Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað merkir það að vera kristinn?

Hvað merkir það að vera kristinn?

Sjónarmið Biblíunnar

Hvað merkir það að vera kristinn?

„AÐ VERA kristinn merkir í heimalandi mínu að fara í kirkju einu sinni í viku,“ segir Kingsley sem er frá Afríku. Raad, sem er frá Mið-Austurlöndum, segir: „Í samfélagi okkar er litið svo á að kristnir menn séu trúarhópur sem fylgir vestrænum siðum og hefðum varðandi klæðaburð, hátíðir og umgengni við konur.“

En er nóg að sækja guðþjónustu einu sinni í viku og fylgja ákveðnum siðvenjum og hefðum til að teljast kristinn? Er ekki rökrétt að álykta að orðið „kristinn“ vísi til þeirrar lífsstefnu sem Jesús Kristur boðaði og endurspegli viðhorf hans, gildi og hegðun? * Hvernig var kristin trú iðkuð upphaflega?

Frumkristnin var lífsstefna

Jesús sagði við fylgjendur sína: „Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.“ (Jóhannes 15:14) Þar sem kenningar hans snertu öll svið lífsins litu lærisveinar Jesú í byrjun á trú sína sem lífsstefnu eða ‚veg‘. (Postulasagan 9:2) Skömmu síðar voru þeir „kallaðir kristnir“. (Postulasagan 11:26) Nýja nafnið, sem þeir báru, vísaði til þess að þeir trúðu að Jesús væri sonur Guðs og hefði kunngert mönnum vilja föður síns á himnum. Sökum trúar sinnar fylgdu þeir ákveðinni lífsstefnu sem var frábrugðin því sem tíðkaðist á þeim tíma.

Kenningar Krists fengu fylgjendur hans til að fara eftir boðum Biblíunnar, það er að segja að forðast ‚frillulífi, óhreinleika, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskap, deilur, meting, reiði, eigingirni, ofdrykkju, svall og annað þessu líkt‘. (Galatabréfið 5:19-21; Efesusbréfið 4:17-24) Páll postuli minnti kristna Korintumenn á að sumir þeirra hefðu áður stundað þetta. Síðan bætti hann við: „En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists.“ — 1. Korintubréf 6:9-11.

Í bók sinni The Rise of Christianity segir E. W. Barnes: „Elstu áreiðanlegu heimildirnar lýsa því að innan kristnu hreyfingarinnar hafi verið lögð áhersla á siðsemi og löghlýðni. Meðlimir hennar leituðust við að vera heiðarlegir borgarar og góðir þegnar. Þeir forðuðust breyskleika og lesti heiðindómsins. Þeir leituðust við að vera friðsamir nágrannar og tryggir vinir í einkalífinu. Þeim var kennt að vera hófsamir, iðnir og siðsamir. Þrátt fyrir ríkjandi spillingu og taumleysi voru þeir heiðarlegir og sannsöglir svo framarlega sem þeir héldu sér við þessar lífsreglur. Þeir voru hreinlífir, höfðu hjónabandið í hávegum og lifðu heiðvirðu fjölskyldulífi.“ Þannig var kristnin í frumbernsku.

Annað áberandi auðkenni frumkristinna manna var hvað þeir voru duglegir að boða fagnaðarerindið. Kristur bauð fylgjendum sínum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ (Matteus 28:19, 20) Jean Bernardi, prófessor við Sorbonne-háskólann í París, segir: „[Kristnir menn] áttu að fara og tala alls staðar við alla, á þjóðvegum og í borgum, á torgum og á heimilum, hvort sem þeir voru velkomnir eða óvelkomnir. Þeir áttu bæði að tala við fátæka og þá ríku sem létu eigur sínar íþyngja sér. . . . Þeir áttu að leggja land undir fót, stíga á skipsfjöl og ferðast til ystu endimarka jarðar.“

Sönn kristni nú á dögum

Líferni sannkristinna manna nú á tímum ætti að auðkenna þá alveg á sama hátt og á fyrstu öldinni. Þess vegna reyna vottar Jehóva að fylgja nákvæmlega þeim lífsreglum sem frumkristnir menn tömdu sér. Það fer ekki fram hjá neinum að þeir reyna að lifa samkvæmt kenningum Biblíunnar.

Til dæmis segir í alfræðibókinni New Catholic Encyclopedia að Vottar Jehóva séu þekktir fyrir að vera „sá hópur fólks í heiminum sem skarar fram úr fyrir góða hegðun“. Í dagblaðinu Deseret News, sem kemur út í borginni Salt Lake City í Utah, sagði að Vottar Jehóva „stuðli að samheldni fjölskyldna og hvetji borgara til að vera vinnusama og heiðarlega“. Síðan var bætt við: „Vottarnir aðhyllast strangt siðgæði. Þeir líta svo á að reykingar, ofdrykkja, fíkniefnaneysla, fjárhættuspil, lauslæti og samkynhneigð spilli sambandi þeirra við Guð. Þeir hvetja til iðjusemi og heiðarleika.“

Vottarnir taka líka alvarlega þá ábyrgð að boða fagnaðarerindið af krafti. Í því sambandi segir alfræðibókin New Catholic Encyclopedia: „Grundvallarskylda allra meðlima . . . er að vitna um Jehóva með því að boða komu Guðsríkis . . . Til að vera sannur vottur verður hver og einn að vera duglegur að boða fagnaðarerindið á einhvern hátt.“

Greinilegt er að sannkristin trú felur mun meira í sér en að tilheyra einhverri hinna fjölmörgu kirkjudeilda kristna heimsins. Jesús sagði sjálfur að falskristnum mönnum myndi fjölga. (Matteus 7:22, 23) Vottar Jehóva hvetja þig til að kynna þér það sem Jesús kenndi og fara eftir því. Þetta er einmitt merking þess að vera kristinn því að Jesús sagði: „Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því.“ — Jóhannes 13:17.

[Neðanmáls]

^ Orðabók skilgreinir hugtakið „kristinn“ sem það að játa trú á Jesú Krist eða aðhyllast trúarbrögð byggð á lífi hans og kenningum.

HEFURÐU VELT ÞESSU FYRIR ÞÉR?

◼ Hverja kallaði Jesús vini sína? — Jóhannes 15:14

◼ Hvers konar hegðun ættu sannkristnir menn að forðast? — Galatabréfið 5:19-21.

◼ Í hvaða starfi ber kristnum mönnum að taka þátt? — Matteus 28:19, 20.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Sannkristnir menn eru duglegir að boða fagnaðarerindið eins og fyrr á öldum.