Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varanlegra en listin

Varanlegra en listin

Varanlegra en listin

RAKEL KOIVISTO SEGIR FRÁ

Árið 1950 vann ég í hugmyndasamkeppni í Finnlandi um minnismerki til heiðurs þeim sem féllu í síðari heimsstyrjöldinni. Ári seinna var stórt minnismerki, sem ég hafði gert úr graníti, afhjúpað við hátíðlega athöfn í Tuusula í Finnlandi. Ég skal segja ykkur hvers vegna ég var ekki viðstödd.

ÉG FÆDDIST árið 1917, yngst átta systkina. Fjölskylda mín bjó í sveitaþorpi í suðurhluta Finnlands. Þótt við værum fátæk var ég áhyggjulaus og mér leið vel. Foreldrar mínir voru áreiðanlegir og guðhræddir einstaklingar og kenndu okkur að meta andleg verðmæti. Biblía, sem pabbi hafði keypt, var í hávegum höfð á heimilinu.

Þegar ég var barn skar ég út litlar styttur úr tré. Ættingjum mínum fannst verk mín vera afburðagóð og hvöttu mig til að fara í listnám. Þegar fram liðu stundir sótti ég um inngöngu í Listiðnaðarháskólann í Helsinki og umsóknin var samþykkt. Þessi virti skóli, sem var miðstöð listalífsins í Finnlandi, var heillandi umhverfi fyrir unga sveitastúlku og ég sökkti mér niður í námið. Þegar ég útskrifaðist árið 1947 var ég viss um að ég gæti skapað eitthvað fyrir þennan heim sem hefði varanlegt gildi.

Tímamót

Ekki leið á löngu þar til markmið mín gerbreyttust. Dag nokkurn kom Aune, systir mín, í heimsókn og sagði spennt í bragð: „Ég hef fundið sannleikann!“ Hún hafði fengið bókina „Guð skal reynast sannorður“ sem Vottar Jehóva gefa út. Ég var ekki sérlega hrifin. Stuttu seinna tók ég eftir því að fyrrverandi bekkjarsystir í háskólanum átti þessa sömu bók. Þegar ég gerði lítið úr bókinni svaraði hún á móti: „Hættu að hlægja! Þessi bók getur hjálpað þér að skilja Biblíuna.“ Ég fékk eintak af bókinni og las hana næstum alla í einni lotu. Ég gerði ekki lengur grín að henni. Ég var meira að segja sannfærð um að vottarnir hefðu sannleikann. Og ég gerði mér líka grein fyrir því að Jehóva Guð væri að bjóða mér nokkuð sem listin getur ekki veitt — eilíft líf.

Þegar ég komst fyrst í kynni við vottana buðu þeir mér ekki á samkomu og þess vegna hélt ég að samkomurnar væru aðeins fyrir safnaðarmenn. Ég tók því frumkvæðið og spurði hvort ég mætti koma á samkomu. Ég var mjög glöð að heyra að allir væru velkomnir. Samkomurnar styrktu trúna og fljótlega tók ég ákvörðun um að vígja Jehóva líf mitt. Hinn 19. nóvember 1950 lét ég vígslu mína opinberlega í ljós þegar ég lét skírast ásamt systur minni. Okkur til mikillar ánægju urðu foreldrar okkar og hinar systurnar fjórar einnig vottar Jehóva þegar fram liðu stundir.

Hvaða ævistarf átti ég að velja?

Á sama tíma og ég var að kynna mér Biblíuna með aðstoð vottanna var ég að hasla mér völl sem listamaður. Eftir að hafa útskrifast úr listaskólanum starfaði ég sem aðstoðarmaður prófessors í höggmyndalist. Það var á þeim tíma sem ég vann í hugmyndasamkeppni um minnismerki til heiðurs þeim sem féllu í síðari heimsstyrjöldinni, eins og ég minntist á í upphafi. Í ljósi breyttrar afstöðu minnar til hernaðar stakk ég upp á að höggmyndin, sem er einir fimm metrar á hæð, skyldi kallast „Þeir sneru ekki aftur“. (Jesaja 2:4; Matteus 26:52) Ástæðan fyrir því að ég var ekki á staðnum, þegar styttan var afhjúpuð, er sú að athöfnin var á þjóðernislegum nótum og fór ekki saman við trúarsannfæringu mína.

