Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætti ég að fara til tannlæknis?

Ætti ég að fara til tannlæknis?

Ætti ég að fara til tannlæknis?

ÁÐUR en tannlækningar, eins og við þekkjum þær, komu til sögunnar var býsna algengt að fólk fengi tannpínu og byrjaði að missa tennur ungt að árum. Margir höfðu óprýði af illa skemmdum og skökkum tönnum eða skörðum þar sem þeir höfðu misst tennur. Roskið fólk var oft vannært og dó um aldur fram vegna þess að það var orðið tannlaust og gat ekki tuggið. En nú er öldin önnur. Flestir sem nýta sér þjónustu tannlækna geta verið lausir við tannverki, haldið tönnunum til æviloka og brosað fallega. Hvernig hefur þessi árangur náðst?

Fyrirbyggjandi tannlækningar eru þyngstar á metunum en þær byggjast á fræðslu og reglulegu eftirliti. „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru,“ sagði Jesús. (Lúkas 5:31) Kennsla í tannhirðu hefur skilað svo góðum árangri að margir þurfa sárasjaldan á tannviðgerðum að halda. * En hvað sem því líður eru margir tregir til að leita til tannlæknis. Hjá sumum stafar það af hreinu og beinu kæruleysi en aðrir láta kostnaðinn aftra sér. Og svo má ekki gleyma þeim sem eru hreinlega hræddir við að setjast í stól hjá tannlækni. En hver sem staða þín er ættirðu að spyrja þig hvaða gagn þú hafir af því að leita til tannlæknis. Er það þess virði? Til að glöggva okkur á því hve mikilvægt er að stunda fyrirbyggjandi tannhirðu þurfum við að vita hvað það er sem tannlæknar reyna að koma í veg fyrir með starfi sínu.

Hvernig byrja tannskemmdir?

Tannlæknar geta átt drjúgan þátt í því að forða fólki frá tannpínu og tannmissi. Með þinni hjálp vinnur tannlæknirinn gegn áhrifum svonefndrar tannsýklu en hún er mjúk skán úr gerlum sem sest utan á tennurnar. Gerlarnir nærast á matarögnum. Þeir breyta sykri í sýru sem byrjar að leysa upp glerung tannanna með þeim afleiðingum að hann verður gljúpur. Með tímanum myndast svo hola eða tannskemmd (tannáta) á gljúpa svæðinu. Þú finnur ekkert fyrir tannskemmdinni á þessu stigi en þegar hún hefur náð inn í tannkvikuna máttu búast við að finna ákafan sársauka.

Gerlarnir, sem mynda tannsýkluna, kunna annað ráð til að kvelja þig. Ef tannsýklan er ekki fjarlægð vandlega með tannburstun harðnar hún og myndar kalkkenndar útfellingar sem kallast tannsteinn. Tannsteinsmyndun getur valdið bólgu í tannholdinu og ýtt því frá tönninni. Við þetta myndast glufa milli tannar og tannholds og þar safnast fyrir matarleifar sem gerlar geta nærst á. Þeir geta síðan sýkt tannholdið. Tannlæknir getur hjálpað þér að halda tannsteini í skefjum en sé það ekki gert getur vefurinn kringum tennurnar skemmst svo að þær hreinlega losni. Fleiri tennur tapast af völdum tannsteins en tannátu.

Munnvatnið veitir vissa vernd gegn þessari tvíþættu árás gerlanna. Hvort sem þú hefur neytt heillar máltíðar eða aðeins maulað eina smáköku þarf munnvatnið á bilinu einn til þrjá stundarfjórðunga til að skola burt matarögnum og gera sýruna í tannsýklunni óvirka. Tíminn ræðst af því hve mikið af sykri eða matarögnum loðir við tennurnar. Það er á þessum mínútum sem tennurnar verða fyrir skemmdum. Tannskemmdirnar fara meira eftir því hve oft þú neytir matar eða sætinda heldur en sykurmagninu sem þú innbyrðir. Þar sem munnvatnsrennsli er í lágmarki meðan við sofum er fátt skaðlegra fyrir tennurnar en að neyta sykurríkrar fæðu eða drykkjar fyrir svefninn og bursta ekki tennurnar áður en gengið er til náða. Hins vegar er sagt að það verndi tennurnar að tyggja sykurlaust tyggigúmmí eftir matinn því það auki munnvatnsrennslið.

