Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Handleiðsla sem er eðlishvötinni æðri

Handleiðsla sem er eðlishvötinni æðri

Handleiðsla sem er eðlishvötinni æðri

„Ef siðgæði er ekkert annað en frjálst val, án þess að til komi meginreglur til að meta hvort ákvarðanir manna séu siðferðilega réttar, þá eru óhjákvæmilega sett lög til að fylla upp í hið siðferðilega tómarúm sem myndast.“ — DR. DANIEL CALLAHAN.

ÁHYGGJUR Callahans áttu því miður rétt á sér því að stöðug siðferðishnignun víða um heim hefur knúið stjórnvöld til að setja óteljandi lög til að reyna að stemma stigu við glæpum. Á fyrstu ráðstefnu nígerískra mæðra, sem haldin var á síðasta ári, lýsti forseti Nígeríu yfir þungum áhyggjum af framtíð þjóðarinnar. Hann var ekki að hugsa um stjórnmál eða fátækt heldur „mun djúpstæðara vandamál“, það er að segja að „grundvallargildi séu almennt á undanhaldi innan fjölskyldunnar, á vinnustöðum, í samfélaginu og á þjóðarvísu“.

Könnun meðal 1736 mæðra í Bretlandi leiddi í ljós að „hið hefðbundna fjölskylduform eigi í vök að verjast því að siðferðisgildi séu á fallanda fæti og einstæðum foreldrum fari fjölgandi.“ Í Kína hefur siðferði einnig tekið snögga dýfu niður á við. Að sögn tímaritsins Time byrjar fólk þar í landi að stunda kynlíf fyrr og á fleiri rekkjunauta en nokkru sinni áður. „Þetta er mitt líf og ég get gert það sem mér sýnist,“ sagði ung kínversk kona sem stærði sig af því að hafa átt yfir 100 rekkjunauta.

Siðferðishnignunin hefur einnig náð til þeirra sem fara með yfirvald. „Fólk lítur ekki lengur á leiðtoga sína sem fyrirmyndir í siðferðismálum,“ sagði Javed Akbar í kanadíska dagblaðinu Toronto Star. Stjórnmálamenn, yfirmenn fyrirtækja og jafnvel trúarleiðtogar „virðast ekki búa yfir nægu siðferðisþreki“, sagði hann.

Af hverju hefur siðferði hnignað?

Það er margt sem veldur þessari hnignun. Eitt af því er almenn uppreisn gegn hefðbundnum gildum. Könnun, sem gerð var meðal háskólanema í suðurríkjum Bandaríkjanna, leiddi til dæmis í ljós að meirihluti svarenda taldi að „hver og einn gæti ákveðið sjálfur hvað væri rétt og rangt“.

Rithöfundurinn Zbigniew Brzezinski, sem skrifar um stjórnmál, nefnir annað atriði. Hann segir að í samfélagi nútímans „einbeiti fólk sér aðallega að því að fullnægja strax eigin löngunum í umhverfi þar sem nautnahyggja einstaklinga og fjöldans stjórnar hegðun fólks að miklu leyti“. * Siðferðilegt sjálfræði, græðgi og það að fullnægja löngunum sínum getur virst freistandi en veitir það sanna gleði og hamingju og stuðlar það að betri samskiptum við aðra?

„Spekin sannast af verkum sínum,“ sagði Jesús. (Matteus 11:19) Er fólk ánægðara og öruggara núna þegar siðferði hefur hrakað? Hvaða afleiðingar hefur það haft? Meðal annars aukið vantraust og óöryggi, brostin sambönd og börn sem þurfa að alast upp án föður eða móður, faraldur samræðissjúkdóma, óæskilegar þunganir, eiturlyfjaneyslu og ofbeldi. Varla er þetta merki um hamingju og velgengni heldur frekar um böl og óhamingju. — Galatabréfið 6:7, 8.

Jeremía, spámaður Guðs, horfði upp á svipað ástand á sínum dögum. Hann sagði undir innblæstri: „Ég veit, Drottinn, að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Já, Guð skapaði okkur ekki til að vera honum óháð og ákveða sjálf hvað er rétt og rangt. Það sem við álítum gott gæti í raun verið mjög skaðlegt. „Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum,“ segir í Orðskviðunum 14:12 í Biblíunni.

