók 12:16, 23.

Fyrir hér um bil 2000 árum, skömmu eftir að kristnin kom til sögunnar, fengu kristnir menn þau fyrirmæli frá Guði að ‚halda sér frá blóði‘. Þetta ákvæði var ekki byggt á heilsufarslegum forsendum heldur því að blóðið var heilagt. (Postulasagan 15:19, 20, 29) Sumir halda því fram að Guð hafi einungis verið að banna þeim að leggja sér blóð til munns en orðasambandið ‚halda sér frá‘ segir sína sögu. Ef læknir segði sjúklingi að halda sér frá áfengi myndi honum varla detta í hug að það væri í lagi að sprauta því í æð.

Biblían skýrir nánar af hverju blóð er heilagt. Úthellt blóð Jesú Krists táknar hið mennska líf sem hann gaf í þágu mannkyns. Það er undirstaða þeirrar vonar sem kristnir menn bera í brjósti. Það er grundvöllur þess að fá syndir sínar fyrirgefnar og eiga von um eilíft líf. Þegar kristinn maður heldur sér frá blóði er hann í reynd að láta í ljós þá trú sína að ekkert nema úthellt blóð Jesú Krists geti keypt hann lausan og bjargað lífi hans. — Efesusbréfið 1:7.

Alkunna er að vottar Jehóva fylgja þessum boðum Biblíunnar. Þeir þiggja hvorki heilblóð né blóðhlutana fjóra, rauðkorn, blóðvökva, hvítfrumur eða blóðflögur. Biblían tekur þó ekki afstöðu til hinna ýmsu blóðþátta sem eru unnir úr blóðhlutunum eða lyfja sem innihalda blóðþætti. Hver einstakur vottur ákveður því sjálfur hvort hann þiggur einhvern af blóðþáttunum. Ber að skilja þetta svo að vottar Jehóva hafni læknismeðferð og séu skeytingarlausir um líf sitt og heilbrigði? Nei, alls ekki. — Sjá „Vottar Jehóva leggja áherslu á heilbrigt líferni“ hér að neðan.

Á síðustu árum hefur fjöldi lækna áttað sig á því að vottar Jehóva hafa gert sjálfum sér gott með því að fylgja mælikvarða Biblíunnar. Taugaskurðlæknir lýsti til dæmis yfir ekki alls fyrir löngu að hann væri hlynntur skurðaðgerðum án blóðgjafar. Hann sagði: „Þær eru hreinlega langöruggastar, ekki aðeins fyrir votta Jehóva heldur fyrir alla.“

Það getur verið erfitt og valdið töluverðu álagi að taka alvarlegar ákvarðanir um læknismeðferð. Dave Williams, sem er lungnasérfræðingur og lækningaforstjóri, segir um þá algengu aðferð að gefa sjúklingum blóð: „Það er mikilvægt að við virðum óskir fólks . . . og við þurfum að gæta mjög vandlega að því hvað við látum inn í líkamann.“ Þetta eru orð að sönnu — og hafa aldrei sannari verið.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 11]

Súrefnisberi úr blóðrauða

Í hverju rauðkorni eru um 300 milljónir blóðrauðasameinda. Blóðrauði fyllir um þriðjung af rúmmáli fullþroskaðs rauðkorns. Hver blóðrauðasameind inniheldur prótínið glóbín og litarefni sem kallast hem en í því er eitt járnatóm. Þegar rauðkorn fara um lungun smjúga súrefnissameindir inn í þau og bindast blóðrauðasameindum. Nokkrum sekúndum síðar er súrefnið komið út í vefi líkamans þar sem það viðheldur frumunum.

Nokkrir lyfjaframleiðendur eru farnir að vinna blóðrauða úr blóði manna eða nautgripa. Blóðrauðinn er síaður til að fjarlægja óhreinindi, hreinsaður og meðhöndlaður með efnafræðilegum aðferðum, blandaður vökva og settur í pakkningar. Blandan gæti kallast súrefnisberi úr blóðrauða (hemoglobin-based oxygen carrier eða HBOC). Hún hefur óvíða verið samþykkt af heilbrigðisyfirvöldum enn sem komið er. Það er litarefnið hem sem veldur rauða litnum á blóðinu þannig að eining af súrefnisbera úr blóðrauða lítur út eins og eining af rauðkornum sem hann er unninn úr að mestu leyti.

