Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frá Egyptalandi til borga víðs vegar um heim

Frá Egyptalandi til borga víðs vegar um heim

Frá Egyptalandi til borga víðs vegar um heim

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Á ÍTALÍU

„ÞÆR fóru frá heimalandi sínu og urðu að áþreifanlegu tákni stórkostlegrar siðmenningar sem þær áttu rætur að rekja til,“ segir í ítalska tímaritinu Archeo. Flestar þeirra yfirgáfu Egyptaland endur fyrir löngu og voru fluttar til staða eins og Istanbúl, Lundúna, Parísar, Rómar og New York. Ferðamenn í Róm taka sennilega eftir því að mörg frægustu torg borgarinnar skarta þeim. Hvaða fyrirbæri eru þetta? Þetta eru broddsúlur.

Þessar strýtulaga, fjögurra hliða steinsúlur eru oftast kallaðar óbelískur eða broddsúlur því að toppurinn á þeim myndar eins konar píramída. Sú elsta var gerð fyrir hartnær 4000 árum en sú yngsta fyrir um 2000 árum.

Forn-Egyptar hjuggu broddsúlurnar, sem eru oftast úr rauðu graníti, í einu lagi úr berginu og reistu þær fyrir framan grafhýsi og hof. Sumar eru gríðarstórar. Hæsta broddsúla, sem enn stendur, gnæfir um 32 metra yfir rómversku torgi og vegur um 455 tonn. Flestar eru skreyttar myndletri.

Súlurnar voru minnisvarðar til heiðurs sólguðinum Ra. Þær voru reistar til að þakka honum fyrir vernd og sigra sem hann veitti egypskum konungum, svo og til að leita eftir stuðningi. Talið er að lögun þeirra eigi rætur að rekja til píramídanna. Þær tákna sólargeisla sem hita og lýsa upp jörðina.

Broddsúlur voru auk þess notaðar til að heiðra faraóana. Áletranirnar lýsa því yfir að ýmsir konungar Egyptalands hafi notið „velþóknunar Ra“ eða verið „fagrir . . . sem Atum“, guð sólarlagsins. Á einni broddsúlu segir frá hernaðaryfirburðum eins faraóanna: „Máttur hans er eins og máttur [herguðsins] Monthu, nautsins sem traðkar á erlendum ríkjum og drepur uppreisnarmenn.“

Fyrstu broddsúlurnar voru reistar í egypsku borginni Junu (nefnd Ón í Biblíunni) en nafnið er talið merkja „borg súlunnar“ sem gæti verið vísun í broddsúlurnar. Grikkir kölluðu borgina Helíópólis sem þýðir „borg sólarinnar“ af því að hún var miðstöð sóldýrkunar í Egyptalandi. Gríska nafnið Helíópólis samsvarar hebreska nafninu Betsemes sem merkir „hús sólarinnar.“

Í spádómsbók Jeremía segir: „Hann mun brjóta sundur súlurnar í Betsemes í Egyptalandi.“ Þetta gæti verið vísun í broddsúlurnar í Helíópólis. Guð fordæmdi skurðgoðadýrkunina sem þær táknuðu. — Jeremía 43:10-13.

Vinnsla og flutningur

Stærsta broddsúlan sýnir hvernig þessir minnisvarðar voru búnir til. Hún liggur enn yfirgefin nálægt Aswan í Egyptalandi þar sem hún var höggvin úr berginu. Eftir að verkamennirnir höfðu valið hentugt berg og sléttað það, gerðu þeir síki allt í kringum klettinn sem átti að mynda broddsúluna. Þeir grófu skurði undir klettinn og fylltu þá af trédrumbum sem tútnuðu út af vatninu uns hann losnaði frá. Síðan átti að draga steinsúluna niður að ánni Níl og flytja á ákvörðunarstað með flutningapramma. Hún vó um 1170 tonn og var þyngri en nokkur klettadrangi sem Forn-Egyptar höfðu höggvið úr grjótnámu.

Þegar í ljós kom að Aswan-broddsúlan var illa sprungin skildu verkamennirnir hana eftir á staðnum. Hefði verkinu verið lokið væri hún 42 metrar á hæð og 4 metrar á hlið neðst. Enn er ekki vitað hvernig menn fóru að því að reisa broddsúlur upp.

Frá Egyptalandi til Rómar

Egyptaland varð rómverskt skattland árið 30 f.Kr. Ýmsir rómverskir keisarar vildu skreyta höfuðborg sína með glæstum minnisvörðum. Þess vegna voru allt að 50 broddsúlur fluttar til Rómar. Til flutninganna þurfti að smíða risastór sérhönnuð skip. Þegar broddsúlurnar voru komnar til Rómar voru þær áfram nátengdar sóldýrkun.

Við fall Rómaveldis var farið ránshendi um Rómaborg. Flestum broddsúlunum var steypt um koll og þær féllu í gleymsku. En sumir páfar sýndu áhuga á að endurreisa broddsúlur sem fundust í rústum hinnar fornu borgar. Rómversk kaþólska kirkjan hefur viðurkennt að „egypskur konungur hafi helgað broddsúlurnar sólinni“ og að þær hafi einu sinni „gætt óguðleg heiðin hof innantómum glæsileika“.

Fyrsta broddsúlan var endurreist þegar Sixtus páfi 5. var við völd (1585-1590). Því fylgdi særingarathöfn og blessun, auk þess sem heilögu vatni var stökkt og reykelsi brennd. Biskup tónaði frammi fyrir Vatíkan-broddsúlunni: „Ég særi þig til að bera hinn heilaga kross og vera laus við allan heiðinn óhreinleika og allar árásir trúarlegs ranglætis.“

Þegar ferðamenn virða fyrir sér broddsúlurnar í Róm hugleiða þeir eflaust þá snilligáfu sem þurfti til að höggva þær út, flytja og reisa. Vafalaust undrast þeir einnig að minnisvarðar, sem voru notaðir við sóldýrkun, skuli prýða Páfagarð — undarlegur bræðingur það.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Lúxor í Egyptalandi

[Mynd á blaðsíðu 15]

Róm

[Mynd á blaðsíðu 15]

New York

[Mynd á blaðsíðu 15]

París