Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eðlishvötin er mikið undur

Eðlishvötin er mikið undur

Eðlishvötin er mikið undur

„Fá náttúrufyrirbæri vekja jafn mikla lotningu og farflug fugla.“ — COLLINS ATLAS OF BIRD MIGRATION.

NÍUNDA desember árið 1967 kom flugmaður auga á um það bil 30 álftir sem flugu í átt að Írlandi í hvorki meira né minna en 8200 metra hæð. Af hverju flugu þær í þessari miklu hæð þar sem frostið er um 40 gráður? Þannig losnuðu þær við þrálát stormél neðar í andrúmsloftinu og gátu flogið í loftstraumum þar sem þær náðu um 200 kílómetra hraða yfir jörð miðað við klukkustund. Áætlað var að álftirnar hefðu flogið þessa 1300 kílómetra leið frá Íslandi til Írlands á aðeins sjö klukkustundum.

Heimsmethafinn í farflugi er krían. Varpsvæði hennar nær norður fyrir heimskautsbaug en hún hefur vetursetu á suðurheimskautssvæðinu. Á einu ári getur þessi smái sjófugl ferðast milli 40 og 50 þúsund kílómetra, en það jafnast á við hringflug um hnöttinn.

Hvítstorkar verpa í Norður-Evrópu en hafa vetursetu í Suður-Afríku. Árlegt farflug þeirra nemur um 24 þúsund kílómetrum. Þúsundir hvítstorka fljúga yfir Ísrael á haustin og vorin enn þann dag í dag rétt eins og þekkt var á biblíutímanum. — Jeremía 8:7.

Hver gaf fuglunum eðlisávísun? Fyrir um 3500 árum lagði Guð eftirfarandi spurningu fyrir hinn réttláta Job: „Er það fyrir þín hyggindi að haukurinn lyftir flugfjöðrunum, breiðir út vængi sína í suðurátt? Er það eftir þinni skipun að örninn flýgur svo hátt og byggir hreiður sitt hátt uppi?“ Í svari sínu lofaði Job Guð fyrir þá hæfileika sem fuglar og önnur dýr búa yfir. — Jobsbók 39:26, 27; 42:2.

Æðra en eðlishvötin

Mennirnir, sem eru kóróna sköpunarverksins, láta ekki stjórnast fyrst og fremst af eðlishvöt. Þess í stað höfum við frjálsan vilja, samvisku og hæfileikann til að elska. (1. Mósebók 1:27; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Þessir eiginleikar gera okkur kleift að taka siðferðilega réttar og réttlátar ákvarðanir sem endurspegla stundum einstakan kærleika og fórnfýsi.

Viðhorf manna og hegðun mótast að sjálfsögðu mikið af þeim lífsreglum og trúarskoðunum sem þeir hafa lært eða ekki lært frá barnæsku. Þess vegna getur fólk haft ólíkar skoðanir á því hvað sér rétt eða rangt, viðeigandi eða óviðeigandi. Þessi munur getur valdið misskilningi, umburðarleysi eða jafnvel hatri, sérstaklega þegar sterkra áhrifa gætir frá menningu, þjóðernishyggju og trú.

Heimurinn væri óneitanlega betri ef allir menn hefðu sömu lífsreglur byggðar á siðferðilegum og trúarlegum sannleika, rétt eins og allir fylgja einum og sömu náttúrulögmálum. En hefur einhver hæfni og þekkingu til að setja mönnum algildar lífsreglur? Og ef svo er, mun hann gera það eða hefur hann gert það nú þegar? Þessum spurningum verður svarað í næstu greinum.