Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég forðast samkynhneigð?

Hvernig get ég forðast samkynhneigð?

Ungt fólk spyr . . .

Hvernig get ég forðast samkynhneigð?

„Þegar ég var 12 ára laðaðist ég að stelpu í skólanum. Ég var alveg ráðvillt og óttaðist að ég væri lesbía.“ — Anna. *

„Á unglingsárunum laðaðist ég að öðrum strákum. Undir niðri vissi ég að þetta væri ekki eðlilegt.“ — Olef.

„Ég og vinkona mín kysstumst einu sinni eða tvisvar. Þar sem ég var enn þá hrifin af strákum hugsaði ég með mér að kannski væri ég tvíkynhneigð.“ — Sarah.

UMBURÐARLYNDI nútímans hefur fengið margt ungt fólk til að prófa ástarsamband við einhvern af sama kyni. „Margar stelpur í skólanum segjast vera lesbíur, tvíkynhneigðar eða forvitnar um bæði kynin,“ segir Becky sem er 15 ára. Christa er 18 ára og segir að hið sama sé uppi á teningnum í skólanum sínum. „Tvær bekkjarsystur mínar hafa meira að segja boðið mér að hafa við sig kynmök,“ segir hún. „Önnur þeirra skrifaði mér miða þar sem hún spurði hvort ég vildi komast að raun um hvernig það væri að vera með stelpu.“

Sú staðreynd að margir skuli tala svona opinskátt um sambönd milli einstaklinga af sama kyni fær þig ef til vill til að spyrja: ‚Er samkynhneigð örugglega röng? Hvað ef ég laðast að einhverjum af sama kyni? Þýðir það að ég sé samkynhneigður?‘

Hvernig lítur Guð á samkynhneigð?

Nú á dögum líta margir samkynhneigð mildum augum, þar á meðal sumir prestar. Biblían er hins vegar mjög skýr hvað þetta varðar. Hún segir að Jehóva Guð hafi skapað mann og konu og að ásetningur hans hafi verið að aðeins eiginmaður og eiginkona mættu hafa kynmök hvort við annað. (1. Mósebók 1:27, 28; 2:24) Það kemur því ekki á óvart að Biblían skuli fordæma kynmök milli fólks af sama kyni. — Rómverjabréfið 1:26, 27.

Vissulega eru margir sem segja að Biblían sé úrelt. Til dæmis fullyrti 14 ára stúlka sem heitir Megan: „Sumt af því sem stendur í Biblíunni á ekki heima í nútímasamfélagi.“ En af hverju eru sumir svona fljótir að draga þá ályktun? Oft er það vegna þess að sjónarmið Biblíunnar stangast á við þeirra eigin. Þeir hafna orði Guðs af því að það kennir ekki það sem þeir vilja trúa. Þetta viðhorf ber vott um hleypidóma og Biblían hvetur okkur til að láta ekki slíka þröngsýni byrgja okkur sýn. Jehóva Guð hvetur okkur í orði sínu til að taka mið af þeirri staðreynd að boðorð hans eru okkur til góðs. (Jesaja 48:17, 18) Finnst þér það ekki rökrétt? Hver þekkir eðli okkar betur en sá sem skapaði okkur?

Þar sem þú ert ungur að árum eru kannski alls konar tilfinningar að gera vart við sig. En hvað ef þú laðast að einhverjum af sama kyni? Er þá sjálfgefið að þú sért samkynhneigður? Nei. Mundu að unglingsárin eru sá tími þegar ósjálfráð kynferðisleg örvun er algeng. Um nokkurt skeið beinist áhugi þinn kannski að einhverjum af sama kyni en það þýðir samt ekki að þú sért samkynhneigður. Tölfræðilegar upplýsingar gefa til kynna að slíkur áhugi dvíni oftast með tímanum. En kannski veltirðu fyrir þér hvernig þessar tilfinningar kvikna yfir höfuð.

