Mikael Agricola — „maður nýrrar dögunar“
Mikael Agricola — „maður nýrrar dögunar“
Eftir fréttaritara Vaknið! í Finnlandi
„Biblían hefur haft djúpstæðari og víðtækari áhrif á finnska menningu, lífsgildi og viðhorf en nokkur önnur bók.“ — „Biblia 350 — Finnska biblían og finnsk menning“.
BIBLÍAN er til í heild eða að hluta á meira en 2000 tungumálum. Stór hluti jarðarbúa getur því lesið orð Guðs á móðurmáli sínu. Og það er engin tilviljun því að í aldanna rás hafa ótal karlar og konur unnið baki brotnu við að þýða Biblíuna á móðurmál sitt. Margir þeirra áttu við ramman reip að draga. Mikael Agricola var einn þeirra.
Agricola var fræðimaður sem réðst í það stórvirki að þýða Biblíuna á finnsku. Með ritstörfum sínum átti hann drjúgan þátt í að skapa finnska menningu eins og við þekkjum hana. Það er engin furða að hann skuli vera kallaður „maður nýrrar dögunar“.
Agricola fæddist um árið 1510 í þorpinu Torsby í sunnanverðu Finnlandi. Faðir hans átti bóndabæ og var það kveikja eftirnafnsins Agricola en það er komið úr latínu og merkir „bóndi“. Agricola ólst upp á tvítyngdu svæði og er því líklegt að hann hafi talað bæði sænsku og finnsku. Hann lærði auk þess latínu þegar hann sótti latínuskóla í borginni Vyborg. Síðar fluttist hann til Turku sem var þá stjórnarsetur Finnlands og starfaði þar sem ritari kaþólska biskupsins Marttis Skytte.
Trúarlíf og stjórnmál samtíðarinnar
Mikil umbrot áttu sér stað um þetta leyti í stjórnmálum og trúarlífi Norðurlanda. Svíar vildu losna úr Kalmarsambandinu sem var bandalag konungsríkjanna Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Gústaf 1. Vasa var krýndur konungur Svíþjóðar árið 1523. Þetta átti eftir að hafa víðtæk áhrif í Finnlandi sem var undir stjórn Svía á þeim tíma.
Nýja konunginum var mikið í mun að treysta völd sín. Liður í því var að koma á siðaskiptum í Svíþjóð en þau gengu eins og eldur í sinu um Norður-Evrópu á þeim tíma. Með því að breyta úr kaþólskri trú í lúterska sleit hann tengslin við Páfagarð, dró úr valdi kaþólsku biskupanna
og náði miklum eignum af kirkjunni. Lúterstrú er ráðandi í Svíþjóð og Finnlandi enn þann dag í dag.Eitt af meginmarkmiðum mótmælenda var að guðsþjónustur færu fram á tungu almennings en ekki latínu. Grísku ritningarnar, „Nýja testamentið“ sem svo er kallað, voru því gefnar út á sænsku árið 1526. Í Finnlandi var mótmælendahreyfingin hins vegar lengur að taka við sér. Lítill áhugi var á því að þýða Biblíuna á finnsku. Af hverju?
„Erfitt og þreytandi“ verk
Ein meginástæðan var sú að það var varla til lesefni á finnsku. Fyrir miðja sextándu öld voru einungis til fáeinar kaþólskar bænir á finnsku ritmáli. Til að þýða Heilaga ritningu á finnsku þurfti því að búa til ritað form fyrir fjölda orða, auk þess að smíða ný orð og orðasambönd. Og þetta þurfti að gera án handbóka um mál og málfar. Agricola réðst engu að síður í það mikla verk að þýða Biblíuna!
Skytte biskup sendi Agricola til náms í guðfræði og málvísindum í Wittenberg í Þýskalandi árið 1536. Það var þar sem hamarshögg Lúters áttu að hafa glumið 20 árum áður þegar hann, að sögn, negldi hinar frægu 95 greinar á hurð kastalakirkjunnar.
Agricola vann heimavinnuna sína og gott betur meðan hann var í Wittenberg. Það var þar sem hann hófst handa við að þýða Biblíuna á finnsku. Hann sagði í bréfi til Svíakonungs árið 1537: „Meðan Guð leiðbeinir mér við námið mun ég reyna að halda áfram að þýða Nýja testamentið á tungu finnsku þjóðarinnar, eins og ég er nú byrjaður á.“ Hann hélt þýðingarvinnunni áfram eftir heimkomuna til Finnlands, samhliða starfi sínu sem skólastjóri.
Þýðing Biblíunnar var ekki léttara starf fyrir Agricola en það var fyrir aðra biblíuþýðendur fyrri alda. Lúter sagði meira að segja: „Það er bæði erfitt og þreytandi að neyða hebresku ritarana til að tala þýsku.“ Agricola gat vissulega notfært sér þýðingar annarra en hann þurfti hins vegar að yfirstíga einn þröskuld ekki lítinn — finnska málið. Segja má að finnskt ritmál hafi varla verið til á þeim tíma.