Ólíkt rauðkornaþykkni, sem þarf að geyma í kæli og farga eftir nokkurra vikna geymslu, er hægt að geyma súrefnisbera úr blóðrauða mánuðum saman við stofuhita áður en hann er notaður. Og þar eð frumuhimnan er horfin og þar með mótefnisvakarnir sem einkenna hana, er engin hætta á alvarlegri ónæmissvörun af völdum blóðflokkamisræmis. Kristnir menn, sem vilja hlýða Guði samviskusamlega, þurfa hins vegar að hugsa sig vel um þegar súrefnisberi úr blóðrauða er annars vegar. Ástæðan er sú að meðan súrefnisberinn er unninn úr blóði blasa við tvö álitamál. Annars vegar gegnir súrefnisberinn meginhlutverki eins af blóðhlutunum, það er að segja rauðkornanna. Hins vegar er blóðrauðinn, sem súrefnisberinn er unninn úr, verulegur efnisþáttur þessa blóðhluta. Kristnir menn þurfa því að íhuga vel og vandlega hvort þeir geti þegið þetta efni og önnur af svipuðu tagi. Þeir þurfa að hugleiða meginreglur Biblíunnar um heilagleika blóðsins samviskusamlega og í bænarhug. Öllum kristnum mönnum er mikið í mun að varðveita gott samband við Jehóva þannig að hver og einn þarf að láta biblíufrædda samvisku sína segja sér hvað gera skuli. — Galatabréfið 6:5.

[Mynd]

BLÓÐRAUÐASAMEIND

[Rammi/mynd á blaðsíðu 12]

Vænlegur kostur

„Æ fleiri spítalar bjóða upp á annan valkost — skurðaðgerð án blóðgjafar,“ sagði í dagblaðinu The Wall Street Journal fyrir nokkru. „Aðferðirnar voru upphaflega þróaðar til að koma til móts við óskir votta Jehóva en eru nú orðnar viðteknar aðferðir og margir spítalar bjóða sjúklingum almennt upp á skurðaðgerðir án blóðgjafar,“ segir í blaðinu. Spítalar um allan heim hafa uppgötvað að það hefur marga kosti í för með sér, einkum fyrir sjúklinga, ef dregið er úr blóðgjöfum. Nú er svo komið að þúsundir lækna veita sjúklingum læknismeðferð án blóðgjafar.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 12]

Vottar Jehóva leggja áherslu á heilbrigt líferni

Vottar Jehóva, þeirra á meðal margir læknar og hjúkrunarfræðingar, þiggja ekki blóðgjöf eða blóðhlutagjöf eins og alkunna er. Er eindregin afstaða þeirra gegn blóðgjöfum til komin af mannasetningum? Aðhyllast þeir þá hugmynd að trúin geti læknað fólk af líkamlegum kvillum? Nei, því fer fjarri.

Vottar Jehóva líta á lífið sem gjöf frá Guði. Þeir láta sér annt um lífið og gera sitt besta til að lifa samkvæmt Biblíunni sem þeir trúa að sé „innblásin af Guði“. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; Opinberunarbókin 4:11) Í Biblíunni eru þeir sem tilbiðja Guð hvattir til að forðast heilsuspillandi líferni svo sem ofát, tóbaksnotkun, ofneyslu áfengis og neyslu ávana- og fíkniefna. — Orðskviðirnir 23:20; 2. Korintubréf 7:1.

Meginreglur Biblíunnar hvetja til þess að við höldum líkama okkar og umhverfi hreinu og hreyfum okkur hæfilega mikið. (Matteus 7:12; 1. Tímóteusarbréf 4:8) Vottar Jehóva sýna þá skynsemi að leita læknishjálpar þegar þeir veikjast og þeir þiggja í langflestum tillfellum þá læknismeðferð sem í boði er. Hins vegar ‚halda þeir sér frá blóði‘ eins og kveðið er á um í Biblíunni og velja því læknismeðferð án blóðgjafar. (Postulasagan 15:29) Og fyrir vikið fá þeir oft læknismeðferð í hæsta gæðaflokki.