Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kalda ströndin Svalbarði

Kalda ströndin Svalbarði

Kalda ströndin Svalbarði

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í NOREGI

VIÐ fljúgum í þéttu skýjaþykkni og sjáum ekkert út. En skyndilega skýst flugvélin út úr skýjunum og snævi þakið land blasir við augum okkar. Útsýnið er stórkostlegt! Við horfum heilluð á firði, jökla og snævi þakin fjöll. Bláleit auðnin teygir sig eins langt og augað eygir. Þetta er Svalbarði sem er eyjaklasi fyrir norðan heimskautsbaug, á milli 74. og 81. gráðu norðlægrar breiddar. Við erum hingað komin í heimsókn.

Nafnið Svalbarði merkir „kalda ströndin“ og kemur fyrst fram í íslenskum annálum árið 1194. En það var ekki fyrr en 400 árum síðar sem Svalbarði komst á heimskortið. Það var árið 1596 sem hópur hollenskra landkönnuða undir forystu Willems Barents sigldi langt norður í höf. Dag einn kom vaktmaðurinn á „útkikkinu“ auga á óþekkt land við sjóndeildarhring, þakið skörðóttum fjöllum. Landkönnuðirnir tóku land á norðvesturhluta Svalbarða og Barents nefndi landið „Spitsbergen“ en það merkir „Tindafjöll“. Þetta er nú heiti stærstu eyjarinnar í klasanum. Landafundur Barents var upphafið að miklum umsvifum á Svalbarðasvæðinu, þar á meðal hvalveiðum, selveiðum, loðskinnaveiðum og landkönnun. Í kjölfarið kom svo kolanámugröftur, vísindarannsóknir og ferðaþjónusta. Í aldanna rás hafa nokkrar þjóðir látið til sín taka á svæðinu en frá 1925 hefur Svalbarði verið undir stjórn Norðmanna.

Land sífrera og norðurljósa

Vélin lækkar flugið yfir Ísfirði og lendir á Svalbarðaflugvelli. Við fáum afhentan bílaleigubíl og ökum sem leið liggur til Longyearbyen. Bærinn er nefndur eftir ameríska námuhöldinum John M. Longyear sem hóf fyrstur manna kolanám á svæðinu árið 1906. Longyearbyen er stærsta bæjarfélagið á Svalbarða með um 2000 íbúa. Já, í þessu mikla og næstum ósnortna víðerni finnum við nútímalegan bæ með hefðbundinni aðstöðu eins og stórmarkaði, pósthúsi, banka, almenningsbókasafni, skólum, leikskólum, hótelum, kaffi- og veitingahúsum, spítala og staðarfréttablaði. Longyearbyen stendur fyrir norðan 78. breiddargráðu, nyrsta bæjarfélag heims af sinni stærðargráðu.

Við fáum inni á gistihúsi sem var áður hluti af búðum kolanámuverkamanna. Það horfir yfir Longyearbyen með útsýni til hins tignarlega Hiorthfjellet. Það er komið fram í október og fjöllin eru snævi krýnd. Dalbotninn er auður enn þá en jörðin gaddfrosin. Þetta er land sífrerans og það er aðeins efsta jarðvegslagið sem nær að þiðna um stuttan tíma yfir hásumarið. Hagstæðir vindar og hafstraumar gera hins vegar að verkum að loftslagið er mildara hér en annars staðar á þessari breiddargráðu. Frá gistihúsinu sjáum við sólina leika um fjöllin en bláleitur skuggi hvílir yfir dalnum. Sólin rís ekki í Longyearbyen frá 26. október til 16. febrúar. En norðurljósin lífga oft upp á myrkasta skammdegið. Að vor- og sumarlagi leikur miðnætursólin hins vegar um Svalbarða, og í Longyearbyen sest hún ekki frá 20. apríl til 23. ágúst.

Jurta- og dýralíf

Það er 8 stiga frost og napur vindur en heiður himinn. Við erum tilbúin að fara í skoðunarferð. Leiðsögumaðurinn gengur með okkur upp Sarkofagen-fjall og síðan niður eftir Longyearbreen-jöklinum. Meðan við klífum frosnar hæðirnar segir hann okkur að hér vaxi fjöldi fallegra blóma á vorin og sumrin. Reyndar er gróðurfar ótrúlega fjölbreytt á Svalbarða en þar vaxa um 170 tegundir blómjurta. Af tveim algengum blómum má nefna hvíta og gula Svalbarðasólina og ilmandi vetrarblóm.