Óvinur innra með okkur

Hvers vegna þurfum við siðferðilega leiðsögn? Ein ástæðan er sú að hjartað getur blekkt okkur. „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það?“ segir í Biblíunni í Jeremía 17:9. Myndirðu treysta manni sem þú vissir að væri bæði svikull og spilltur? Að sjálfsögðu ekki. En hjörtu okkar allra geta búið yfir þessum eiginleikum. Þess vegna gefur Guð okkur beinskeytta en jafnframt kærleiksríka viðvörun og segir: „Sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi, en sá sem breytir viturlega, mun undan komast.“ — Orðskviðirnir 28:26.

Þetta er kjarni málsins. Í stað þess að treysta ófullkomnu hyggjuviti sjálfra okkar ættum við að hafa visku Guðs að leiðarljósi. Þannig forðumst við margar tálgryfjur. Auk þess hafa allir sem vilja, aðgang að óviðjafnanlegri visku frá Guði. „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust.“ — Jakobsbréfið 1:5.

Treystu Guði „af öllu hjarta“

Biblían lýsir skaparanum með eftirfarandi hætti: „Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ (5. Mósebók 32:4) Já, Jehóva er eins og bjarg eða klettur. Hjá honum fáum við örugga leiðsögn í siðferðilegum og trúarlegum efnum, óháð þeim breytingum sem verða í þjóðfélaginu. Í Orðskviðunum 3:5, 6 segir: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“

Hver gæti gefið okkur betri leiðsögn en skaparinn sem telur jafnvel öll hárin á höfði okkar? (Matteus 10:30) Hann hefur einnig reynst vera sannur vinur sem elskar okkur nógu mikið til að vera alltaf hreinskilinn, jafnvel þegar okkur gæti fundist erfitt að kyngja sannleikanum. — Sálmur 141:5; Orðskviðirnir 27:6.

Höfum líka hugfast að Jehóva neyðir okkur ekki til að fylgja leiðbeiningum sínum. Hann höfðar frekar til okkar á grundvelli kærleikans. „Ég, Drottinn . . . er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ (Jesaja 48:17, 18) Laðast þú ekki að slíkum Guði? Þar að auki hefur hann gefið okkur greiðan aðgang að visku sinni í innblásnu orði sínu, Biblíunni, útbreiddustu bók veraldar. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Láttu orð Guðs lýsa þér veginn

Sálmaritarinn skrifaði um heilaga Ritningu: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ (Sálmur 119:105) Lampi við fætur okkar varpar ljósi á hættur sem leynast við hvert fótmál en ljós á vegum okkar lýsir leiðina fram undan. Orð Guðs getur með öðrum orðum verið öruggt leiðarljós í lífinu og hjálpað okkur að taka viturlegar og siðferðilega réttar ákvarðanir á öllum sviðum, bæði ákvarðanir sem snerta líf okkar núna og þær sem hafa áhrif á framtíð okkar.

Tökum fjallræðuna sem dæmi. Í þessari stuttu ræðu, sem er að finna í 5. til 7. kafla í Matteusi, talaði Jesús Kristur um hamingju, kærleika, hatur, miskunn, siðferði, bænir, eftirsókn eftir auðæfum og margt annað sem á jafn mikið erindi til okkar núna og það átti til fólks á dögum Jesú. Orð hans báru vott um svo djúpt innsæi að ‚mannfjöldinn undraðist mjög kenningu hans‘. (Matteus 7:28) Væri ekki góð hugmynd að nota nokkrar mínútur til að lesa þessa ræðu. Hún mun vafalaust vekja hrifningu þína.

Biddu um hjálp Guðs

Að vísu er ekki alltaf auðvelt að gera það sem er rétt í augum Guðs. Biblían líkir jafnvel innri baráttu okkar gegn syndinni við stríð. (Rómverjabréfið 7:21-24) En með hjálp Guðs er hægt að fara með sigur af hólmi í þessu stríði. Jesús sagði: „Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna . . . Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar.“ (Lúkas 11:9, 10) Já, Jehóva mun ekki snúa baki við þeim sem reyna í einlægni að ganga mjóa veginn til eilífa lífsins. — Matteus 7:13, 14.

