Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er nóg að vera „góð manneskja“?

Er nóg að vera „góð manneskja“?

Sjónarmið Biblíunnar

Er nóg að vera „góð manneskja“?

„ÉG REYNI að hegða mér eins vel og ég get og vera góð manneskja,“ segir ung kona að nafni Allison. Líkt og hún halda margir að slíkt lífsviðhorf sé það eina sem Guð fari fram á.

Öðrum finnst að jafnvel þótt þeir syndgi alvarlega sé Guði alveg sama svo framarlega sem þeir hagi sér almennt vel. Þeir trúa því að Guð langi frekar til að fyrirgefa en fordæma.

Það er að sjálfsögðu breytilegt frá einum manni til annars hvað telst vera „góð manneskja“. Hvað segir Biblían um málið? Hvað verðum við að gera til að hafa velþóknun Guðs? Hvað felst í því að vera góð manneskja í augum Guðs?

Viðurkennum leiðsögn skaparans

Jehóva Guð er skapari okkar og hefur þess vegna rétt á að veita okkur leiðbeiningar í siðferðismálum. (Opinberunarbókin 4:11) Í Biblíunni er að finna lög og meginreglur sem kveða á um hvernig við eigum að hegða okkur og tilbiðja Guð á réttan hátt. Hann sagði við fólk sitt: „Hlýðið skipunum mínum og breytið eftir þeim, með öllu svo sem ég býð yður. Þá skuluð þér vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð.“ — Jeremía 11:4.

Til að vera góð manneskja í augum Guðs er nauðsynlegt að kynna sér kröfur hans og færa líf sitt til samræmis við þær. Tökum dæmi. Þig langar til að vera vinur einhvers. Þú myndir líklega vilja vita hvernig hann vill láta koma fram við sig. Síðan myndirðu fara eftir því til að gleðja hann. Í Biblíunni er okkur bent á að við getum, líkt og ættfaðirinn Abraham, orðið vinir Jehóva — vinir sem hann metur mikils. (Jakobsbréfið 2:23) En þar sem Guð hefur svo miklu hærri staðla en við mennirnir getum við ekki búist við því að hann breyti sér til að gera okkur til geðs. — Jesaja 55:8, 9.

Hlýðni er mikilvæg

En hefur Guð eitthvað á móti því að við hunsum „minni háttar“ fyrirmæli hans? Sumir gætu haldið því fram að það sé ekki svo mikilvægt að hlýða fyrirmælum sem skipta „minna máli“. En Guð hefur ekki sett nein lög sem eru léttvæg og má hunsa. Í 1. Jóhannesarbréfi 5:3 er ekki gerður neinn greinarmunur boðorðum hans. Þar segir: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð.“ Þegar við gerum okkar besta til að halda öll boð Guðs sýnum við honum óeigingjarnan kærleika. — Matteus 22:37.

Jehóva krefst þess ekki að við séum fullkomin. Hann er fús til að fyrirgefa okkur ef við sjáum innilega eftir mistökum okkar og forðumst eftir fremsta megni að endurtaka þau. (Sálmur 103:12-14; Postulasagan 3:19) En getum við sneitt hjá ákveðnum lögum og hugsað sem svo að hlýðni okkar að öðru leyti vegi upp á móti því? Biblíufrásaga sýnir fram á að það getum við ekki.

Sál var konungur í Ísrael. Hann ákvað að velja hvaða fyrirmælum Guðs hann hlýddi. Þegar hann háði stríð gegn Amalekítum sagði Guð honum að hann mætti ekki þyrma búfénaði þeirra. Hann átti að „deyða“ allar skepnur. Þótt Sál hlýddi öðrum skipunum, sem hann fékk, óhlýðnaðist hann þessu og þyrmdi „bestu sauðunum og nautunum“. Þetta gerði hann vegna þess að hann og fólkið vildi halda þeim fyrir sig. — 1. Samúelsbók 15:2-9.

Þegar Samúel spámaður spurði Sál hvers vegna hann hefði ekki hlýtt Guði sagðist Sál hafa hlýtt honum. Hann taldi upp allt það góða sem hann og fólkið hafði gert, meðal annars fórnir sem þau höfðu fært Jehóva. Þá spurði Samúel: „Hefir þá Drottinn eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.“ (1. Samúelsbók 15:17-22) Við getum ekki bætt fyrir óhlýðni okkar í ákveðnum málum með því að færa fórnir eða vinna önnur góðverk.

Siðferðisreglur Guðs endurspegla kærleika hans

Jehóva krefst þess ekki að við getum okkur til um hvernig við eigum að þóknast honum. Hann setur okkur skýrar siðferðisreglur í Biblíunni og segir: „Hér er vegurinn! Farið hann!“ (Jesaja 30:21) Þegar við förum eftir leiðbeiningum Guðs komumst við hjá þeirri gremju og óvissu sem fylgir því að vega og meta siðferðishugmyndir manna sem oft á tímum stangast hver á við aðra. Og við getum verið viss um að leiðsögn Guðs er okkur alltaf fyrir bestu því að hann ‚kennir okkur að gera það sem okkur er gagnlegt‘. — Jesaja 48:17, 18.

Hvaða hætta er fólgin í því að ákveða sjálf hvað það er að vera „góð manneskja“? Við höfum öll fengið í arf tilhneigingu til að vera eigingjörn. Hjartað getur blekkt okkur. (Jeremía 17:9) Við gætum auðveldlega dregið úr mikilvægi þess að hlýða ákveðnum fyrirmælum Guðs vegna þess að okkur þykja þau erfið eða finnst að þau fjötri okkur.

Til dæmis gæti tveim einstaklingum fundist allt í lagi að stunda kynlíf fyrir hjónaband. Þau gætu litið svo á að það snerti engan annan og væri í raun einkamál. Þau vita kannski að slík hegðun er ekki í samræmi við siðferðiskröfur Biblíunnar en finnst samt ólíklegt að Guð sé mótfallinn þessu svo framarlega sem það „særi engan“. Langanir þeirra gætu blindað þau þannig að þau geri sér hvorki fulla grein fyrir mikilvægi þessara fyrirmæla né hverjar afleiðingarnar geti verið. „Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum,“ segir í Biblíunni. — Orðskviðirnir 14:12.

Öll lög Jehóva endurspegla kærleika hans til manna og hann vill alls ekki að við þurfum að þjást. Fólk hefur ekki öðlast meiri hamingju eða aukna velmegun með því að sneiða hjá meginreglum Guðs í kynferðismálum. Það hefur frekar orðið til þess að flækja líf þeirra. Á hinn bóginn hjálpa lög Guðs okkur til að lifa siðsömu lífi vegna þess að ef við fylgjum þeim getum við komið í veg fyrir að skaða okkur og aðra að óþörfu. — Sálmur 19:8-12.

Ef þig langar einlæglega til að vera góð manneskja í augum Guðs skaltu leggja þig fram við að fylgja leiðsögn hans til hins ýtrasta. Þú munt komast að því að „boðorð [Guðs] eru ekki þung“. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

HEFURÐU HUGLEITT?

◼ Hvers vegna ættum við að þiggja leiðsögn skaparans? — Opinberunarbókin 4:11.

◼ Verðum við að hlýða öllum fyrirmælum Guðs? — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

◼ Hvers vegna er ekki skynsamlegt að við ákveðum sjálf hvað sé rétt og rangt? — Orðskviðirnir 14:12; Jeremía 17:9.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Hefur þú sama viðhorf og Guð til siðgæðis?