Fyrirbyggjandi tannlækningar

Tannlæknar mæla með reglubundnu eftirliti einu sinni til tvisvar á ári, eftir ásigkomulagi tannanna. Oft eru teknar röntgenmyndir og tennurnar skoðaðar vandlega til að leita að holum. Með staðdeyfingu og hraðgengum bor getur tannlæknir að jafnaði fyllt í þær holur, sem hann finnur, án þess að valda sársauka. Fáeinir tannlæknar eru farnir að nota leysitæki og hlaup, sem leysir upp tannskemmdir, og það getur oft komið í staðinn fyrir staðdeyfingu og borun. Þetta kemur sér vel fyrir þá sem eru sérstaklega smeykir við tannlækna. Þegar börn eiga í hlut gefa tannlæknar sérstakan gaum að nýuppkomnum jöxlum til að kanna hvort erfitt geti verið að hreinsa tyggiskorur á bitfletinum með tannbursta. Hugsanlegt er að tannlæknir mæli með því að tyggiskorunum sé lokað með sérstöku fyllingarefni þannig að bitflöturinn verði sléttari. Þá er auðveldara að hreinsa hann og koma í veg fyrir tannátu.

Hjá fullvaxta fólki leggja tannlæknar mikla áherslu á að koma í veg fyrir sjúkdóma í tannholdi og gómum. Þeir skrapa því burt allan tannstein sem þeir finna. Hjá flestum verða ákveðin svæði útundan þegar þeir bursta tennurnar og því má vera að tannlæknirinn gefi þér góð ráð um tannburstun. Sumir tannlæknar vísa skjólstæðingum sínum á tannholdssérfræðinga til að veita þeim þessa mikilvægu þjónustu.

Tannviðgerðir

Tannlæknar hafa margar nýjar aðferðir í pokahorninu handa þeim sem eru með skemmdar eða skakkar tennur eða hafa misst tennur. En slíkar viðgerðir eru dýrar og þú verður að gæta þess að ráðast ekki í meira en þú hefur efni á. Margir eru þó þeirrar skoðunar að tannviðgerðir séu útgjaldanna virði. Með viðgerð getur tannlæknir ef til vill auðveldað þér að tyggja eða gert bros þitt meira aðlaðandi — og það skiptir töluverðu máli því að skemmdar eða skakkar tennur geta haft áhrif á lífsgæði fólks.

Ef framtönn hefur brotnað eða breytt um lit mælir tannlæknir ef til vill með því að sett sé á hana skel úr hálfgagnsæju postulíni sem líkist eðlilegum glerungi tannanna. Skelin er límd á skemmdu tönnina þannig að tönnin tekur á sig nýja lögun og útlit. Ef tönnin er illa skemmd er oft mælt með því að smíðuð sé króna á hana. Krónan hylur algerlega það sem eftir er af tönninni. Sýnilegi hlutinn er smíðaður úr efni sem líkist náttúrlegum tönnum eða úr gulli.

Hvað er til ráða fyrir þá sem hafa misst tennur? Þá er ýmist hægt að smíða góm með gervitönnum eða brú þar sem eyða er í tanngarðinum. Í síðara tilvikinu kemur króna á tennur beggja megin við bilið en gervitönn eða tennur á milli. Annar valkostur er svokölluð tannplöntun. Þá er festur stólpi úr títani í kjálkabeinið þar sem tönnin var, og þegar kjálkabeinið og tannholdið hafa jafnað sig er fest gervitönn á stólpann. Nýja tönnin er næstum eins og náttúrleg tönn.