Tökum Frank sem dæmi en hann var háður tóbaki þegar hann fór að lesa Biblíuna með vottum Jehóva. Hann ákvað að hætta að reykja þegar hann hafði lesið 2. Korintubréf 7:1 og réttilega dregið þá ályktun að þessi ávani væri „saurgun á líkama“ í augum Guðs. En það var engan veginn auðvelt að standa við þessa ákvörðun. Einu sinni skreið hann jafnvel um á öllum fjórum í leit að gömlum sígarettustubbum til að reykja.

Á þessari stundu rann upp fyrir honum hvað hann hafði lagst lágt og hvílíkur tóbaksþræll hann væri orðinn. (Rómverjabréfið 6:16) Hann bað því Guð ákaft um hjálp, nýtti sér þann heilnæma félagsskap sem honum bauðst í söfnuði Votta Jehóva og sigraðist á þessum slæma ávana. — Hebreabréfið 10:24, 25.

Svalaðu andlegri þörf þinni

Reynsla Franks er aðeins eitt af mörgum dæmum sem sýna að í Biblíunni er að finna fyrsta flokks leiðbeiningar í siðferðilegum og trúarlegum efnum. Við sjáum einnig af þessu dæmi að Biblían gefur okkur það siðferðisþrek sem við þurfum til að fylgja leiðbeiningum hennar. Það er því engin furða að Jesús skuli hafa sagt: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ — Matteus 4:4.

Þegar við tökum dýrmæt sannindi Guðs til okkar er það okkur til góðs á alla vegu — hugarfarslega, tilfinningalega, andlega og líkamlega. Í Sálmi 19:8, 9 segir: „Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina . . . Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun [veita okkur von og skýra sýn á fyrirætlun Guðs].“

Jehóva notar orð sitt ekki aðeins til að hjálpa okkur að stilla siðferðilegan áttavita okkar og lifa á besta veg sem hægt er að hugsa sér núna. Hann varpar einnig ljósi á framtíðina. (Jesaja 42:9) Eins og við sjáum í næstu grein eiga allir sem fylgja handleiðslu Guðs bjarta framtíð í vændum.

[Neðanmáls]

^ Nautnahyggja er sú afstaða að ánægja mannsins og nautnir séu aðaltilgangur lífsins.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 4, 5]

Samviskan — siðferðilegur „áttaviti“

Mennirnir hafa fengið dýrmæta gjöf — samviskuna. Þess vegna hefur fólk af öllum þjóðum og kynþáttum og á öllum tímum sögunnar fylgt svipuðum hegðunarreglum. (Rómverjabréfið 2:14, 15) En samviskan er ekki óskeikull leiðarvísir því að hún getur orðið fyrir áhrifum af falstrúarkenningum, heimspeki manna, fordómum og röngum hvötum. (Jeremía 17:9; Kólossubréfið 2:8) Þess vegna þurfum við að prófa og jafnvel stilla siðferðilegan og andlegan áttavita okkar eftir réttlátum meginreglum Jehóva, ‚löggjafa‘ okkar, ekki ósvipað og flugmaður þarf að stilla siglingartækin af og til. (Jesaja 33:22) Hegðunarreglur manna geta breyst frá einni kynslóð til annarrar en fullkominn mælikvarði Jehóva er eilífur. „Ég, Drottinn, hefi ekki breytt mér,“ segir hann. — Malakí 3:6.

[Rammi á blaðsíðu 7]

Hvað veitir velgengni og hamingju?

AÐ FINNA HAMINGJU

„Sælir eru þeir sem skynja andlega þörf sína.“ — MATTEUS 5:3, NW.

„Sælla er að gefa en þiggja.“ — POSTULASAGAN 20:35.

„Sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ — LÚKAS 11:28.

AÐ SKAPA TRAUST

„Talið sannleika hver við sinn náunga.“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:25.

„Hinn stelvísi hætti að stela.“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:28.

„Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð.“ — HEBREABRÉFIÐ 13:4.

AÐ EIGA GÓÐ SAMSKIPTI

„Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ — MATTEUS 7:12.

„[Eiginmaður á að] elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu [„djúpa virðingu,“ NW] fyrir manni sínum.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:33.

„Fyrirgefið hver öðrum.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:13.

AÐ FORÐAST OG ÚTKLJÁ DEILUR

„Gjaldið engum illt fyrir illt.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:17.

„Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn . . . er ekki langrækinn.“ — 1. KORINTUBRÉF 13:4, 5.

„Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:26.