Þegar ég fór að njóta meiri virðingar og viðurkenningar sem listamaður fékk ég atvinnutilboð sem lofuðu góðu. Ég ákvað hins vegar að endurskoða áherslur mínar í lífinu. Þó að vinnan væri mér kær var löngunin til að hjálpa öðrum að byggja upp vináttu við Jehóva enn sterkari. Árið 1953 byrjaði ég því að þjóna sem brautryðjandi, en það kallast vottar Jehóva sem nota mestan hluta tíma síns til að boða trúna.

Stundum var mér sagt að ég væri að kasta hæfileikum mínum á glæ. En ég vissi að hvaðeina sem ég myndi afreka sem myndhöggvari hefði aðeins stundlegt gildi. Höggmyndir úr graníti morkna meira að segja sundur með tímanum. En sem brautryðjandi gæti ég notað mestan hluta af tíma mínum til að hjálpa öðrum að komast inn á veginn sem leiðir til eilífs lífs. (Jóhannes 17:3) Engu að síður lagði ég höggmyndagerð ekki á hilluna. Endrum og eins bjó ég til litlar styttur sjálfri mér til ánægju og seldi þær til að sjá fyrir mér.

Flyst út í sveit

Árið 1957, eftir að hafa þjónað sem brautryðjandi í Helsinki í fjögur ár, bauð deildarskrifstofa Votta Jehóva í Finnlandi mér að flytjast til Jalasjärvi, sveitarfélags í Suður-Ostrobothnia. Þar átti ég að starfa með Önju Keto sem var 17 árum yngri en ég. Þótt ég þekkti hana ekki þáði ég fúslega boðið og flutti inn til hennar. Þar sem við Anja vorum einu vottarnir á svæðinu vorum við næstum alltaf saman í boðunarstarfinu. Við urðum fljótlega óaðskiljanlegar vinkonur.

Þegar ég fluttist til Jalasjärvi þurfti ég að hverfa aftur til fábrotins sveitalífs, eins og þess sem ég átti að venjast áður en ég komst í hóp listamanna höfuðborgarinnar 20 árum áður. Veturnir voru sérstaklega erfiðir og stundum þurftum við að vaða í snjó sem náði okkur upp að mjöðmum. Við bjuggum í litlum bjálkakofa sem bauð ekki upp á nein þægindi. Við þurftum að sækja vatn í uppsprettulind sem var skammt frá. Stundum kom það fyrir á nóttunni að það fraus ofan á vatninu sem við höfðum sótt. En við höfðum allt sem við þörfnuðumst. (1. Tímóteusarbréf 6:8) Þetta var mjög ánægjulegur og annasamur tími.

Gefandi starf

Til að byrja með höfðu þorpsbúar fordóma gagnvart okkur og svo virtist sem starf okkar bæri engan árangur. Til að sýna þeim fram á gildi starfs okkar skipulögðum við sýningar á kvikmyndunum sem Vottar Jehóva höfðu gefið út, eins og The New World Society in Action og The Happiness of the New World Society. Þessar kvikmyndir gáfu þorpsbúum tækifæri til að kynnast okkur og starfsemi Votta Jehóva betur og sýndu vel hvaða góðu áhrif starf okkar hefur á fólk um allan heim. Margir komu til að horfa á myndirnar.

Einhverju sinni fengum við heimsókn frá Eero Muurainen, sem starfaði sem farandhirðir Votta Jehóva, og hann sýndi kvikmyndina The New World Society in Action í almennum samkomusal. Salurinn var troðfullur og ég fann rétt svo pláss lengst úti í horni. Ég þurfti að standa á öðrum fæti með bakið upp að vegg því það var ekkert pláss á gólfinu til að stíga í hinn fótinn. Þegar sýningunni var lokið komu margir að máli við okkur og báðu um heimsókn.

