Horft á heiminn
Horft á heiminn
◼ Samkvæmt könnun nokkurri eru „þeir sem tala í farsíma undir stýri jafn óhæfir ökumenn og þeir sem aka undir áhrifum áfengis, jafnvel þótt þeir noti handfrjálsan búnað“. — REUTERS-FRÉTTASTOFAN, BANDARÍKJUNUM.
◼ Á fyrstu fimm mánuðum ársins 2006 voru framin 30.200 vopnuð rán í strætisvögnum Gvatemalaborgar. Fjórtán strætisvagnastjórar eða aðstoðarmenn þeirra og tíu farþegar voru myrtir. — PRENSA LIBRE, GVATEMALA.
◼ Af þeim 124 þjóðum, sem svöruðu könnun á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um blóðsöfnun og rannsóknir á blóði, voru 56 þjóðir sem „skimuðu ekki allt gjafablóð fyrir HIV-veirunni, lifrabólgu B og C og sárasótt“. — ALÞJÓÐAHEILBRIGÐISMÁLASTOFNUNIN, SVISS.
◼ Áströlum, sem búa saman fyrir hjónaband, fjölgaði úr 5 prósentum á sjöunda áratug síðustu aldar í rúmlega 70 prósent árið 2003. — MELBOURNE-HÁSKÓLINN, ÁSTRALÍU.
Bakteríur á skrifstofum
Örverufræðingar við Arizona-háskóla mældu fjölda baktería á skrifstofum í allnokkrum borgum í Bandaríkjunum. Þeir komust að því að „fimm sýktustu staðirnir voru (í þessari röð) símar, skrifborð, handföng á drykkjarbrunnum, handföng á örbylgjuofnum og lyklaborð“. Samkvæmt fréttinni, sem birtist í dagblaðinu Globe and Mail, „eru á venjulegu skrifborði um 100 sinnum fleiri bakteríur en á eldhúsborði og 400 sinnum fleiri en á venjulegri klósettsetu“.
Jöklar skríða hraðar fram en áður
„Nokkrir stórir skriðjöklar á jökulbreiðu Grænlands eru farnir að skríða hraðar fram en áður,“ segir í tímaritinu Science. Gervitungl hafa verið notuð til að fylgjast með jöklunum. Í ljós hefur komið að framskrið margra af jöklunum á Grænlandi undanfarin 5 ár er orðið tvöfalt hraðara en áður og er nú rúmir 12 kílómetrar á ári. Á síðustu tíu árum hefur heildarjökulmassinn, sem bráðnar á ári, aukist úr rúmum 90 rúmkílómetrum í 220 rúmkílómetra. Þess vegna telja vísindamenn að „yfirborð sjávar eigi eftir að hækka meira í framtíðinni en áætlað hefur verið“.
Fólk með geðraskanir hefur gott af sveitastörfum
Nýlega voru rösklega 100 sérfræðingar frá 14 löndum samankomnir í Stafangri í Noregi til að fræðast um græna heilsuvernd, en hugtakið nær allt í senn yfir búskap, kennslu og heilsuvernd. Norska ríkisútvarpið, NRK, greindi frá því að sumir þeirra sem hafa árum saman glímt við geðraskanir þurfi ekki lengur að vera vistaðir á stofnun eftir að þeir fóru að vinna við bústörf. Bústörf eru „heilsusamleg fyrir líkama og sál“. Í Noregi taka rösklega 600 hefðbundin bændabýli þátt í grænu heilsuverndinni og hafa af því aukatekjur.
Sykursýkifaraldur um heim allan
Í dagblaðinu The New York Times segir að samkvæmt Alþjóðasamtökum sykursjúkra hafi þeim sem greinast með sykursýki fjölgað úr 30 milljónum upp í 230 milljónir á síðustu 20 árum. Sjö af þeim tíu löndum, sem eru með hæsta hlutfall sykursjúkra, eru þróunarlönd. „Sykursýki er eitt stærsta heilsufarsvandamál nútímans,“ segir dr. Martin Silink formaður samtakanna. „Í sumum af fátækustu löndum heims er sjúkdómurinn skjótur dauðadómur,“ segir í fréttinni.