Ofar í snævi þakinni hlíðinni rekumst við á slóðir eftir fjallarjúpu sem er eini staðfuglinn á eyjunum. Allar aðrar fuglategundir, svo sem stuttnefja, haftyrðill, ýmsar mávategundir og sendlingur, eru farfuglar. Krían kemur sömuleiðis hingað á vorin. Hún er einkar áhugaverður fugl og á það til að fljúga yfir hálfan hnöttinn á farflugi sínu, allt til suðurskautsins.

Við göngum einnig fram á slóðir eftir heimskautarefinn. Hann er hrææta en leggst einnig á egg og ungfugla. Refurinn er annað af tveim spendýrum á Svalbarða sem halda sig eingöngu á fastri grund en hitt er hreindýrið. Við fáum að sjá hreindýr nokkrum sinnum á stuttu færi meðan við dveljumst á Svalbarða. Dýrin eru gæf að eðlisfari, horfa róleg á okkur, leyfa okkur að koma býsna nærri sér og ljósmynda sig áður en þau halda sína leið. Hreindýrið er stuttfætt með þéttan og hlýjan feld, og það er í góðum holdum núna að haustlagi. Fitulagið, sem dýrið hefur safnað, er vetrarforðinn sem það þarf á að halda til að þrauka yfir kalda vetrarmánuðina.

Ísbjörninn, konungur norðurheimskautsins, er af mörgum talinn sjávarspendýr vegna þess að hann heldur sig að mestu leyti á hafís og veiðir sel. En nánast hvar sem er á Svalbarða má búast við að rekast á ísbjörn einan á ferð. Leiðsögumaðurinn vonar að við gerum það ekki. Ísbirnir geta verið ákaflega árásargjarnir þannig að leiðsögumaðurinn ber riffil á öxlinni til öryggis. Ísbjarnaveiðar hafa verið bannaðar með öllu síðan 1973 og rannsókn fer fram í hvert sinn sem ísbjörn er drepinn. Ísbirnir eru nokkuð margir á Svalbarðasvæðinu um þessar mundir en menn hafa þó alvarlegar áhyggjur af framtíð þessarar miklu skepnu. Þótt norðurslóðirnar séu hvítar, ferskar og hreinar að sjá finnast þar hættuleg mengunarefni svo sem PCB. Slík mengunarefni safnast fyrir í líkama ísbjarna þar sem þeir eru efstir í fæðukeðjunni, og þetta virðist draga úr frjósemi þeirra.

Við erum komin upp á tind Sarkofagen. Útsýnið er stórkostlegt. Í fjarska sjáum við hvíta fjallatinda og í suðvestri blasir við bungulaga Nordenskiöldfjellet baðað í skini sólarinnar. Longyearbyen stendur við fjallsræturnar langt fyrir neðan okkur og ljósblár himinninn teygir sig til allra átta. Okkur finnst við standa efst á jarðarkúlunni. Við hressum okkur á nokkrum brauðsneiðum og bolla af „púnsi“. Þetta er algengur göngumannadrykkur gerður úr sykruðum sólberjasafa og heitu vatni. Nú erum við tilbúin að snúa við sem leið liggur niður Longyearbreen-jökulinn.

Kolanámugröftur og dýr í útrýmingarhættu

Næst á dagskrá er að skoða gamla kolanámu sem er einnig áhugavert. Þrekvaxinn leiðsögumaðurinn er fyrrverandi kolanámuverkamaður og hann sýnir okkur námu 3 sem er rétt fyrir utan Longyearbyen. Við klæðumst samfestingum og setjum á okkur öryggishjálma með ljósi og fylgjum leiðsögumanninum inn í iður fjallsins. Hann upplýsir okkur um að kolavinnsla hafi verið undirstaða efnahagslífsins á Svalbarða frá því í byrjun 20. aldar. Lengi vel unnu kolanámuverkamenn við afar erfiðar aðstæður. Oft þurftu þeir að skríða á fjórum fótum eftir löngum, láréttum námugöngum þar sem kolalögin voru sums staðar ekki nema 70 sentímetra þykk. Við fáum að prófa hvernig það er að skríða á fjórum fótum eftir svona námugöngum og satt að segja öfundum við ekki námuverkamennina. Þeir unnu erfiðisvinnu, loftið var mettað stein- og kolaryki, hávaðinn mikill og alltaf hætta á sprengingum og hruni. Nú eru notaðar nútímalegri aðferðir. Kolavinnsla er enn þýðingarmikill þáttur í efnahagslífi Svalbarða en ferðamennsku hefur vaxið mjög fiskur um hrygg á síðustu áratugum.