Sumir segja að samkynhneigð sé meðfædd. Aðrir halda því fram að hún sé áunnin. Í þessari grein er ekki ætlunin að kryfja til mergjar spurninguna hvort samkynhneigð sé meðfædd eða áunnin. Það væri hreinlega allt of mikil einföldun að reyna að rekja samkynhneigð til einnar einstakrar orsakar. Samkynhneigð virðist vera miklu flóknari en svo, rétt eins og annað atferli.

Óháð því hvað orsakar samkynhneigð er mikilvægt að vita að Biblían fordæmir slíka kynhegðun. Þeim sem hneigist að sama kyni er þar af leiðandi bent á markmið sem hægt er að ná — hann eða hún getur ákveðið að láta ekki undan þessari tilhneigingu. Tökum dæmi um mann sem er „bráðlyndur“. (Orðskviðirnir 29:22) Áður fyrr var hann kannski gjarn á að gefa reiði sinni lausan tauminn. En eftir að hafa kynnt sér Biblíuna gerir hann sér grein fyrir því að hann þarf að temja sér sjálfsstjórn. Merkir þetta að hann eigi aldrei aftur eftir að finna reiðina krauma innra með sér? Nei. En þar sem hann veit hvað Biblían segir um taumlausa reiði lætur hann ekki tilfinningarnar ná tökum á sér. Svipað gerist hjá manneskju sem hefur laðast að einhverjum af sama kyni en síðan lært hvað Biblían segir um samkynhneigð. Rangar langanir gætu stundum kviknað en með því að hlýða ráðum Biblíunnar er hægt að halda þessum löngunum í skefjum.

Að sjálfsögðu geta slíkar tilfinningar verið rótgrónar. En þú mátt vera viss um að það er ekki ómögulegt að vinna bug á röngum löngunum, jafnvel þeim sem rista mjög djúpt. (1. Korintubréf 9:27; Efesusbréfið 4:22-24) Þegar upp er staðið ert það þú sem stjórnar því hvernig þú lifir lífinu. (Matteus 7:13, 14; Rómverjabréfið 12:1, 2) Þótt margir haldi hinu gagnstæða fram þá geturðu lært að stjórna hvötum þínum — eða að minnsta kosti forðast að láta undan þeim.

Forðastu ranga breytni

Hvernig geturðu komið í veg fyrir að þú leiðist út í ranga kynhegðun?

1. skref Varpaðu öllum áhyggjum þínum á Jehóva í bæn og treystu því að hann muni ‚bera umhyggju fyrir þér‘. (1. Pétursbréf 5:7; Sálmur 55:23) Jehóva getur gefið þér frið sem er „æðri öllum skilningi“. Friður Guðs getur ‚varðveitt hjarta þitt og hugsanir‘ og gefið þér „ofurmagn kraftarins“ svo þú látir ekki undan röngum löngunum. (Filippíbréfið 4:7; 2. Korintubréf 4:7) Sarah, sem óttaðist að hún gæti verið tvíkynhneigð, sagði: „Alltaf þegar óþægilegar hugsanir leita á mig bið ég til Jehóva og hann styður mig. Án hjálpar hans hefði ég ekki getað tekist á við þetta vandamál. Bænin er lífæð mín.“ — Sálmur 94:18, 19; Efesusbréfið 3:20.

2. skref Fylltu hugann af andlegum og uppbyggilegum hugsunum. (Filippíbréfið 4:8) Lestu daglega í Biblíunni. Þú skalt aldrei vanmeta kraft hennar til að hafa jákvæð áhrif á huga þinn og hjarta. (Hebreabréfið 4:12) Ungur maður að nafni Jason sagði: „Biblían hefur haft gífurleg áhrif á mig, til dæmis ritningarstaðir eins og 1. Korintubréf 6:9, 10 og Efesusbréfið 5:3. Ég les þessa ritningarstaði um leið og rangar langanir kvikna.“

3. skref Forðastu klám og áróður fyrir samkynhneigð því það kyndir aðeins undir röngum hugsunum. * (Sálmur 119:37; Kólossubréfið 3:5, 6) Sumar kvikmyndir og sjónvarpsþættir ýta undir þá hugmynd að samkynhneigð sé ekkert annað en annars konar lífsstíll. „Hinn brenglaði hugsunarháttur heimsins hafði áhrif á mig og gerði mig enn þá óvissari um kynhneigð mína,“ segir Anna. „Nú held ég mér frá öllu sem ýtir undir samkynhneigð, hvort sem það er fólk eða eitthvað annað.“ — Orðskviðirnir 13:20.