Við tókum líka stórt segulbandstæki með á bóndabæi til að spila hljóðupptökur af biblíuræðum. Eitt sinn höfðum við komið okkur saman um að spila ræðuupptöku á heimili fjölskyldu nokkurrar klukkan sjö um kvöldið og boðið öllum þorpsbúum að koma. Snemma þennan morgun lögðum við af stað á hjólunum okkar til að prédika í þorpi sem var í um 25 kílómetra fjarlægð. Við héldum að við hefðum nægan tíma til að komast heim í tæka tíð. En þegar við yfirgáfum þorpið hafði rignt svo mikið að vegurinn var orðinn eitt forarsvað.

Reiðhjólin okkar urðu að síðustu svo útötuð leðju að hjólin á þeim hættu að snúast og við þurftum því að bera þau heim. Þar af leiðandi gátum við ekki lagt af stað að heiman til að fara á samkomuna fyrr en mjög seint. Við burðuðumst með níðþungt segulbandstækið með okkur og mættum á staðinn klukkan tíu. Við vorum vissar um að allir væru farnir. En okkur til mikillar undrunar voru þorpsbúar enn þá að bíða eftir okkur. Eftir ræðuna tóku við líflegar umræður. Það var komið langt fram á nótt þegar við komum loksins heim dauðþreyttar en sallaánægðar.

Fjarlægðirnar milli þorpa voru svo miklar að vottarnir á svæðinu hlupu undir bagga með okkur og aðstoðuðu við kaup á bíl. Fyrir valinu varð gömul rússnesk bifreið. Þetta gerði boðunarstarf okkar miklu léttara. Seinna meir könnuðust allir við bíllinn vegna þess að þegar biskupinn á svæðinu heimsótti sóknarbörn sín varaði hann þau við því að bjóða okkur inn á heimili sín. Hann talaði um tvær konur á bláum bíl. Viðvaranir hans höfðu umsvifalaust áhrif. Fólki lék forvitni á að vita hverjar þessar konur væru og hvað gerði þær svona hættulegar. Forvitni þeirra varð til þess að við áttum margar góðar samræður um Biblíuna. Ég get ekki annað en tekið undir orð Jesaja sem eru á þessa leið: „Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg.“ — Jesaja 54:17.

Með tímanum bar starf okkar ávöxt. Við fórum að halda vikulegar samkomur með fámennum hópi áhugasamra. Þegar fram liðu stundir stækkaði hópurinn og árið 1962 var myndaður söfnuður sem samanstóð af 18 vottum, einkum konum. Tveimur árum síðar vorum við Anja sendar til þorps í sömu sveit sem heitir Ylistaro.

Skapandi umhverfi

Við kunnum vel við okkur á nýja starfssvæðinu því sveitin var bæði fögur og friðsæl. En það var samt fólkið sem við heilluðumst sérstaklega af. Það var almennt gestrisið og vingjarnlegt. Að vísu voru margir mjög trúræknir og þjóðernissinnaðir og stundum brugðust þeir æfir við heimsóknum okkar. En aðrir báru djúpa virðingu fyrir Biblíunni. Oft þegar við tókum fram Biblíuna gerðu konurnar hlé á húsverkunum til að hlusta og mennirnir tóku ofan hattana sína — hatta sem annars virtust vera límdir á þá. Stundum þegar við héldum biblíunámskeið voru allir á heimilinu þátttakendur og jafnvel nágrannar líka.

