Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Siðferðishrun um allan heim

Siðferðishrun um allan heim

Siðferðishrun um allan heim

„SVINDLIÐ er alls staðar,“ segir David Callahan sem skrifaði nýlega bókina The Cheating Culture. Þar fjallar hann um ýmiss konar óheiðarleika sem stundaður er í Bandaríkjunum, meðal annars um „svindl nemenda í framhaldsskólum og háskólum,“ „ólöglega fjölföldun“ á tónlist og kvikmyndum, „þjófnað á vinnustöðum,“ „stórtæk svik innan heilbrigðisgeirans,“ og steranotkun í íþróttum. Hann kemst að eftirfarandi niðurstöðu: „Þegar við leggjum saman allt það misferli af siðferðilegum og lagalegum toga sem blasir við er ljóst að við stöndum frammi fyrir stórfelldri siðferðiskreppu.“

Dagblaðið The New York Times sagði að í kjölfar fellibylsins Katrina í Bandaríkjunum í ágúst 2005, „hafi farið af stað einhver hrikalegustu svik og fjárprettir og ótrúlegasta klúður af hálfu stjórnvalda sem um getur í nútímasögu.“ Bandarískur öldungadeildarþingmaður sagði: „Ófyrirleitin fjársvik og bíræfni manna og gegndarlaus sóunin er hreinlega með ólíkindum.“

Að sjálfsögðu er enn til fólk sem sýnir óeigingirni og gerir öðrum gott. (Postulasagan 27:3; 28:2) En allt of oft heyrum við fólk segja: „Hvernig kemur þetta mér til góða? Hvað fæ ég út úr þessu?“ Eigingirni og sjálfselska virðist hafa tekið völdin.

Bent hefur verið á að eigingirni og blygðunarlaust siðleysi hafi stuðlað að falli heilla heimsvelda eins og Rómaveldis. Gæti núverandi þróun mála verið upphafið að enn þýðingameiri atburðum? Biblían spáði endur fyrir löngu að lögleysi myndi magnast um allan heim sem undanfari þess að heimskerfið í heild liði undir lok. Er þetta að gerast núna? — Matteus 24:3-8, 12-14; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

Hnignandi siðferði alls staðar

Í Africa News 22. júní 2006 var sagt frá „málþingi um kynferðisofbeldi og klám“ í fátækrahverfum á einu svæði í Úganda. Þar kom fram að „það sé vanrækslu foreldra að kenna að vændi og fíkniefnaneysla hafi aukist á svæðinu“. Í blaðinu sagði: „Dhabangi Salongo, yfirmaður barna- og fjölskyldudeildar lögreglustöðvarinnar í Kawempe, sagði að kynferðisofbeldi gegn börnum og heimilisofbeldi hafi aukist gríðarlega.“

Geðlæknir á Indlandi segir: „Þjóðfélagið er að missa menningarlega fótfestu sína.“ Kvikmyndaleikstjóri þar í landi sagði að „aukin fíkniefnanotkun og vaxandi lauslæti sé enn eitt merkið um að Indland sé að sökkva niður í ‚vestræna siðspillingu‘“.

Hu Peicheng, framkvæmdastjóri Kynfræðifélags Kína í Beijing, sagði: „Hér áður fyrr bárum við skyn á rétt og rangt í þessu þjóðfélagi. Núna getum við gert hvað sem okkur lystir.“ Í grein í tímaritinu China Today var komist svo að orði: „Þjóðfélagið verður æ umburðarlyndara gagnvart ástarsamböndum utan hjónabands.“

„Svo virðist sem allir séu tilbúnir til að fækka fötum og nota kynlíf til að selja hvað sem er.“ Þetta kom nýlega fram í enska dagblaðinu Yorkshire Post. „Fyrir rétt rúmum mannsaldri hefði slíkt stórhneykslað fólk. Núna dynja á okkur myndir af kynferðislegum toga hvert sem litið er og klám hefur . . . skotið föstum rótum í þjóðfélaginu.“ Blaðið bætir við: „Kvikmyndir og lesefni, sem áður taldist aðeins við hæfi fólks eldra en 18 ára, er nú gjarnan hluti af sjálfsögðu efni fyrir alla fjölskylduna og oft eru börn beinlínis gerð að markhópi fyrir slíkt efni, að sögn þeirra sem berjast gegn klámi.“

Tímaritið The New York Times Magazine segir: „[Sumum unglingum] finnst jafnsjálfsagt að tala um [kynlíf sitt] eins og að tala um hvað sé á matseðlinum í mötuneytinu.“ Tímaritið Tweens News, sem er „leiðarvísir fyrir foreldra barna á aldrinum 8 til 12 ára,“ segir: „Stelpa hafði skrifað átakanleg skilaboð með barnalegri rithönd: ‚Mamma er að hvetja mig til að fara út með strákum og stunda kynlíf. Ég er bara 12 ára . . . hjálp!‘“

Tímarnir hafa sannarlega breyst. Kanadíska dagblaðið Toronto Star sagði að fyrir ekki svo löngu hefði það „þótt hneykslanlegt að hommar eða lesbíur byggju saman fyrir opnum tjöldum.“ Barbara Freemen, kennari í félagssögu við Carleton-háskólann í Ottawa, segir hins vegar: „Núna segir fólk: ‚Einkalíf okkar kemur engum við. Við kærum okkur ekki um afskipti annarra.‘“

Það er augljóst að á undanförnum áratugum hefur siðferði manna hrakað stórlega víða um heim. Af hverju stafa þessar róttæku breytingar? Hvað finnst þér um þær? Og hvað gefa þessar breytingar til kynna um framtíðina?