4. skref Finndu trúnaðarvin sem þú getur talað við um það sem liggur þér á hjarta. (Orðskviðirnir 23:26; 31:26; 2. Tímóteusarbréf 1:1, 2; 3:10) Olef leitaði aðstoðar hjá öldungi í söfnuðinum og hann segir: „Ráðin, sem hann gaf mér, voru mjög gagnleg. Ég vildi að ég hefði talað við hann miklu fyrr.“

Gefstu ekki upp!

Sumir segja auðvitað að það sé til lítils að leggja þetta allt á sig og að maður ætti ekki að afneita kynhneigð sinni heldur sætta sig við hvernig maður er. En Biblían bendir á að hægt sé að bæta um betur. Hún segir til dæmis frá samkynhneigðu fólki á fyrstu öld sem breytti líferni sínu þegar það tók kristna trú. (1. Korintubréf 6:9-11) Þú getur einnig sigrað í baráttunni — jafnvel þó að hún sé aðeins háð í hjartanu.

Þótt rangar langanir haldi áfram að gera vart við sig skaltu ekki leggja árar í bát og finnast þú misheppnaður. (Hebreabréfið 12:12, 13) Öll þurfum við að berjast við rangar tilhneigingar af og til. (Rómverjabréfið 3:23; 7:21-23) Ef þú neitar að láta undan röngum löngunum gætu þær með tímanum dvínað. (Kólossubréfið 3:5-8) Umfram allt skaltu treysta á hjálp Jehóva. Hann elskar þig og veit hvað gerir okkur hamingjusöm. (Jesaja 41:10) Já, „treyst Drottni og gjör gott . . . og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.“ — Sálmur 37:3, 4.

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr. . .“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype.

[Neðanmáls]

^ Nöfnunum í þessari grein hefur verið breytt.

^ Nýr lífsstíll á vaxandi fylgi að fagna meðal karlmanna. Þeir sem temja sér hann eru gjarnan sagðir vera „metrósexúal“, „metrómenn“ eða „sjálfkynhneigðir“. Þessi lífsstíll er fólginn í því að hugsa gegndarlaust um sjálfan sig, og þá sérstaklega útlitið, og hann hefur átt drjúgan þátt í því að mörkin milli samkynhneigðra og gagnkynhneigðra karlmanna eru oft óljós. Höfundur hugtaksins nefnir að slíkur maður „geti verið samkynhneigður, gagnkynhneigður eða tvíkynhneigður, en það skiptir ekki nokkru máli vegna þess að hann hefur greinilega tekið ástfóstri við sjálfan sig, og kynhegðun hans ræðst af því hvað veitir honum mesta ánægju.“ Í alfræðiorðabók segir að þetta nýja hugtak hafi orðið vinsælt „í kjölfar þess að samkynhneigðir karlmenn öðluðust meiri viðurkenningu í samfélaginu, og jafnhliða því varð það minna feimnismál að vera samkynhneigður og karlmennskuímyndin breyttist“.

TIL UMHUGSUNAR

◼ Hvers vegna hefur Guð vanþóknun á samkynhneigð?

◼ Hvað geturðu gert ef þú laðast að sama kyni?

◼ Hverjum geturðu trúað fyrir tilfinningum þínum ef þú hneigist að sama kyni?

[Mynd á blaðsíðu 30]

Leitaðu aðstoðar hjá þroskuðum kristnum einstaklingi.