Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvert stefnir þessi heimur?

Hvert stefnir þessi heimur?

Hvert stefnir þessi heimur?

BIBLÍAN lýsti siðferðishruni okkar daga endur fyrir löngu með þessum orðum: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, . . . foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, . . . grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

Margir fallast eflaust á að þessi biblíuspádómur gefi nákvæma lýsingu á ástandinu í heiminum nú á dögum. Hann var þó skráður fyrir næstum 2000 árum. Spádómurinn hefst með orðunum: „Á síðustu dögum.“ Hvað merkja orðin ‚síðustu dagar‘?

Síðustu dagar hvers?

Oft er talað um síðustu daga þessa eða hins. Til dæmis kemur þetta orðalag fyrir í hundruðum bókartitla á ensku. Dæmi um það er nýlega útkomin bók sem nefnist The Last Days of Innocence — America at War, 1917-1918. Í formálanum er bent á að þegar talað sé um „síðustu daga“ í bókinni sé átt við ákveðið tímabil þar sem siðferði hnignaði stórlega.

„Árið 1914 breyttist bandarískt þjóðfélag hraðar en nokkru sinni fyrr,“ segir í formála bókarinnar. Það var einmitt á því ári sem heimsstyrjöld skall á en það hafði aldrei áður gerst í sögu mannkyns. Í bókinni segir: „Þetta var allsherjarstríð, átökin voru ekki á milli herja heldur þjóða.“ Eins og við munum sjá var þetta stríð háð í byrjun þess tímabils sem Biblían kallar síðustu daga.

Biblían talar um að ákveðið tímabil, sem kallast síðustu dagar, verði undanfari þess að heimur nútímans líði undir lok. Í Biblíunni segir raunar að eitt sinn hafi verið til heimur sem leið undir lok. „Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst.“ Hvenær var þetta og hvaða heimur fórst? Þetta var ‚heimur hinna óguðlegu‘ á dögum Nóa til forna. Heimur nútímans mun líka farast. En þeir sem þjóna Guði komast lífs af eins og Nói og fjölskylda hans. — 2. Pétursbréf 2:5; 3:6; 1. Mósebók 7:21-24; 1. Jóhannesarbréf 2:17.

Hvað sagði Jesús um endalokin?

Jesús Kristur talaði líka um daga Nóa þegar „flóðið kom og hreif þá alla burt“. Hann líkti ástandinu fyrir flóðið — rétt áður en sá heimur fórst — við ástandið á því tímabili sem í Biblíunni er kallað ‚endalok veraldar‘. — Matteus 24:3, 37-39.

Jesús lýsti því hvernig lífið yrði hér á jörðinni skömmu áður en núverandi heimur liði undir lok. Hann sagði um hernað: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki.“ Sagnfræðingar hafa bent á að þetta hafi hafist árið 1914. Í formála bókarinnar, sem áður var vísað til, var því talað um að árið 1914 hafi brotist út „allsherjarstríð, . . . ekki á milli herja heldur þjóða“.

Í spádómi Jesú segir einnig: „Þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.“ Jesús hélt áfram og sagði að meðal annars myndi „lögleysi magnast“. (Matteus 24:7-14) Við höfum vissulega séð þetta gerast á okkar dögum. Siðferðishrunið er svo alvarlegt að það uppfyllir biblíuspádóm.

Hvers konar líferni eigum við að temja okkur á þessum spillingartímum? Tökum eftir hvað Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Róm um siðferðishnignun. Hann minntist á ‚svívirðilegar girndir‘ fólks og sagði svo: „Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum.“ — Rómverjabréfið 1:26, 27.

Sagnfræðingar segja að á sama tíma og samfélag fyrstu aldar hafi sokkið æ dýpra í siðspillingu hafi „hin litlu samfélög kristinna manna [gert] nautnasjúkum heiðingjum gramt í geði með guðrækni sinni og ráðvendni“. * Þetta ætti að fá okkur til að staldra við og spyrja: „Hvað um mig og þá sem ég vel mér að félögum? Skerum við okkur úr fjöldanum með því að hafa gott siðferði ólíkt þeim sem lifa siðlausu lífi?“ — 1. Pétursbréf 4:3, 4.