Einlægt og heiðarlegt fólk, sem ég hitti í boðunarstarfinu, veitti mér listrænan innblástur. Þegar ég hafði tíma aflögu tók ég mér leir í hönd og byrjaði að móta hann. Þar sem ég hef alltaf hrifist af heillandi og spaugilegum einkennum mannfólksins voru næstum allar stytturnar, sem ég gerði, af fólki. Margar þeirra voru af konum við heimilisstörf. Í grein í tímariti var sagt um stytturnar: „Þær geisla frá sér hlýju jarðar og friðsæld ásamt góðri kímnigáfu og kyrrlátu jafnvægi . . . Hlýja í garð fólks og miklir listrænir hæfileikar gera henni kleift að skapa slíkar styttur.“ Ég gætti þess hins vegar að verða ekki of upptekin af listinni. Ég hélt fast við þá ákvörðun mína að þjóna Jehóva í fullu starfi.

Árið 1973 bauðst mér vinna sem hvarflaði ekki að mér að afþakka. Ég var beðin um að gera stóra lágmynd úr leir fyrir nýja anddyrið á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Vantaa. Ákveðið var að sækja efnivið verksins í Sálm 96:11-13. Ég var himinlifandi yfir því að fá að nota hæfileika mína til að lofa Jehóva.

Í lok áttunda áratugarins voru mér veitt sérstök eftirlaun sem listamanni. Það kom mér á óvart þar sem ég hafði aðallega fengist við listsköpun fyrir sjálfa mig þegar ég var brautryðjandi. Að sjálfsögðu kunni ég að meta þennan fjárhagslega styrk en hins vegar hugsaði ég með mér hvort þetta hefði verið allt og sumt sem ég hefði haft upp úr krafsinu ef ég hefði helgað líf mitt listinni. Smá aukapening til að bæta öryggi mitt á eftirlaunaárunum? Þetta var smávægilegt í samanburði við launin sem Guð lofar — eilíft líf! — 1. Tímóteusarbréf 6:12.

Aftur í þéttbýlið

Á árinu 1974 urðu miklar breytingar á lífi okkar og boðunarstarfi. Við vorum sendar til borgarinnar Turku. Á þeim tíma var verið að byggja þar mikið af nýju íbúðarhúsnæði og fólk streymdi þangað. Þessi vöxtur skapaði þörf fyrir fleiri boðbera. Fyrst um sinn vorum við ekki ýkja hrifnar af því að fá starfssvæði í þéttbýli. Það virtist miklu erfiðara að vitna fyrir borgarbúum því margir þeirra sýndu boðskapnum lítinn áhuga. En smám saman löguðum við okkur að þessu nýja starfssvæði og fundum marga sem kunnu að meta sannleika Biblíunnar.

Í gegnum árin höfum við Anja getað hjálpað yfir 40 manns að verða vígðir þjónar Jehóva. Þessi andlegu börn hafa verið okkur mikill gleðigjafi. (3. Jóhannesarbréf 4) Heilsu minni hefur hrakað á undanförnum árum en það hefur gefið mér tækifæri til að finna enn betur fyrir stuðningi Jehóva, kærleika safnaðarins og hjálp brautryðjandafélaga míns, Önju, sem hefur verið mér „til huggunar“. (Kólossubréfið 4:11; Sálmur 55:23) Þegar við Anja hittumst fyrir nálega 50 árum held ég að það hafi ekki hvarflað að okkur að við ættum eftir að verða brautryðjandafélagar ævilangt.

Þekktur málsháttur er á þessa leið: „Lífið er stutt en listin löng.“ Þetta hafa hins vegar ekki verið einkunnarorð mín. Ég tek undir orð Páls postula í 2. Korintubréfi 4:18: „Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.“ Sú gleði sem ég hef fengið að njóta sem listamaður — „hið sýnilega“ — hefur verið stundleg. Slík gleði getur vissulega ekki jafnast á við þá gleði sem ég hef uppskorið í þjónustu Jehóva og hún getur ekki veitt eilíft líf. Ég er þakklát fyrir að hafa helgað líf mitt hinu „ósýnilega“, því sem er varanlegra en listin.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Minnismerkið í vinnslu.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Ég og Anja (til vinstri) árið 1957.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Ég og Anja (til hægri) núna.