Fólki getur þótt ami að því að vera með skakkar tennur og eins getur verið erfitt að hreinsa þær þannig að aukin hætta er á tannsjúkdómum. Ef tennurnar falla ekki vel saman þegar bitið er getur það valdið sársauka og erfitt verið að tyggja. Sem betur fer geta tannlæknar yfirleitt bætt úr því með tannréttingarspöngum. Miklar framfarir hafa orðið á þessu sviði og nýjustu gerðir af spöngum eru ekki eins áberandi og eldri gerðir og það þarf sjaldnar að stilla þær.

Sumir tannlæknar gefa nú meiri gaum en áður að andremmu. Flestir eru andrammir af og til en sumir að staðaldri. Fyrir því geta verið nokkrar ástæður. Einstaka tannlæknar sérhæfa sig í að leita að orsökunum. Oft má rekja andremmu til gerla aftarlega á tungunni. Hægt er að vinna gegn henni með því að bursta eða skafa tunguna, svo og með því að tyggja sykurlaust tyggigúmmí til að auka munnvatnsframleiðsluna. Þá er sérstaklega mikilvægt að hreinsa munninn vel eftir neyslu mjólkurvara, kjöts eða fisks.

Baráttan við óttann

Ef þú kvíðir verulega fyrir því að leita til tannlæknis má vel vera að tannlæknirinn geti hjálpað þér að sigrast á óttanum. Segðu honum hvernig þér líður. Ræddu við hann hvernig þú getir gefið honum merki með höndunum og látið hann vita að þú finnir til eða sért hræddur. Margir hafa uppgötvað að þetta hjálpar þeim í glímunni við óttann.

Ertu smeykur við að fá skammir? Óttastu að tannlæknirinn ávíti þig fyrir að hafa ekki hirt tennurnar nægilega vel? Það er sennilega ástæðulaust því að tannlæknirinn veit að það væri ekki gott fyrir viðskiptin. Tannlæknar eru að jafnaði vinsamlegir í viðmóti við viðskiptavini sína.

Margir láta kostnaðinn aftra sér frá að leita til tannlæknis. Sannleikurinn er hins vegar sá að það er hægt að spara sér erfiðleika og dýra meðferð síðar með því að fara í skoðun núna. Víða um lönd er hægt að fá tannlæknaþjónustu á mismunandi verði í samræmi við fjárráð fólks. Á einföldustu tannlæknastofum eru sennilega til röntgentæki og hraðgengur bor. Tannlæknar geta unnið flest verk sín án þess að viðskiptavinurinn finni mikið til. Staðdeyfing er yfirleitt ekki dýrari en svo að flestir hafa efni á henni, jafnvel þeir sem hafa úr litlu að spila.

Tannlæknar leggja sig fram um að lina sársauka en ekki valda honum. Tannviðgerðir eru ekki sú skelfilega lífsreynsla sem þær voru ef til vill á árum áður. Heilbrigðar tennur stuðla að góðu almennu heilsufari og geta hjálpað þér að njóta tilverunnar sem best. Væri ekki þjóðráð að panta tíma hjá tannlækni? Heimsóknin gæti komið þér þægilega á óvart.

[Neðanmáls]

^ Í þessari grein er athyglinni beint að því sem tannlæknar geta gert fyrir fólk. Í greininni „How You Can Protect Your Smile“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. nóvember 2005 er aftur á móti fjallað um tannhirðu almennt.

[Skýringarmynd á blaðsíðu 21]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Heilbrigð tönn

Króna

Glerungur

Tannbein

Kvikuhol með taugum og æðum

Rót

Tannhold

Kjálkabein

[Skýringarmynd á blaðsíðu 21]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Tannáta

Hola

Fylling kemur í veg fyrir að holan stækki

[Skýringarmynd á blaðsíðu 21]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Tannholdsbólga

Tannsýkla. Hana þarf að fjarlægja með tannbursta og tannþræði

Tannsteinn. Erfitt er að fjarlægja hann en hann veldur því að tannholdið rýrnar.

Rýrnandi tannhold

[Skýringarmynd á blaðsíðu 22]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Tannviðgerðir

Skel límd á tönnina

Króna

Tannplöntun

Brú er gerð með því að setja krónu á tennur beggja megin við bilið og falska tönn á milli þeirra.