Það var rétt eins og Agricola þyrfti að reisa hús án þess að hafa vinnuteikningar og hefði auk þess fátæklegt efni til að vinna úr og þyrfti að sækja það víða að. Hvernig fór hann að þessu? Hann byrjaði á því að velja orð úr ýmsum finnskum mállýskum og skrifa þau niður eftir framburði. Sennilega var það hann sem bjó til finnsk orð fyrir „stjórn“, „hræsnara“, „handrit“, „herlið“, „fyrirmynd“ og „fræðimann“. Hann bjó til samsett orð og afleidd orð og tók orð að láni úr öðrum tungumálum, einkum sænsku. Þar á meðal eru orð eins og enkeli (engill), historia (saga), lamppu (lampi), marttyyri (píslarvottur) og palmu (pálmi).
Orð Guðs á tungu almennings
Fyrsti hlutinn af þýðingu Agricola kom loks út á prenti árið 1548 en það var Se Wsi Testamenti (Nýja testamentið). Sumir telja að þýðingunni hafi verið lokið fimm árum áður en fjárskortur hafi tafið útgáfuna. Sennilegt er að Agricola hafi að miklu leyti kostað prentunina úr eigin vasa.
Þrem árum síðar komu Sálmarnir (Dauidin Psaltari) út á prenti og líklegt er að Agricola hafi þýtt þá með hjálp samstarfsmanna. Hann stóð einnig fyrir þýðingu á sumum af bókum Móse og spámannanna.
Agricola viðurkenndi auðmjúklega takmörk sín og skrifaði þessi einlægu orð: „Enginn kristinn maður og guðrækinn ætti að láta sér bregða þótt hann finni í þessari þýðingu viðvanings á hinni helgu bók galla eða eitthvað sem er undarlegt og ljótt eða orðað á nýstárlegan hátt.“ Þótt eflaust megi finna annmarka á þýðingu Agricola á hann mikið hrós skilið fyrir þrautseigju sína og brennandi áhuga á að gera Biblíuna aðgengilega fyrir almenning.
Arfleifð Agricola
Snemma árs 1557 var Agricola kjörinn til að fara með sendinefnd til Moskvu og hann var þá orðinn lúterstrúar og biskup í Turku. Markmið fararinnar var að útkljá landamæradeilur Svía og Rússa. Sendiförin tókst vel en harðindi á heimleiðinni virðast hafa gengið nærri Agricola svo að hann veiktist snögglega og dó á leiðinni, aðeins um 47 ára gamall.
Á stuttri ævi gaf Agricola aðeins út um tíu rit á finnsku, alls um 2400 blaðsíður. Margir telja þó að með starfi hans hafi runnið upp ný dögun í finnskri menningu. Finnsk tunga hefur dafnað síðan hann var uppi og listir og vísindi standa í miklum blóma.
Meira máli skiptir þó að Mikael Agricola var boðberi nýrrar dögunar af öðru tagi. Hann stuðlaði að því að ljósið frá orði Guðs ætti greiðari leið til finnskumælandi fólks. Þessu er lýst í hnotskurn í ljóði sem ort var á latínu til minningar um hann eftir dauða hans: „Hann lét ekki eftir sig venjulega erfðaskrá. Í stað erfðaskrár kemur verk hans — hann þýddi helgar bækur á finnsku — og það er lofsvert mjög.“
[Rammi/mynd á blaðsíðu 13]
Finnska biblían
Öll Biblían kom fyrst út á finnsku árið 1642 og var að miklu leyti byggð á starfi Mikaels Agricola. Hún varð síðan opinber biblía lútersku kirkjunnar í Finnlandi. Smávægilegar endurbætur hafa verið gerðar á henni með tímanum en hún hefur verið næstum óbreytt síðan 1938. Síðasta endurskoðun fór fram árið 1992.
Auk þessarar biblíu er aðeins gefin út ein biblía á finnsku sem inniheldur allar bækurnar. Það er Nýheimsþýðing heilagrar ritningar sem Vottar Jehóva í Finnlandi gáfu út árið 1995. Tuttugu árum áður, árið 1975, höfðu þeir gefið út þýðingu sína á Grísku ritningunum. Nýheimsþýðingin fylgir frumtextanum eins nákvæmlega og frekast er kostur. Hún er gefin út á fjölda tungumála og heildarupplagið nemur nú 130.000.000 eintaka.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Mikael Agricola og fyrsta finnska biblían. Póstkort frá 1910.
[Credit line]
Fornleifaráð Finnlands/Ritva Bäckman
[Mynd á blaðsíðu 13]
„Nýja testamenti“ Agricola.
[Mynd credit line á blaðsíðu 11]
Fornleifaráð Finnlands