Fólk hefur ekki alltaf tekið tillit til þess hve viðkvæmt lífríkið er á norðurslóðum. Stundum voru hvalir, rostungar, hreindýr, ísbirnir og önnur dýr veidd í slíkum mæli að sumar tegundir voru í útrýmingarhættu á Svalbarðasvæðinu. Með friðun og veiðitakmörkunum hafa nokkrar tegundir, sem voru í hættu, náð sér á strik að nýju.

Paradís jarðfræðinga

Svalbarði hefur verið kallaður „paradís jarðfræðinga“. Þar sem gróðurinn er ósköp strjáll er landslagið eins og jarðfræðileg myndabók. Við tökum eftir einkennandi jarðmyndunum í fjallshlíðunum þar sem jarðlögin eru greinileg og minna einna helst á risastórar lagkökur. Þarna er að finna berg frá öllum skeiðum jarðsögunnar. Sum jarðlögin eru mynduð úr sandi og leir en önnur úr lífrænum efnum. Í aldanna rás hefur leir lagst yfir dauðar jurtir og dýr svo að þau hafa varðveist sem steingervingar. Reyndar er að finna steingervinga á Svalbarða í bergi frá öllum tímabilum jarðsögunnar.

Á Svalbarðasafninu skoðum við fjölda steingervinga af hitakærum jurtum og dýrum sem sýnir að loftslag var mun heitara á eyjunum einhvern tíma til forna. Sums staðar á Svalbarða eru kolalögin allt að fimm metra þykk. Í þeim hafa bæði fundist leifar barrtrjáa og lauftrjáa. Steingerð fótspor eftir forneðlu, sem var jurtaæta, eru annað merki þess að loftslag hafi einhvern tíma í fyrndinni verið hlýrra á Svalbarða og gróðurinn eftir því.

Hvernig er hægt að skýra þessar miklu loftslagsbreytingar? Við spyrjum Torfinn Kjærnet en hann er jarðfræðingur og fulltrúi Námustofnunarinnar í Longyearbyen. Hann segir okkur að flestir jarðfræðingar álíti að landrek sé helsta ástæðan. Að sögn jarðfræðinga er Svalbarði staðsettur á fleka sem rak til norðurs á afar löngum tíma, hugsanlega allt sunnan frá miðbaug. Eftir gervihnattamælingum að dæma rekur Svalbarða til norðausturs um fáeina sentímetra á ári.

Þegar flugvélin tekur á loft frá Svalbarða finnst okkur að heimsóknin hafi gefið okkur margt til umhugsunar. Víðerni norðursins, dýrin sem hafa aðlagað sig náttúrufarinu og allar jurtirnar vekja okkur til umhugsunar um fjölbreytni sköpunarverksins, smæð mannsins og spurninguna um það hvernig mennirnir sinna því hlutverki að annast jörðina. Vélin tekur stefnu til suðurs og við horfum í síðasta sinn á köldu ströndina þar sem snævi þaktir fjallatindar skaga upp úr skýjaþykkninu, baðaðir daufbleiku skini síðdegissólarinnar.

[Kort á blaðsíðu 16]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Norðurskaut

GRÆNLAND

SVALBARÐI

Longyearbyen

75°N

ÍSLAND

NOREGUR

60°N

RÚSSLAND

[Mynd á blaðsíðu 17]

Longyearbyen

[Mynd á blaðsíðu 17]

Vetrarblóm er ein af mörgum blómjurtum sem þrífast í óblíðu loftslagi Svalbarða.

[Credit line]

Knut Erik Weman

[Myndir á blaðsíðu 18]

Fjallarjúpa og hreindýr.

[Credit line]

Knut Erik Weman