Baráttan sem við eigum í

Biblían kennir að þrátt fyrir siðleysið í kringum okkur verðum við að vera ‚óaðfinnanleg og hrein, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar‘. Til að okkur takist það verðum við að ‚halda fast við orð lífsins‘. (Filippíbréfið 2:15, 16) Þessi orð Biblíunnar eru uppskriftin að því hvernig kristnir menn geta forðast siðspillingu — þeir verða að fylgja kennslu Biblíunnar og viðurkenna að siðferðisreglur hennar séu besta leiðsögnin sem hægt er að fá í lífinu.

„Guð þessarar aldar“, Satan djöfullinn, reynir að fá fólk á sitt band. (2. Korintubréf 4:4) Í Biblíunni segir að hann taki á sig „ljósengilsmynd“. Þeir sem þjóna honum með því að líkja eftir honum gera það líka. (2. Korintubréf 11:14, 15) Þeir lofa öðrum frelsi og lífsnautn en eins og segir í Biblíunni eru þeir sjálfir „þrælar spillingarinnar“. — 2. Pétursbréf 2:19.

Láttu ekki blekkjast. Þeir sem hunsa siðferðisreglur Guðs þurfa að taka afleiðingunum. Sálmaritarinn orti: „Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla [Guðs].“ (Sálmur 119:155; Orðskviðirnir 5:22, 23) Erum við sannfærð um það? Þá skulum við vernda hugann og hjartað gegn hvers kyns áróðri sem grefur undan góðu siðferði.

Margir telja sér hins vegar trú um að það sé allt í lagi að gera hvað sem er svo framarlega sem það sé ekki ólöglegt. En það er rangt. Faðirinn á himnum setur okkur ekki siðferðisreglur til að gera lífið leiðinlegt og fullt af hömlum heldur til að vernda okkur. Hann ‚kennir þér að gera það sem þér er gagnlegt‘. Hann vill að þú komist hjá erfiðleikum og lifir hamingjuríku lífi. Að þjóna Guði „hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda,“ eins og Biblían kennir. Hér er um að ræða „hið sanna líf“, eilíft líf í nýjum heimi sem hann hefur lofað. — Jesaja 48:17, 18; 1. Tímóteusarbréf 4:8; 6:19.

Hugleiddu kosti þess að fylgja kennslu Biblíunnar og berðu þá saman við sorgirnar sem verða hlutskipti þeirra sem gera það ekki. Besta lífsstefnan er að ávinna sér hylli Guðs með því að hlusta á hann. Hann lofar: „Sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.“ — Orðskviðirnir 1:33.

Hreint og heiðarlegt samfélag

Biblían segir að þegar þessi heimur líður undir lok verði „engir guðlausir til framar“. Hún segir enn fremur: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því.“ (Sálmur 37:10, 11; Orðskviðirnir 2:20-22) Allt siðleysi verður hreinsað burt af jörðinni og allir sem neita að fylgja heilnæmri kennslu skaparans verða afmáðir. Þeir sem elska Guð munu smám saman breyta jörðinni í paradís líkri paradísinni sem fyrstu hjónin fengu að búa í. — 1. Mósebók 2:7-9.

Það verður unaðslegt að búa á hreinsaðri jörð sem breytt hefur verið í undurfagra paradís. Á meðal þeirra sem fá að upplifa það verða milljarðar manna sem hafa verið reistir upp frá dauðum. Við getum glaðst yfir fögrum loforðum Guðs: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Sálmur 37:29; Opinberunarbókin 21:3, 4.

[Neðanmáls]

^ Will Durant. Rómaveldi, seinna bindi. Mál og menning. Reykjavík. 1993. Jónas Kristjánsson íslenskaði.

[Innskot á blaðsíðu 9]

Guðhræddir menn komust lífs af þegar heimur leið undir lok forðum daga.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Jörðin verður að paradís þegar núverandi heimur er liðinn undir lok.